17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú út af fyrir sig gleðilegt, að tveir hæstv. ráðh. hafa tekið hér þátt í þessum umr. og svarað hér nokkru þeim aths., sem hér hafa verið gerðar. Þó verð ég að kvarta undan því, að mér þykir, að þeir taki heldur léttilega á málinu í þessum ræðum sínum. Ég tók t.d. eftir því. að hæstv. forsrh. hann margendurtók það hér í sinni ræðu. að sér hefði í rauninni skilizt það, að það bæri hér í rauninni lítið á milli, það væri ekki hægt að sjá eða skilja annað, en þó hefði hann ekki getað gert sér neina fulla grein fyrir því á hverju hafði strandað. Ég verð nú að segja það, að mér finnst nú. að ríkisstj. sem heild og hæstv. forsrh. sýni nú með yfirlýsingum sem þessum, að hún hefur lítið lagt sig fram um það að fylgjast með þessu alvarlega máli, ef hún hefur ekki getað áttað sig á því, á hverju í rauninni strandaði í lokin.

Ég tel fyrir mitt leyti, að hvort tveggja, það, sem ég hef heyrt frá samningaaðilum, og það, sem var staðfest á jafnrækilegan hátt og í atkvgr.. sem fram fór í Vestmannaeyjum um nokkrar bætur yfirmönnum til handa umfram það, sem fram kom í miðlunartill. sáttasemjara, sýni það í raun og veru, að hér bar orðið ekki mikið á milli, til þess að hægt hefði verið að koma á samkomulagi, þó að hitt væri hins vegar ljóst, að þeir aðilar, sem ætluðu að sætta sig við slíka lausn, voru fjarri því að vera ánægðir með málalok. Ég held líka, að það sé mikill misskilningur, sem hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., þegar þeir túlka það svo, að hásetarnir á bátaflotanum hafi verið ánægðir með sinn hlut, sem út úr samkomulaginu kom. Ég held, að þeir séu mjög óánægðir. En hins vegar hafa þeir fallizt á það að gera samkomulag á þessum grundvelli, þar sem þeir sáu, að hér var við ríkisvaldið sjálft að glíma. Það fór ekkert á milli mála, að ríkisstj. stóð á bak við útvegsmenn, sem neituðu að verða við sanngjörnum kröfum, sem fram komu um launaleiðréttingu.

Þegar svo hæstv. forsrh. fór að telja upp þátt ríkisstj. í að leysa þessa deilu, þá blöskraði mér nú alveg. Hæstv. forsrh. sagði, að þáttur ríkisstj. í lausn deilunnar hefði verið fyrirkomulagið með matarpeningana, eins og hann orðaði það. Já, það er þá runnið frá ríkisstj. að leysa þetta með þeim hætti að taka hluta af fiskverði, sem hægt var og raunverulega átti að koma fram, leggja þennan hluta af fiskverðinu í sjóð og borga sjómönnum á þann hátt þennan hluta fæðiskostnaðarins, sem gert er ráð fyrir. Hvað er það þá, sem ríkisstj. hefur verið að gera í þessum efnum, fyrst þetta er nú hennar aðalframlag? Jú, framlagið hjá henni liggur þá í raun og veru í því að finna út ákveðið patent, ákveðin bellibrögð í málinu. Hún leggur ekkert fram. Ekki er hún að leggja fram nokkra fjármuni með því að leggja útflutningsgjald á sjávarafurðir, með því að lækka fiskverð og setja það í þennan sjóð. Nei, til þess var auðvitað ætlazt, að ríkisstj. reyndi að brúa bilið á milli deiluaðila, ef á þyrfti að halda. Það var hún, sem kom deilunni af stað, og það var hreint ekki óeðlilegt. að hún legði jafnvel fram nokkra fjármuni, ef á þyrfti að halda til þess að leysa deiluna. Í þessum efnum viðvíkjandi fæðiskostnaðarsjóðnum hefur ríkisstj. ekki lagt neitt fram. Ég verð að segja það, að mér sýnist enn málið líta þannig út, að ríkisstj. hafi hreinlega ekkert af mörkum látið til þess að vinna að lausn deilunnar. Ekki leggur hún neitt fram í sambandi við lífeyrissjóðsmálið. Þar á ekki að koma til nein greiðsla af neinna hálfu á öllu þessu ári. Síðan eiga að koma fram framlög í lífeyrissjóðinn jöfnum höndum frá sjómönnum sjálfum og frá útvegsmönnum í áföngum þar á eftir. En ég sé ekki, að ríkisstj. hafi í þeim efnum lagt nokkurn skapaðan hlut til. Þá lítur málið sem sagt þannig út í mínum augum, að ég finn það ekki, hvað það er, sem hefur komið beinlínis frá ríkisstj. í þágu lausnar á deilunni. Þeir tala talsvert um það, hæstv. ráðh., að með gengisbreytingunni frá því í nóvember og hliðarráðstöfunum, sem fylgdu henni. hafði verið lagður grundvöllur að rekstri sjávarútvegsins í landinu. Ja, hvað segja nú þeir, sem við þennan grundvöll eiga að búa, hvað segja þeir um þennan nýja grundvöll? Aðalsérfræðingar frystihúsamanna hafa nýlega sent frá sér grg. um málið. Þeir segja, að þessi nýi grundvöllur verði í engu atriði betri en sá grundvöllur, sem frystihúsin bjuggu við eftir gamla laginu. Þetta hafa samningamenn frystihúsanna nýlega sent frá sér í grg. í sambandi við ákvörðun á fiskverðinu. Þeir segja, að það eina, sem hafi gerzt í þessum efnum sé það, að gengisbreyting hafi komið í staðinn fyrir uppbótarkerfi, sem fyrir var, en að raunverulegur afkomugrundvöllur frystihúsanna sé sízt betri en áður var. Og framámenn í samtökum bátaútvegsmanna hafa lýst því yfir, að sá hlutur, sem bátaútvegurinn fær út úr hinum nýja grundvelli, sé þannig, að þeir eiga nú að fá samkv. nýju löggjöfinni ákveðið framlag, sem á að renna í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Þeir höfðu sams konar ákvæði eftir gamla fyrirkomulaginu eða svo að segja, og þeir eiga að fá sérstakt framlag, sem nemur 179 af fiskverði, sem á að standa á móti þeim hækkunarliðum á reksturskostnaði bátanna, sem leiða af gengislækkuninni. Útvegsmenn telja, að þetta muni mjög jafnast og að þeirra hagur sé í engu betri en hann var.

Nei, sannleikurinn er sá, eins og ég hef bent hér á áður í umr.. að gengislækkunin mikla, sem samþ. var í nóvembermánuði s.l. var ekki gerð fyrst og fremst til stuðnings við sjávarútveginn eða útflutningsframleiðsluna almennt. Það voru aðrir aðilar, sem fengu hagnaðinn af hinu nýja kerfi. Gagnvart sjávarútveginum, þá var hér fyrst og fremst um það að ræða, að það kom ný gengisskráning í staðinn fyrir ákveðið uppbótarkerfi, sem í gangi var á undan. Ég er líka ákaflega hræddur um það, að ríkisstj. eigi eftir að reka sig á það í þessu tilfelli, eins og í fyrri tilfellunum, að þegar menn, fara að vinna samkv. þessum grundvelli, munu umkvartanirnar koma fram, og hún mun standa frammi fyrir nýjum, hliðstæðum vandamálum á næsta hausti í efnahagsmálum, eins og á s.l. hausti. vegna þess. að það, sem hún hefur verið að gera í þessum efnum, hefur ekki verið raunhæft. Það er svo auðvitað hrein fjarstæða hjá ráðh., þegar þeir halda því hér fram, að það hafi ekki komið fram till. eða ábendingar hér frá öðrum um neinar aðrar leiðir út úr efnahagsvanda atvinnuveganna. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar hér á þingi höfðum gert grein fyrir okkar till., sem fóru í allt aðrar áttir en till. ríkisstj. og hefðu komið að miklu meira haldi. Ég skal ekki fara út í almennar umr. núna um það að þessu sinni. Það verður eflaust gert hér í hinum almennu umr. um efnahagsmálin, sem hæstv. forsrh. minntist hér á að mundu fara fram innan tíðar.

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér fulla grein fyrir því, að sú leið, sem hún ætlar sér nú að fara í þessum málum, er hættuleg leið. Hún er að reyna á þann hátt, sem þetta frv. stefnir að, að knýja hér sjómennina til þess að búa við kjör, sem eru óeðlileg. og hún stefnir að því að svipta yfirmennina á fiskibátaflotanum eðlilegum samningsrétti. Það liggur fyrir alveg óumdeilanlega að mínum dómi, og hefur komið fram skýrt í þessum umr. og reyndar staðfest hér af forsrh. sjálfum, að kröfur sjómanna í þessari deilu hafa ekki verið óeðlilegar. En hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir, að það hefur ekki verið komið til móts við óskir þeirra svo að segja að neinu leyti. Þær litlu bætur, sem sjómenn eiga að fá frá útgerðarmönnum upp í fæðiskostnaðinn eftir þessu sérstaka fyrirkomulagi, sem nú á að taka upp, eru ekki verulega miklar. Ég held því, að það eigi að liggja nokkuð ljóst fyrir, að það sé hér verið að vinna að því að setja lögþvingun á yfirmennina á fiskiskipaflotanum, sem hafa verið með sanngjarnar kröfur miðað við allar aðstæður og það sé verið að lögbinda það sjónarmið, sem fram kom hjá útvegsmönnum og hefur verið sjónarmið ríkisstj. allan tímann, en það er það að standa á móti öllum réttarbótum til handa sjómönnum. Þetta tel ég óeðlilegt og verulega hættulega leið. Ég skal svo ekki við þessa umr. orðlengja frekar um málið.