12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það má segja, að þetta frv. sem slíkt út af fyrir sig gefi ekki tilefni til mikilla umræðna. Hins vegar er þess að gæta, að þetta frv. er þáttur í efnahagsaðgerðum ríkisstj., sem hún hefur ýmist framkvæmt eða boðað. Þess vegna er ástæða til þess að ræða þetta mál allt í heild, og ég sé ástæðu til þess að rifja upp fáein atriði varðandi málið í þessari hv. d., enda þótt henni sé óhæfilega þröngur stakkur skorinn til þessara umræðna.

Það er sannast að segja eðlilegt, að það fari fram málefnalegar umræður, málefnalegar rökræður á Alþ., áður en mál sem þessi eru afgreidd. En sá háttur er raunar ekki á hafður lengur, því að hæstv. ríkisstj. hefur þann hátt á að fylgja máli sem þessu aðeins úr hlaði með örfáum orðum, og síðan anzar hún ekki þeim röksemdum, sem fram koma af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hún virðist lifa eftir þeirri reglu, að fæst orð hafi minnsta ábyrgð. Sannarlega hefðu ýmsir af hæstv. ráðh. betur fylgt þeirri reglu fyrr. Það mundi sannast, ef maður gæfi sér tíma til að rifja upp ýmis þau ummæli, sem þeir hafa áður látið falla um gengislækkun.

Því neitar enginn og um það er ekki deila, að í efnahagslífi og atvinnumálum er nú við hrikaleg vandræði að eiga. Ég held, að það megi segja, að þau vandamál séu fyrst og fremst þrenns konar eðlis. Það er í fyrsta lagi vandamál atvinnuveganna. Það er í öðru lagi vandamál varðandi gjaldeyrisstöðu landsins. Það er í þriðja lagi greiðsluhalli ríkissjóðs og fjárhagsleg vandræði ýmissa fjárfestingarsjóða. Öll þessi vandamál eru stór og erfið úrlausnar. Það er ekki deilt um það, að það sé þörf á ráðstöfunum nú. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessi atriði, það liggur ljóst fyrir og hefur komið fram í þessum umr. og hefur verið vitað áður og hefur glögglega komið fram í viðtölum stjórnmálaflokkanna, að vandamál atvinnuveganna eru mjög mikil. Landbúnaður hefur átt við ýmsa örðugleika að stríða að undanförnu, sem sumpart eiga rætur að rekja til erfiðs árferðis, og enn fremur til ófullnægjandi verðlagsákvörðunar að undanförnu. Þess vegna er svo komið, að landbúnaðurinn á að ýmsu leyti í vök að verjast, t.d. varðandi skuldamál. Um iðnaðinn hefur nokkuð verið rætt líka, og það er vitað mál, að iðnaðurinn hefur á margan hátt dregizt saman að undanförnu og mörg iðnaðarfyrirtæki eiga í miklum vandræðum og ekki sízt vegna rekstrarfjárskorts og svo og vegna sívaxandi samkeppni frá innfluttum vörum. En vandamál sjávarútvegsins eru þó langsamlega stærst. Um það er engum blöðum að fletta. Frá því hefur verið skýrt í þessum umræðum, að á þessu ári mundi stuðningur við sjávarútveginn væntanlega nema 700–800 millj. kr. Það hafa verið lagðar fram spár um það af sérfræðingum, að á næsta ári mundi þessi upphæð að öllu óbreyttu verða mörg hundruð milljónum króna hærri. Og það er reyndar kunnugt öllum hv. þm. af ýmsum staðreyndum, sem hvarvetna blasa við um landið, hvernig þessi atvinnuvegur er kominn. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ýmis þau fyrirtæki, sem eru aðaluppistaðan í atvinnulífi margra staða úti um landið, frystihúsin, eru sums staðar lokuð þegar, mjög víða í þann veginn að loka, vegna ýmiss konar fjárhagserfiðleika. Af þessum sökum er þegar á þessum stöðum byrjað atvinnuleysi, og á öðrum blasir það við á næsta leiti.

Varðandi stöðuna út á við er það einnig ljóst, eins og hér hefur reyndar verið rakið og var á drepið af hv. síðasta ræðumanni, að gjaldeyrisvarasjóðurinn margumtalaði er algerlega þrotinn, meira að segja á pappírnum. En lengi vel hefur hann í raun og veru aðeins verið til á pappírnum vegna þess, að á móti gjaldeyrissjóðnum, sem upp var færður, höfðu safnazt skuldir fyrirtækja í útlöndum, þannig að það er þó nokkuð síðan gjaldeyrissjóðurinn var í raun og veru úr sögunni. Og enn fremur er þess að gæta varðandi uppbyggingu þess sjóðs, sem kallaður hefur verið gjaldeyrisvarasjóður, að hann hefur að verulegu leyti verið byggður á lántökum erlendis, þannig að það er langt frá því, að hann hafi verið raunverulegur. Samt sem áður er það svo, að hvað sem um það má segja, er það staðreynd, að hann er algerlega úr sögunni nú. Og þá er það ekki síður alvarlegt, að það er ekki nóg með það, að ráðstöfunargjaldeyririnn sé þannig þrotinn, heldur hafa skuldir við útlönd stórkostlega aukizt, og það hefur verið sagt frá því hér, að heildarskuldir við útlönd muni nú nema nær 9 milljörðum króna, þ. e. á hinu gamla gengi, sem verður um 131/2 milljarður eða nálægt því á hinu nýja gengi. Á sama tíma hafa einmitt líka skuldir ríkissjóðs sjálfs hækkað og nema nú víst nær því 31/2 milljarði króna og hafa einmitt, eins og síðasti ræðumaður hv. drap hér á, vaxið á einu ári um það bil um 1500 millj. kr., eða frá 1900 millj. og upp í 3400 millj. Þessi skuldasöfnun er óskaplega ískyggileg, vægast sagt, og greiðslubyrðin af þessum erlendu skuldum er orðin geigvænleg. Og það dæmi, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan í því sambandi, er vissulega sláandi, þar sem hann benti á það, að greiðslubyrðin af þessum erlendu skuldum, þ.e.a.s. afborganir og vextir, mundi á einu ári nema framleiðslu hraðfrystihúsanna. Þetta eru svo mikil alvörumál, að ég hygg, að þeir séu margir, sem ekki gera sér þau ljós. Ég hygg, að þeir séu margir, sem gera sér ekki grein fyrir því, hvílíkir baggar hafa hér verið lagðir á framtíðina, og ég veit satt að segja ekki, hvernig þessi þjóð verður fær um það á næstu árum að standa undir þessari byrði.

Varðandi þriðja atriðið, sem ég nefndi, ríkissjóð og fjárfestingarlánasjóðina, þá hygg ég, að hæstv. fjmrh. hafi á sínum tíma gert grein fyrir því, að væntanlegur greiðsluhalli á ríkissjóði þetta ár mundi líklega nema 300–350 millj. kr. og því til viðbótar kemur svo það vandamál, að fjárfestingarlánasjóðir, sem hafa staðið undir ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum, og þar á meðal líka átt sinn þátt í því að halda uppi nauðsynlegri atvinnu, eru mjög fjárvana, þannig að það skortir fleiri hundruð millj. í þá, og hafa í því sambandi verið, ef ég man rétt, nefndar eitthvað 450 millj. kr. Þarna vantar mikið fjármagn.

Það er alveg augljóst af þessu, sem ég hef hér lauslega drepið á, að þau vandamál, sem við er að glíma í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar, eru mörg og stór. Það má sjálfsagt tala langt mál um það, hvaða orsakir liggi til þessara vandamála og sjálfsagt geta skoðanir manna verið skiptar um það. Ég efast ekki um, að það eru margar og margþættar ástæður, sem liggja til þess, að svo er komið. En ég hygg, að það séu þó fyrst og fremst fjórar höfuðorsakir til þess, að svo er komið, sem komið er. Og það er í fyrsta lagi innanlandsverðbólgan, sem er algerlega númer eitt í öllum þessum vanda, sem við er að glíma. Það er í öðru lagi óskynsamleg stefna stjórnarvalda gagnvart framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar. Sú óskynsamlega stefna hefur birzt í mörgum myndum. Meðal annars í því, að atvinnuvegunum hefur verið haldið í óhæfilegri lánsfjárkreppu og það hefur valdið mörgum fyrirtækjum alveg óumræðilegum vanda, enda þótt þau að öðru leyti hafi verið sæmilega efnahagslega á vegi stödd. Þau hefur algerlega skort rekstrarfé og laust fé til þess að koma sínum rekstri áfram með eðlilegum hætti.

Það er í þriðja lagi verðfall á útflutningsafurðum og það er í fjórða lagi minnkandi aflamagn. Við þessar tvær síðast töldu ástæður hefur ríkisstj. auðvitað ekki ráðið og við þær getur engin ríkisstj. ráðið og það er enginn, sem sakar ríkisstj. í því sambandi. En þó er það svo, að það er á fullkomnum misskilningi byggt, að þessar tvær ástæður, sem vissulega eru þungbærar og tilfinnanlegar miðað við það ástand, sem áður var, séu jafnmikils háttar og jafnmikill þáttur í þeim vanda, sem við er nú að glíma, eins og hæstv. ríkisstj. og hennar málgögn hafa viljað vera láta. Það verður ljóst, þegar það er athugað og krufið til mergjar, sem reyndar hefur verið drepið á í umr. hér í dag í hv. Nd., að upplýsingar um viðskiptakjörin sýna það, að þau eru í raun og veru miðað við þetta ár svipuð og á árunum 1962–1963. Þau eru ekki lakari en það. En þrátt fyrir það skal því á engan hátt neitað, að sé þjóðarbúskapurinn miðaður við þann topp, sem kom 1965, 1966, þá veldur þetta auðvitað vandræðum. En þá er þess líka að gæta, að verðfall átti sér að verulegu leyti stað á árinu 1967 og var þá fyrirsjánlegt, ýmist komið fram eða fyrirsjánlegt, þegar kosningarnar fóru fram 1967. Hins vegar má segja það, að aflamagnið á vissum veiðum hefur orðið minna heldur en menn þá gátu gert sér grein fyrir. En samt er það svo, eins og líka hefur verið bent á í þessum umr., að heildaraflamagnið, jafnvel á þessu ári, er fullkomlega sambærilegt við meðalár. En hvað sem um það er, þá er hitt þó allavega ljóst, að ef ríkisstj. hefði tekizt að standa við það fyrirheit, sem hún gaf á sínum tíma, að halda verðbólgunni í skefjum, þá hefði verðfall og aflabrestur á engan hátt orðið neitt viðlíka vandamál, eins og það hefur orðið nú, og þá mundi ekki vera við að glíma neitt svipuð vandamál þeim, sem nú er við að fást.

En það, sem ég tel hæstv. ríkisstj. alveg sérstaklega ámælisverða fyrir í sambandi við þessi mál, er að hafa ekki hafizt fyrr handa en raun ber vitni og gert raunhæfar ráðstafanir til þess að mæta þessum vandamálum fyrr en hún hefur gert, vegna þess að þessi vandi hefur í öllum meginatriðum legið lengi fyrir og verið fyrirsjáanlegur. Og vissulega hefði verið auðveldara á margan hátt að fást við hann, ef fyrr hefði verið snúizt við honum og viðeigandi ráðstafanir gerðar í tæka tíð. En þar hefur hæstv. ríkisstj. látið reka á reiðanum um of og trúað, að því er virðist, á happdrættisvinning, sem ekki hefur komið. Það er líka mjög aðfinnsluvert í sjálfu sér og mjög athugavert, hversu lengi það hefur verið augljóst, að hverju mundi draga í þessu efni og þarf ég ekki að fara um það mörgum orðum, vegna þess að það kom greinilega fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. En það má segja, að þegar frá því, að innflutningsgjaldið var á lagt, hafi almenningur í þessu landi reiknað með því, að þetta mundi enda með þeim ósköpum, sem nú er fram komið, að það mundi enda með gengislækkun og þess vegna hafa menn hagað sér í samræmi við það og það orðið undirrót óhæfilegs kaupæðis, óhæfilegrar gjaldeyriseyðslu og ýmiss konar óheppilegrar spákaupmennsku.

Ég ætla aðeins að víkja að því, hvernig Framsfl. hefði viljað snúast við þessum vanda. sem hér er við að glíma og sem vissulega er mikill, eins og ég hef tekið fram. Við höfum ekki haldið því fram, að þessi mál væri hægt að lækna eða lagfæra með einu pennastriki. Við höfum alltaf haldið því fram, að það þyrftu margar og margvíslegar ráðstafanir til að koma. Við höfum bent á ráðstafanir, sem hafa verið til þess fallnar að okkar dómi að minnka þann vanda, sem við er að glíma, og sem hafa verið til þess fallnar að gera þá kjararöskun, sem ég býst við, að sé óhjákvæmileg eins og komið er, sem allra minnsta. Við viðurkennum það sem sagt, að þær ráðstafanir, sem við höfum bent á í þessu sambandi, leysi ekki allan þennan vanda, sem við er að fást, og að til viðbótar þeim hefði þurft einhverja aðgerð. Ég segi það hreinlega, að það er mín skoðun, að eins og komið er, muni það vera erfitt að komast hjá því að leggja einhverjar byrðar á menn í einu eður öðru formi. En við höfum lagt áherzlu á, að það væru gerðar allar tiltækar ráðstafanir til að gera byrðarnar sem allra minnstar, og við höfum í öðru lagi lagt á það megináherzlu, að byrðunum væri skipt sem réttlátlegast niður. Á þessi almennu sjónarmið höfum við lagt áherzlu í þeim viðtölum, sem fram hafa farið á milli stjórnmálaflokkanna. Þau atriði, sem við höfum lagt megináherzlu á í þessu sambandi, eru fyrst og fremst þessi: Það er nauðsynin á því að bæta stöðu framleiðsluatvinnuveganna og koma þeim í rekstrarhæfan grundvöll. Það er í öðru lagi nauðsynin á því að tryggja fulla atvinnu, hvar sem er á landinu og það er í þriðja lagi nauðsynin á því að stuðla að atvinnuuppbyggingu í þeim landshlutum, sem dregizt hafa aftur úr að undanförnu.

Þessum markmiðum viljum við reyna að ná með því að gera vissar ráðstafanir, sem við teljum, að miði að eflingu atvinnuveganna og stuðli að atvinnuöryggi. Jafnframt höfum við bent á ráðstafanir, sem væru fallnar til þess að minnka fjárhagsvanda ríkissjóðs og bæta stöðu landsins út á við. Ég hygg, að flestar af þessum ráðstöfunum, sem ég ætla að nefna hér á eftir, hafi borið á góma í viðtölum stjórnmálaflokkanna, að við höfum þar minnzt á þær hugmyndir a.m.k. flestar hverjar.

Við höfum í fyrsta lagi lagt áherzlu á það, að það væri nauðsynlegt eins og nú væri komið að veita atvinnuvegunum, a.m.k. sumum, greiðslufrest á skuldum til bráðabirgða. Og við höfum lagt áherzlu á, að það þyrfti að breyta lausaskuldum atvinnuveganna í föst lán og það þyrfti jafnvel að framkvæma skuldaskil í vissum tilvikum. Til þess að greiða fyrir þessum aðgerðum, viljum við koma á fót sérstökum aðstoðarlánasjóði til styrktar atvinnuvegunum og jafnframt höfum við alltaf lagt áherzlu á, að það þyrfti að breyta lánapólitíkinni, það þyrfti að leysa rekstrarfjárvandamál atvinnuveganna og breyta að öðru leyti lánapólitíkinni, þannig að fyrirtækin væru ekki að því leyti til í öðru eins skrúfstykki eins og þau hafa verið að undanförnu. En það er alveg áreiðanlegt, að þessi aðgerð er höfuðnauðsyn, eins og nú stendur, og mér þótti það athyglisvert, að í þeim annars nokkuð afsleppu yfirlýsingum, sem hæstv. forsrh. gaf, þegar hann fylgdi þessu frv. úr hlaði, þá var ekki minnzt á breytingu lausaskulda í föst lán eða skuldaskil eða önnur þau atriði, sem ég drap á nú í þessu sambandi. Þau voru ekki talin á meðal þeirra aðgerða, sem væru til íhugunar hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessi mál.

Í öðru lagi höfum við bent á nauðsyn þess að lækka vexti af stofnlánum og rekstrarlánum atvinnuveganna. Við höfum í þriðja lagi bent á nauðsyn þess að lækka eða fella niður ýmsa sérskatta, sem á undanförnum árum hafa verið lagðir á atvinnuvegina og eru þeim þungbærir og þeir eru ekki eins og stendur færir til þess að standa undir. Það er að sjálfsögðu rétt að geta þess, að þessir skattar renna að talsverðu leyti aftur til atvinnuveganna í ýmsum myndum, en ég held, að eins og sakir standa séu atvinnuvegirnir ekki færir um að bera þessar álögur og að fyrirgreiðsla sú, sem þeir hafa notið úr þeim sjóðum, sem sérskattarnir renna til, verði til þeirra að koma með öðrum hætti og eftir öðrum leiðum. Þá höfum við og orðað og lagt áherzlu á, að reynt væri að lækka eða fella niður tolla af framleiðslutækjum, hráefni og rekstrarvörum. Við leggjum áherzlu á, að rekstrarlán til iðnaðar verði veitt með hliðstæðum hætti og til annarra atvinnugreina. En það er einmitt svo, að iðnaðurinn hefur, eins og ég drap á, búið við mikil rekstrarfjárvandamál að undanförnu og hann hefur af þeim sökum verið í talsverðri og reyndar mikilli kreppu. En hitt er öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa, að iðnaðurinn í þessu landi verður að vaxa. Það er höfuðnauðsyn vegna þess, að það hlýtur að verða höfuðhlutverk hans að taka við vaxandi fólksfjölda í landinu og skapa honum atvinnu og lífsskilyrði. Af sama toga er það spunnið, að við leggjum áherzlu á það, að innflutningur iðnaðarvara verði takmarkaður á þeim sviðum, þar sem vörur til sömu notkunar eru framleiddar í landinu sjálfu. Sá óhefti innflutningur á ýmsum vörum, sem átt hefur sér stað að undanförnu til þess að keppa við iðnaðinn, nær auðvitað engri átt. Og við höfum auðvitað engin efni á því að haga okkur á því sviði eins og við höfum gert að undanförnu. Þá leggjum við áherzlu á, að framleiðnisjóðir atvinnuveganna verði efldir, eins og t.d. framleiðnisjóður landbúnaðarins og framleiðnisjóðir annarra atvinnuvega. Áherzla hefur einnig verið lögð á það, eða ég vil leggja áherzlu á það sem þátt í þessum ráðstöfunum, sem nauðsynlegt hefði verið að gera, að iðnaðarfyrirtækjum, sem keppa við erlend fyrirtæki, sem bjóða greiðslufresti — en það mun nokkuð hafa tíðkazt að undanförnu — að þeim iðnaðarfyrirtækjum sé veitt alveg sérstök lánafyrirgreiðsla. Enn fremur til þess að stuðla að útflutningsiðnaði eða stuðla að útflutningi á iðnaðarvörum þá væri greitt fyrir Því með sérstöku lánakerfi. Það er náttúrlega alveg sérstök nauðsyn og alveg höfuðnauðsyn, ef það á að hugsa til þess að ganga í Fríverzlunarsamtökin, að með einhverjum slíkum hætti sé greitt fyrir þeim iðnaði, sem gæti komið til greina sem útflutningsframleiðsla.

Þá höfum við lagt áherzlu á það, að hið opinbera hefði forystu um ráðstafanir til uppbyggingar og eflingar atvinnulífinu, m.a. með því að láta gera framkvæmdaáætlanir fyrir einstaka landshluta, og það hefði um þá uppbyggingu og gerð þeirra áætlana samstarf við sveitarfélög og stéttarsamtök. Í því sambandi vil ég sérstaklega benda á, hvort ekki sé rétt og hægt að nota fé Atvinnuleysistryggingasjóðs í því skyni meira en gert hefur verið að undanförnu. En Átvinnuleysistryggingasjóðurinn er einn öflugasti sjóður, sem hér á landi er. Það er auðvitað dýrmætt, að þeir, sem atvinnuleysi verða að þola, geti átt rétt á bótum úr honum, en hitt er þó að mínum dómi miklu heppilegri pólitík að reyna að fyrirbyggja það, að atvinnuleysi eigi sér stað og nota fé sjóðsins einmitt í því skyni að byggja upp atvinnufyrirtæki á hinum ýmsu stöðum. Það er sjálfsagt að játa það, að ýmiss konar lánafyrirgreiðsla úr sjóðnum hefur á undanförnum árum verið veitt í þessu skyni, en þetta þyrfti að gerast í enn ríkara mæli að mínum dómi, heldur en átt hefur sér stað til þessa.

Þá er það svo, að við höfum lagt á það áherzlu, að tekin væri upp heildarstjórn á gjaldeyris- og innflutningsmálum, fyrst og fremst með hliðsjón af gjaldeyrisöflun á hverjum tíma og þörfum framleiðsluatvinnuveganna. Það er alveg auðsætt mál, að það verður ekki haldið svo fram á því sviði, sem gert hefur verið að undanförnu, og þar mun sannast, að neyðin kennir naktri konu að spinna. Hvað sem líður öllum yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. um, að hún sé andvíg höftum, þá skal það ásannast á næstunni, að hún verður að grípa til margvíslegra ráðstafana á sviði gjaldeyris- og innflutningsmála. Hjá því verður ekki komizt. En það er ekki sama, hvernig það er gert. Það er betra að taka upp heildarstjórn á þeim málum heldur en grípa til einhverra handahófsaðgerða í þeim efnum, þegar í algert óefni og öngþveiti er komið. Slík heildarstjórn þarf ekki að eiga neitt skylt við höft eða réttara sagt, leyfakerfi, heldur geta það verið almennar reglur, sem þarna geta að mjög miklu leyti komið til greina. Eins og vikið hefur verið að í þessum umr. áður af öðrum ræðumönnum, kæmi það vitaskuld mjög til greina að banna um sinn, og á meðan vandræðin eru, innflutning á tilteknum vörum, sem landsmenn geta hæglega komizt af án um skeið. Það væri t.d. alveg hægt að ósekju að banna innflutning á bifreiðum um eins eða tveggja ára skeið. Að vísu er mér ljóst, að það kemur til greina í sambandi við það vandamál ríkissjóðs, af því að þar er um hátollavörur að ræða. En það verður ekki á allt kosið í því sambandi og verður að laga sig eftir þeirri getu, sem er til staðar til innflutnings og eyðslu á gjaldeyri, því að það held ég, að öllum hljóti að vera ljóst, að það er ekkert vit í því að stofna framvegis og áfram til stórkostlegrar skuldasöfnunar erlendis. Greiðslubyrðin er orðin svo gífurleg af þeim skuldum, sem þegar hafa verið þar stofnaðar, að ég held, að það geti enginn séð fram úr því og sagt fyrir um það, hvernig þjóðin á að fara að því að standa undir þeim byrðum á næstu árum. Það er þess vegna fullkomið glæfraspil að halda þannig á málum, að haldið verði áfram að eyða og spenna gjaldeyri umfram getu og að það þurfi að taka áfram stórfelld gjaldeyrislán og eyðslulán.

Hitt er annað mál, að það getur verið réttlætanlegt að taka lán til framkvæmda, þó að það sé mín skoðun, aðeins og málum nú er komið, verði að fara mjög varlega í öllum erlendum lántökum. En jafnframt því, sem þyrfti að taka upp heildarstjórn á gjaldeyrismálunum, þá þyrfti auðvitað jafnframt, og það má ekki gleymast, því að það er auðvitað höfuðatriði í þessu sambandi, að leggja áherzlu á aukna gjaldeyrisöflun með fullnýtingu afurðanna, fullvinnslu afurðanna hér innanlands og með fullnýtingu framleiðslutækjanna, sem eru fyrir þegar í þessu landi, t.d. hjá ýmsum iðnaðarfyrirtækjum, fullnýtingu þeirra framleiðslutækja og þess vinnuafls, sem hér er fyrir hendi. En síðast en ekki sízt þyrfti að leggja margfalda áherzlu á bætt markaðskerfi og markaðsöflun og það er alveg áreiðanlega kominn tími til að taka skipulag sölumálanna á afurðunum til rækilegrar endurskoðunar. Og það er brýn nauðsyn á því að leggja stóraukna áherzlu á það að afla nýrra markaða. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að við höfum ekki sinnt þeim málum af nándar nærri nógu miklum áhuga. Við höfum verið allt of vanabundnir í þeim efnum og fastir í skorðum, sem við höfum alizt upp við, og ekki lagt inn á þær nýju leiðir, sem þarf að gera í þeim efnum. Þessi mál verður áreiðanlega að taka til rækilegrar skoðunar á næstunni, og ég vil nú vona, að þó að ég hafi takmarkað traust á þessari hæstv. ríkisstj., þá muni hún reyna að sinna þeim málum meir á næstunni en gert hefur verið og styðja að því, að það verði gert stórátak í þeim efnum, því að það er ekki nokkur vafi á því, að það getur orðið landinu til mikils gagns. Það þarf að fá nýja menn, unga menn, til þess beinlínis að leggja sig eftir þeim málum og það þarf í sambandi við utanríkisþjónustu okkar að skipuleggja hana miklu meira en gert hefur verið miðað við markaðsleitina og markaðsöflunina. Ég veit, að ýmsir þeir mætu menn, sem eru starfandi í utanríkisþjónustunni, hafa reynt að sinna þessum efnum, en þeir eru kannske sumir hverjir ekki þannig staðsettir, að þeir geti unnið að þeim eins og þyrfti að vera og í annan stað eru þeir, a.m.k. í fæstum tilfellum, nokkrir sérkunnáttumenn í viðskiptamálum, en það þyrftu einmilt að vera ungir menn með viðskiptafræði- og hagfræðimenntun og þekkingu á þeim vörum, sem við höfum að bjóða, sem legðu sig alveg sérstaklega eftir þessum málum á næstunni. Og ég er alveg sannfærður um það, að sá kostnaður, sem í þetta yrði lagður, mundi borga sig á stuttum tíma.

Þá leggjum við áherzlu á, að það verði tekin upp skipuleg fjárfestingarstjórn og áætlunarbúskapur. Ég vil enn fremur leggja áherzlu á það, að það sé látin fram fara rækileg endurskoðun á ýmissi þjónustustarfsemi við framleiðsluatvinnuvegina. Ég nefni í því sambandi t.d. tryggingarnar. Við vitum það vel, og við höfum kynnst því í þessari hv. d., að þau mál eru langt frá því að vera í því lagi, sem þau ættu að vera, og enn hefur ekki tekizt að kippa þeim málum í lag. Enn dregur Vátryggingarsjóður fiskiskipa á eftir sér stóran og vaxandi skuldahala. Það er áreiðanlega hægt að gera ráðstafanir í þeim efnum, sem gætu sparað þessum atvinnuvegum stórmikið fé og þannig er það á ýmsum öðrum sviðum, t.d. varðandi olíudreifinguna, olíusöluna og margt fleira.

Þá held ég, að ýmsar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs þurfi endurskoðunar við og þá með það sérstaklega fyrir augum, að ýmiss konar óþarfa eyðslu, sem svo má kalla, þó að það sé nú að vísu alltaf teygjanlegt, hvað kallað er óþarfa eyðsla, mætti skattleggja miklu meir en nú er gert. En lífsnauðsynjum fólksins ætti aftur á móti að hlífa eftir því, sem kostur er. Það er auðvitað nauðsyn í sambandi við alla skattheimtuna, eins og kunnugt er, að skatteftirlitið sé hert og að því sé fylgt eftir, að menn komist ekki upp með það að svíkja undan skatti. Það er vægast sagt andstyggilegt framferði og fordæmanlegt siðferði, sem býr því að baki, því að það leiðir til ranglætis, því að þá verða aðrir að borga skattana fyrir þá, sem svíkja undan. En því miður held ég, að það verði að horfast í augu við það, að þessi mál hafa ekki verið í því lagi, sem æskilegt er.

Þegar svo árar sem nú, er það auðvitað nauðsynlegt, að öll útþensla í rekstri ríkisins sé stöðvuð og þegar farið er fram á það að leggja byrðar á allan almenning í landinu, verður auðvitað ekki með nokkurri sanngirni komizt hjá því að lækka rekstrarútgjöld ríkisins.

Ég hygg, að vandamál fjárfestingarsjóðanna og fjárþörf þeirra verði eins og sakir standa að leysa að verulegu leyti með lánum og þá fyrst og fremst á þann veg, að bankakerfið verði að leggja fé til þeirra sjóða, en þó gæti verið réttlætanlegt eftir atvikum að leita einhverra erlendra lána til slíkra framkvæmda, sem þar gæti verið um að ræða.

Þegar þessar ráðstafanir, sem ég hef hér drepið á, hefðu verið gerðar, ætti að koma til athugunar og hefði átt að koma til athugunar, að okkar dómi, hverjar frekari ráðstafanir hefði þurft til þess að koma atvinnuvegunum á rekstrarhæfan grundvöll, rétta við hag ríkissjóðs og bæta viðskiptahallann út á við. Ég geri mér ekki vonir um það, eins og ég hef áður sagt, að þessar ráðstafanir hefðu leyst allan vandann í þessu efni, þess vegna hefði það komið til skoðunar, hvaða frekari aðgerð hefði þar þurft til. Og þá hefðu auðvitað getað komið til greina ýmsir valkostir eins og minnzt hefur verið áður á, gengisbreyting, uppbótarleið eða niðurfærsla. Ég skal, engan dóm á það leggja, hver þessara leiða hefði verið hagkvæmust, en ég hefði viljað velja leiðina út frá því sjónarmiði, sem ég drap á snemma í mínu máli, út frá því sjónarmiði, hver legði minnstar byrðar á og hver hefði minnsta kjararöskun í för með sér. En það vil ég taka skýrt fram, að það lá aldrei fyrir í þeim viðtölum, sem fóru fram á milli stjórnmálaflokkanna. Af hálfu sérfræðinga, sem unnu fyrir þá viðræðunefnd, var aldrei lögð fram nein greinargerð um þessar mismunandi leiðir og kom því ekki til álita þar að meta það, hverjar af þessum leiðum bæri helzt að velja.

Hæstv. ríkisstj. hefur valið gengislækkunarleiðina. Hún hefur valið þá gengislækkun, sem hér liggur nú fyrir, sem er stórkostleg gengislækkun, og það er, eins og minnzt hefur verið á, fjórða gengislækkunin, sem þessi hæstv. ríkisstj. stofnar til á sínum valdaferli. Þegar hún tók til starfa, var skráð gengi á Bandaríkjadollar 16.32 kr., en eftir þessa gengislækkun er verðið á honum 88 kr. Að sjálfsögðu er rétt að geta þess, að hið skráða gengi 1960, þegar stjórnin tók við, var ekki fullkomlega rétt vegna þess, að þá giltu sérstök yfirfærslugjöld, sem ég skal ekki segja, hversu miklu hafa numið, en það er augljóst mál, að þessi þróun eða þessar stökkbreytingar, sem átt hafa sér stað í gengismálunum á valdatíma þessarar stjórnar hafa verið mjög miklar, þar sem hinu skráða gengi var breytt 1960, þannig að dollarinn var þá færður úr 16.32 kr. upp í 38. 10 kr. og næsta ár var hann svo færður upp í 43.06 og í fyrra var hann svo færður upp í 57.07 og nú á hann svo að verða 88 kr. Það þarf hér ekki að fara að eyða orðum að því, hverjar verkanir gengislækkun hefur. Það vita allir, að hún er tilfærsla, að hún færir frá einum yfir til annars. Hún færir fyrst og fremst frá launamönnum og leggur byrðar á þá. Hér er að sjálfsögðu um geysilega kjararýrnun að ræða. Það blandast engum hugur um það. Það er talið, að þegar verkanir hennar allar eru komnar fram, þá muni hún valda hækkun víst upp á 15 eða jafnvel frá 15 og upp í 20 vísitölustig. Það er ekkert smáræði. Það er alveg auðvitað mál, að þessi stórkostlega gengislækkun hlýtur að koma af stað nýrri verðhækkunaröldu. Þá verðhækkunaröldu og þá kjararöskun, sem hún hefur í för með sér, er mönnum, öllum launþegum, hvort sem þeir hafa há laun eða litlar tekjur, ætlað að taka á sig án þess að nokkur kauphækkun komi til greina, þar sem það er boðað, að vísitalan verði bundin og gildandi kjarasamningar verði þannig í raun og veru felldir úr gildi. Það þarf nú ekki, held ég, mikinn spámann til þess að spá því, að vinnufriður muni ekki verða mikill hér á landi, eftir að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar. Það er ákaflega hætt við því, að þessi gengislækkun verði eins og fyrri gengislækkanir fljót að renna út í sandinn. Og það er nú líka svo í sambandi við þessar gengislækkanir, að gengislækkun er náttúrlega aldrei neitt bjargráð út af fyrir sig, gengislækkun er alltaf neyðarúrræði. Hún getur þó verið óhjákvæmilegt neyðarúrræði. Þannig getur staðið á. Hún er aldrei neitt einfalt mál. Hún er ekkert einfalt mál að þessu sinni heldur, vegna þess að þó að sé talað um það, að með henni sé fært svo og svo mikið til og þá fært til útflutningsatvinnuveganna, þá er þess að gæta, að þar kemur margt til greina, fyrst og fremst það, að kostnaðarhluti sjávarútvegsins er að svo verulegu leyti í erlendum gjaldeyri, að það er talið, að þeir kostnaðarliðir muni jafnvel nema upp undir 1/3 af öllum kostnaði hans. Og sjá menn þá í hendi, að hann getur ekki haft hag af gengislækkuninni að því leyti til. Í annan stað er það svo, eins og hæstv. forsrh. benti hér á, að að því er útgerðina varðar eru hásetar þar upp á hlut, og því næst ekki sá hagnaður útgerðinni til handa, sem til er ætlazt með þessari aðgerð, nema kjör hlutasjómanna séu með einhverjum hætti skert. Þá er það ekki lítið vandamál. að mörg af þessum fyrirtækjum, sem á að bjarga með gengislækkuninni, og þá sérstaklega útgerðin, skulda geysifé í erlendum gjaldeyri, og það er t. d. ekkert vafamál, að skuldir vegna skipa og báta hækka sennilega vegna þessara aðgerða nú um 350 millj. kr. Það er ekkert smáræði, sem greiðslubyrði þeirra eykst við það. Þetta eru vandamál, sem gengislækkunin skapar, og sannleikurinn er sá, að það hefur mikið til síns máls, að gengislækkun ein út af fyrir sig og óstudd af öðrum nauðsynlegum hliðarráðstöfunum, skapi kannske fleiri vandamál en hún leysir.

Ég held, að þegar litið er til reynslunnar og hvernig hefur farið um þær gengislækkanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur áður beitt sér fyrir, þá muni sú ályktun ekki fjarri, að þessi gengislækkun muni renna út í sandinn. Til hennar er stofnað með þeim hætti. Það er stofnað til hennar án alls samráðs við launþegasamtökin, eins og drepið var á af síðasta ræðumanni, og þess vegna hætt við því, að ófriður muni skapast á vinnumarkaðinum innan tíðar og kauphækkanir muni koma til greina, enda er það náttúrlega svo, eins og hann sagði, og það sér hver maður, að þeir, sem lægst laun hafa, þeir, sem hafa tekjur upp á 120–130 þús. á ári, eru ekki færir um að taka á sig neinar viðbótarbyrðar. Ég held, að þessar stéttir, sem þarna eiga mikið í húfi, hafi ekki nægilegt traust á hæstv. ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. hefur ekki til þessa gert þær hliðarráðstafanir, sem nauðsynlega ættu að fylgja gengislækkun og nauðsynlega þurfa að fylgja gengislækkun, og óákveðnar yfirlýsingar um visst hagræði í því sambandi duga ekki til. Ég held þess vegna, að það hefði verið nauðsyn að skapa breiðari grundvöll undir ríkisstj., og það hefði verið æskilegt, ef þess hefði verið nokkur kostur, að mynda stjórn allra flokka. Og það er mín skoðun, að sú stjórn hefði haft meiri möguleika til þess að koma þessum málum öllum á viðunandi grundvöll, af því að hún hefði haft mun viðtækara og meira traust heldur en núverandi stjórn hefur. En til þess að slíkt hefði getað átt sér stað, hefði núverandi ríkisstj. auðvitað þurft að segja af sér. Það hefði þurft að mynda nýja stjórn og síðan hefði sú nýja stjórn, stjórn allra flokka, þurft að taka upp viðræður við stéttasamtökin og reyna að leita samstarfs við þau og glæða skilning þeirra á þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlegar væru taldar og reyna að öðru leyti að koma til móts við þau og sýna þeirra viðhorfum fullan skilning. Þessi leið hefur því miður ekki verið farin, og ég óttast það, að það eigi eftir að verða þjóðinni dýrt, því að það er alveg augljóst mál, að ef þessi ráðstöfun mistekst með sama hætti eins og hinar fyrri sömu tegundar, þá verður það til þess, að vandamálin verða innan tíðar miklu óviðráðanlegri en þau hafa verið áður. Ég held þess vegna, að þessi gengislækkun, eins og til hennar er stofnað, sé fullkomið glæfraspil. Ég held, að það hefði þurft að eiga sér stað hér alger stefnubreyting í grundvallaratriðum, og ég harma það, að núverandi ríkisstj. skyldi ekki sýna skilning á því atriði, vegna þess að það liggur fyrir, og þýðir ekki að vera að stangast á við reynsluna og staðreyndir í því efni, hvert stefna hennar hefur leitt. Staðreyndirnar, sem við blasa nú, sýna það, þó að þar komi að vísu fleira til, eins og ég hef líka drepið á. Vegna þess hvernig til þessarar ráðstöfunar er stofnað, þá munum við ekki fylgja þessu frv.. sem hér liggur fyrir.