20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

1. mál, fjárlög 1969

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Brtt., sem ég mæli fyrir, er 1. till. á þskj. 234 og er um það, að veittar verði 200 þús. kr. til safnahússins á Húsavík. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir þessu safnahúsi.

Fyrir nokkrum árum hófust áhugamenn í Suður-Þingeyjarsýslu og í Húsavíkurkaupstað handa um það að koma upp húsi fyrir ýmis söfn, sem varða menningu héraðsins. Hér er í fyrsta lagi um að ræða bókasafn, en stofninn í því bókasafni er sá bókakostur, sem Benedikt á Auðnum á sínum tíma valdi fyrir sýslunga sína til lestrar, og eru margar þeirra bóka nafnfrægar. Þar er t.d. nokkuð merkilegt safn félagsfræðirita. En síðan hefur þetta safn verið aukið og er enn aukið, og er ætlunin, að það verði í þessu húsi.

Í öðru lagi verður hér um að ræða byggðasafn. Er gert ráð fyrir, að þangað verði fluttir þeir munir, sem geymdir eru í gamla bænum á Grenjaðarstöðum, en það er ekki talið fært til lengdar að geyma þá í þeim húsakynnum, bæði af því að þau eru of þröng og af öðrum ástæðum, þó að hins vegar verði að sjálfsögðu reynt að varðveita bæinn sjálfan og þá muni, sem þar eiga heima.

Í þriðja lagi er hér um að ræða skjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar. Í fjórða lagi náttúrugripasafn, sem nokkur vísir er þegar að og varðar náttúru héraðsins, og í fimmta lagi er þarna fyrirhugað listasafn.

Á árinu 1967 var hafizt handa um að byggja þetta hús eftir teikningu, sem gerð hefur verið af kunnum arkitekt, og nú er svo komið, að húsið er komið undir þak og búið að leggja í það að ég ætla um 3 millj. kr. Þetta er þriggja hæða hús, um 400 fermetrar að flatarmáli og að ég ætla um 3500 rúmmetrar. Eins og ég tók fram, er þetta verk hafið að tilhlutan áhugamanna, og mjög margir hafa lagt fram fé til þess, sem eru óafturkræf framlög, bæði Suður-Þingeyjarsýsla og Húsavíkurkaupstaður og ýmsir opinberir sjóðir í þeirra héraði og einnig er fjöldi manna í héraði, sem hefur ýmist greitt eða skuldbundið sig til þess að greiða ákveðnar fjárhæðir. Mér virðist vera hér um að ræða mjög athyglisvert og ég held einstakt menningarátak hér á landi af hálfu eins héraðs, eins sýslufélags og eins bæjarfélags og margra einstaklinga á þessu svæði. Og þó að upphæð sú, sem hér er farið fram á, sé ekki há, gæti þó a.m.k. falizt í henni viðurkenning af hálfu Alþ. á þessu menningarátaki, sem hér hefur átt sér stað.

Ég skal geta þess, að í fyrra var flutt till. sama efnis, en um nokkru hærri fjárhæð, eða 400 þús. kr., en ég hef nú ákveðið að fara ekki fram á meira en þetta, sem hér er tilgreint, þessar 200 þús. kr. Vil ég nú mega vænta þess, að hv. þm. sjái sér fært að láta þessa till. ná fram að ganga.