17.02.1969
Efri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara mörgum orðum um þetta mál við þessa umr., enda þótt ástæða sé nú að mörgu leyti til. Ég ræddi það nokkuð við fyrstu umr. og setti þá fram nokkur þau helztu sjónarmið, sem ég taldi ástæðu til að leggja áherzlu á. Ég vil sízt draga úr nauðsyn þess, að þessi langvinna og mjög svo erfiða og tilfinnanlega deila verði að leysast og það sem allra fyrst. Fyrir því er vissulega mikill vilji meðal þjóðarinnar og menn hafa fundið það, að lausn þessarar deilu hefur dregizt alltof lengi. Hins vegar hygg ég, að það liggi fyrir og hefur m.a. verið lýst yfir af hv. sjútvmrh., að í deilunni, eins og nú er komið. ber tiltölulega mjög lítið á milli og með tilliti til þess þá gerði ég það að till. minni í hv. sjútvn.. sem fékk þetta mál til meðferðar síðdegis í dag, að n. kallaði á sinn fund fulltrúa deiluaðila til þess í fyrsta lagi að kanna það, hvað á milli ber og í öðru lagi að kanna möguleika á því að með tilstuðlan Alþ. fengist lausn á þessari deilu án lögbindingar. Þessi till. mín í sjútvn. um það að gera tafarlaust tilraun til þess að vinna að lausn málsins á þennan hátt eða kanna það að minnsta kosti, hvort slík lausn gæti legið nærri eða verið möguleg í skjótheitum, fékk ekki stuðning í n. Ég lít þannig á, að hvorki Alþ. ríkisstj. hafi gert það, sem í þessara aðila valdi stóð, til þess að finna aðra lausn á þessu vandamáli en þá, sem felst í frv., að lögbinda ákveðna lausn. Ég tel, að Alþ. eigi nú þegar að gera slíka tilraun, en fyrr en slík alvarleg tilraun hefði verið gerð af þess hálfu þá væri algjörlega óeðlilegt, og ég vil segja óafsakanlegt, af þingsins hálfu að fara lögfestingarleiðina. Ég tel, að slík tilraun þurfi ekki að draga lengi úrslitin í þessari deilu á langinn, það hljóti að koma fljótlega í ljós, hvort möguleiki væri fyrir hendi að leysa hana með öðrum hætti en lagasetningu, en þar sem hv. meiri hl. sjútvn., og þá trúlega hv. meiri hl. Alþ.. hefur nú ekki viljað á þetta fallast eða á það hlusta þá mun ég með tilliti til þess, sem áður segir, að ég tel, að Alþ. hafi ekki gert það, sem í þess valdi stóð til að leysa deiluna, greiða atkvæði gegn þessu frv.