17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það leikur enginn vafi á því, að þau verkföll, sem stöðvað hafa nú um alllangan tíma fiskibátaflota okkar, eiga upptök sín í lagasetningu, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir að sett yrði hér á Alþ. í desembermánuði s.l. Með þeirri löggjöf var í rauninni kippt grundvellinum undan þeim kjarasamningum, sem í gildi höfðu verið á milli sjómanna og útvegsmanna og ekki hafði einu sinni verið sagt upp af ýmsum aðilum, og hefðu því verið nú í fullu gildi, með því að lögbinda þar ákvæði, sem gerði fyrri skiptareglur á aflaverðmæti í rauninni þannig, að það gat engan veginn komið út sá hlutur, sem um hafði verið samið, þegar samningarnir voru gerðir. Með þessum 1. var það ákveðið, að 10% af verðmæti þorskveiðiaflans skyldi tekið af óskiptu og lagt í sérstakan stofnfjársjóð fiskiskipa og notað til þess að borga afborganir og vexti af bátunum. Í þessum l. var einnig ákveðið að taka skyldi með sama móti af óskiptu 17% af verðmæti aflans á þorskveiðum og afhenda þá fúlgu útgerðarmönnum,, án þess að hún kæmi til skipta til skipshafnar. Á þennan hátt var það ákveðið að taka skyldi, þegar um þorskveiðar var að ræða, 27% af aflaverðmætinu á þann hátt, að það kæmi ekki til skipta á milli skipshafnar, eins og um hafði verið samið í fyrri kjarasamningum. Þegar um síldveiðar var að ræða, þá var gert ráð fyrir að á þennan hátt væri tekið sem næmi 37% af verðmæti aflans, og það undanskilið því að koma til skipta. Það gaf auðvitað alveg auga leið, að þegar ákvæði sem þessi voru sett í lög, þá var verið að kippa grundvellinum undan þeim kjarasamningum, sem í gildi höfðu verið, enda taldi ríkisstj. sjálf ekki annað fært en að setja ákvæði inn í frv. sitt, nokkru áður en það var samþ. hér sem l. á Alþ., um það, að eftir þessa samþykkt skyldu allir kjarasamningar á milli útvegsmanna og sjómanna vera úr gildi fallnir, ef tilkynning bærist um það frá öðrum hvorum aðila, án þess að um nokkurn uppsagnarfrest þyrfti að vera að ræða. Á þennan hátt var beinlínis með l. frá Alþ. stefnt að því að taka upp nýja kjarasamninga á milli útvegsmanna og sjómanna og snúa sér að þessu vandamáli á alveg nýjum grundvelli.

Við Alþb.-menn vöruðum sterklega við því að halda málinu á þennan hátt, við bentum á það að alveg mætti telja víst, að þetta leiddi til þess, að fiskveiðiflotinn stöðvaðist um lengri eða skemmri tíma, því það hefði sýnt sig áður, að það vildi dragast nokkuð, að samkomulag yrði við samningaborðið á milli sjómanna og útgerðarmanna, og að sjálfsögðu mundi það dragast allmikið nú, þegar þeir þyrftu að taka á þessum samningamálum á svona mikið breyttum grundvelli frá því, sem áður var. Nú var heldur ekkert um það að efast, að mjög margir í röðum sjómanna höfðu orðið fyrir verulegu tekjuáfalli, bæði á árinu 1967 og eins á árinu 1968, og var þar sérstaklega um að ræða síldveiðisjómenn vegna stórminnkandi síldarafla og vegna tiltölulega lágs verðs á síldarafurðum. Það mátti því telja alveg víst, að frá þeirra hálfu hlytu að koma fram kröfur um allverulegar bætur í einhverju formi á þeirra kjörum til þess að jafna upp þann mikla mismun, sem ríkisstj. hafði þarna gert með lagasetningu varðandi útreikning á aflaverðmæti því, sem átti að koma til skipta.

Ríkisstj. lét eins og hún heyrði ekki þessar aðvaranir okkar, hún hélt áfram með fyrirætlanir sínar og samkv. áætlunum sinna efnahagssérfræðinga. En auðvitað varð reynslan sú, er við höfðum sagt fyrir. Það kom fljótlega til stöðvunar á flotanum, til verkfalls, sem nú hefur staðið í fullan mánuð, en raunverulega hefur af þessum ástæðum, vegna lagasetningar frá Alþ., fiskveiðlfloti okkar verið stöðvaður að mestu leyti, ekki aðeins þann tíma, sem verkfallið hefur staðið formlega, heldur nú í rúmlega einn og hálfan mánuð, því að með eðlilegum hætti hefðu róðrar átt að geta byrjað strax upp úr áramótum. En um það gat vitanlega ekki orðið að ræða, þegar það lá fyrir mönnum, að samningar voru slitnir í sundur og það þurfti að taka upp samninga um býsna erfið málefni í þessum efnum.

Nú þegar verkfallið hefur staðið þetta lengi og stöðvun bátaflotans orðin svona tilfinnanleg, eins og allir vita, þá kemur hæstv. ríkisstj. fram á sviðið og segir: Það verður að firra þjóðina þeim vandræðum, að verkfallið standi öllu lengur, að stöðvunin verði meiri en hún er orðin. Og það er á henni að skilja og málflutningi hennar öllum, að það séu sjómenn, og nú sérstaklega yfirmenn á fiskiskipaflotanum, sem eigi alla sökina á því, að flotinn hefur stöðvazt. Eins og það liggi ekki alveg ljóst fyrir, að það er ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hér á Alþ., sem fyrst og fremst bera ábyrgðina á því, að fiskveiðifloti okkar hefur nú stöðvazt í einn og hálfan mánuð á aðalvertíð ársins. Þetta er forsaga þessa máls. Um þetta ættu í rauninni ekki að standa neinar deilur, því það er aðeins verið að bera á móti staðreyndum, ef menn vilja neita þessu.

Hvernig hefur svo málið gengið síðan? Sjómenn settu fram sínar kröfur um breytta kjarasamninga. Þeir ákváðu að leggja aðaláherzlu á tvö atriði í nýjum kjarasamningum. Í fyrsta lagi vildu þeir fá frítt fæði sér til handa, en þetta hafði verið krafa þeirra í mörgum kjarasamningum áður og sjómenn bentu réttilega á það, að í þessum efnum væru þeir að fara fram á það, sem aðrar vinnustéttir í landinu hefðu fengið löngu áður. Togarasjómenn hafa þegar frítt fæði. Farmenn hafa frítt fæði og svo að segja allar vinnustéttir í landinu hafa frítt fæði, þegar þær eru settar til vinnu fjarri heimilum sínum. Það var því fullkomlega eðlilegt, að sjómenn tækju nú upp þessa gömlu kröfu sína og færu fram á það að fá nú frítt fæði. En það var auðvitað eins og fyrri daginn, að þannig var staðið að málefnum sjávarútvegsins á Íslandi, að þó að þar væri um undirstöðuna að ræða í öllu okkar efnahagskerfi, þurfti að segja: Þó hægt sé að veita ýmsum öðrum stéttum þessi fríðindi, þá er ekki hægt að veita sjómönnum á Íslandi þennan sama rétt. Útgerðin hefur ekki efni á því, og þjóðfélagið hefur ekki efni á því að búa þannig að útgerðinni, að hún geti veitt þessum starfsmönnum þennan almenna rétt. — Ég held, að flestir, sem um þessi mál hafa hugsað að undanförnu hafi viðurkennt, að þessi krafa af hálfu sjómannanna var mjög eðlileg, hún var um sanngjarnt málefni og ekki sízt með tilliti til þess, hvernig í pottinn var búið, hvað var búið að gera við þeirra aflahlut.

Önnur aðalkrafan, sem sjómenn settu fram. var sú. að þeir fengju að njóta lífeyrissjóðsréttinda. eins og líklega um helmingur landsmanna hefur þegar fengið viðurkennt í samningum sér til handa. Togarasjómenn eru orðnir aðilar að slíkum lífeyrissjóði, farmenn eru það, opinberir starfsmenn eru það og starfsmenn við vel flest fyrirtæki, t.d. margs konar þjónustufyrirtæki, sem þjónusta útgerðina í landinu. Starfsmenn t.d. í olíufélögum eru í lífeyrissjóði, það þykir sjálfsagt, og þannig er auðvitað um fjöldamarga starfshópa í landinu. En einni þýðingarmestu starfsstétt okkar, þegar litið er á uppbyggingu okkar efnahagskerfis, sjómannastéttinni á bátaflotanum, höfum við ekki enn haft efni á að tryggja svona réttindi. Það hefur verið talið, að þetta gæti útgerðin ekki borgað. Undir þessu gæti þjóðfélagið ekki risið. Nú var þó svo komið, að hæstv. ríkisstj. hafði gefið yfirlýsingu um það hér á Alþ., að vísu fyrir kosningar, að hún mundi beita sér fyrir því að koma upp lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Mikil nefnd var skipuð í málið, og a.m.k. ein þykk bók hefur komið í hendur þm. um þessa athugun. Nú er farið að ganga eftir því skiljanlega, að eitthvað Gerði úr framkvæmdum í þessum efnum, svo að ríkisstj. geti ekki haldið þannig á þessu máli, að hún láti kjósa út á þetta kosningar eftir kosningar án þess að standa við það. En sjómenn settu nú undir þessum kringumstæðum fram þá kröfu, að þeir fengju svipuð réttindi til lífeyrissjóðs eins og um helmingur landsmanna hefur þegar fengið og á þann hátt, sem ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún stefni að að tryggja öllum landsmönnum. Þessi krafa var einnig sett fram á þeim tíma, þegar var verið að taka af sjómönnum önnur réttindi, sem þeir höfðu samkvæmt samningum, en það stóð einnig á því að verða við þessari kröfu.

Nú er rétt að víkja nokkrum orðum að því, hvernig þessir samningar hafa svo gengið um þessi tvö meginatriði, sem sjómenn lögðu áherzlu á í sambandi við kjaramál sín að þessu sinni. Það kom auðvitað fljótlega fram, að útgerðarmenn sögðu: Við getum ekkert borgað, ríkisstj. er búin að mæla út okkar skatt nákvæmlega, og hann er svo naumur, að við getum ekkert af hendi látið. Enda hafði sjálf ríkisstj. lýst því yfir í sambandi við flutning á sínum efnahagstillögum hér á Alþ., að hennar sérfræðingar hefðu reiknað úi vandamál efnahagsmálanna á þann hátt, að fella yrði gengi krónunnar um rúmlega 50% og að síðan yrði að standa að framkvæmdinni þannig, að allt launafólkið í landinu tæki á sig alla dýrtíðina, sem af gengislækkuninni hlytist, 20–30% í hækkuðu verðlagi, án allra bóta, sem hreina kjaraskerðingu. Einnig hafði ríkisstj. lýst því yfir, að hún teldi alveg óhjákvæmilegt í sambandi við útreikninga sína á efnahagsvandanum að standa þannig að framkvæmd þessara mála, að aflahlutur sjómanna yrði skertur, þannig að tryggt væri, að þeir gætu í engu tilfelli fengið að njóta hækkandi fiskverðs, sem yrði vegna gengislækkunarinnar, en skyldu þola, eins og aðrar vinnandi stéttir, stóraukna dýrtíð bótalaust, og einnig afleiðingarnar af minnkandi fiskafla, það áttu sjómenn að taka á sig alveg aukreitis. Það var svo sem eðlilegt, að útgerðarmenn teldu sig býsna vel valdaða, og þeir gætu sagt nei við öllum kröfum. Þeir höfðu stefnu ríkisstj. yfirlýsta, og höfðu ríkisstj., og væntanlega meiri hl. Alþ., á bak við sig. Stefnan lá öll alveg ljóst fyrir. Nú, og hvernig gengu svo þessir samningar? Mjög fljótlega fréttist það, að sjómenn, a.m.k. fulltrúar háseta, væru búnir að fallast á það að sætta sig við greiðslur upp í fæðiskostnað, sem næmu í mesta lagi hálfum fæðiskostnaði eða falla frá hálfri kröfunni, talað var um 3000 kr. upp í fæðiskostnað á mánuði. En það var ekki nóg, þó hásetar gerðu þessa tilslökun á sínum kröfum, þá koma þessir dásamlegu efnahagssérfræðingar ríkisstj. og finna út nýtt ráð til þess að koma þessum fæðiskostnaði þannig fyrir, að að nafninu til skuli sjómenn fá hálfan fæðiskostnað greiddan, en þeir skulu a.m.k. greiða helminginn af því sjálfir. Þar að auki skuli vera lagður skattur á ýmsa aðra sjómenn í landinu, eins og alla þá sjómenn, sem róa á smáum bátum allt í kringum landið, bátum innan við 12 rúmlestir, það skuli lagður skattur á þessa sjómenn til þess að standa undir þessum fæðiskostnaði sjómanna og einnig skattur á togarasjómenn, sem höfðu þó samið um það, að þeir skyldu fá frítt fæði og hafa búið við þau kjör um langan tíma. Þá var sem sé komin fram tillaga um að skattleggja þá líka í einn mikinn allsherjar fæðissjóð fyrir bátaflota landsins. Þá var komin fram till. um það að hækka enn einu sinni útflutningsgjöld á sjávarafurðum, sem auðvitað þýddi það í framkvæmd, að fiskverðið í landinu hlaut að lækka sem útflutningsgjaldinu nam. En lækkandi fiskverð var vitanlega sama sem að ganga á hlut sjómannanna, sem hér voru að sækjast eftir því að fá fæðiskostnaðinn greiddan, og það jafngilti einnig þessari skattlagningu á sjómennina á hinum smærri fiskibátum, sem ég greindi frá, og einnig skattlagningu á sjómennina á togaraflotanum. Og þegar verkfallið var búið að standa nógu lengi og nægilega margir voru farnir að tala um það gífurlega tjón, sem þjóðarbúið yrði fyrir vegna stöðvunar flotans, og engir voru fyrri til að viðurkenna þetta mikla tjón, sem þjóðarbúið var að verða fyrir vegna þessarar stöðvunar, en sjómenn sjálfir, sem auðvitað áttu allt undir því, að róið yrði og eitthvað fiskaðist, og auðvitað tók allur landslýður undir það, að vonandi færi verkfallið að leysast. En þá átti sem sagt að nota málið þannig, að það átti að pressa þá, sem höfðu verið á þennan hátt hart leiknir af löggjafarvaldinu í sambandi við sína kjarasamninga, sjómennina sjálfa, ekki aðeins til þess að slá í sífellu af kröfum sínum, heldur átti helzt að fá þá til að samþykkja það að hætta við verkfallið, hefja róðra, án þess að þeir fengju neitt í sinn hlut.

Niðurstaðan hefur svo orðið sú, sem menn vita varðandi þessa aðalkröfu sjómannanna, sem gilti jafnt fyrir undirmenn sem yfirmenn, að myndaður er þessi allsherjar fæðissjóður. Sjómenn á hinum ýmsu bátastærðum eiga að fá misjafnlega mikið greitt upp í sinn fæðiskostnað, rétt eins og það kosti eitthvað meira að éta um borð í 200 tonna bát en í 100 tonna bát! En hvað um það, það er ákveðið, að það skuli greiða úr þessum sjóði nokkuð upp í fæðiskostnaðinn og á þennan hátt, sem ég hef greint frá, þannig að sjómennirnir eru sjálfir látnir borga þetta, a.m.k. að hálfu leyti, og svo eru aðrir sjómenn, sem eiga ekki að geta fengið neinar greiðslur upp í sinn fæðiskostnað, skattlagðir til sjóðsins.

Ég efast ekkert um það, enda hef ég heyrt það hjá nokkrum sjómönnum, sem í þessum samningum hafa staðið, að þeir eru auðvitað sáróánægðir með þetta fyrirkomulag, sem hér var sett upp. Þeir viðurkenna, að þetta kerfi sé hvort tveggja mjög óréttlátt gagnvart ýmsum sjómönnum í landinu og það fái varla staðizt í framkvæmd, og menn viðurkenna líka, að slíkur fæðiskostnaðarsjóður felur í sér nákvæmlega sams konar hættur og vátryggingasjóðurinn frægi, er farið var að greiða með ákveðnu útflutningsgjaldi á allar fiskafurðir vátryggingaiðgjöld bátanna. Afleiðingarnar af þeim sjóði hafa orðið þær, og er nú viðurkennt einnig af sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum, að vátryggingakostnaður hér á landi hefur vaxið alveg úr hófi fram og er orðinn miklu meiri en hann er í nálægum löndum á sambærilegum skipum. Ég er ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti, að ef áfram verður haldið með þennan fæðiskostnaðarsjóð, þá fer það auðvitað svo, að þeir sjómenn, sem sömdu um að fá ákveðinn hluta greiddan upp í fæðiskostnað nú, eiga eftir að semja um það seinna að fá allan fæðiskostnaðinn greiddan úr sjóðnum. Þá auðvitað verður hækkað útflutningsgjaldið og fiskverðið lækkað, um leið og þeir sjómenn, sem nú eru sviptir réttinum til að fá greiðslur úr sjóðnum, en eru þó látnir borga í sjóðinn, munu einnig í samningum knýja það fram, að þeir fái a.m.k. greitt úr sjóðnum til jafns við aðra, sem í hann borga. Og þannig heldur þetta áfram. Og svo kemur að því, er menn eru búnir að starfa undir þessari sjóðsstofnun í nokkur ár, alveg eins og það gerðist með vátryggingasjóðinn, að þessi fæðiskostnaðarkassi verður orðinn stór, það þarf býsna hátt útflutningsgjald til þess að mata hann, og það er ósköp hætt við því, að fæðiskostnaðurinn verði ótrúlega hár á Íslandi á bátaflotanum eftir nokkur ár, ef á að byggja þetta upp eftir þessum reglum. Hér er um nákvæmlega sama vísdóminn að ræða hjá efnahagssérfræðingum ríkisstj. í þessum efnum eins og öðrum. Þeir eru að fálma hér í hlut. sem þeir þekkja lítið inn á, kaupa sig út úr vandræðunum með því að framkvæma ný vandræði, en þetta á eftir að kosta býsna mikið um það er lýkur.

Það sjá nú væntanlega allir, að það sem sjómenn, jafnt yfirmenn sem undirmenn, hafa þurft að sætta sig við nauðugir viljugir í þeirri stöðu, sem upp hefur komið varðandi kröfuatriði um greiðslu á fæðiskostnaði, færir þeim ekki mikið í aðra hönd. Það því fremur. þegar þannig var á málum haldið, að fulltrúi ríkisstj., aðalefnahagssérfræðingurinn Jónas Haralz, sem jafnframt réð yfir fiskverðsákvörðuninni í landinu, hélt þannig á málinu, þó hann þyrfti að brjóta landslög til að gera það, auðvitað studdur af ríkisstj., að hann ákvað að halda í fiskverðið vikum saman, neita að ákvarða fiskverðið eftir þeim reglum, sem segir í lögum um það, hvernig á að komast að niðurstöðu um fiskverðið, en það eru alveg ákveðnar reglur í lögunum, sem á að fara eftir. Þessar reglur voru auðvitað brotnar, og það ákveðið, að fiskverðið skyldi aðeins hækka um það, sem sagt er að sé að meðaltali um 8% frá því, sem það var á fyrra ári, en þá átti fiskverðshækkunin að nema nákvæmlega jafnmiklu og nam vísitöluhækkun á laun hjá almennu launafólki frá því að fiskverð var ákveðið í fyrravetur. Sem sagt út úr 8% fiskverðshækkuninni átti að sjá um það, að hlutamenn gætu að vísu fengið sem nam vísitöluhækkun á laun hjá öðrum, en þeir gátu ekki fengið út úr þeirri fiskverðshækkun neitt umfram það. Nú var þó grundvöllur, að dómi Jónasar Haralz, til þess að hækka fiskverðið um meira en þessi 8%, en þá var haldið þannig á málunum, að fiskverðið var aðeins hækkað um 8%, en það, sem var hægt að hækka fiskverðið þar umfram, var notað í sambandi við uppbygginguna á þessum fæðiskostnaðarsjóði.

Svo fóru leikar, að sjómenn fengu þó viðurkenningu á pappír fyrir því, að upp yrði tekinn lífeyrissjóður þeim til handa á svipaðan hátt og tekið hefur verið upp fyrir ýmsar aðrar starfsstéttir í landinu. En ekki var þó gengið lengra um kröfur sjómanna í þessum efnum en svo, að þeir eiga ekki að fá þennan lífeyrissjóð að neinu leyti í gang á þessu ári, og eru þó þeir kjarasamningar, sem nú er verið að ganga frá, aðeins fyrir þetta ár til ársloka. En það er tekið fram, að á þessu ári kemur þessi sjóður ekki til framkvæmda. Það á að taka þrjú ár að koma þessum lífeyrissjóðsréttindum á að fullu handa sjómönnum, og vil ég ætla, ef ríkisstj. ætlar ekki að svíkja fullkomlega þá yfirlýsingu, sem hún hefur gefið um það, að hún ætlaði sér að beita sér fyrir því að koma upp lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, að um þetta leyti a.m.k. verði kominn upp lífeyrissjóður, sem nær til allra landsmanna og dekkar þá nokkurn veginn yfir það, sem hefur verið samið um fyrir sjómenn að þessu sinni. Útgjöldin í þessum efnum eru þá ekki ýkjamikil, nema þá að það verði svo, að hugmyndin um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn verði dregin mjög á langinn, og þá getur að vísu farið svo, að sjómenn hefðu út úr þessu samningsatriði nokkuð sér til hagsbóta þó síðar yrði.

Þetta eru nú þau atriði, sem samið hefur verið um í þessari sjómannadeilu við sjómenn. Ekki trúi ég því, að þeir menn í landinu, sem setja sig eitthvað inn í þessi mál og vilja viðurkenna staðreyndir, geti ekki viðurkennt það, að sjómenn hafi verulega lagt sig í framkróka um það í sambandi við þessar deilur að fá lausn á deilunni með sem minnstum kröfum uppfylltum. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að niðurstaðan hefur orðið sú, að sjómenn sitja eftir að verulegu leyti með skertan hlut, þegar það er haft í huga, hvað gert var varðandi hlutaskiptafyrirkomulagið með lögum þeim, sem samþykkt voru hér dagana fyrir jól.

Þá kem ég nokkuð að því, sem snýr sérstaklega að yfirmönnunum á fiskiskipaflotanum, en nú hefur ríkisstj. talið nauðsynlegt að leggja hér fram frv. um það að lögbinda ákveðna lausn á þá. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það var að ýmsu leyti farið enn harðari höndum um yfirmennina á fiskiskipaflotanum í lagasetningu ríkisins, en nokkurn tímann undirmennina, og var þó nógu hart að þeim gengið.

Launakjör yfirmannanna á fiskiskipaflotanum hafa lengi verið þannig, að yfirmennirnir hafa haft svo að segja allt sitt kaup út úr aflahlut. Þetta hefur t.d. verið þannig, að þegar hásetarnir hafa talið sér mikils virði að fá inn í samninga ákveðna lágmarkskauptryggingu, því það hefur verið í allmörgum tilfellum um það að ræða. að þeir hafa þurft að búa við lágmarkskauptrygginguna, aflahluturinn hefur ekki orðið hærri en lágmarkskauptryggingin í samningum hefur verið, þá hafa yfirmennirnir á fiskibátunum sætt sig við það, eins og t.d. skipstjórar, að hafa miklu lægri lágmarkskauptryggingu, borið saman við sinn aflahlut, en nokkrir aðrir á bátunum. Þeir hafa sannarlega treyst á það, að aflaprósenta þeirra gæti skilað þeim því, sem þeir ætluðust til að fá fyrir sín störf. Þetta hefur meira að segja verið þannig, að í einstaka tilfellum hefur lágmarkskauptrygging skipstjóra og stýrimanna á bátum verið undir því, sem lágmarkskauptrygging er til almennra háseta. Lágmarkskauptrygging til almennra háseta er samkvæmt samningi 13.762 kr. á mánuði. Við þessa upphæð hafa hásetar tryggt sér 1100 kr. á mánuði í svonefnda fatapeninga, sem hafa verið greiddir út, þegar til lágmarkskauptryggingarinnar hefur komið. Ef um hefur verið að ræða bát, sem hefur stundað línuveiðar, bætist við þessa upphæð 2803 kr. á mánuði og í þeim tilfellum kemst hásetinn upp í 17665 kr. á mánuði í brúttólágmarkskauptryggingu, áður en fæðið hefur verið dregið frá. En hver hefur lágmarkskauptrygging skipstjóra og stýrimanna verið? Skipstjórarnir eru yfirleitt upp á tvo hásetahluti. Lágmarkskauptrygging skipstjóra hefur hins vegar verið 16835 kr., og til viðbótar hefur verið um að ræða fast kaup, 624 kr. á mánuði, eða 17459 kr. samanlagt, en það er rétt rúmlega 200 kr. lægra á mánuði en hásetinn hefur, ef um línufiskirí er að ræða. En þegar ekki er um línufiskirí að ræða, þá er þessi kauptrygging skipstjóra og stýrimanna lítils háttar hærri en hún hefur verið hjá hásetum. Vélstjórar hafa haft þarna nokkuð hærri tryggingu.

Það gefur auðvitað auga leið, þegar um það er að ræða, að það á að taka stóran hluta af aflaverðmæti bátsins undan hlutaskiptum, hann á ekki að koma til skipta, þá bitnar þetta auðvitað sérstaklega á þeim, sem hafa tiltölulega háa skiptaprósentu í samningum, sem eru skipstjórarnir, sem hafa lagt allt sitt undir að þeir afli og hafa auðvitað orðið mjög illa úti, ef út af hefur brugðið með afla. Til viðbótar við það, að svona hefur verið ástatt um lágmarkskauptryggingu þessara yfirmanna, þá kemur þetta einkennilega fyrirkomulag, sem nú á að taka upp á fæðiskostnaðargreiðslunni, þar sem fæðiskostnaðurinn á að greiðast með fiskverði. Það á að lækka fiskverðið, það á að leggja á útflutningsgjald, og skipshöfnin er þannig látin borga hluta af fæðiskostnaðinum sjálf, og þá verður auðvitað skipstjóri, sem er með tvo hluti, að borga helmingi meira í kassann en hver einstakur háseti. Hans fæðishlunnindi verða á þennan hátt miklu minni, þegar litið er á kaupið sem heild. Það er því ekkert undarlegt, þó að yfirmennirnir væru, eins og allir. aðrir sjómenn, sem í þessum samningum tóku þátt, mjög óánægðir með það, hverjar undirtektir við þeirra kröfum í deilunni voru af hálfu útvegsmanna og hver afstaða ríkisstj. var til þeirra málefna.

Það var því ofureðlilegt, að þeir gerðu kröfur um það að fá hér nokkra leiðréttingu, annaðhvort á sinni almennu lágmarkskauptryggingu eða þeim hluta af þeirra kaupi, sem var fast kaup, en þeir höfðu aðeins 624 kr. sem fast kaup á mánuði. Þegar komið er undir lokin og yfirmennirnir eru búnir að láta í það skína, að þeir gætu eftir atvikum, eins og á öllu málinu hefur verið haldið, jafnvel sætt sig við það að gera samkomulag í deilunni, ef þetta litla fastakaup þeirra, 624 kr. á mánuði, yrði hækkað upp í 1150 kr. á mánuði eða um 576 kr. Þetta kom mjög greinilega fram m.a. í Vestmannaeyjum, þar sem bæjarstjórnin beitir sér fyrir því að ná sáttum á milli aðila. Hún flytur sáttatillögu í þessa átt, og það kemur fram í atkvæðagreiðslu, sem yfirmenn tóku þátt í, að mikill meiri hl. yfirmanna þar fellst á að leysa deiluna á þessum grundvelli. En þó að yfirmennirnir hafi mjög gefið undir fótinn með það, að það væri hægt að leysa deiluna, þó að þeir væru að sjálfsögðu mjög óánægðir þarna með mörg samningsatriði, á þessum grundvelli, þá var svarið við því í sífellu þvert nei. Það sögðu þeir, sem vissu, að þeir höfðu ríkisstj. með sér og væntanlega meiri hlutann á Alþ. og treystu á það, að þeir gætu fengið sinn vilja settan í lög með afli atkvæða hér á Alþ. Ég tel, að hér hafi verið haldið á málum af ótrúlegri óbilgirni af hálfu þeirra aðila, sem áttu í samningum við yfirmenn á fiskibátaflotanum að þessu sinni. Skyldi það nú í þeim kostnaði, sem um er að ræða hjá útgerðinni, hafa drepið allt, þó að menn hefðu gengið inn á það, að 4 yfirmenn á bát fengju 576 kr. á mánuði til hækkunar í kaupi? Það gerir tæpar 6 þús. kr. á mann á ári eða 26–30 þús. kr. á bát á ári. Nei, ég tel að þetta atriði sýni það svo ljóst, að það sé engin leið að láta sér missýnast í þeim efnum, að þeir, sem neita samningum á grundvelli sem þessum, vildu aldrei neina eðlilega samninga. Þeir hafa raunverulega neitað í framkvæmd að standa að samningum á þann hátt, sem ætlazt er til samkv. vinnulöggjöf, og ég tel það alveg furðulegt, að ríkisstj., sem þó á að vita upp á sjálfa sig skömmina í þessum efnum, hvernig hér hefur verið stofnað til allra mála í þessum atriðum, skuli í þessari stöðu ekki hafa beitt sér fyrir því að fá samkomulag t.d. á grundvelli sem þessum, mæta þarna sjónarmiðum yfirmannanna, þó að ekki væri nú í meiru en þessu. Í stað þess kemur svo ríkisstj. hér fram með frv. og vill lögbinda þá till., sem yfirmennirnir hafa fellt í atkvgr., ekki með lítilli þátttöku, heldur með mikilli þátttöku miðað við þær aðstæður, sem um er að ræða í samtökum yfirmanna, því auðvitað er mikið af yfirmönnum dreift víðs vegar úti um land, sem hafa enga aðstöðu til þess að taka þátt í þessari atkvgr., og eru jafnvel utan allra samtaka. En í þessari atkvgr. viðvíkjandi kjörum yfirmanna tóku þátt, eftir því sem fram hefur komið í blöðum, um 555 menn, og það er hreint ekki lítið. En ríkisstj. ákveður að beita sér fyrir því að lögbinda sem kaup yfirmanna það, sem útgerðarmenn hafa samþ., en yfirmenn hafa fellt að miklum meiri hl. og sem raunverulega jafngildir því að segja algert nei við þá varðandi þeirra almennu launakjör: Ég hef heyrt, að það eru til ýmsir menn, m.a. þeir, sem virðast ráða allmiklu um skrif í stjórnarblöðunum, sem óskapast yfir ósvífni yfirmannanna á fiskiskipunum, að þeir skuli jafnvel hafa verið að tala um það, að þegar búið væri að kippa raunverulegum grundvelli undan hlutaskiptakjörunum, eins og gert var með lögum þeim, sem ríkisstj. beitti sér fyrir, þá vildi skipstjóri, sem á að hafa tvöfaldan hlut, fá sem lágmarkskauptryggingu um 30 þús. kr. á mánuði. En þeir níðingar, eins og sagt hefur verið, að heimta slíkt kaup! En hvað skyldu þeir menn vera margir í okkar landi, sem hafa fastan samning um ekki lægra kaup en það og vinna þó ekki nema hálfan vinnudag á við yfirmennina á okkar fiskibátum? Hvað skyldu þeir vera margir? Ég veit ekki betur en flestir sæmilega launaðir verkstjórar eða yfirmenn við minni háttar atvinnurekstur ráði sig ekki upp á minna en 30 þús. kr. á mánuði með alls konar aukafríðindum. Það er alveg rétt, að margir af yfirmönnunum á okkar fiskibátum hafa haft á undanförnum árum meira en 30 þús. kr. á mánuði í laun. Það er rétt. Margir þeirra höfðu mjög hátt kaup á meðan síldaraflinn var sem mestur og meðan verðið á síldarafurðunum var hæst, en þessir menn hafa auðvitað orðið að sætta sig við gífurlega mikið tekjufall frá þessum háu launum, og ég ætla það, að þeir séu ekki fáir yfirmennirnir á síldveiðiskipum okkar, sem á s.l. ári höfðu ekki ýkjamikið kaup. En þegar menn meta kaup yfirmannanna á okkar fiskibátum, mættu þeir kannske einnig hugsa nokkuð til þess, hvað á þeim mönnum veltur í okkar þjóðarbúskap, því að hvað sem öllu líður og hvað svo sem því líður, sem nú ber mikið á af hálfu aðaltalsmanna ríkisstj., að það sé ekki hægt að treysta á sjávarútveginn, það verði að leita eftir einhverju öðru, þá hefur það nú verið svo, að allt fram til þessa hefur gengi íslenzku þjóðarinnar fyrst og fremst byggzt á okkar sjávarútvegi, á þeim gífurlega miklu afköstum, sem hann hefur haft, og þau afköst hafa vitanlega byggzt að mjög verulegu leyti á yfirmönnunum, eins og reyndar öllum sjómönnunum á bátaflotanum. Það er því að mínum dómi eitt það ranglátasta og heimskulegasta, sem nokkur stjórn á Íslandi gerir, að ætla að taka upp slag við sjómennina á fiskiskipaflotanum og ætla að knýja það fram, að launakjör sjómannanna, og þá ekki síður yfirmannanna, verði með þeim hætti, að það megi búast við því, að fiskimennirnir flýi land, leiti eftir betur launuðum og hægari störfum í landi, eða þá þeir fari í það, eins og ýmsir aðrir hafa gert, að taka við störfum, sem þeim bjóðast hér í nágrannalöndunum, þar sem þeim er boðið miklu hærra kaup en þeir geta fengið hér.

Mér hnykkti við nú fyrir nokkrum dögum, þegar ég las um það grein í norsku fiskveiðiblaði, að frá því var skýrt, að nokkrir danskir útgerðarmenn hefðu verið á ferðalagi um Norður-Noreg til þess þar að reyna að ráða mikinn fjölda af norskum sjómönnum, yfirmönnum og undirmönnum, á danska fiskibáta. Í þessu blaði var að vísu farið nokkrum orðum um það, að vonandi færi það nú ekki svo, að norskir sjómenn færu að ráða sig á danska báta, þó að það væri vel borgað. En hvað verður um okkur, þegar þessir dönsku fara að koma hingað, þeir, sem bjóða hér um tvöfalt hærri kauptryggingu og um tvöfalt hærra kaup en það, sem er verið að lögbinda hér nú? Okkar sjómenn eru vanir því að þurfa að vera fjarri heimilum sínum og það langtímum saman. Ég veit það t.d., að sjómenn á Austurlandi hafa ekkí talið það eftir sér, talið það aðeins eðlilegt, að þeir þyrftu að fara á vertíð hér til Suðvesturlands og vera hér í 4–5 mánuði frá heimilum sínum. Svipað hefur þetta t.d. verið með okkar síldveiðisjómenn almennt. Þeir hafa ráðið sig á skip og verið ýmist norður í Dumbshafi eða úti á Norðursjó í marga mánuði í einu. Þessir menn auðvitað telja það enga Síbiríuvist, þó að þeir ráði sig til Esbjerg í nokkra mánuði fyrir miklu hærra kaup en þeir geta fengið hér. Það væri þá aldeilis búhnykkur í efnahagsmálum Íslands, ef framkoma ríkisstj. í þessum málum leiddi til þess, að við misstum talsvert af okkar beztu sjómönnum úr landi, af því að aðrir keyptu þá upp.

Við skulum ekki sjá eftir því, þó að okkar sjómenn hafi sæmileg laun. Þeir fá þau m.a. þegar þeir duga vel í starfi og þegar þeir leggja ótrúlega mikið á sig. Ég er hræddur um það, að ýmsir þeir, sem reikna kaup sitt út í landi, mundu fá út æðimikið kaup eftir yfir- og aukavinnu- og helgidagataxta. ef þeir tækju allan þann tíma inn í reikningsdæmið, sem sjómennirnir á útileguskipunum verða að leggja fram. Ég kannast a.m.k. við það. að mér þótti nóg um, þegar skipstjórunum, ýmist af bátunum, að ég tala nú ekki um af togurunum, af sínu mikla ofurkappi kom auðvitað ekki annað til hugar en að leggja úr höfn jafnvel daginn fyrir stórhátíð, daginn fyrir jól, og vera úti á hátíðinni við fiskveiðar eða liggja einhvers staðar í fjarlægum höfnum, ef svo stóð á um veður, en þeir voru tilbúnir til þess að stunda sjóinn. Þessir menn auðvitað fást ekki til þessara starfa, nema þeir geti átt von á því, a.m.k. ef aflast, að þeir hafi allgott kaup. Og ég vil segja það hér við hv. alþm., að ég er sannfærður um, að enginn þeirra mundi leggja það á sig að vera í stöðu okkar sjómanna á fiskibátaflotanum upp á þau býti, að þeir fengju aðeins venjulegt kaup í landi fyrir þá vinnu, sem er af þeim heimtuð, sem eru á bátaflotanum.

Ég segi það því alveg hiklaust í þessu tilfelli, að ég tel, að ríkisstj. hafi farið með afbrigðum heimskulega að í þessu vandamáli, í fyrsta lagi að ætla að ráðast á samningsbundinn rétt sjómannanna, eins og gert var með löggjöfinni fyrir jól, og í öðru lagi að mæta ekki óskum þeirra á réttlátari hátt en gert hefur verið við þessa samningagerð. Ég veit það, að það eru til menn, sem treysta á það, að þeir séu svo margir, sem nú bíða sárþurfandi eftir atvinnu í frystihúsum og fiskvinnslustöðvum landsinsog þeir séu svo margir, meðal annars í hópi sjómanna, sem vita það, að þeir þurfa endilega að fara að komast á sjóinn til þess að geta haft kaupið sitt, að það sé hægt að slá ryki í augu þeirra og sakfella aðeins yfirmennina, þá hæst launuðu á bátunum, fyrir það, að þeir eigi alla sökina á því, að hér er stöðvun, en ég er ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti, að það er ríkisstj., sem ber ábyrgðina fyrst og síðast á því, að flotinn er enn stöðvaður. Sjómannasamtökin, bæði samtök undirmanna og yfirmanna, hafa sýnt hér ótrúlega mikla tillitssemi, en þeir hafa mætt litlum skilningi.

Það er ekki aðeins þessi þáttur, sem ég hef gert hér aðallega að umtalsefni, sem hlýtur að vekja athygli manna, sem hugsa um þetta frv. Þetta frv. miðar að því að svipta ákveðna aðila þeim löghelgaða rétti, sem þeir hafa sem starfsmenn, samningsréttinum. Það er verulega hættulegt mál að handleika samningsréttinn á þann hátt. sem hæstv. ríkisstj. gerir í þessu tilfelli og hefur gert hér hvað eftir annað áður, Það dugir ekki að afsaka sig aðeins með því, að það sé mikið í húfi. Auðvitað er mikið í húfi, en hvað halda menn t.d., að sé mikið í húfi núna eftir tæpan hálfan mánuð, 1. marz. þegar um það verður að ræða, hvort meginhluti íslenzkrar verkalýðshreyfingar fer e.t.v. í vinnustöðvun út af því sjálfsagða réttlætismáli að greiða skuli vísitöluuppbætur á laun? Hefur þjóðin efni á því að stoppa þá alla sína framleiðslu um lengri eða skemmri tíma? Auðvitað hefur þjóðarbúið ekki efni á því. En væri það þá verkamönnunum að kenna, sem krefðust réttar síns? Væru það þeir, sem væru að setja þjóðfélagið um koll með því að heimta þennan rétt sér til handa? Eða er sökin hinna, sem hafa svipt þá þessum rétti, sem þeir höfðu samið um?

Ég er ekki í neinum vafa um það, að hið rétta svar er það, að það er vitanlega ríkisstj. og hennar stuðningslið á Alþ.. sem ber sökina. Hún getur ekki sloppið út úr þessum vanda með því að segja t.d. 1. marz. ef þá verður verkfall út af vísitölumálinu: Ja, ég er að bjarga þjóðinni. Og ég set bara lög um það. að menn skuli vinna fyrir sama kaup og áður. Ef hún heldur áfram þessum leik, kemur auðvitað næsta aðgerð og hún verður ekki aðeins um það, að menn skuli vinna vísitöluuppbótalaust, heldur segir ríkisstj. að ári liðnu: Það þarf að bjarga þjóðinni með því, að þið eigið að vinna fyrir miklu lægra kaup í krónum talið en þið hafið haft. Við setjum lög um það.

Sú aðferð að ætla að beita lögum á þennan hátt, þó að það hafi áður verið gert samkomulag um og sett lög um það, að það skuli gilda ákveðnar leikreglur um gerð kjarasamninga, er stórháskaleg, og það er auðvitað full ástæða til þess að vera á móti þessu frv. vegna þess, að það miðar að því að svipta ákveðinn starfsmannahóp í landinu löghelguðum samningsrétti. Hér er um samningsréttarmál verkalýðshreyfingarinnar allrar í landinu að ræða. Og það eru engin rök, sem hægt er að færa fram fyrir því, að yfirmennirnir á fiskibátunum séu í þessu tilfelli með óbilgjarnar kröfur, þeir séu að reyna að knýja eitthvað það fram, sem ekki sé hægt að standa við. Því er það, að það hefði auðvitað átt að fara þá leið, sem við Alþb.-menn höfum bent á. Það hefði átt að vera búið að skipa hér sérstaka sáttanefnd í þetta mál og leita eftir sáttum á eðlilegum grundvelli. Það er vitanlega engin von til þess, að niðurstaða fáist í samningagerð með eðlilegum hætti, ef annar aðilinn segir í sífellu: Ég samþykki ekkert, ég verð ekki við neinu, og sá aðili er studdur af ríkisvaldinu, sem ógnar með því að setja lögbindingu á þessar kröfur.

Ég óttast það, að einmitt þessi vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. vill viðhafa í þessu máli, muni leiða til þess í öðrum tilfellum, t.d. næst þegar um það verður að ræða, að sjómenn þurfa að taka upp samninga við útvegsmenn, ja, þá standi bara útvegsmenn eins og nú og segi nei við öllu og bíði eftir því, að lög komi og þá verði samningsrétturinn í reynd ekkert nema nafnið. Ég fyrir mitt leyti a.m.k. efast ekkert um það, að á svipaðan hátt mundi núna fara, ef að samningaborði settust fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og fulltrúar vinnuveitenda hins vegar og ræddu um það að taka upp vísitöluuppbætur á laun. Þá mundu auðvitað atvinnurekendur segja nei og aftur nei, þar sem þeir vita um það, að þetta er yfirlýst stefna ríkisstj., að reyna að knýja þetta fram. Þeir reikna með því, að þegar nógu langt er komið út í voðann, þegar búið er að stöðva alla þjóðarframleiðsluna um lengri eða skemmri tíma, þá komi ríkisstj. og geti jafnvel látið fulltrúa Alþfl. leggja fram frv. um það á Alþ. að kveða niður verkfallið með lögum, af því að það sé þjóðarnauðsyn. Alþfl. hefur margsinnis áður lýst yfir sinni almennu, pólitísku afstöðu í málum eins og þessum. Hin almenna afstaða Alþfl. hefur verið sú, að hann væri mótfallinn því, að gripið væri inn í kjarasamninga með löggjöf, og oftar en einu sinni áður hefur Alþfl. farið úr ríkisstj. í slíkum tilvikum, þegar grípa hefur átt til slíkra ráða. En það er nú ekki lengur svo. Nú otar íhaldið Alþfl. fyrir sig og lætur Alþfl.-ráðh. bera fram frv. um það að leggja lögbindingu á sjómenn, og það undir þessum kringumstæðum. sem hér er um að ræða.

En það er auðvitað enginn vafi á því, að dragi sjómenn ekki réttar ályktanir af því, sem er að gerast í þessum efnum og launþegar í landinu yfirleitt, læri þeir ekki á þessi vinnubrögð, skilji þeir ekki það, að það er ekki leiðin til þess að kveða niður svona vinnubrögð aðkjósa á kosningadegi til áhrifa á Alþ. þá fulltrúa, sem beita sér fyrir því að svipta starfshópa í landinu eðlilegum samningsrétti, fái þessir menn ekki eðlilega refsingu, þá auðvitað halda þeir þessum upptekna hætti sínum áfram.

Þetta mál. sem hér er til umr., er því í mínum augum ekki aðeins málefni yfirmannanna á fiskibátaflotanum, og hefði þó verið full ástæða til þess aðeins út frá því sjónarmiði, hvernig hefur verið farið með þeirra mál að vera á móti frv., en hér er um að ræða, að dómi okkar í Alþb.. stórt „prinsip“-mál launþegasamtakanna í landinu. Ríkisstj. hefur verið að þreifa fyrir sér í þessum efnum á undanförnum árum, hefur verið að fikra sig áfram, og það er enginn vafi á því, að hún hugsar sér það nú í dag að nota sömu vinnubrögðin gagnvart launafólki í landi, sem á svo mikið undir því að fá kaup sitt mælt á réttan hátt miðað við verðlag í landinu. Af þessum ástæðum erum við Alþb.-menn algerlega mótfallnir þessu frv. og teljum, að það eigi að fella það. Ég reikna auðvitað alveg með því, að það verði sagt í Alþýðublaðinu og í Morgunblaðinu, að nú vilji kommúnistar endilega svelta alla þjóðina, halda verkfallinu endalaust áfram, eyðileggja allan þjóðarbúskap Íslendinga, það sé þeirra kappsmál. Maður þekkir svo sem þennan málflutning. En þeir skulu vita það, að slíkur málflutningur hefur ekki minnstu áhrif á okkur Alþb.-menn. Við treystum því, að áður en lýkur átti menn sig á því, hvað er að gerast í þessum efnum, hvar orsökin til vandans liggur, hver réði upphafinu í þessu máli og hvernig hefur verið staðið að málinu, og ég geri mér meira að segja vonir um það, að það verði stór hluti landsmanna, sem áður en langt um líður áttar sig á því, að við þurfum meira að segja að hafa vellaunaða yfirmenn á fiskiskipunum okkar. Það dugir ekki að bjóða þeim léleg kjör, þar sem þeir eiga líka öll sín laun undir áhættu.

Það hefur verið sagt hér í umr. um þetta mál, að það hafi nú ekki verið ástæðulaust að búast við því, að ríkisstj. legði sig nú fram um það að hafa áhrif á það, að samningar gætu tekizt á milli aðila, t.d. með því að hið opinbera legði hér fram nokkurt framlag, ef á þyrfti að halda eða veitti hér tiltekin fríðindi til þess að endar gætu náð saman á milli aðila, og með sérstöku tilliti til þess, að það ei ríkisstj. alveg á ótvíræðan hátt, sem á upphafið að þessari alvarlegu deilu, sem er búin að kosta þjóðina jafnmikið og raun er á. En hvað hefur ríkisstj. gert til þess að ná samkomulagi? Ja, hvað skyldi það t.d. hafa kostað mikið, jafnvel þó að það hefði þurft að leggja það fram frá ríkinu, að greiða þennan mismun, sem hér hefur verið nefndur í sambandi við fastakaup yfirmannanna? Ég er sannfærður um það, að sú upphæð, sem hefði farið í það á hverju ári, er langt innan við það, sem ríkið borgar á hverju ári bara í lögreglukostnað innan girðingarinnar á Keflavíkurflugvelli til þess að reyna að halda þeim þar á mottunni. Við verðum að leggja þar fram mikið fé á hverju ári í þessu skyni. Ríkisstj. telur þetta ekki eftir sér. Þetta er auðvitað sjálfsagður hlutur, og þannig mætti auðvitað nefna fjölda marga útgjaldaliði hjá ríkinu, sem eru vægast sagt vafasams eðlis. En hvað hefur ríkisstj. boðið fram til þess að reyna að brúa hér bilið á milli þessara deiluaðila? Það hefur ekki komið fram, hvað það er. Ég get ekki séð betur en afstaða ríkisstj. hafi beinlínis verið sú að halda sér fast við það í einu og öllu, sem hennar efnahagssérfræðingar höfðu reiknað út og tilkynnt fyrir jólin, en aðalinntak þeirra ráðstafana var það, að launafólk allt í landinu yrði að taka á sig bótalaust afleiðingarnar af hækkuðu verðlagi, sem mundi nema í kringum 20–30%, og að sjómenn yrðu einnig að taka á sig afleiðingarnar af þessu hækkaða verðlagi í landinu og þar að auki á sig áföllin af minnkandi fiskafla. sem svo mikið hefur verið talað um. Við þessi grundvallarsjónarmið stendur ríkisstj. alveg pikkföst allan tímann.

Það er ýmislegt haft í frammi. Af hálfu ríkisstj. er það sagt t.d., að vegna gengislækkunarinnar hefði að sjálfsögðu fiskverð getað hækkað talsvert, og þá hefðu sjómenn fengið hækkaðan aflahlut í kjölfar þess, og þannig hefðu þeir þá auðvitað sloppið undan því að bera bótalaust dýrtíðina. En um það er auðvitað ekki að ræða, þar sem t.d. er um að ræða síldveiðar. Þó að síldarverðið hefði verið látið hækka inn í skiptaverðið, hefði auðvitað hlutur síldarsjómanna ekki orðið eins mikill og hann var á meðan aflinn var mikill og verðið var hátt. Jú, það kann að vera, að af þorskveiðunum hefðu sjómenn fengið nokkru fleiri krónur, þannig að það hefði vegið nokkuð á móti vaxandi dýrtíð. En ríkisstj. virðist hafa verið alveg sannfærð um það, að þetta mætti ekki koma fyrir, að sjómenn fengju fleiri krónur í kjölfar gengislækkunarinnar. En nú eru sjómenn ekki eini starfshópurinn í landinu, sem tekur laun sín með tilliti til hins almenna verðlags, sem er í landinu. Við skulum t.d. taka hér þekkta starfshópa eins og lögfræðinga. Þeir hafa sjálfir sett sér lög í sínum félögum, þeir þurfa ekki að semja við einn eða neinn. Þeir setja bara sjálfir taxta um það, hvað þeir skuli hafa mikið af hverju máli. Auðvitað fer það svo hjá þeim, að þegar allar upphæðir í landinu stórhækka í kjölfar gengisbreytingar, hús, sem kostaði 1 millj., fer upp í 11/2 millj., hús, sem kostaði 2 millj., fer upp í 3 millj. o.s.frv., þá auðvitað hækkar aflahlutur þessara manna prósentvís við hið hækkandi verðlag. Hvað gera arkitektar, verkfræðingar og hvað þeir heita nú allir? Þeir hafa líka sett sér svona taxta, og það eru til miklu fleiri aðilar, að ég tala nú ekki um þá, sem taka ákveðna myndarlega prósentu af söluverðmæti á því, sem þeir handleika eða geta starfað sem milliliðir í sambandi við. Þessir aðilar mega allir óáreittir af ríkisstj. taka til sín fleiri krónur með hækkandi verðlagi, og þeir munu auðvitað allir halda því fram, að það sé ekkert óeðlilegt, að þeir þurfi að fá fleiri krónur, allt sé orðið dýrara, útgjöldin meiri, áhættan meiri, en það er eins og þessi formúla megi ómögulega gilda t.d. við sjómenn. Ef svo ber við, að fiskverð gæti nú hækkað, þá verður að koma í veg fyrir það, að það fari á nokkurn hátt út til sjómannanna. Þeir skulu fá að dúsa í sama kaupinu og þeir bjuggu við áður. Þetta er sem sé mat ríkisstj. og hennar efnahagssérfræðinga á gildi sjómannastéttarinnar í okkar efnahagslífi. En þetta er einmitt hennar mat yfirleitt á störfum vinnustéttanna, undirstöðuhópanna í okkar þjóðfélagi. Þetta er mat hennar á þeim og svo aftur viðhorf hennar til milliliðahópanna, sem alltaf eru að taka til sín stærri hluta af kökunni.

Ég skal nú ekki ræða öllu meir um þetta mál hér við þessa umr. Það væru þó vissulega ýmis atriði, sem ástæða væri til þess að víkja hér að, og verður kannske gert hér nokkuð við 2. umr., þegar málið hefur farið í n., ég skal nú geyma mér það til þeirrar umr. En afstaða mín og okkar Alþb.-manna til þessa frv. er sú, að við viljum fella frv., teljum, að það eigi engan rétt á sér. Við viljum eigi að síður leggja okkur fram um það að reyna að finna lausn á þessari deilu, því að við gerum okkur það fyllilega ljóst, ekkert síður en aðrir, að það er mikil nauðsyn á því fyrir þjóðarbúið og fyrir allt starfandi fólk í landinu, að flotinn geti farið af stað, framleiðslan geti byrjað og við álítum, að það væri hægt að ná þessu marki, ef t.d. væri sett á laggirnar sérstök sáttanefnd, sem gengi hér á milli aðila. En það þarf auðvitað að vera til staðar nokkur skilningur á því, að sjómennirnir, sem hér eiga hlut að máli, eigi hér einnig nokkurn rétt. En ef á þann hátt væri unnið að málinu, teljum við, að hægt væri að fá lausn á þessari deilu og það tiltölulega fljótlega.