17.02.1969
Efri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Frsm. meiri nl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj). Ég get í raun og veru tekið undir hvert orð í fyrri hluta ræðunnar. Það er neyðarúrræði að fara lagasetningarleiðina við lausn á vinnudeilum. Það er algert neyðarúrræði, en ég álít, að hér séu svo mikil verðmæti í húfi, að við verðum að beygja okkur fyrir þeirri nauðsyn, sem þjóðinni er á því að fá skjóta lausn á málinu.

Um hitt ætla ég ekki að fara að kýta, hvort almennur fundur í félagi getur staðfest samþykkt trúnaðarráðs með því að bera hana ekki upp. Þetta er komið út í hálfgerða guðfræði, sem ég ekki kann að túlka, svo að ég læt deilur um það atriði niður falla. En fyrir mér lítur það þannig út, að bókstafurinn blífur, eins og hann er í símskeytinu.