18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessar umr. mikið með langri ræðu, en vissulega væri ástæða til þess að ræða ýmsa þætti, sem snerta sjávarútveginn og þróun í íslenzkum sjávarútvegi á undanförnum misserum. Það væri t.d. ástæða til þess og dálítið freistandi að ræða um þá möguleika, sem menn eygja nú helzta í sambandi við sjávarútveginn og sem mundu auðvelda sjávarútveginum að komast hjá stórátökum eins og þeim, sem nú er sennilega að ljúka. Hér á ég einkum við þá auknu möguleika, sem menn hafa komið auga á nú upp á síðkastið, sérstaklega í sambandi við frystihúsin og fiskiðnaðinn. Það mætti kannske segja það með fullum rétti, að í raun og veru væri eina stóriðjan, sem Íslendingar gætu sjálfir komið á. einmitt í fiskiðnaðinum. Þar höfum við hráefnið, þar höfum við kunnáttuna og þó nokkra reynslu, og það er ástæða til að búast við auknum markaði á þessu sviði. Það væri raunar ástæða til þess að ríkisstj. hefði forustu um að setja upp „prógramm“, sem væri fólgið í því að endurskipuleggja hraðfrystihúsin og hraðfrystiiðnaðinn í landinu, með tilliti til þess að hefja stóraukna fiskvinnslu á því sviði og miða alveg sérstaklega að því að auka í stórum mæli neytendapakkningaframleiðslu með það fyrir augum að hagnýta mjög svo vaxandi markaði í Bandaríkjunum. Það væri einnig freistandi í raun og veru í sambandi við þetta mál að ræða almennt um efnahagsmálin. En hvort tveggja er, að það hefur verið um það samið, að hindra ekki svo mjög fljóta afgreiðslu þessa máls og svo hitt, að fyrir dyrum standa umr. um atvinnumál og þá væntanlega efnahagsmál í því sambandi.

Auðvitað er margt, sem snertir almennt þetta mál eins og t.d. yfirlýsingar, sem ríkisstj. hefur gefið í sambandi við efnahagsráðstafanirnar, sem gerðar voru á s.l. hausti. Á ég þar sérstaklega við ræðu, sem hæstv. sjútvmrh. flutti á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna í desembermánuði s.l. Án þess að ég vilji gera þá ræðu að umræðuefni, nema að mjög litlu leyti, þá er ástæða til þess að ætla, að við slíkt tækifæri tali hæstv. sjútvmrh. fyrir munn ríkisstj., þegar hann mætir með undirbúna ræðu hjá samtökum eins og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Á einum stað í þessari ræðu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þeim lagafrv., sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþ. um öruggari rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs, er gerð tilraun til að tryggja sem mesta atvinnu. Takist þetta ekki, mun verða nauðsynlegt að efna til nýrra alþingiskosninga og láta á það reyna, hvort fyrir hendi er með þjóðinni þingræðislegur meiri hl. fyrir þeirri stefnu, sem haldið hefur verið, eða nýrri stefnu, sem enn liggur ekki ljós fyrir. Um þessi atriði munu næstu vikur og mánuðir skera úr. Núv. ríkisstj. hefur lagt fram sínar till., svo sem henni bar skylda til. Eftir er að sjá þær í raunhæfri framkvæmd.“

Það, sem við höfum verið áhorfendur að undanfarnar vikur, er fyrsti áfanginn í raunhæfri framkvæmd þeirrar víðtæku till. og lagasetningar, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir á s.l. hausti. Við höfum séð vaxandi atvinnuleysi í landinu, sem að vísu nú upp á síðkastið á m.a. rót sína að rekja til sjómannaverkfallsins, en ég er þó sannfærður um, að það muni koma á daginn, þegar sjómannaverkfallið hefur verið leyst, að um verður að ræða sums staðar á landinu verulegt atvinnuleysi og e.t.v. vaxandi. Við höfum enn fremur horft á mjög alvarlega vinnudeilu, sjómannaverkfallið, sem sennilega er nú að ljúka. Þó er það svo, að sums staðar á landinu er ólokið samningum t.d. við háseta, eins og t.d. á Austfjörðum. í Keflavík og e.t.v. víðar. Það er t.d. deilt um eitt atriði, sem mér er kunnugt um, að ekki hefur náðst samkomulag um, og það er það, að hásetar krefjast sérþóknunar fyrir aðgerð um borð í skipunum. Þó er sennilegra, að deilan muni leysast með lögfestingu þessa frv., sem hér er til umr.

Ef litið er yfir helztu drættina af því, sem skeð hefur á undanförnum vikum og mánuðum, þá má minna á það, að á s.l. hausti efndi ríkisstj. til viðræðna allra stjórnmálaflokka um efnahagsmálin. Margir töldu þá, að samstarf á breiðari grundvelli en nú er væri hugsanlegt. Vissulega hefði þá verið þörf á víðtækari samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum, en í stað þess völdu stjórnarflokkarnir hina gamalreyndu viðreisnarstefnu, og vildu með engu móti breyta til, þrátt fyrir reynslu liðinna ára. Það var ástæða til að óttast bæði atvinnuleysi og stórátök um kaup og kjör, þegar hér var komið sögu. Því miður hefur hvort tveggja skeð, að verulegt atvinnuleysi hefur ríkt um allt land og, eins og ég sagði áður, virðist það fara vaxandi. Enn fremur hefur staðið yfir verkfall sjómanna um mánaðarskeið, og enginn veit nú, hvað kann að gerast um næstu mánaðamót eða á næstu vikum.

Við erum margir þeirrar skoðunar, að þráseta ríkisstj. eigi mikinn þátt í því upplausnarástandi, sem er að skapast með þjóðinni. Hún virðist ekki vera þess umkomin að veita málefnum þjóðarinnar þá forustu, sem nauðsyn ber til. Hins vegar heldur ríkisstj. um völdin jötungripi. þótt ekki verði sagt það sama um tök hennar á efnahags- og atvinnumálum.

Sjómannadeilunni var vísað til sáttasemjara eða sáttameðferðar snemma í janúar, en það var ekki fyrr en 12. febr. sem sáttasemjari treysti sér til að leggja fram miðlunartill. Þetta varpar í raun og veru nokkru ljósi á þá sjálfheldu, sem sjávarútvegurinn virðist vera kominn í. Það hefur hallað undan fæti hjá sjávarútveginum, og það er ekki eingöngu um að kenna versnandi afla og lækkandi verði. Það er einnig um að kenna forustuleysi ríkisstj. og fyrirhyggjuleysi, sérstaklega að því er varðar þann þátt sjávarútvegsins, sem menn byggja nú mestar vonir á, þ.e.a.s. hraðfrystiiðnaðinn og bolfiskveiðarnar. Efnahagsráðstafanir ríkisstj. ásamt almennri stefnu í efnahags- og atvinnumálum eiga raunar mikinn þátt í því. hvernig komið er. En nú standa menn frammi fyrir ákveðnum gerðum hlutum. og þjóðin býr nú raunverulega við neyðarástand. Það er rétt. Ríkisstj. hefur gripið til þess að fórna minni hagsmunum fyrir meiri hagsmuni. Í raun og veru beitir hún neyðarrétti gegn afleiðingum sinnar eigin stefnu. Með hliðsjón af því hve alvarlegt ástandið er teljum við framsóknarmenn rétt að leggja ekki stein í götu þessa frv. Vitanlega verður frv. samþ. Það er vitað mál. En við viljum jafnframt undirstrika andstöðu okkar við efnahagsmálastefnu ríkisstj. með því að láta hana bera allan ábyrgð á meðferð málsins frá upphafi til enda.

Eins og ég sagði áður. vil ég ekki við þetta tækifæri ræða ýtarlegar um ýmsa þætti, sem snerta þó málið mjög. Það er ekki tími né tækifæri til þess, en ég vonast til þess, að umr. um atvinnumál og efnahagsmál verði látnar fara fram fyrr en síðar.