12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Fyrir 8 árum síðan kostaði dollarinn 16.26 ísl. kr., en á morgun kemur hann til með að kosta 88.10 kr., eða hann hefur hækkað í verði, þessi erlendi gjaldeyrir, í tíð núverandi stjórnar um 442%. Þá var viðreisnin hin svo nefnda að hefja innreið sína hér á landi. Ný stefna er mörkuð, sögðu stjórnarherrarnir, um leið og þeir tóku við völdum í landinu. Þetta voru fyrstu orðin í þeirri nýju biblíu, sem þeir voru að semja á þeim árum og sendu inn á hvert heimili í landinu. Þá átti að framkvæma algera kerfisbyltingu í efnahagslífi þjóðarinnar samhliða víðtækum ráðstöfunum í félagsmálum, skattamálum og viðskiptamálum. Þá var því lofað að skapa traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar en nokkurn tíma hafði áður þekkzt. Bótakerfið átti að afnema. Það hefur samt sem áður verið sú hækjan, sem reist hefur verið við viðreisnina og ráðh., þegar hvort tveggja hefur riðað til falls, sem skeður nú ótt og títt, ekki sízt upp á síðkastið. Það kemur fyrir þótt árað hafi allvel, eins og á þessu tímabili, sérstaklega framan af þessu stjórnartímabili núv. hæstv. ríkisstj., að þurft hefur á hækjum að halda. Stjórnleysi á þessu 10 ára tímabili hefur verið meira en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar. Sívaxandi aflamagn samfara hækkandi verðlagi erlendis, hefur fallið í hlut landsmanna lengst af á þessum tíma. Þessi auðæfi og fjármunir, sem því hefur fylgt, hafa ekki fallið í hendur hygginna húsbænda, þannig að þeir sköpuðu þjóðinni meira atvinnuöryggi en áður var. því miður ekki.

Það, sem blasir nú við hvert sem litið er, er atvinnuleysi og gjaldþrot atvinnuveganna og fyrirtækja atvinnulífsins. Ekki liggur neitt fyrir um það, hvað gert verður til þess að tryggja frystihúsunum rekstrarhæfan grundvöll eða útgerðinni eða hvernig gjaldeyris verður aflað, eða hvort hægt verður að afla gjaldeyris, enda þótt genginu sé breytt, því að ljóst er, að ýmislegt þarf að gera samhliða gengisbreytingunni, ef hún á að koma að nokkrum notum.

Ég vil minna á það, að þegar gengisbreytingin var framkvæmd fyrir ári síðan, var talið, að það mundi verða lyftistöng fyrir atvinnuvegina í landinu og ekki síður útflutningsvörur íandbúnaðarins heldur en aðrar útflutningsgreinar í landinu. En staðreyndin er hins vegar sú, að innan landbúnaðarins verkaði gengisbreytingin síður en svo til bóta, því að hækkun á rekstrarkostnaði innanlands varð meiri heldur en hagnaðurinn hjá landbúnaðinum á útflutningsafurðunum. Ostur, sem var fluttur til Bandaríkjanna, hækkaði í verði um 7.20 kr. kg. Þar hækkaði reksturskostnaður innanlands í sambandi við þá framleiðslu um 10 kr., þannig að ekki var það hagnaður. Kjöt, sem flutt var á brezkan markað, hækkaði í verði um 7 kr. pr. kg, en verðhækkun aftur á móti innanlands í sambandi við framleiðsluna var um 10–12 kr. á kg. Það er því sýnilegt, að landbúnaðurinn hefur ekki grætt á gengisbreytingunni í fyrra og þannig mun það verða nú.

Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem stjórnarherrarnir þóttust vera búnir að koma á traustan grundvöll, býður með hverju ári, sem líður, hærri lán, sem háð eru gengisáhættu, en nokkurn tíma hefur áður þekkzt. Ekki verður það til þess að lækka verðlag eða efla fyrirtæki bænda, svo að ekki sé nú talað um efnahag bændanna sjálfra, sem margir hverjir verða að berjast í bökkum sakir verðbólgunnar og gengisbreytinganna frá undanförnum árum. Eða hvernig er það með vélakaupin til landbúnaðarins? Dráttarvél, sem kostaði fyrir 1 ári síðan 148 þús. kr., kemur til með að kosta nú eftir þessa gengisbreytingu 264 þús. kr. Hún hækkar um 116 þús. kr. við þær gengisbreytingar, sem orðið hafa á árinu eða nálægt því, sem bóndinn fær fyrir 100 dilka, sem hann leggur inn á þessu hausti. Hvaða áhrif hefur þetta á verðlagið? Það hlýtur að orsaka stórfelldar hækkanir. Sama máli gegnir um byggingarframkvæmdir allar, hvort heldur er í landbúnaði eða annars staðar. Einn nýlegur sjóður, sem hefur verið stofnaður hér á landi og kallaður er Lánasjóður sveitarfélaga, lánaði í fyrra eingöngu íslenzkt fjármagn, en í ár býður hann upp á lán, sem að hálfu leyti eru háð gengisáhættu. Hvernig er það fyrir fátæk sveitarfélög að taka lán til umbóta, þegar svo skammt er á milli gengisbreytinga, sem verið hefur nú í fyrra og aftur í ár? Má heita, að þau séu útilokuð frá því að taka lán til sinna framkvæmda hjá Lánasjóði sveitarfélaga með þessum kjörum, gengisáhættu, þó að ekki sé nema að hálfu leyti, og 91/2% í vexti, auk þess sem lánstíminn er mjög stuttur. Þannig er það nú, að erlenda fjármagnið er að síast meira og minna inn í allar framkvæmdir í landinu, það er að síast inn í, og það kemur til með að síast meira með hverju ári, sem líður, inn í verðlagið og inn í afkomu hvers einasta einstaklings í landinu. Og er það illa farið, og höfum við Íslendingar þó talið okkur hafa allmikið af innlendu fjármagni, þar sem sparifjáreign landsmanna mun vera nálægt því um 11–12 milljarðar. En hún kemur kannske ekki til með að vega upp á móti erlendu skuldunum nú eftir þessa gengisbreytingu. Það væri fróðlegt að fá vitneskju um það við þessar umr.. hvaða hliðarráðstafanir verða gerðar samhliða gengisbreytingunni. Verða almenn skuldaskil og breyting á lausaskuldum í föst lán hjá atvinnuvegum og fyrirtækjum þeirra? Verður sköttum létt af atvinnuvegum? Verður vaxtakjörum breytt? Verða fjárfestingarmál þjóðarinnar skipulögð með hagsmuni heildarinnar fyrir augum? Eða á sama sleifarlagið að vera áfram í þessum málum eins og verið hefur að undanförnu? Verður nokkur breyting á innflutnings- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar?

Þetta væri allt gott að fá upplýsingar um og svör við. því aðeins getur gengisbreyting komið að einhverjum notum, að víðtækar hliðarráðstafanir verði gerðar, og það væri æskilegt, að þetta yrði upplýst nú við þessar umr., annað hvort við þessa umr. eða þær umr., sem eftir eiga að fara fram um þetta mál hér í deildinni.