18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Við I. umr. gat ég þess, að almennu verkalýðsfélögin væru nú að undirbúa aðgerðir sínar til þess að ná samningum að nýju um verðtryggingu launa. Ég tók þá fram, að við vonuðumst að sjálfsögðu til þess, að það tækist, án þess að til verkfallsátaka þyrfti að koma, en ef svo færi nú mót von okkar, að verkfallsvopninu þyrfti að beita, þá spurði ég. hver væri staða þeirra sjómannasamtaka, sem nú væri verið að binda með þessum lögum, — hver væri staða þeirra til þess að taka þátt í með öðrum verkalýðsfélögum að ná samningum um vísitölugreiðslur með verkfalli, ef á þyrfti að halda. Hæstv. sjútvmrh. svaraði því til, að þeir hefðu ekki þann verkfallsrétt. Hæstv. forsrh. tók þetta nokkuð öðrum tökum, taldi að þeir mundu hafa sama rétt og þeir hásetar, undirmenn, sem þegar hefðu samið. En þá liggur nú beint við að spyrja, hvort litið sé svo á, að undirmenn hafi nú samið á þann veg, að þeir geri ekki ráð fyrir því, að vísitala komi á þeirra kaup, nema því aðeins að einhverjir aðrir verði til þess að ná því fram og þeir geti síðan fengið það sjálfkrafa á eftir. Ég vil minna á það, að í fyrravetur, fyrir 11 mánuðum, var gerður sérstakur samningur varðandi verðtryggingu launa, eftir að þau ákvæði höfðu verið numin úr lögum með gengisfellingunni í nóv. 1967. Þetta var sérstakur samningur, sem sjómannasamtökin, eins og önnur verkalýðsfélög, stóðu að. Ég hygg, að það séu ekki mörg verkalýðsfélög, sem hafa fellt þetta samkomulag inn í sína samninga. Ég er alveg viss um, að þetta hefur ekki verið inni í almennum samningum, t.d. samningum Sjómannafélags Reykjavíkur eða annarra slíkra félaga, sem nú voru endurnýjaðir. Hér var um alveg sérstakan samning að ræða. Vegna mjög óljósra svara, sem eru gefin við þessu, tel ég, að það sé býsna þýðingarmikið að fá að vita, hvort hér er raunverulega um það að ræða, að með þessu frv., ef að lögum verður, séu þessi verkalýðsfélög, sem við ræðum nú, svipt verkfallsréttinum einnig hvað þessa sérstöku samninga snertir, sem ég tel óháða þeim samningum, sem hér er verið að lögfesta. Í þessu sambandi væri fróðlegt að vita a.m.k. fyrir mig og ég hygg, að fleiri teldu svo vera, hvað hv. 10. þm. Reykv., ritari Sjómannafélags Reykjavíkur, segir um þetta efni. Er það skoðun hans og er það skoðun forustumanna Sjómannafélags Reykjavíkur, að t.d. það félag og önnur, sem nú sömdu, hafi bundið svo hendur sínar með þessum samningum, að þau geti ekki beitt samtökum sínum til að fá fram verðtryggingu á kaup á ný? Ég mundi nú gjarnan óska eftir, að þessu yrði svarað á heldur gleggri hátt en hingað til hefur verið gert.