17.02.1969
Efri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í tilefni þess, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði hér, sé ég ástæðu til þess að koma fram örlitlum leiðréttingum. Í fyrsta lagi ályktaði hann það, að ég væri samþykkur því að fara lagasetningarleiðina til lausnar á deilunni, en ég vil skýrt taka fram, tók það enda fram við 1. umr. málsins, að ég tel, að vinnudeilur eigi ekki að leysa með lögum. En engu að síður hef ég — og vil ítreka enn — sérstaka skoðun á því, að vinnudeilan sé þess eðlis, að hún hefur ekki í för með sér millifærslur nema lítilla fjármuna á milli stétta í landinu. Mér er nær að halda, að samkomulag sé ekki lengra undan í þessari deilu en svo, að millifærsla á hálfri til einni milljón króna á milli aðila mundi geta þýtt samkomulag, og þá álít ég, að ekki sé réttlætanlegt að láta þúsundir manna í landinu ganga atvinnulausa og heilum byggðarlögum nánast blæða út, á meðan verið er að þæfa svona smámuni á milli sín. Og með alveg sérstöku tilliti til þess, að þessi deila er upp komin vegna lagasetningar, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir í sambandi við gengisfellinguna síðustu, álít ég, að stjórnarvöld landsins hafi alveg sérstaka skyldu til þess að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að láta ekki slíka deilu halda áfram um ófyrirsjáanlegan tíma. Aðilar hafa haft mánuði, a.m.k. einn til einn og hálfan mánuð, til þess að leysa deiluna. Það hefur ekki tekizt. og það er enn skekið um slíka smámuni, sem ég hef hér lýst, og þá tel ég, að stjórnvöld landsins hafi ábyrgð gagnvart atvinnulausa fólkinu í landinu og gagnvart þeim byggðarlögum, sem líða stórhnekki við þetta, og það sé því ekki með öllu fráleitt að grípa til ráða eins og þess að leysa deiluna með lagasetningu. En það þýðir ekki það, að ég mæli yfirleitt með þeirri leið, öðru nær. Ég álít, að hana eigi ekki að nota, nema í fullkomið óefni sé komið, eins og mér virðist að hér sé.

Í öðru lagi vil ég ítreka það, að þegar gripið er til lagasetningar, álít ég, að stjórnarvöld landsins hafi þá skyldu að lögfesta þá leiðina, sem næst hefur verið samkomulagi. Varðandi það skeyti, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. las hér upp áðan frá form. Útvegsbændafélagsins í Vestmannaeyjum, vil ég ítreka það, að það hnekkir ekki neinu af því, sem ég hef sagt. Ég hélt því fram, að þessi svonefnda Vestmannaeyjatillaga hafi hlotið samþykki beggja samninganefndanna, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi og Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, á sáttafundi, sem haldinn var fyrir forgöngu bæjarráðsins í Vestmannaeyjum. Hún hefur aldrei verið lögð fyrir félagsfund í Útvegsbændafélaginu. Hins vegar mun það rétt, sem í skeytinu stendur, að stjórn og trúnaðarráð þess félags hafi fellt þetta. Í skeytinu stendur, — hv. frsm. hefur verið svo vinsamlegur að lána mér það:

„Að gefnu tilefni tilkynnist yður, að tillaga bæjarráðs Vestmannaeyja um 500 kr. viðbótargreiðslu til yfirmanna á bátaflotanum var felld með 16 atkvæðum gegn einu af stjórn og trúnaðarráði Útvegsbændafélags Vestmannaeyja.“

Og svo kemur hér viðbót: „Almennur fundur í félaginu staðfestir þessa ákvörðun trúnaðarráðs með því að samþykkja að leggja hana ekki fyrir fund.“ Sem sagt, hún hefur aldrei verið lögð fyrir fund í Útvegsbændafélaginu og hún hefur þar af leiðandi aldrei verið felld á félagsfundi hjá þeim, eins og ég líka hélt fram. Og eftir sem áður stendur það, að þessi till. er langnæst því að hafa hlotið samþykki af öllum till., sem ég hef spurnir um, að fram hafi komið í þessari deilu. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja till., miðlunartillögu bæjarráðsins í Vestmannaeyjum sem brtt. eða viðbótartillögu við I. gr. þessa frv. Henni hefur verið hér útbýtt til hv. alþm., og leyfi ég mér hér með að biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir henni við afgreiðslu málsins.