17.02.1969
Efri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Verkföll vegna deilu útvegsmanna og sjómanna hafa staðið mánaðartíma. Þrátt fyrir þrotlausa sáttafundi og sáttatilraunir standa enn verkföll yfirmanna á bátaflotanum. Þessi verkföll eru meginástæða þess atvinnuleysis, sem nú ríkir í landinu og víða í sjávarplássum jafnvel eina ástæðan. Hver verkfallsdagur bakar þjóðinni óbætanlegt tjón í skertum tekjum.

Frv. því, sem hér er lagt fram, er ætlað að firra þjóðina því neyðarástandi, sem við blasir, ef ekkert er að gert. Frv. gerir ráð fyrir, að lögfest verði sáttatill. sáttasemjara, sem í megindeiluatriðum er samhljóða þeirri sáttatill., er hásetar og matsveinar og reyndar nokkur hluti vélstjóra á bátaflotanum hafa þegar samþykkt. Útvegsmenn og þrjú félög yfirmanna hafa samþykkt þá lausn, er frv. gerir ráð fyrir. Hefur mikill meiri hluti manna á bátaflotanum því samþykkt þá lausn.

Segja má, að meginatriði þau, sem deilan hafi staðið um, séu um stofnun lífeyrissjóðs og greiðslu upp í fæðiskostnað. Samkomulagið um lífeyrissjóðinn, sem sáttatilraunirnar gera ráð fyrir, er í megindráttum í því fólgið, að samningsaðilar beiti sér fyrir því, að bátasjómönnum verði með lögum tryggð aðild að Lífeyrissjóði togarasjómanna og undirmanna á farskipum. Ef ekki næst samkomulag um aðild að þeim lífeyrissjóði skal stofnaður sérstakur lífeyrissjóður bátasjómanna, iðgjaldagreiðslur skulu vera 10% og greiða útvegsmenn 6. en sjómenn 4%. Sjóðurinn skal taka til starfa 1. jan. 1970 og greiðist það ár 40% iðgjalda, árið 1971 80% iðgjalda og full iðgjöld frá ársbyrjun 1972. Öllum bátasjómönnum er skylt að vera aðilar að sjóðnum, þó skal sjómönnum eigi skylt að vera aðilar að sjóðnum fyrstu fjóra mánuðina, sem viðkomandi er hjá sömu útgerð, séu þeir ekki þegar orðnir sjóðsfélagar, en ávallt er þó sjómanni heimilt að gerast aðili og ber þá að greiða iðgjöld í sjóðinn hans vegna. Þeim sjómönnum. sem hættir eru störfum á sjó, skal heimil áframhaldandi aðild, enda vinni þeir í landi við útgerð.

Samkomulagið um greiðslur upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum er í því fólgið, að gert er ráð fyrir, að hluti af fæðiskostnaði sjómanna á fiskibátunum verði greiddur úr Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins, þannig að til báta 151 brúttórúmlest og stærri verði greiddar 100 krónur vegna hvers áhafnarmanns á úthaldsdag, en til báta undir 151 brúttórúmlest að stærð verði þessi greiðsla 85 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann. Ákvörðun úthaldsdagafjölda og áhafnarstærðar fer eftir almennum reglum sjóðsins. Útgerðarmenn skulu draga framangreindar upphæðir frá fæðiskostnaði sjómanna og fá þær endurgreiddar úr Aflatryggingasjóði. Til þess að standa straum af þessum kostnaði mun ríkisstj. hlutast til um, að lagt verði 1% almennt útflutningsgjald á fob-verðmæti fiskafurða.

Um sáttatilraunirnar og tilraunir til afgreiðslu á þeim má segja, að þátttökuleysið í hinum ýmsu félögum hafi ráðið úrslitum í mörgum þeirra, og minni hluti félagsmanna í yfirmannafélögunum greiddi atkv., og aðeins hluti þeirra synjaði till. sáttasemjara. Meiri hlutinn í þessum félögum hefur því ekki tekið afstöðu til málsins. Eins og sakir standa hefur útlit fyrir sættir versnað, og er málið nú komið í algjöra sjálfheldu. Ríkisstjórninni er því sá einn kostur nauðugur að leysa málið á þennan hátt. Mikill meiri hluti þeirra, er starfa á bátaflotanum, hefur samþykkt þessa lausn með atkv. sínu. Það er því aðeins lítill minni hluti í félögunum, sem er lausninni mótfallinn, þótt í meiri hluta hafi orðið í þessum atkvæðagreiðslum. Ríkisstj. grípur inn í deilur þessar aðeins til að forða neyðarástandi og þjóðarvoða. Hér er miklu meira í húfi en svo, að hagsmunir yfirmanna einna á bátaflotanum verði látnir stöðva atvinnu þúsunda annarra. Verkfallið hefur magnað meira atvinnuleysi en við Íslendingar höfum þurft að þola í áratugi. Í þeim efnahagserfiðleikum, sem við búum nú við, megum við Íslendingar ekki við rýrnun þjóðartekna vegna innbyrðis ósamkomulags. Deila um smámuni má ekki steypa grunninum undan efnahag þjóðarinnar. Nauðsyn ber til að bera klæði á vopnin og láta þjóðarhagsmuni sitja í fyrirrúmi. Almenningur í landinu er búinn að fá nóg af atvinnuleysi. Hann hefur ekki trú á því, að þeir smámunir, sem á milli ber í deilum útvegsmanna og yfirmanna, réttlæti það tjón, er þegnarnir og þjóðarbúið verða að sæta vegna verkfallsins. Þjóðin krefst þess, að gripið sé í taumana, áður en algjört neyðarástand skapast í landinu. Ríkisstj. hefur af stórum fjölda landsmanna verið legið á hálsi fyrir að grípa ekki fyrr inn í deilur þessar. Það hefur hins vegar verið skoðun ríkisstjórnarinnar, að samningsaðilum ætti að gefast kostur á því að reyna til hins ýtrasta á hinn frjálsa samningsrétt. Á þennan rétt hefur nú reynt, og að því er talið verður svo sem þjóðarhagsmunir frekast geta leyft. Þess vegna er frv. þetta nú lagt fram.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.