17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta er dæmigerð alþingisumr., eins og þær gerast, þegar á dagskrá eru hin mikilvægustu og örlagaríkustu mál. Þá taka engir til máls nema stjórnarandstæðingar, þm. ríkisstj. bíða hér í húsinu vegna þess, að þörf er á þeim, þegar greiða á atkvæði, en þeir sjá ekki ástæðu til þess að taka þátt í umr. Þeir flytja ekki rök sín, þeir breyta sjálfum sér í atkvæðavélar. Einmitt á þeim dögum, þegar Alþ. ætti að starfa af mestri alvöru, sökkva vinnubrögð þeirra einna dýpst. Það má vera að hæstv. sjútvmrh. eigi eftir að taka til máls aftur. Hann hélt að vísu aðeins stutta ræðu í Ed., en ég hef tekið eftir því, að hann hefur skrifað hjá sér nokkrum sinnum í kvöld, svo að vera má, að hann sjái ástæðu til þess að ræða við þá þm., sem hér hafa borið fram hinar veigamestu röksemdir gegn þessu frv.

Mér þætti fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildi skýra frá því, hvort honum hafi persónulega ekki fundizt það erfið spor að verða að mæla fyrir slíku frv. Hæstv. ráðh. á langan feril í verkalýðssamtökunum, hann naut þar mikils álits, honum var sýndur mikill trúnaður, bæði í því félagi, sem hann var félagi í, og í Alþýðusambandi Íslands. Hæstv. ráðh. veit það mjög vel, að undirstaða verkalýðshreyfingar er frjáls samningsréttur. Með því að flytja frv., sem setur lögþvingun í staðinn fyrir frjálsan samningsrétt, er hæstv. ráðh. að vega að þeim samtökum, sem hann starfaði í og hafa lyft honum til þeirra metorða, sem hann gegnir nú. Ég held það hljóti að hafa verið erfið spor fyrir hæstv. ráðh., en ef til vill hafa þau orðið eilítið léttbærari áðan. þegar þau undarlegu tíðindi gerðust, að sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands sagði í þessum ræðustóli, að hann vildi ekki bregða fæti fyrir frv. um lögþvingun. Svona gerast margir undarlegir atburðir á þessum síðustu tímum.

Hæstv. ráðh. mætti einnig minnast þess, að hann hélt ræðu í des., þegar rætt var um frv. það, er skerti aflahlut sjómanna, og hann sagði þá sér til málsbóta að hæstv. ríkisstj. hefði ákveðið að losa samninga allra þeirra aðila, sem þar var fjallað um, svo að þeir hefðu samningsfrelsi til þess að geta náð rétti sínum á eftir. Sá ágreiningur, sem þannig var vakinn, hefur nú leitt til verkfalls í heilan mánuð, og eftir það kemur hæstv. ráðh. til þess að taka þennan samningsrétt af vissum hópi manna aftur.

Hér hefur verið á það bent, að kröfur sjómanna hafi verið ákaflega sanngjarnar. Mig langar til að kalla eitt vitni, sem um það hefur borið, það er hæstv. forsrh. Þegar þing kom saman á ný að loknu jólaleyfi, urðu nokkrar umr. utan dagskrár um atvinnuleysið, og þá komst hæstv. forsrh. svo að orði um sjómannadeiluna, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo virðist sem mun minna beri á milli en ef til vill hefði mátt vænta og sumir þm. sögðu fyrir hér um áramótin, eða fyrir áramótin að verða mundi. Þetta er vissulega ánægjulegt og sýnir, að almennari skilningur er á þeim örðugleikum, sem við er að etja, en sumir höfðu ætlað.“

Hæstv. forsrh. taldi sem sagt, að kröfur sjómanna sýndu, að lítið bæri á milli. Afstaða sjómanna væri ánægjuleg, hún sýndi skilning á erfiðleikunum. En hvernig stóð þá á því, að haldið var uppi vinnudeilu í heilan mánuð út af kröfum, sem þannig eru metnar af hæstv. forsrh.? Menn hafa talað um mistök í því sambandi, en ekkert slíkt hefur gerzt. Hæstv. ríkisstj. var allan tímann aðili að þessum samningum, beinn aðili, meðal annars gegnum ákvörðun um fiskverð, sem er óhjákvæmilegur þáttur í slíkri samningsgerð. Auðvitað var fiskverðið reiknað út, þegar gengislækkunin var ákveðin í nóv. í fyrra. Sérfræðingar ríkisstj. vissu þá hvað fiskverðið yrði, en það var ekki birt, það var notað í samningunum, og með því var ríkisstj. þátttakandi í allri samningsgerðinni. Ef ríkisstj. hefði í raun og veru haft þá skoðun á kröfum sjómanna, sem hæstv. forsrh. lýsti, þá hefði henni verið í lófa lagið að hafa þau áhrif á útvegsmenn, að þeir hefðu fallizt á þessar kröfur. Öll þjóðin veit, að útgerðarmenn eru háðir hæstv. ríkisstj. og bönkum hennar á margvíslegan hátt. Hæstv. ríkisstj. hefur oft sannað það, að hún á mjög auðvelt með að hafa áhrif á aðila í þjóðfélaginu með slíkum ráðum. Það hefði verið ákaflega auðvelt fyrir ríkisstj. að fá útgerðarmenn til að fallast á þessar kröfur, en ríkisstj. fór þveröfuga leið, hún stappaði stálinu í útgerðarmenn að neita þessum kröfum. Útgerðarmenn vissu, að þeir höfðu ríkisstj. að bakhjarli í þessari afstöðu sinni. Þetta kom aldrei greinilegar í ljós en í lok þessarar deilu, þegar hásetar samþykktu, en yfirmenn felldu. Þá fóru menn í verstöðvum víða um land, í Vestmannaeyjum og víðar, að athuga, hvort ekki væri hægt að semja þar á stöðunum um tiltölulega smávægileg atriði, sem talið var að þá bæri á milli. Í ljós kom, að þessir samningamöguleikar voru í Vestmannaeyjum og víðar, en þá gerast þau tíðindi, að Landssamband ísl. útgerðarmanna segir við aðildarfélög sín út um land: „Þið megið ekki semja“, og Landssambandið sagði meira: „Þið þurfið ekki að semja, vegna þess að það kemur lagasetning.“ Ef sú staðreynd hefði ekki legið fyrir þessa daga, að það væri von á lagasetningu, þá hefði verið samið, þá hefði verið búið að semja. Ástæðan til þess, að ekki var samið þá, var vitneskja útgerðarmanna um það, að ríkisstj. ætlaði að setja lög. Því er það einber hræsni, þegar hæstv. ríkisstj. kemur hér og þykist vera óháður aðili að þessari deilu og þykist vera að leysa einhvern vanda. Það er ríkisstj. sjálf, sem hefur búið þennan vanda til alla tíð og sérstaklega þennan lokavanda, sem nú á að leysa með þessari þvingunarlöggjöf.

Ég held, að menn verði að gera sér ljóst, að þessi deila er ekkert einangrað mál og áð það er mikill misskilningur, þegar menn ræða um mistök og ranga stefnu í því sambandi. Þessi deila er liður í allri stefnu ríkisstj. Undirrótin er gengislækkunin í fyrra. Menn verða að átta sig á því, hvað það var, sem ríkisstj. var að gera með gengislækkun sinni. Hún var að færa til fjármuni í þjóðfélaginu. Hún var að breyta eignaskiptingu, færa fé frá sparifjáreigendum til skuldara, en fyrst og fremst vakti það fyrir henni að breyta tekjuskiptingunni. Á síðasta ári voru heildarlaunatekjur í landinu 15–20 milljarðar kr. Ef engar vísitölubætur fást fyrir gengislækkunina, þá jafngildir hún 20% kaupskerðingu, þ.e.a.s. 3–4 milljörðum kr., sem á að færa frá launamönnum af öllu tagi til útgerðarmanna og atvinnurekenda af öllu tagi. Þetta er það, sem ríkisstj. tók sér fyrir hendur að gera með gengislækkun sinni í fyrra haust. Og hvernig fer ríkisstj. að því að framkvæma slíka skerðingu? Hvaða ráðstafanir hefur hún til þess? Þær þekkjum við frá mörgum öðrum löndum. Ráðstafanirnar eru þær að reyna að veikja svo aðstöðu verkalýðshreyfingarinnar, að hún geti ekki hrundið slíkri árás. Það eru tvö einkenni á ástandinu á Íslandi síðan þessi ráðstöfun var gerð. Önnur er atvinnuleysi, víðtækasta atvinnuleysi, sem um getur síðan á kreppuárunum fyrir stríð, og hitt er þessi langvinna sjómannadeila. Það er alveg augljóst mál, að ríkisstj. hefur dregið á langinn allar aðgerðir, sem nauðsynlegar eru til að draga úr atvinnuleysi. Hún hefur lofað framkvæmdum, og hún hefur dregið þær. Hún hefur viðurkennt, að hún þurfi að stórauka rekstrarfé til þess að koma atvinnuvegunum í gang, en það dróst viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að tryggja þetta rekstrarfé. Ríkisstj. hefur lofað að leggja fram 300 millj. til þess að efla atvinnuvegina, en jafnframt var sett upp kerfi, sem er svo seinvirkt, að þessir fjármunir munu ekki koma til útborgunar, fyrr en í næsta mánuði eða hver veit hvenær. Og hæstv. ríkisstj. hefur núna, löngu eftir að öllum var ljóst, að neyðarástand væri í húsnæðismálum, heitið að leggja fram 100 millj. sem bráðabirgðalán, um sömu mundir og sementskostnaður hækkar svo mjög, að það nemur um 60 millj. kr. á ári. Þessi stefna ríkisstj. hefur leitt til þess, að atvinnuleysið hefur haldið áfram að magnast, og hæstv. ríkisstj. veit ósköp vel, hvað í því kann að felast, að um næstu mánaðamót, 1. marz. kunna að vera í landinu mörg þús. atvinnuleysingja.

Einn af efnahagssérfræðingum hæstv. ríkisstj. minntist á það um daginn, að 3% atvinnuleysi væri ekki talið óeðlilegt ástand í ýmsum iðnþróuðum löndum. Hann bætti því að vísu við, að það væri ekki stefna ríkisstj. að hafa slíkt atvinnuleysi, en hann minnti á þessa staðreynd, og við vitum mjög vel, að það eru margir hálærðir hagfræðingar, sem segja að slíkt atvinnuleysi sé óhjákvæmilegt ástand, ef eigi að hafa hemil á verkalýðshreyfingunni. Ég er ekki í vafa um að það eru sterk öfl í núverandi ríkisstj., sem hugsa og framkvæma á þennan hátt. Og ég er ekki heldur í nokkrum vafa um það, að ástæðan til þess, að sjómannadeilan var dregin svona á langinn, þótt þannig væri til hennar stofnað, að kröfurnar væru það hófsamlegar, að hæstv. forsrh. hefur látið uppi sérstaka viðurkenningu hér á þingi, var sú, að hæstv. ríkisstj. telur það henta í átökum sínum við verkalýðssamtökin, að 1. marz verði aðeins liðin 1 vika eða 10 dagar frá því að langt og kostnaðarsamt verkfall hætti.

Ég held að þetta sé algjört undirstöðuatriði, ef menn vilja átta sig á þessum átökum í þjóðfélaginu. Hér er um að ræða samfellda stefnu, engar tilviljanir, engin mistök. Ríkisstj. er að reyna að framkvæma þá ákvörðun sína frá því í fyrrahaust að færa til mjög verulega fjármuni í þjóðfélaginu, frá launamönnum til eignastéttarinnar. Þess vegna er það fjarskalega raunalegt og til marks um mikla skammsýni, þegar framsóknarmenn og sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands virðast líta á þann hluta sjómannadeilunnar, sem eftir er, sem eitthvert einangrað fyrirbæri, en ekki hluta af almennri þróun, og segist ekki vilja bregða fæti fyrir aðgerðir ríkisstj. til þess að leysa þennan vanda. Það er einmitt þetta skilningsleysi, sem veldur því, að hæstv. ríkisstj. skrimtir enn, enda þótt hún sé fyrir löngu fallin á verkum sínum. Hún tórir vegna þess, að andstæðingar hennar eru of sundraðir, og gera sér ekki ljóst, hvert ríkisstj. er að fara. Ef launamenn á Íslandi kynnu að vinna saman á þann hátt, sem óhjákvæmilegt er nú, ef takast á að hrinda þessum stórfelldu árásum, sem ýmist eru komnar til framkvæmda eða fyrirhugaðar eru, mundu þessi ríkisstj. ekki starfa lengi eftir það.