12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hlotið hefur samþykki hv. Nd. Alþ., er flutt vegna þeirrar gengisbreytingar, sem nú hefur verið ákveðin. Frv. fjallar um þær tæknilegu ráðstafanir, sem gera þarf vegna breytingarinnar, og hygg ég, að um engin meginatriði frumvarpsins a.m.k. sé nokkur ágreiningur út af fyrir sig, þó að menn, eins og vitað er, hafi misjafna afstöðu til sjálfrar gengisbreytingarinnar. Í öllum höfuðatriðum eru ákvæði frv. sams konar og hafa verið í fyrri lögum, þegar gengisbreyting hefur verið gerð. Það er þó nú tekið tillit til þess, að 20% gjaldið, sem lagt var á í haust, fellur niður eftir gengisbreytinguna, og þarf að samræma fyrri ákvæði framkvæmdinni nú, og fjalla nokkur ákvæði frv. um það. Eins er ákveðið í annarri greininni, að tillit skuli tekið til vissra atriða við verðlagningu í verðlagsnefnd, og er það gert í því skyni að greiða fyrir að hægt sé að kveða á um verðlagninguna tafarlaust og ekki verði bið, sem getur leitt til vandræða. Að öðru leyti hygg ég, að ákvæðin séu ekki þess eðlis, að ástæða sé til þess að fjölyrða um þau. Og eins og ég segi, að þó að menn væru skiptrar skoðunar um sjálft meginmálið í Nd. þá var ekki út af fyrir sig ágreiningur um þessi fyrirmæli, sem nú eru í frv. Um sjálft meginmálið verða innan skamms flutt frv., a.m.k. tvö, ef til vill fleiri, sem ég vona að geti komið til umræðu á Alþ. innan fárra daga, og gefst þá færi á því að ræða málin í heild.

Og þar sem ég hef lagt á það höfuðáherzlu, að þetta frv. gengi fram svo snemma,aðafgreiðsla geti hafist í bönkum og í tolli strax í fyrramálið, þá sé ég ekki ástæðu til að rekja frekar málsatvik, orsakir gengisbreytingarinnar eða þann ágreining um ráðstafanir í sambandi við hana, sem mest er uppi. Ég vil þó einungis geta þess, að það er ætlun ríkisstj. að leggja fram frumvarp, sem gerir það að verkum, að verðlagsuppbót á laun umfram það, sem verður samkv. gildandi samningum hins 1. des., verði ekki greidd nema því aðeins, að nýir allsherjar samningar á milli verkalýðs eða launþega og atvinnurekenda komi til. Og ríkisstj. hyggst jafnframt beita sér fyrir, að sem fyrst hefjist viðræður um slíka samningsgerð milli verkalýðs, vinnuveitenda og fulltrúa ríkisvaldsins. Og að einnig verði efnt til samninga við bændasamtökin í því skyni að reyna að fá neytendur til að taka á ný fullan þátt í verðákvörðun á búvörum og til að tryggja, að hún sé ætíð í samræmi við almenna launaþróun í landinu. Í öllum þessum samningum verði höfuðáherzlan lögð á, að halda verðlagsþróun í skefjum og gera raunhæfar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta tvennt er svo nátengt, að nú er vonlaust að ná hinu síðar talda nema hið fyrrnefnda takist. Ríkisstj. lýsir sig fúsa til þess í samráði við verkalýðshreyfinguna að beita sér fyrir beinum framkvæmdum til atvinnuaukningar, þar sem þess reynist þörf, eftir því sem fjár reynist unnt að afla í því skyni. Í sambandi við þetta hlýtur fjáröflun til nauðsynlegra íbúðarbygginga að verða í fremstu röð. Þá lýsir ríkisstjórnin sig fúsa til þess að athuga, hvort unnt sé að breyta skattalögum eða gera aðrar ráðstafanir, sem leiðir til tekjujöfnunar á meðan núverandi erfiðleikar vara. Ríkisstjórnin hefur nú þegar ákveðið að beita sér fyrir hækkun bóta almannatrygginga, sem nemur 150 milljónum króna, og verði síðan leitað samkomulags um og ákveðið, hvaða bætur verði hækkaðar, enda sé að því stefnt að bæta helzt hag hinna lakast settu. Þá er einnig talin þörf á því að setja sérákvæði um frádrátt frá fiskverði, áður en til venjulegra hlutaskipta komi, því að eins og bent hefur verið á, þá er það ljóst, að gengisbreytingin hefur í för með sér mjög aukinn kostnað fyrir útgerðarmenn og kemur þess vegna ekki að gagni, nema því aðeins, að sá kostnaður sé dreginn frá, áður en til hlutaskiptanna kemur.

Þetta eru þau helztu ákvæði, sem löggjöf þarf að koma til um, umfram það, sem sagt er í því frv., sem hér um ræðir, og skal ég ekki rekja það frekar, vegna þess, eins og ég segi, að ég vonast til þess, að innan fárra daga gefist færi til þess og meiri tími að ræða þessi mál í heild. Ég vonast til þess, að málið fái hér greiðan framgang, ég hygg, að hv. fjhn. d. hafi athugað frv. í samvinnu við fjhn. Nd. Það er að sjálfsögðu í valdi deildarinnar, hvort hún telur formlega rétt að vísa málinu til fjhn. hér. Sannast að segja er mér ekki ljóst, hver venja er, þegar þessi vinnubrögð eru viðhöfð. En forseti og þdm. hafa það auðvitað í hendi sér.