18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Frsm. 1. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Við erum þegnar í lýðræðislandi. og við viljum vera það. Því miður er nú þannig ástatt víða í heiminum, að menn hafa ekki frelsi til að gera verkföll, og jafnvel ekki frelsi til að tala. Ég hygg, að við viljum vernda lýðræðið umfram allt, og getum ekki hugsað okkur að lifa í einræðisríki. En ef við viljum vernda lýðræðið, megum við ekki misnota það. Þess vegna þurfa allar stéttir að kunna sér hóf. Það er ekki nema mannlegt og eðlilegt. að allir vilji vinna að sínum hagsmunum. Það er vafalaust svo, þegar á að skipta þeim tekjum, sem fyrir hendi eru, að fæstir þykjast hafa of mikið, og má raunar segja, að flestir þykist hafa of lítið, og það má vel vera. Það væri æskilegt, að heildartekjur þjóðarinnar væru meiri og flestum geti liðið sem bezt. Ég hygg, að við séum allir sammála um, að við vildum óska, að þannig væri, að allir gætu a.m.k. haft það miklar tekjur, að þeim gæti liðið sómasamlega.

En það mun ævinlega reynast dálítið erfitt að skipta þeim tekjum, sem þjóðfélögin hafa ráð á, og í lýðræðislöndum verða að sjálfsögðu alltaf einhver ágreiningsatriði viðvíkjandi því. Þetta verðum við að gera okkur ljóst. Þetta eru viðkvæm mál og vandmeðfarin. En þó verðum við að skilja það, að ef við ætlum að vernda þetta frelsi, sem við búum við hér, og sem betur fer er í nokkrum löndum öðrum, þá megum við ekki misnota það. Verkföllum hefur verið beitt oft hér á landi, og vafalaust ekki alltaf að ástæðulausu. Við vissum það, að kjör verkamanna voru mjög slæm og raunar allrar þjóðarinnar á 19. öld og raunar öld eftir öld. Þetta fer að smálagast eftir því, sem þjóðartekjurnar aukast. En ég er sannfærður um það, að oft var nauðsynlegt fyrir fólkið að gera verkföll, því að það voru svo léleg kjör. sem ýmsir bjuggu við. Hitt vitum við líka, að við þurfum að stilla þessum deilum í hóf til að stórskaða ekki þjóðfélagsheildina. Það er þannig með allt í veröldinni, að það þarf að kunna hóf á öllu, til þess að það verði ekki skaðlegt.

Það er þannig með ýmsar stéttir í okkar þjóðfélagi, að þær hafa ekki verkfallsrétt, nema þá að mjög takmörkuðu leyti. Bændur búa t.d. við kjaradóm, ef ekki semst. Opinberir starfsmenn búa einnig við það. Nokkrar stéttir hafa hins vegar verkfallsrétt, en hitt vitum við. að það er ekki hægt að reka þjóðfélag. ef fámennir hópar geta stöðvað alla atvinnu í landinu eða mjög þýðingarmiklar atvinnugreinar. Það eru takmörk fyrir því. Þess vegna er reynt að setja einhverjar reglur. reynt að koma á samningum og fara meðalveginn og ég hygg, það séu flestir, sem vilja reyna það. ef mögulegt er.

Þegar tveir deila, er það sjaldnast öðrum að kenna. Það er vafalaust, að í flestum tilfellum er hægt að kenna báðum um að einhverju leyti. Ég álít, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru fyrir jólin, hafi fyrst og fremst valdið því, að til verkfalls kom. Við vöruðum við því, framsóknarmennirnir og ég held Alþb.-menn líka, að með þessum 17% ákvæðum væri beinlínis verið að veifa þeirri dulu framan í sjómannastéttina, að hún væri nauðbeygð til að gera kröfur. Ég held, að ríkisstj. hefði átt að ræða við fulltrúa sjómannasamtakanna um þetta. áður en frv. nær langt fram, því að við vitum það, að menn líta dálítið öðruvísi á hlutina, ef rætt er um þá fyrirfram, en ef þeir frétta það á skotspónum eftir að búið er að leggja fram frv. og það stjfrv., sem yfirleitt má ganga út frá, að verði samþ. Þessi hlutaskipti á fiskvertíðum hafa verið lengi við lýði hér, og það var búið að fá talsvert mikla reynslu fyrir þeim. Þegar illa árar og fiskverð fellur, er ekki nema eðlilegt, að atvinnuvegurinn beri sig illa, en þetta var orðin áratuga reynsla með ekki mjög miklum breytingum, þannig að það var ekki nema eðlilegt, að sjómenn tækju því illa, ef um stórbreytingar var að ræða, einkum ef ekkert var við þá talað.

Ég hef það mikil kynni af sjómönnum, að ég veit. að þeir eru ekki eigingjarnari eða kröfuharðari en aðrir menn, því fer fjarri, og allra sízt hásetarnir. Þó hafa þeir ekki búið við betri kjör en aðrir í þjóðfélaginu. Ég held. að ríkisstj. hefði átt að ræða um þetta mál. Það má vel vera, að það hefði verið ómögulegt að ná samkomulagi fyrirfram, og ég get vel gengið út frá því. En það var þó betra að ræða þetta mál við viðkomandi aðila en að leggja það fram algerlega að þeim forspurðum. Og í öðru lagi var náttúrlega algerlega tilgangslaust að setja þessi 17% ákvæði inn í lagafrv. og breyta svo frv. þannig, að samningar voru lausir. Það var algerlega tilgangslaust, og var aðeins til þess að egna. Í fyrsta lagi var þeim leyft að fara í verkfall, sem er erfitt að banna, og þetta varð til að kveikja í þeim. Ég skal játa það, að það kom óbeint fram hjá hæstv. forsrh., að það varð að setja löggjöf um þetta. T.d. var alveg óhjákvæmilegt að setja einhverja löggjöf um það, að það væri tekið af heildarprósentunni til vaxta og afborgana af skipunum. Við vitum það, að útgerðarmenn og þau félög, sem ráku skipin árið 1967, voru hætt að borga vexti og afborganir af skipunum, menn gátu það ekki. Gengið var lækkað, því var haldið fram, að það væri nauðsynlegt vegna sjávarútvegsins. Ég ræddi um þetta mál, þegar frv. var hér til umr. Ég hélt því fram, að útgerðarmenn græddu ekkert á gengislækkun, það hljóta allir að gera sér það ljóst, að við sköpum engin raunhæf verðmæti með því að lækka gengið. Við fáum fleiri krónur, en við fáum líka þeim mun minni krónur. Má vera, að að nokkru leyti sé það rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. hélt fram hér áðan, að tilgangurinn hafi verið að færa fjármagn á milli aðilanna. Það er oft búið að reyna að lækka gengi í þeim tilgangi að færa fjármagn á milli aðila, en það hefur bara aldrei tekizt, og við þurfum ekki að ímynda okkur, að það takist enn. Það tekur sinn tíma, að skriðan komi á eftir. Að mínu áliti hefur gengislækkun aldrei verið hættulegri en nú. Gengislækkun hefur þau áhrif, að fólk hættir að halda sparlega á fjármunum sínum. Það eyðir meiru, reynir að verja því í eitthvað annað, sem það heldur, að rýrni ekki í verði, og svo þarf alltaf fleiri og fleiri kr. Þetta skapar verðbólgu og eyðslu, og það er ómögulegt að lækna þann rekstrarfjárskort, sem er í okkar landi, nema fólk geti treyst genginu. Það var því ekki við því að búast, að sjómenn tækju því vel, að gengið væri lækkað jafnmikið og gert var, og þar að auki var hlutaskiptunum gerbreytt með þessum ákvæðum. Ég hygg, að sjómenn hefðu tekið því af skilningi, þó að það hefðu verið tekin 10%, af óskiptum afla til þess að borga vexti og afborganir af skipum. Ég hef trú á því, að það hefði ekki kveikt í þeim neitt að ráði. En þegar 17% voru tekin í viðbót var ósköp eðlilegt, að þeir færu af stað. Það var í raun og veru algerlega útilokað annað.

Það má vel vera, og ég get í raun og veru fallizt á það. að kröfur þeirra hafi ekki verið óhóflegar. miðað við þessar breytingar, sem gerðar voru á skipareglunum. þó að þeir færu fram á, að fæði þeirra væri greitt. Svo kom krafan um lífeyrissjóð. Það má vel vera, að það séu margir, sem ekki eru mér sammála um þessa lífeyrissjóði, en ég held. að þetta sé að fara út í hreina vitleysu hjá okkur. Það eru sumir með þrjá lífeyrissjóði. Í raun og veru er ellitrygging ekkert annað en ,lífeyrissjóður. þó að það heiti ekki því nafni. Það er styrkur handa mönnum. þegar þeir hætta að geta unnið fyrir sér. Ég held, að þetta eigi að vera einn sjóður, en ekki að sumir aðilar hafi rétt til að hafa þetta í mörgu lagi. við höfum sérstakan lífeyrissjóð fyrir þm. og opinbera starfsmenn og svo hafa þeir ellilaun líka miða ellitryggingarnar við efnahag þjóðarinnar. Ef við höfum ráð á að hafa tryggingarnar. þá er ekkert nema gott um það að segja. en það eru takmörk fyrir því. Ég lít svo á að a þessir samningar , eins og þeir liggja nú fyrir, séu báðum aðilum e.t.v. óhagkvæmari en ef hlutaskiptin hefðu fengið að vera óbreytt. Ef svo hefði verið hef ég enga trú á, að sjómenn hefðu farið af stað með nein verkföll, menn þurfa að lifa. áður en þeir fara að njóta lífeyrissjóðs. Hann á raunar ekki að koma til framkvæmda í ár. en gert er ráð fyrir. að hann komi til framkvæmda á næsta ári. Annars hafa þessir samningar ekki verið kynntir það ítarlega fyrir okkur. að við höfum fengið að kynnast þeim mikið, þar til þetta frv. var lagt fram. Við fáum enga háseta, ef þeir fá ekki það góð laun, að þeir geti lifað, og þá þurfa þeir að fá 4% hærra kaup til þess að geta lagt í lífeyrissjóð. Útgerðin þarf að borga sín 6%, þannig að í raun og veru er þar komin 10% hækkun. Við vitum, að sjómenn hafa ekki haft hærra kaup en það, að þeir hafa aðeins getað lifað á því hvað trygginguna snertir. Þeir hafa haft hlut á beztu bátunum og þegar vel aflast, þá hafa þeir haft talsverðar tekjur, en lágmarkskröfur þeirra hafa ekki verið meiri en það, að þeir hafa aðeins getað lifað. Ég held því, að þarna hafi verið unnið miður heppilegt verk að hleypa allri þessari skriðu af stað.

Hitt er okkur ljóst nú, og það er sjómönnum ekki síður ljóst en öðrum, að verkfallið verður að leysa. Ég ætla að taka það fram, að ég ætla ekkert að vera að smjaðra sérstaklega fyrir þeim aðilum, sem ég býst við. að eigi hér einhverja fulltrúa á pöllunum. Ég geri það aldrei, þótt ég tali. Ég segi mína meiningu alveg án tillits til þess, hverjir hlusta á það. Okkur er það algerlega ljóst, að verkfallið verður að leysa. Það er ekki um það að tala í sjálfu sér. hvað snertir lausn þessa máls. hvort klaufalega hefur verið á málum haldið eða ekki. Við getum deilt um það og haft skiptar skoðanir, en verkfallið verður að leysa. Við vitum, að það er farið að ganga með betlistaf til annarra landa til þess að reyna að fá bráðabirgðalán til að fleyta okkur áfram. Við vitum, að það er að byrja sá tími ársins, sem getur gefið sjómönnum og útgerðarmönnum einhverjar verulegar tekjur umfram það, sem fer í beinan rekstur. Þess vegna er óhjákvæmilegt, og sjómenn vita það betur en allir aðrir, að koma flotanum af stað. Annars kæmist hver einasti útgerðarmaður í vandræði, og það væri heldur ekki hægt fyrir sjómennina. Við vitum það líka, að sjómenn hafa ekki á neinu að lifa. Þeir hafa verið í verkfalli í mánuð. Þeir hafa ekki fengið neina atvinnubótastyrki. Það kom til mín sjómaður í gær. Hann átti ekki nokkurn einasta eyri, og ætli það séu ekki nokkuð margir, sem eiga lítið í buddunni? Það er þannig alltaf, þegar menn deila, að öðrum aðilanum þykir erfitt að láta undan. Í þessu tilfelli álít ég, að annar aðilinn láti ekki eingöngu undan. Það er farin miðlunarleið. Hversu mikið hefur borið á milli, skal ég ekki fullyrða. Ég hef spurzt fyrir um það hjá samninganefndum annars aðilans, og þeir telja, að það hafi verið um mörg atriði að ræða, og einn þeirra sagði mér. að það hefði verið vonlaust að brúa bilið. Ég satt að segja hef nú enga trú á því, að það hefði ekki verið hægt að brúa, en það hefði vafalaust tekið fáeina daga, og ég hygg. að sá dráttur hefði skaðað þá meira en þeir e.t.v. hefðu haft upp úr því að draga þá samninga. Annað er það, að ég sé ekki annað en verkfallið sé meira og minna að renna út í sandinn, þó að samningum hefði verið haldið áfram. Það er vitað mál, að ýmsir vélstjórar og yfirmenn á skipum hefðu þegar farið af stað, og eru þegar farnir, ef ekki hefði verið samið. Fyrir vélstjórana sjálfa hefði það verið mjög óhentug lausn, ef samtökin hefðu bara leystst upp að einhverju leyti, þannig að málið er komið í algert öngþveiti.

Afstaða okkar framsóknarmanna er því þannig. að við álítum, að það hafi ekki verið rétt á málum haldið. Við álítum, að það hefði verið hægt að komast hjá öllum verkföllum og vafalaust hefði verið hægt að semja, ef rótt hefði verið á hlutunum haldið. Þó er dálítið erfitt fyrir þá menn, sem hafa staðið utan við þessa samninga, að fullyrða um slíka hluti. En ég hef þó ekki trú á öðru en það hefði verið hægt. Það verður að leysa þetta mál, því viljum við framsóknarmenn ekki spilla, þrátt fyrir það, að við teljum, að stjórnin eigi í raun og veru sök á því, að þetta verkfall fór nokkurn tíma af stað. Við getum tafið þetta mál, en við getum ekki ráðið úrslitum í því. Við hefðum getað tafið það með eilífu málþófi kannske 2–3 daga, en er nokkuð unnið við það fyrir nokkurn aðila? Ég hef alltaf verið frekar andvígur málþófi. Það má vel vera, að það væri hægt að gera það mikið verkfall, að við gætum komið stjórninni frá, en ég álít, að í lýðræðislandi megum við ekki beita þeim vinnubrögðum. Þeir aðilar geta átt eftir að komast í minni hl., sem nú stjórna og þannig megum við búast við, að það verði í lýðræðislandi. Stjórnir koma og fara. Við verðum að nota þær leikreglur, sem eru drengilegar og heiðarlegar og geta gengið í lýðræðislandi, en ekki nein ofbeldisverk. En að koma stjórn frá, jafnvel það að menn séu henni ekki sammála og vilji gjarna skipta um stjórn, með verkfalli er ekki rétta leiðin. Við verðum að fara þá leið, að þjóðin velji sér aðra stjórn með atkvæðamagni. Ef við gerum það ekki, er okkar lýðræði í voða statt. Ég játa það, og það játa stjórnarliðar líka, að þetta er alger neyðarráðstöfun í sjálfu sér, og er leiðinlegt. að til þessara örþrifaráða þurfi að grípa. En eins og málum er komið, er vægast sagt dálítið erfitt að komast hjá því.

Annað atriði kemur þarna líka til greina. Ég veit það. gegnum samtöl mín við sjómenn, sem eru búnir að semja, að þeir yrðu mjög óánægðir, ef það yrði samið á allt annan hátt við yfirmenn skipanna. Ég get ekki tekið undir það. sem kom hér fram hjá einum ágætum ræðumanni áðan, að hásetarnir geti fengið betri kjör en yfirmenn á skipum. Ég efast um, að það komi fyrir og ef það kemur fyrir er það mjög fágætt, enda á það ekki svo að vera. Ég hef gert út í 10 ár, og mér hefur alltaf fundizt hásetarnir bera sízt of mikið úr býtum. Kjör þeirra eru þannig. að þeir hafa t.d. ekki nema 7 daga kauptryggingu. ef eitthvað kemur fyrir er þeim ekki borgað nema í 7 daga. Yfirmennirnir hafa 3 mánuði á fullu kaupi. Vélamenn hafa þau hlunnindi fram yfir hásetana, að þeir hafa alltaf vinnu, ef skipið er í landi. Ég er ekki að segja. að þeir vinni ekki fyrir sínu kaupi. en þeir hafa vinnu við að taka upp vélarnar og vinna ýmislegt viðvíkjandi skipinu og hafa hærra kaup en verkamenn. Ég veit að þeirra starf er ábyrgðarmikið. og þeir eiga góð laun skilið. En ég hygg þó, að þeirra kjör séu ekki sambærileg við kjör háseta, bæði hvað aukafríðindi snertir og eins kaupupphæð. Annar vélamaður hefur 11/4 hásetahlut og 1. vélamaður 11/2 og þar að auki hafa þeir dálítið fast kaup. Auk þess þau fríðindi, sem ég er búinn að tala um, þriggja mánaða kauptryggingu, ef eitthvað kemur fyrir, og uppsagnarfresturinn er 3 mánuðir hjá þeim. Sama er að segja um stýrimenn og skipstjóra. Ég álít, að af sínu litla kaupi hafi hásetar engin efni á að greiða í lífeyrissjóði, við vitum, að allir þurfa að lifa. Ef einhver gæti tekið á sig einhverja kjaraskerðingu af þeim, sem vinna við þessa báta, þá eru það þó frekar yfirmennirnir en undirmennirnir.

Ég var á móti gengislækkun. Ég vildi, að við legðum alla okkar krafta fram til að ná greiðslujöfnuði. Ef við hefðum getað það, áttum við einhvern veginn að geta jafnað þær tekjur, sem við höfðum til að deila úr, án þess að fella gengið. Það má vel vera, að það sé rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. hélt fram, að stjórnin ætti að færa 3–4 milljarða á milli aðila. En það verður ekki. Við þurfum ekki að ímynda okkur, að það sé hægt að neita því að borga hærra kaup, þegar allar vörur hækka. Ég satt að segja hef enga trú á, að hækkunin verði ekki meiri en 20%. Það verður ekki meira en 20%, áður en hækkunin kemur á landbúnaðarvörur, en þegar öll skriðan er komin á eftir, sem óhjákvæmilega kemur og alltaf hefur komið, þá er hækkunin mikið meiri en þetta. Hún mun alveg éta upp þessa gengisfellingu. Þannig hefur reynslan líka ævinlega verið. Það er sjúkdómseinkenni að vera alltaf að fella gengi. Þjóðin gerði sér það ljóst, að hún varð að neita sér um ýmislegt, sem hún gat veitt sér undanfarin ár, og hún hefði verið fúsari til þess. ef gengið hefði verið hreint til verks, henni sagður alveg sannleikurinn, því að sannleikurinn er sá, að við gerum of mikið af því að smjaðra fyrir kjósendunum, skrökva að þeim, lofa þeim meiru en við getum efnt. Ég álít, að við hefðum átt að stefna að þessu marki að ná greiðslujöfnuði, og rekstur útgerðarinnar áttum við að laga með því að lækka allan þann reksturskostnað. sem við mögulega gátum, áður en við hreyfðum við að lækka kaupið hjá sjómönnunum.

Ég taldi upp 25 gjaldaliði, sem hvíldu á útgerðinni, ekki alla stóra og engan veginn alla óþarfa fyrir útgerðina, en suma, sem hægt var að létta af henni. Nú bætast tveir við, lífeyrissjóður og fæði. Ég get tekið undir með hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, að þessi matarsjóður er skopleg uppfinning. Þarna er búinn til einn skatturinn enn, og hann kannske með þeim allra vitlausustu. Ég sé ekki, hvað er unnið við þetta að fara að búa til sjóð til að borga hluta af fæðinu í staðinn fyrir að láta útgerðina hafa fleiri prósentur, og svo borgaði hún þessar upphæðir til háseta sinna. Það er ekkert nema skrípaleikur og fyrirhöfn, eins og þessi hv. þm. kom inn á að einhverju leyti, að þeir borgi, sem ekki njóta neins góðs af þessu, og auk þess þurfa þeir að borga, sem mikið afla, fyrir hina, sem lítið fiska. Áframhald af þessu verður meira og minna svindl með þennan sjóð. Menn fara að reyna að telja fæðisdaga hásetanna fleiri en þeir eru, eins og alltaf er með allar skýrslugerðir, ef hægt er að koma því við. Þetta verður hreinn skrípaleikur. Þarna er verið að finna upp hlut. sem hægt er að gera miklu einfaldari. Svo mun þessi skriða halda áfram. Ég efast ekkert um, að það verður allt fæðið næst. Má vera, að það sé ekkert verra. Það er ósköp eðlilegt, að sjómennirnir vilji hafa eitthvað í staðinn fyrir það, sem tekið er af þeim. Það er ekkert óeðlilegt, að þeir vilji fá eitthvað í staðinn. En þá var hægt að gera þetta miklu einfaldara. Heilbrigðara hefði verið að hafa það þannig, að útgerðarmenn fengju fleiri krónur fyrir fiskinn og borguðu svo fæðið hver fyrir sig, annaðhvort einhvern hluta af því eða allt saman.

Útgerðarmenn hafa kostað alla vinnu við matreiðsluna og kaup kokksins, en ekki efnið í fæðuna. Ég hygg, að það hafi dálítið gert það að verkum, að útgerðarmenn eru tregir að taka að sér fæðið, að þeir halda, að það verði meira vanþakklæti og e.t.v. meira vafstur í kringum það.

Þetta má allt deila um. Við álítum framsóknarmenn, að hjá þessu verkfalli hefði verið hægt að komast, það hefði átt að fara aðrar leiðir til að leysa efnahagsvandann, en þrátt fyrir það er komið í óefni, og við sjáum, að þetta verður að leysa. Við viljum ekki tefja fyrir að málið leysist og þess vegna sitjum við hjá við þessa atkvgr., þrátt fyrir að við lítum þannig á, að það hefði verið hægt að komast hjá þessu og æskilegra hefði verið að leysa það á annan hátt. Ég hef bent á þessi aðalatriði, og það eru þau, sem valda því, að við hefjum ekki margra daga baráttu út af þessu máli. Við álítum, að eins og málum er komið, þá muni það ekki svara kostnaði.

Viðvíkjandi því, að hér hafi fólk miklu lakari kjör en í öðrum löndum, þá er dálítið vafasamt að fullyrða það. Ég efast ekkert um, að nú rétt eftir gengislækkunina hafi sjómenn í nágrannalöndum hærra kaup miðað við gengið, eins og það er í dag, en við vitum líka ósköp vel, að það mun breytast, því að kaupið á eftir að hækka eftir þessa gengisbreytingu. Yfirleitt hefur það verið þannig, ég veit það a.m.k. á ensku togurunum, að undirmennirnir hafa mjög lágt kaup, aftur hafa yfirmennirnir hátt kaup, og sannleikurinn er sá, að jöfnuður á kaupi hefur verið meiri hér á landi en í mörgum öðrum löndum. Vafalaust má deila endalaust um þetta, en við höfum takmarkað til skiptanna og þegar menn eru að tala um þjóðartekjur og tekjur á einstakling, þá er ýmislegt annað, sem getur komið til greina, m.a. hvað kostar að afla þessara tekna. Það er hlutur, sem er dýr hjá okkur. Hann er einna ódýrastur í iðnaði, en bæði í fiskveiðum og landbúnaði þarf mjög mikið rekstrarfé til þess að geta aflað þessara tekna. Það er ekki nóg að þessar brúttótölur séu svo og svo háar og gangi frá manni til manns, það þarf að athuga, hvað kostar að afla þessara tekna. Og þannig er það í sjávarútveginum. Það vantar ekki að við höfum háar tölur, en þær eru undarlega fljótar að étast upp. Það væri í raun og veru ekkert óeðlilegt, þó að þeir, sem hafa ekki fengizt við að gera upp af skipum, furði sig á, þegar þeir heyra þessar brúttótölur nefndar, en hafa ekki sett sig inn í kostnaðarliðina, að skipin geti ekki borið sig. Sannleikurinn er sá, að fjárhagur okkar í dag er alls ekki eingöngu kaupgjaldinu að kenna. Það, sem hefur sett okkur, að nokkru leyti a.m.k., í þessa fjárhagsörðugleika er óskynsamleg fjárfesting. En það er ekki til neins að tala um það í sambandi við þetta verkfall. Það er komið sem komið er, og þennan hlut þarf að leysa. Það er ómögulegt, þannig að allir verði ánægðir, en ég efast um, að héðan af sé önnur leið færari en þessi.