17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Skyldi það ekki hafa hvarflað að hæstv. ráðh. undanfarna daga, þegar málið, sem hér er til umr., var komið í sjálfheldu, eins og hæstv. sjútvmrh. orðaði það í sinni framsöguræðu, að það hefði verið affarasælast í þessu máli að hugsa til íslenzks málsháttar, sem hljóðar á þá leið: „Í upphafi skyldi hver endirinn skoða“? Ég minni á þetta sökum þess, að það er ómótmælanleg staðreynd, að það ógæfuspor var stigið fyrir nokkrum mánuðum síðan að rifta samningum sjómanna með lagasetningu, og það er orsökin til allrar þeirrar langvinnu deilu, sem háð hefur verið síðan og það var svo sannarlega varað við að stíga þetta ógæfuspor. Ríkisstj. fékk aðvaranir frá öllum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar, þegar það frv. lá hér frammi fyrir Alþ., að hún væri að stíga ógæfuspor, sem mundi leiða ógæfu yfir marga, en hún sinnti því ekki og fór sínu fram. Það er enginn vafi á því, að þegar hæstv. ríkisstj. gerði sér það ljóst, að hún yrði að fella gengið f annað skipti á einu ári, þá átti hún þegar í stað að hefja samningaviðræður við sjómenn. Ef hún hefur talið, að gengislækkunin kæmi ekki að gagni til þess að efla undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar með verkunum sínum, sjávarútveginn, þá átti hún að hefja samningaviðræður við sjómenn um lausn á því að fá breytingu á skiptakjörunum, hafi hún talið það vera undirstöðuatriði málsins. Ég fullyrti við þá umr., að það væri eingöngu til þess fallið, að setja illt blóð í sjómenn að beita þá lögþvingun á því stigi málsins. Það væri í raun og veru svo óskynsamlegt, að það mætti líkja því við það, að það væri milli vina verið að setja eitur í bikarinn. Ég held, að þetta hafi ekki farið fjarri. Það þýðir ekki að sakast nú, hæstv. ríkisstj. steig þetta ógæfuspor, og henni er það skyldast að bíta úr nálinni með það.

Af þessari lagasetningu í haust hefur leitt langvarandi deilu, verkfall, sem hefur staðið nú í heilan mánuð stöðvað atvinnulíf þjóðarinnar. Ef mönnum hefur ekki verið það ljóst, að sjávarútvegur og fiskiðnaður er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar enn í dag, þá er mönnum það vafalaust ljóst núna. Þegar bátaflotinn stöðvast, þegar fiskveiðar stöðvast, þá stöðvast nálega allt atvinnulíf kringum Íslandsströnd, og eru þar engar undantekningar frá, nema í Reykjavík og Akureyrarkaupstað, þar sem atvinnulíf hvílir á fleiri fótum en sjávarútveginum einum. En að öðru leyti má heita, að allt atvinnulíf landsmanna sé háð sjávarútvegi og fiskiðnaði annars staðar. Deilan hefur orðið undarlega torleyst, og ég held að meginástæðan til þess, hversu torleyst hún hefur orðið, sé einmitt lagasetningin frá s.l. hausti.

Einhverjir kunna að segja: Auðvitað var deilan svona torleyst og svona langvinn, af því að sjómenn sýndu enga sanngirni, þeir voru með svo óhóflegar og frekjulegar kröfur. En það eru þó tiltölulega fáir, sem taka svona upp í sig. Menn verða að viðurkenna það, að þegar búið var með löggjöf að breyta samningsbundnum hlutaskiptum svo, að þriðji hver fiskur af hlut sjómanna hafði verið tekinn í burtu frá þeim, þá var ekki við öðru að búast en að sjómannastéttin reyndi að heimta eitthvað af sínum rétti aftur. Það fór þó þannig, að þeir kröfðust ekki að fá sín gömlu hlutaskipti óbreytt, þeir fóru aðrar leiðir, og ég held, að allir sanngjarnir menn meti það svo, að þeir hafi borið fram hógværar kröfur. Þeir báru fram tvær meginkröfur. Kröfu um það að fá frítt fæði, svo sem tíðkaðist hjá flestum vinnustéttum, sem vinna fjarri heimili sínu og viðurkennt er af öllum sem nálega sjálfsagður hlutur, og að þeir fengju aðild að lífeyrissjóði, svo sem margar aðrar stéttir hafa þegar áunnið sér rétt til.

Lausnin, að því leyti sem lausn er fengin í deilunni, fer ekki fjarri því, sem menn hefðu getað sagt sér nokkurn veginn í upphafi, að þar yrði að mætast á miðri leið, ef menn ekki sæju sér fært að verða við hinum hógværu kröfum. Hásetar hafa fengið nokkurn veginn helminginn af sinni fæðiskröfu, og þeir hafa fengið loforð um það, að þeir fái aðild að lífeyrissjóði í áföngum á þó nokkuð löngum tíma.

Þannig hefur að hvorugu leytinu verið gengið að kröfum þeirra til fulls, meginkröfurnar svona nokkurn veginn helmingaðar, og ég held, að sjómenn hafi látið það í ljós tiltölulega fljótt eftir að verkfall var skollið á, að þeir væru til viðtals um málamiðlun. Ég held, að þegar vika var liðin af verkfallinu, hafi mönnum mátt nokkurn veginn vera það ljóst, að það væri hægt að leysa deiluna þarna nokkurn veginn með því að svara kröfum sjómanna ríflega til helminga. En það kostaði samt þriggja vikna verkfall að komast að þessari lausn kjaradeilu útvegsmanna niðurstöðu. Einn aðalforystumaður sjómanna, Jón, Sigurðsson, hefur sagt það, nú að deilu lokinni við hásetana, að útgerðarmennirnir séu áreiðanlega búnir að kosta meiru til við að heyja verkfallið heldur en það hefði kostað þá að verða við kröfunum án afsláttar. Það hygg ég, að sé nú rétt. Ég hygg, að útgerðin í landinu sé búin að kosta meiru til til þess að heyja þetta stríð við sjómannastéttina heldur en þó hún hefði gengið alveg að fæðiskröfunni og lífeyrissjóðskröfunni.

Ég held, að það hafi verið mjög mikil mistök, hvernig á þessu máli hefur verið haldið, einkanlega frá hendi útgerðarmanna. Þeir hefðu átt að mæta kröfunum af meiri skilningi, mæta þessum sanngjörnu kröfum af meiri sanngirni. Þá held ég, að deilan hefði leystst og hvorki kostað útgerðina né þjóðarheildina þá ofurháu fúlgu, sem deilan er nú búin að kosta hvora tveggju. Það hefur allt of lengi verið bolazt í glímunni. Útgerðarmenn hafa verið að stimpast gegn í raun og veru sjálfsögðum kröfum. Og nú er svo komið, að deilan er aðeins leyst að nokkru leyti. Sjómenn, þ.e.a.s. hásetarnir og þeir aðrir, sem í deilunni áttu og eru meðlimir í stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins, eru búnir að samþykkja lausn á deilunni, og það er ekki af því, að þeir hafi fengið sínum kröfum fullnægt, eins og ég hef gert grein fyrir, nei. Þeir voru fullvissir þess, að lengra yrði ekki komizt, nema með langri áframhaldandi deilu. En samt verða þeir nú að taka á sig áframhaldandi stöðvun, atvinnulífið kemst ekki í gang, þrátt fyrir það, þó að þeir hafi samið og slakað mjög til frá sínum kröfum og sýnt þannig mikla sáttfýsi.

Það er áreiðanlega ógæfa í þessu máli, að vélstjórar og fleiri, sem þátttakendur voru í þessari deilu, skuli vera skipulagðir í tvennum samtökum. Þessi deila á að kenna mönnum það, að það væri affarasælla, að þessi stétt væri skipulögð í einum og sömu samtökunum.

Nú, það má segja, að það hafi vissulega verið farið að lögum um meðferð þessarar deilu eftir að hún hófst. Þegar viðræður hófust milli aðila, þá kom auðvitað sáttasemjari ríkisins til, og hann hefur hagað afskiptum sínum, það efa ég ekki á nokkurn hátt, af deilunni til þess að reyna að ná sáttum í henni nákvæmlega eins og lögin um stéttarfélög og vinnudeilur ætlast til. Hann hefur, þegar honum sýndist ekki að samningar gætu tekizt milli aðilanna, notað sér ákvæði 30. gr., sem segir, að beri samningaumleitanir sáttasemjara ekki árangur til lausnar deilu, sé honum heimilt að bera fram miðlunartillögu, sem lögð verði fyrir félög verkamanna og atvinnurekenda. Þetta gerði hann, og fór einnig að lögum í því. Hann boðaði efnisatriði sinnar fyrirhuguðu till. aðilunum og reyndi sáttaumleitanir eftir að hafa kynnt þeim efni miðlunartillögunnar. Eftir að nokkrar breytingar höfðu svo fengizt fram, í framhaldi af þessu, þá náðust þessir samningar við meðlimi þeirra stéttarfélaga, sem í Alþýðusambandinu eru, en hins vegar strönduðu samningar, að því er snerti yfirmennina á skipunum.

Talað er um það nú, að rétt væri að setja sáttanefnd í þetta mál. Ég álít það algjörlega um seinan að taka slíkt í mál nú, en þegar menn gátu nokkurn veginn myndað sér skoðun um það með hvaða hætti væri hægt að leysa þessa deilu, og það var hægt að sjá þegar deilan hafði ekki staðið í mjög marga daga, að minnsta kosti innan fyrstu vikunnar, þá hefði alveg hiklaust átt að nota ákvæði laganna um stéttarfélög og vinnudeilur um það að skipa sáttanefnd í málið.

Í 22. gr. kaflans um sáttatilraunir í vinnudeilu segir, að sé um mjög alvarlega deilu að ræða geti ráðh. skipað sérstaka sáttanefnd vegna hennar, og þetta átti hæstv. sjútvmrh. að mínu áliti að gera á fyrstu dögum deilunnar. En það gerði hann ekki. Þess vegna er það staðreynd, að það hafa ekki verið notaðar heimildir laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, 3. kafla þeirra laga, um sáttatilraunir í vinnudeilum, til þess að leysa þessa deilu, á meðan hún var á byrjunarstigi, og það harma ég að ekki skuli hafa verið gert. Því að ég trúi því, að slík sáttanefnd hefði getað borið gæfu til að leysa deiluna og að hún hefði þannig orðið skammvinn deila í staðinn fyrir, að hún er nú orðin einhver lengsta deila, sem hér hefur verið háð á seinni árum, búin að standa í fullan mánuð. Þetta ber mjög að harma, en það er sem sé að mínu áliti nú of seint að fara að hugsa til þess að setja sáttanefnd í þessa deilu, og því skal ég ekki fjölyrða meira um það.

Þarna er um beina vanrækslu að ræða af hendi hæstv. ríkisstj., og sérstaklega þessa ráðh., sem með þessi mál fer, sjútvmrh., að hafa ekki notfært sér það ákvæði, sem þarna er í l. og sem fær ráðh. þessi völd. þegar hann telur deilu mjög alvarlega, og það efar enginn, að þessi deila var mjög alvarleg. Hún fellur alveg undir þá skilgreiningu, að ráðh. sé heimilt að skipa sérstaka sáttanefnd vegna slíkrar deilu. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi vanrækt, og er þannig ekki að tala um einhver óákveðin atriði, þegar ég ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það að hafa ekki fyrr haft afskipti af þessu máli samkv. gildandi l. Ef hún hefði nú getað litið yfir farinn veg og sagt: „Ég hef notað sérhvert atriði, sem lög heimila mér, til að leysa þessa deilu“, þá hefði ég ekki getað ásakað hana, þegar allar leiðir voru þrotnar, fyrir að fara fyrir Alþ. til að leysa deilu, sem var orðin þjóðarháski og búin að stöðva vertíðina í fullan mánuð. En hjá því verður ekki komizt, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki notað sér heimildir gildandi l. um þessi viðkvæmu og vandasömu mál og þess vegna er komið, sem komið er.

Menn hneykslast mjög á því, að það skuli vera hálaunastéttirnar í sjómannastéttinni, sem ekki vilji fallast á miðlunartillögu sáttasemjara. Þeir eigi þó kost á sömu kjarabótum eins og hásetarnir og þar sem þeir séu að öllu leyti betur stæðir tekjulega og efnahagslega, þá sé furða, á svona erfiðum tímum, eins og nú ganga yfir þessa þjóð, að þeir skuli ekki vilja sætta sig við sömu kjarabætur og hinir lægra launuðu. Það er enginn vafi á því, að inn í þetta verður að taka þá staðreynd, að tekjuhrap sjómanna, og þá ekki sízt yfirmannanna á skipunum, á seinustu árum, þegar bæði verðlag hefur hrapað og fiskigengd hefur minnkað, er gífurlegt. Og ég veit alveg fyrir víst, að eitt af því, sem gerir það að verkum, að þeir heimta í raun og veru meiri kjarabætur en hásetarnir, eru þau greiðsluvandræði, sem þeir eru í, einkanlega vegna hinna gífurlega háu skatta, sem á þá falla nú, eftir að þeir hafa orðið fyrir tekjuhruninu. En það segi ég í allri hreinskilni, að þó að þetta sé staðreynd og það sé ekki óeðlilegt, að þetta verki á hug þeirra, því að í erfiðum sporum standa þeir einmitt af þessum sökum, þá er ekki hægt að hugsa til þess á erfiðum tímum að leysa þetta með kjarabótum, með hækkuðum tekjum þeim til handa. Það verður að gera það með breytingu á skattalögum þannig að skattar séu innheimtir jafnóðum og tekjur falla eða á sama ári. Þetta er orðin 12 ára gömul krafa verkalýðshreyfingarinnar, og það er sannarlega kominn tími til þess að fullnægja henni. Ef búið væri að koma á staðgreiðslukerfi skatta nú, þá er ég alveg viss um það, að það hefði eitt með öðru orðið til þess að auðvelda lausn þessarar deilu, að minnsta kosti að því er yfirmennina snertir. Það er þessi erfiða aðstaða þeirra, sem á nokkurn hlut í því, að þeir standa fastir á því, að þeir þurfi að fá kjarabætur umfram hásetana. Hins vegar gengur almenningsálitinu erfiðlega að fallast á þessa röksemd þeirra. En ég er reiðubúinn til þess að líta á hana af skilningi og viðurkenna, að þeir standa að þessu leyti í mjög erfiðum sporum, flestir ef ekki allir, hversu háar sem tekjur þeirra hafa verið á undanförnum árum. Og kannske í raun og veru í því erfiðari sporum, sem tekjur þeirra voru á uppgripaárunum meiri.

Ég þarf ekki að taka það fram einu sinni enn, ég hef gert það svo oft áður, að ég tel það vera hreint neyðarúrræði, sem ekki megi grípa til, fyrr en öll úrræði eru þrotin, að leysa vinnudeilu með löggjöf. En það segi ég þá jafnframt, að sú ríkisstj.. sem vekur deilu með lagasetningu, verður að vera við því búin, að það berist að henni sá beiski bikar, að hún verði að leysa þá vinnudeilu með löggjöf. Og það er þetta, sem hefur gerzt hér. Af því að hún kom af stað viðkvæmri vinnudeilu á haustmánuðum, þá á hún nú einskis annars kost en að verða að beita neyðarúrræðinu, að leysa deiluna með löggjöf. Það mætti kannske, ef maður vildi tala af minni góðgirni, segja, það er henni því mátulegt!

Hér er um það að ræða, hvort réttlætanlegt sé, þó ekki hafi verið notaðar allar lagalegar heimildir til þess að reyna að ná sáttum í þessari deilu. og ég hef sýnt fram á það, að svo hefur ekki verið gert af hendi hæstv. ríkisstj., að leggja miðlunartill. sáttasemjara til grundvallar og lögfesta hana og gefa henni samningsgildi. Þó að miðlunartill. hafi aðeins verið samþykkt af sumum, sem í deilunni áttu, en felld af öðrum.

Ég álít það forkastanlegt með öllu, og hef alltaf haldið því fram, að beita gerðardómum í vinnudeilum. Hér er að vísu ekki um það að ræða, heldur hitt, að þegar löglegir samningar hafa átt sér stað og sáttasemjari hefur reynt að miðla málum og ná samningum og ekki tekizt það, þá er honum að I. heimilt að bera fram miðlunartill., og það er síðan undir aðilum komið, hvort þeir samþykkja slíka miðlunartill. eða fella. En það vitum við, sem að minnsta kosti höfum þvælzt í samningum lengi, að þegar sáttasemjari er farinn að kynna efni miðlunartillögu, vofir það yfir, að slík miðlunartill. verði borin fram, og sé hún þá felld, þá er ekki áhættulaust fyrir aðila að útiloka þann möguleika, að ríkisstj. lögfesti þá slíka miðlunartill. Einkanlega þegar aðilarnir eru sjálfir mjög ósamþykkir því, hvort hægt sé að samþykkja miðlunartill. eða ekki. Hér er það einmitt það, sem hefur gerzt, að aðilarnir í deilunni hafa sumir jafnvel viljað, heldur en að fá á sig löggjöf, sætta sig við miðlunartill. og ganga frá samningum sjálfir. Sumum sýnist vera aðgengilegt að sætta sig heldur við hana, aðrir, og þeir í meiri hluta í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands mátu það þannig, að hún væri óaðgengileg og það bæri að hafna henni. Ég loka ekki augum fyrir því, að þjóðin stendur illa efnahagslega, og að þessi deila er þungt áfall fyrir þjóðarbúið, en ég tel, að ábyrgðin hvíli algjörlega á hæstv. ríkisstj. og að nokkru leyti á skortandi samningslipurð útgerðarmanna í þessu máli. A.m.k. tel ég, að sjómennirnir verði ekki sakaðir um stirðbusahátt, frekju eða kröfuhörku í þessu máli.

Mér er sagt, að nú beri aðeins milli 5 og 6 hundruð krónur á milli til þess, að samningar gætu tekizt við yfirmennina, og ég held, að ef ég hefði átt að leggja dóm á þetta deiluatriði og setið í ríkisstj., þá hefði ég talið. að það bæri að teygja sig mjög langt til þess að brúa þetta mjóa bil fremur en að beita löggjöf. En ef til vill er. þú að ég ekki viti um það, búið að þreifa fyrir sér um það og komast að þeirri niðurstöðu, að ekki sé samkomulags að vænta heldur um þá leið. En svo mikið er víst, að standi deilan um þetta eitt, þá stendur það ekki undir margra daga kostnaði þjóðarbúsins af áframhaldandi verkfalli.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um málið. Það liggur þannig fyrir, að meðlimir Alþýðusambandsins, sem áttu í þessari deilu, hafa metið málið þannig, þó að þeir hafi ekki fengið kröfum sínum framgengt, að þeir vildu heldur skrifa undir og ljúka deilunni en að eiga á hættu langvarandi vinnustöðvun, eða fá á sig löggjöf að öðrum kosti. En þarna er um mismunandi mat að ræða hjá þessum tvennum samtökum meðlimanna í Alþýðusambandi Íslands og meðlimanna í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. En hvor tveggja samtökin eiga auðvitað sinn rétt óháð hinum, úr því að þau eru ekki undir sömu lögum, heldur starfa hvor á sinn hátt. Það versta er, að sumir vélstjórarnir eru þannig búnir að samþykkja lausn á deilunni, aðrir sjá sér ekki fært að lúta þeirri niðurstöðu. Málið er því á allan hátt komið verr en jafnvel eins og hæstv. ráðh. sagði, að það væri komið í sjálfheldu.

Ég lýk þá, herra forseti, máli mínu við þessa I. umr. málsins með því að segja, að eins og þetta mál er nú í pottinn búið, þá mun ég ekki bregða fæti fyrir, að ríkisstj. leysi málið með sinni aðferð á sína ábyrgð. Verkfallið er orðið þjóðinni mikil fórn, það er orðið þjóðarhörmung og mér liggur við að segja þjóðarskömm.