12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Tómas Árnason:

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt, tók núv. ríkisstj. við völdum í landinu seinni hluta árs 1959 og skömmu síðar, eða 19. febr. 1960, framkvæmdi hún sína fyrstu gengislækkun. Var hún afgreidd með lögum frá Alþingi þann dag. Áður hafði gengi íslenzkrar krónu gagnvart Bandaríkjadollar numið 16.32 kr. og var nú lækkað niður í 38 kr. Eins og tekið hefur verið fram af öðrum hv. ræðumanni, er þess þó að geta, að þá var í gildi allvíðtækt uppbótarfyrirkomulag, sem auðvitað þýddi það, að raunverulegt gengi krónunnar, 16.32 kr., gagnvart Bandaríkjadollar var ekki alls kostar rétt. Þetta er skylt að taka fram. Þann 1. ágúst 1961 setti ríkisstj. brbl., sem ákváðu, að vald Alþingis til að ákveða gengi krónunnar væri tekið af því og afhent Seðlabankanum. Þetta var í sjálfu sér e.t.v. ekkert óeðlileg ráðstöfun með hliðsjón af því, hvernig þessum málum er komið fyrir hjá mörgum öðrum þjóðum, en hún var óvenjuleg að því leyti til, að hún skyldi gerð með brbl., án þess að Alþingi fengi tækifæri til þess að fjalla um það mál á annan hátt en þann að standa frammi fyrir gerðum hlut.

Nokkrum dögum síðar, eða 4. ágúst 1961, lét svo ríkisstj. Seðlabankann ákveða lækkun á gengi íslenzkrar krónu, sem svaraði til rúmlega 13% hækkunar á söluverði erlends gjaldeyris, en lækkunin varð rúmlega 11% frá því gengi, sem var í gildi. Hið nýja stofngengi gagnvart dollar var þá ákveðið 43 kr. Var það önnur gengislækkun núv. ríkisstj.

Þriðja gengislækkunin var svo gerð, eins og kunnugt er, í nóvembermánuði 1967, og var þá gengi íslenzku krónunnar gagnvart dollar lækkað um 24.6%, og stofngengið var þá ákveðið 57 kr. Var þetta þriðja gengislækkun núv. stjórnarflokka.

Og nú er hér til umr. frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, sem ríkisstj. hefur auðvitað beitt sér fyrir. Þessi þróun í gengismálum þjóðarinnar á undanförnum árum frá 16.32 kr. upp í 38 kr., síðan upp í 43 kr., upp í 57 kr. og nú síðast upp í 88.10 kr., segir auðvitað sína sögu um það, sem verið hefur að gerast í íslenzkum efnahagsmálum á undanförnum árum. En það var í upphafi höfuðmarkmið viðreisnarstjórnarinnar að stöðva verðbólguna. Á gamlaárskvöld 1960 sagði forsrh. þáverandi í ávarpi til þjóðarinnar, að framundan væri tímabil stöðugs verðlags og um áramótin 1962 og 1963 sagði hann: „Takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.“

Hvernig hefur þetta grundvallaratriði viðreisnarstefnunnar gengið til? Um það talar sagan í gengismálunum skýrast. Við í Framsfl. höfum haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnarstefnuna frá upphafi. Við höfum talið, að ríkisstj. hafi ekki stjórnað. Hún hafi látið undir höfuð leggjast að stjórna, og það er bjargföst sannfæring okkar, að núverandi stjórnarstefna henti ekki íslenzkum aðstæðum og íslenzku atvinnulífi. Ef litið er á þetta 9 ára tímabil og athugað um aflabrögð og árferði mætti segja, að tímabilið til ársins 1966 hafi verið frábærlega hagstætt. Síðan hefur aftur, eins og kunnugt er, sigið á ógæfuhlið og þjóðfélagið hefur orðið fyrir áföllum vegna verðfalls á útflutningsafurðum, minnkandi aflabragða og að sumu leyti erfiðs árferðis. Um þetta vil ég ekki deila. En þess er þó að geta í þessu sambandi, að árin 1965 og 1966 voru sérstæð að því leyti til, að þá var einstæður afli og alveg ágætt viðskiptaárferði gagnvart útlöndum.

En þetta er ekkert nýtt í íslenzku efnahagslífi. Auðvitað hafa orðið stórar sveiflur til eða frá. Það er ekkert nýtt og síður en svo, að Íslendingar verði að búa við margs konar sveiflur í sambandi við árferði, aflabrögð og viðskiptakjör gagnvart útlöndum. Áróður stjórnmálaflokkanna hefur verið með ýmsum hætti í þessu sambandi. Ég man t. d. vel eftir því, að Morgunblaðið hefur oft skrifað um stjórnina frá 1934–1937 og talið hana mikla eymdar- og kreppustjórn. En ég man aldrei eftir því, að Morgunblaðið hafi minnzt á það, þegar það skrifar um þá stjórn, að þá var heimskreppa, og þá var verð á útflutningsafurðum þjóðarinnar gífurlega lágt, eins og kunnugt er, og aflaleysi með eindæmum meira og minna um landið. Þess vegna verður auðvitað ríkisstj. að sætta sig við það, að hún sé minnt á það, þegar stórfelldar ráðstafanir eru gerðar í efnahagsmálum, eins og nú er, að árferði undanfarinna ára yfirleitt, aflabrögð og viðskiptakjör hafa verið góð, þó að þau hafi verið misjafnlega góð á þessu tímabili. En þegar litið er til þess, hve sérstaklega árin 1965 og 1966 voru Íslendingum hagstæð, þá undrast menn það, hvernig á því standi, að atvinnuvegir þjóðarinnar skuli eftir svo mikið samfellt góðæristímabil ekki vera betur undir það búnir, en raun ber vitni að mæta þeim erfiðleikum, sem að steðja. Um þetta hefur verið rætt fram og til baka, og við höfum lagt á það áherzlu, að ein af ástæðunum fyrir hinum miklu erfiðleikum sé röng stjórnarstefna.

Þegar Alþ. kom saman haustið 1967 þá var öllum ljóst, að staða atvinnuveganna var mjög tvísýn og versnandi. Stöðvun útgerðarinnar og fiskvinnslustöðva blasti þá við, bændur horfðu þá fram á versnandi kjör og sama má segja um iðnaðinn. Það mætti orða það svo, að þá hafi brostið hin svo kallaða verðstöðvun, sem ríkisstj. kom á yfir kosningarnar vorið 1967. Það varð að afla mikilla viðbótartekna, ekki minna en 750–800 millj. kr., til að koma í veg fyrir stórkostlegan halla á ríkissjóði, til þess m. a. að greiða verðstöðvunina. Og ekkert af þeirri tekjuöflun fór til atvinnuveganna, flóðgarðurinn brast, verðstöðvunin var raunverulega aldrei annað en stífla. Hún var í raun og veru svipuð því, ef reynt væri að stífla á. Það hlýtur að koma að því, að stíflugarðurinn brestur. Stuttu síðar kom svo gengislækkunin, eins og allir muna, um 25%. Lagaákvæði um verðtryggingu launa voru felld úr gildi, þrátt fyrir aðvaranir launþegasamtakanna og stjórnarandstöðu. Eftir áramótin, eða fyrst á þessu ári, var ljóst, að vandi atvinnuveganna var óleystur, þrátt fyrir gengislækkunina í nóv. á s.l. ári. Útgerðarmennirnir vildu ekki hefja róðra, nema þeir fengju hærra verð fyrir fiskinn, og fiskvinnslustöðvarnar vildu ekki taka til starfa, nema þær fengju fiskinn á lægra verði. Ríkisstj. hét atvinnuvegunum nýrri aðstoð, sem kostaði 3–4 hundruð millj. kr. Ég hygg, að það sé einsdæmi í íslenzkum efnahagsmálum, að það hafi þurft að grípa til svo stórkostlegra aðgerða við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar svo stuttu eftir, að gengislækkun hefur verið framkvæmd. Og menn spurðu strax eftir þessar ráðstafanir. Hvenær kemur næsta gengisfelling? Það var svo snemma á þessu ári, sem menn voru almennt farnir að spyrja hver annan, hvenær kemur næsta gengislækkun? Og það er enginn vafi á því, að hræðsla manna við nýja gengislækkun fór að gera vart við sig snemma á þessu ári og hefur vaxið, eftir því sem tíminn hefur liðið.

Þegar fjárl. voru afgreidd á síðasta þ. þá hét ríkisstj. því að skila aftur 250 millj. kr. af tolltekjuauka ríkissjóðs, til að draga úr kjaraskerðingaráhrifum gengisfallsins. Þetta urðu aldrei nema um 150 millj. í framkvæmdinni. En á þinginu í fyrravetur, eftir áramótin, komu í ljós ýmis fleiri vandkvæði í sambandi við efnahagsmál og fjármál. Það kom t.d. í ljós, að fjármál vegasjóðs voru komin í algjört þrot. Skuldir vegna vegaframkvæmda voru orðnar 3–400 millj. kr. Nýbyggingar vega á þessu ári voru ákveðnar 57 millj., samkvæmt vegamálaáætlun, en afborganir og vextir af lánum, sem þegar hafa verið tekin til vegaframkvæmda, nema um 60 millj. kr. á þessu ári. Og þá greip ríkisstj. til þess ráðs að leggja á stórfelldar álögur á umferðina, m.a. hækkun á benzínskatti og fleira. Enginn vafi er á því, að þessar ráðstafanir, sem áttu að gefa 109 millj. króna tekjur á þessu ári, en um 160 millj. kr. á heilu ári, hafa farið talsvert út í verðlagið almennt.

Rétt fyrir páskana kom nýr vanskilahafi upp úr kafinu. Það var nær því 100 millj. kr. halli á Vátryggingarsjóði fiskiskipa á árinu 1967 og mundi verða að óbreyttu yfir 100 millj. á þessu ári. Ríkisstj. greip þá til þess ráðs að hækka útflutningsgjald á saltsíld, sem mun nema um 42 millj. kr. Um 50–60 millj. kr. komu úr gengishagnaðarsjóði frá því seinasta gengislækkun var gerð. Um 60–70 millj. ætlaði ríkisstjórnin að ýta á undan sér. Það er engin launung á því, að skuldahali hins opinbera hefur farið vaxandi, og má nefna í því sambandi t.d. sjúkrahúsbyggingar, skólabyggingar, hafnarframkvæmdir, vegamál, félagsheimili o.m.fl. Nema þessar skuldir nú mörgum hundruðum millj. króna. En eitt er víst, að einhverjir þurfa einhvern tíma að greiða þessar skuldir.

Ég hef rakið þessa sögu til þess að leggja áherzlu á það, að ráðstafanir ríkisstj. síðasta ár hafa einkennzt í raun og veru af varnarráðstöfunum, sem flestar hafa komið of seint til og fengið of litlu áorkað. Ef þróunin í gjaldeyrismálum þjóðarinnar er athuguð, hefur hún verið hrikaleg á undanförnum mánuðum. Það er enginn vafi á því, að ríkisstj. hefur gripið alltof seint í taumana í þessum efnum. Gífurleg gjaldeyriseyðsla og óþarfur innflutningur hafa mjög aukið á þessa óheillaþróun, og nú eru gjaldeyrisskuldir þjóðarinnar taldar um 9 milljarðar kr. Um síðustu áramót var notað lánsfé fastra lána 6 1/2 milljarður, en ónotað lánsfé en umsamið um 1.3 milljarður, eða samtals tæplega 8 milljarðar. Lausaskuldir erlendar nema nú ca. 800900 milljónum kr., þannig að samtals nema skuldir Íandsins út á við nær 9 milljörðum króna. Greiðslubyrðin er nú ca. 15% af útflutningstekjum, sem lætur nærri að séu um 9 milljarðar. Greiðslubyrðin hefur verið áætluð fyrir árið 1969 um 1350 millj. kr., og mun verða á hinu nýja gengi um 2 milljarðar. Auðvitað er fyllsta ástæða til þess að vara við svo gífurlegri skuldasöfnun við útlönd. Ég er nú ekki svo fróður, að ég viti, hvað talið er vera eðlilegt í þessum efnum, en ég er sannfærður um það, að við teflum talsvert tæpt eins og nú er komið.

Halli á greiðslu við útlönd getur stafað af ýmsu. Hann getur m. a. stafað af því, að þjóðin notar of mikið til neyzlu og fjárfestingar og að orsakanna sé að leita af innlendum rótum, m.a. af óstjórn, — stjórnleysi, heildareftirspurn innanlands verði meiri en eðlilegt er, og við þetta myndist meiri eftirspurn eftir erlendri vöru og þjónustu, heldur en það, sem hægt er að kaupa fyrir útflutning þjóðarinnar og greiðslur frá útlöndum fyrir þjónustu. Svona þróun er auðvitað óæskileg og hættuleg. Henni er hægt að mæta með gjaldeyrisvarasjóði, eins og gert hefur verið, og með lántökum. Gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem safnaðist á góðu árunum, er nú uppurinn, eins og upplýst hefur verið, og risaskuldir hafa hlaðizt upp. Þess er auðvitað skylt að geta, að ýmis nytsöm tæki og búnaður hafa, sem betur fer, verið keypt til landsins á þessu tímabili, en skuldasúpan, 9 milljarðar króna, er óhuganlega mikil. Í sambandi við gengislækkunina, sem nú hefur verið gerð, vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum, að menn óttast, að hún beri ekki tilætlaðan árangur. Ástæðan fyrir því, að menn óttast það, er sú reynsla, sem menn hafa hafi af gengislækkunum núverandi ríkisstj., en þessi gengislækkun er byggð á sama grundvelli og aðrar þær gengislækkanir, sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa staðið fyrir. Við óttumst, og teljum okkur hafa fulla ástæðu til þess, að með óbreyttri stefnu í efnahagsmálum að öðru leyti, renni þessi gengislækkun út í sandinn, eins og hinar fyrri. Ef á að meta ríkisstjórnina og störf hennar, mætti kannske segja, að bezti mælikvarðinn á stjórnarstefnuna væri sá, að þrátt fyrir meðalárferði, bæði hvað snertir viðskiptakjör og aflabrögð, er gífurlegur glundroði í efnahagslífi þjóðarinnar. Það hefur verið kvartað yfir því, að það sé erfitt að stjórna í góðæri. Það getur þurft að rifa seglin eða sigla með varúð í góðum byr. Það er kannske að sumu leyti dálítið erfitt að stjórna í góðæri, ef menn sleppa öllum skynsamlegum tökum. En ég hygg, að það sé nú ekki fært fyrir ríkisstjórn að kvarta undan góðærinu. Það hefur komið fram, t.d. í dag, að það er beinlínis kvartað undan góðæri, það sé ómögulegt að stjórna í góðæri, góðærið hafi sett allt úr skorðum. Þetta er nú að sumu leyti dálítið broslegt.

Ég hygg, að stjórnin hafi glatað því trausti, sem henni tókst að halda í seinustu kosningum. Henni tókst að halda nægilegu trausti í seinustu kosningum. Hún fékk meiri hl., eins og kunnugt er. En ég er sannfærður um það, að þegar við í Framsfl. vorum ásakaðir fyrir að vera bölsýnismenn í kosningunum, fyrir það að vera hrunstefnumenn, fyrir það að vera með barlómsvæl o.s.frv., þá álít ég, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi með sínum áróðri verið að blekkja þjóðina að því leyti til, að þeir hafi komið þjóðinni til þess að trúa því, að ástand efnahagsmálanna væri í raun og veru miklu hagstæðara og traustara og betra heldur en raun var á. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að þó að ríkisstjórnin hafi fengið meiri hl. í seinustu kosningum og þar með sitt traust, hafi hún nú glatað því trausti. Ég er raunar sannfærður um það, að ef hún gengi nú til kosninga, mundi hún ekki halda meiri hl. sínum. Það hafa raunverulega fáir trú á því, að ríkisstjórninni takist að gera það, sem gera þarf nú í íslenzkum efnahagsmálum. Þessar stórfelldu ráðstafanir ríkisstj. reisa vafalaust öldur meðal launþega í landinu, og það er allt á huldu um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og engin trygging er fyrir vinnufriði. Sennilegt er, að þessar ráðstafanir renni út í sandinn eins og fyrri ráðstafanir ríkisstj., af því að þær eru reistar á sama grunni og áður. Reynslan bendir ótvírætt til þess. Það hefur verið reiknað út, að ríkisstjórnin hafi hækkað verð á erlendum gjaldeyri um 441,3%, síðan hún tók við völdum. Er ekki nóg komið? Ég hygg, að það verði margir, sem telji, að nóg sé komið af svo góðu og vilji, að ríkisstjórnin fari frá völdum og reynt verði að ná breiðara samstarfi um traustari efnahagsráðstafanir heldur en hér er stofnað til. Og þess vegna held ég, að það sé ríkisstj. fyrir beztu og þjóðinni fyrir beztu, að hún fari frá völdum sem allra fyrst.