12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Það er greinilegt, að hæstv. ríkisstj. leggur mikið kapp á að afgreiða þetta mál, áður en dagur rís. Enn fremur er ljóst, að hæstv. forseti hefur metið þau rök gild, sem hafa verið færð fyrir því, að slíkan ofsahraða verði að hafa á afgreiðslu þessa máls. Rök, sem réttlættu það fyllilega, að hv. þdm. fengju hvorki tóm né næði til að kanna þetta mál til hlítar og undirbúa sinn málflutning og væru þar að auki rændir nætursvefni. Ég tel, að þau rök, sem hæstv. forsrh. færði hér fyrir því, að æskilegt væri að hraða þessu máli svo mjög séu ekki fullnægjandi.

Það er nú svo, að hv. Alþ. er nú orðið nokkuð vant því nú hin síðustu ár, að fást við gengisfellingar núv. hæstv. ríkisstj. Það er ekki liðið ár síðan síðasta gengisfelling hæstv. ríkisstj. var gerð. Við síðustu gengisfellingu í fyrrahaust var öll gjaldeyrisafgreiðsla stöðvuð í heila viku, meðan verið var að reikna út fullkomnustu gengislækkun, sem gerð hafði verið á Íslandi, að sagt var. Hvers konar spákaupmennska og kaupæði ríkti þessa viku, á haustmánuðum í fyrra, viku, sem kölluð hefur verið gengisvikan. Og enginn vafi er á því, að sá dráttur þá, með kaupæðinu og spákaupmennskunni, sem drættinum fylgdi, varð til tjóns og dró úr bætandi áhrifum gengislækkunarinnar á efnahagslífið. Samt sem áður og þrátt fyrir þennan langa drátt, og stöðvun gjaldeyrissölu í heila viku, var Alþ. þó þá gefið tóm í tvo daga til að afgreiða algerlega hliðstætt frv. hér og hér er til umr. nú, algerlega hliðstætt frv. Það var gefinn einn dagur þó til afgreiðslu í hvorri þd. í fyrra. Nú liggur hins vegar lífið við, að því er virðist, þótt kaupæði hafi ríkt í landinu og hvers konar spákaupmennska blómstrað hátt á 3. mánuð og engra frekari tíðinda að vænta af því tagi meira en þegar er fram komið. Enn fremur hefur komið fram úr herbúðum ríkisstj. sjálfrar, að allur gjaldeyrir sé á þrotum og af þeirri ástæðu einni mætti vel gefa bönkunum eins dags tóm til að skrapa eitthvað saman í hina tómu sjóði, áður en þeir hæfu gjaldeyrissölu að nýju, því að sé það rétt, að enginn gjaldeyrir sem heitið geti sé til, hvað á þá að selja að morgni þessa dags eftir nokkra klukkutíma.

Eftir því, sem ég hef komizt næst, munu það hafa verið boð frá Seðlabankanum, að Alþ. skyldi afgreiða þetta mál á einum degi. Bankarnir auglýstu látlaust í allan dag, að gjaldeyrissalan skyldi hafin á nýju gengi á þessum morgni. Það er samkv. þeim boðum, að mér skilst, að hv. þdm. eru rændir svefni nú. Þessi boð munu formuð á þann veg, að það mundi vera bönkunum til álitshnekkis, út á við í viðskiptabönkum þeirra erlendis, ef hér getur ekki hafizt gjaldeyrissala eftir nokkrar klukkustundir. Ég hélt nú, að gengi íslenzkrar fjármálastjórnar og fjármálastofnana stæði ekki ýkjahátt um þessar mundir í erlendum bönkum. Það er því varla úr mjög háum söðli að detta í því sambandi. En er þetta ekki táknrænt um það, að hið háa Alþ. er orðið afgreiðslustofnun hæstv. ríkisstj. eða kannske öllu heldur afgreiðslustofnun sérfræðinga og embættismanna hæstv. ríkisstj.? Það eru þessi rök þeirra, sem hér hafa verið tekin gild, og er það ekki táknrænt líka, að þessir háttsettu sérfræðingar voru ekki einu sinni kallaðir til að svara spurningum þeim, sem hv. þm., er sæti eiga í fjhn. þessarar hv.d., vildu fá svör við, er fjhn. beggja deilda komu saman til stutts fundar í kvöld til að taka afstöðu til þessa máls? Það þykir sjálfsagt ekki fært að ónáða slíka herra á óguðlegum tímum, þó að þeir hafi sjálfsagt samið þetta frv., sem hér er til umr. En það er sjálfsagt að ræna hv. alþm. nætursvefni og bjóða þeim upp á þau vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð að boðum hinna háu herra. Það kann kannske að þykja nokkuð mikið í fang færzt af mér sem algerum nýgræðingi og grænjaxli hér að hefja jómfrúarræðu mína á hinu háa Alþ. með slíkum ákúrum eða að vera að steyta görn um framkvæmd þingstarfa. En ég leyfi mér að mótmæla þeirri ákvörðun hæstv. forseta að boða hér fund um miðja nótt, þegar enga nauðsyn rak til. Hæstv. forseta bar að standa vörð um virðingu þessarar hv. d. og gæta hagsmuna allra þdm., jafnt hv. þm. þeirra flokka, sem styðja hæstv. ríkisstj. sem hinna, sem eru í andstöðuflokkum hæstv. ríkisstj. Ég lýsi þessi vinnubrögð óhæfu, þar sem þau eru gersamlega ónauðsynleg og hæstv. forseti hefði vel getað ætlað þessari d. einn dag til afgreiðslu þessara mála, eins og hv. þd. fékk þó í fyrra undir hans stjórn við afgreiðslu á svo til nákvæmlega sams konar máli, og þá hafði þó verið stöðvuð gjaldeyrissala í heila viku í landinu áður, með miklu skaðvænlegri áhrifum á efnahagslífið en nú gæti verið um að ræða, þó að hún yrði stöðvuð í einn dag til viðbótar.

En hvað um það, afbrigði hafa verið hér samþykkt margföld og meiri hl. þessarar hv. d. er fús að fórna sér fyrir sína menn, þótt segja megi, að það, sem hér er um að ræða í þessu frv., sé beiðni um það, að menn skuli láta sem þeir hafi ekkert lært á því að reka sig á, þótt ekki sé liðið fullt ár síðan hv. þingmeirihl. samþykkti svona frv., nákvæmlega svona frv. með fram komnum afleiðingum. Kenningin er sem sagt þessi: Undir viðreisn rekum við okkur á til þess eins að reka okkur á aftur. Og því sitjum við nú hér, hv. þdm., árla morguns hinn 12. nóvember 1968.

Þegar hæstv. ríkisstj. fann, þegar leið að kosningunum 1967, að happa- og glappastefna hennar og stjórnleysi ásamt þeirri verðbólgu, sem óhjákvæmilega fylgir þessari stefnu, fann ekki lengur hljómgrunn með þjóðinni, var sett á svið hin vísindalega stöðvunarstefna, sem fullyrt var í kosningabaráttunni, að ekkert væri til fyrirstöðu að fylgja mætti fram um mörg ókomin ár. Stöðvunarstefnan var þó í því einu fólgin að stöðva sig rétt í bili í hrapinu, leyna með öllum tiltækum ráðum þeim vanda, sem þá var þegar orðinn í efnahagslífinu og fyrirsjáanlegt var, að fara mundi vaxandi að óbreyttri stefnu, en stöðvunarstefnunni var ekki ætlað annað en blekkja þjóðina til að framlengja umboð hæstv. ríkisstj. enn um 4 ár. Og þessi sviðsetning tókst. En vandanum var ekki unnt að leyna lengi eftir kosningar. Unnt hefði þó verið að leysa vandann við rétt vinnubrögð með tiltölulega litlum fórnum fyrir þjóðina, ef reynt hefði verið að komast fyrir rætur meinsins í tíma. En það var ekki gert, heldur látið reka á reiðanum allt sumarið 1967, enda fannst víst ríkisstj. af skiljanlegum ástæðum varla fært að upplýsa kosningablekkingarnar of snemma.

Í októberbyrjun á síðasta ári lagði hæstv. ríkisstj. loks till. sínar í efnahagsmálum fyrir hv. Alþ. Hún lagði þá til, að meginstoðir hinnar vísindalegu verðstöðvunarstefnu væru lagðar niður. Það átti að hætta stöðvunarstefnuniðurgreiðslunum, en hins vegar sagði hæstv. ríkisstj., að það væri með öllu óvist, hvort gera þyrfti nokkuð fyrir atvinnuvegina, þótt flestum væri ljóst, sem þar höfðu innsýn í málin, að atvinnuvegirnir væru að þrotum komnir. Taldi hæstv. ríkisstj. þá, að atvinnuvegunum mundi sennilega, eins og það var orðað, duga vel áfram á þessu ári 1968 sams konar stuðningur og þeir höfðu haft á árinu 1967. En svo kom gengisfelling Breta og í kjölfar hennar fylgdi hin fræga gengisvika, sem ég gerði hér að umtalsefni áðan, og þá var reiknuð út fullkomnasta gengislækkun á Íslandi. Og eins og margoft hefur verið bent á, var gengislækkunin hér miklu meiri heldur en gengislækkun Breta gat gefið tilefni til vegna áhrifa hennar beint á þjóðarbúskap Íslendinga og fáránlega mikil saman borið við þá yfirlýsingu ríkisstj. nokkrum vikum áður, að sennilega þyrfti ekkert að gera, eins og hún sagði, meira til styrktar atvinnuvegunum. En gengislækkuninni fylgdu yfirlýsingar um, að hún mundi leysa vandamálin til frambúðar og tryggja atvinnuvegunum heilbrigðan rekstur. Þetta var í nóvember í fyrra og í desember voru fjárlög afgreidd og allt virtist leika í lyndi og mönnum var lofuð 250 millj. kr. lækkun tolla til að draga úr áhrifum gengislækkunar á heimilin í landinu. Svo kom janúar og ekki fór atvinnulífið í gang þrátt fyrir hina miklu gengisfellingu, bátar réru ekki og frystihús tóku ekki á móti fiski og varð að auka uppbótarkerfið um 320 millj. kr. beint í kjölfarið á hinni miklu gengisfellingu, hinni fullkomnu gengisfellingu, sem átti að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll og var vandaðsta gengislækkun á Íslandi, eins og ég sagði.

Í febrúar kom svo nýtt áfall. Þá kom í ljós, að tollalækkunin gat ekki orðið nema 160 millj. í staðinn fyrir 250 millj., sem lofað hafði verið. Í næsta mánuði, marz þessa árs, varð að hækka ýmsa tekjustofna ríkissjóðs. Enn fremur var ákveðið að fresta ýmsum ríkisútgjöldum til framkvæmda og stofna til nýrrar lántöku á vegum ríkisins. Í aprílmánuði komu svo skattahækkanir vegna vegamála um tæpar 200 millj., eða 160–190 millj. kr. að áætlað var þá. Þegar kom fram í júní varð að gefa út óuppfyllta ávísun til að koma síldarflotanum af stað og enn er ekki vitað, hve mörg hundruð millj. er þar um að ræða. Þegar kom fram á sumar varð að greiða viðbótaruppbætur til frystihúsanna í landinu, sem námu nokkrum tugum millj. Svo kom september og þá var lagður 20% innflutningstollur á vörur og 20% skattur á ferðagjaldeyri. Og nú er enn ein kollsteypan fullkomnuð með því máli, sem hér er um að ræða, sem hér er til umr., erlendur gjaldeyrir á að hækka í nóvember um 54.5%.

Þessi stutta lýsing mín á ráðuneytisfálminu, sem ríkt hefur í efnahagsmálastjórn landsins eftir kosningarnar og eftir að hin fullkomna gengislækkun hafði tekið við af hinni vísindalegu stöðvunarstefnu, þessi stutti útdráttur sannar, að hér hefur ríkt, og ríkir enn, fullkomið stjórnleysi í efnahagsmálum. En nú mun hæstv. viðskmrh. líklega búinn að gleyma þeim formúlum, sem hann kynnti hér í eina tíð um það, hvaða mörk hagfræðivísindin töldu, að fara þyrfti yfir til að unnt væri að tala um fullkomna óstjórn í efnahagsmálum. Hann mun áreiðanlega ekki kynna þessar formúlur að nýju á næstunni. Ríkisstj., sem á sér slíkan feril og hér hefur stuttlega verið rakinn ef hér aðeins 111/2 ár frá því að hún markaði nauman meiri hl. til að framkvæma stöðvunarstefnu og gaf þá úttekt á þjóðarbúinu fyrir kosningar, að allt væri með felldu í þjóðarbúinu, og það þyldi meira að segja, án þess að almenningur þyrfti verulega fyrir að finna, talsverð áföll, slík ríkisstj. er nú rúin öllu trausti. Menn munu ekki trúa henni enn eða treysta, ekki veita henni stuðning til annarrar kollsteypu á einu ári og fjórðu stórfelldu gengislækkunarinnar á valdatíma hennar. Menn gera sér nú ljóst, að þessi gengisfelling mun renna út í sandinn eins og hinar fyrri, því að það er ljóst, að það á nú að halda áfram óbreyttri stjórnarstefnu, sem er rót þeirrar meinsemdar, sem hér er við að fást, eins og bent hefur verið rækilega á hér í þessum umr. í hv. d. Það er öllum að verða það ljóst, að þessi stjórnarstefna fær ekki staðizt og hæstv. núv. ríkisstj. er alls ófær um að stjórna málefnum þjóðarinnar. Það liggur jafnframt fyrir, að þessi hæstv. og veika ríkisstj. hefur raunverulega hafnað breiðri samstöðu um lausn þessa vanda, sem hún hefur sjálf skapað með sinni stefnu, og hún hafnaði breiðri samstöðu og samvinnu einmitt vegna þess, að hún er ófáanleg að víkja frá þeirri stefnu, sem vandann hefur skapað, en hún vill halda áfram. Nú þegar þetta allt liggur fyrir, hlýtur það að verða krafa fólksins í þessu landi, að þessi hæstv. ríkisstj. fari tafarlaust frá, þing verði rofið og þjóðinni, sem svo herfilega var blekkt í síðustu kosningum, verði gefinn kostur á að kveða upp dóm sinn að nýju, og að afloknum kosningum verði mynduð ríkisstj., sem meiri von er til að geti leyst þann mikla vanda, sem við er að etja, á viðunandi hátt. Þessi hlýtur að verða krafa fólksins.

Það er að vísu rétt, að þessi stjórnarstefna, sem fylgt hefur verið, virtist lánast sæmilega á yfirborðinu a.m.k. í mestu góðærunum á stjórnarferli hæstv. ríkisstj. Það, sem fleytti þessu áfram, var hvert metárið af öðru í aflabrögðum og verðlagi á útflutningsvörum. Þessi hagstæða þróun hlaut hins vegar að eiga sér takmörk og þá var ljóst, að þessi stefna fengi með engu móti staðizt, því að samfara þessari hagstæðu þróun metáranna voru tekin í sífellu stórfelld lán og stórfelldum vanda þar með raunverulega velt yfir á framtíðina og í rauninni yfir á yngri kynslóðirnar og næstu. Og þannig býr þessi hæstv. ríkisstj. í haginn fyrir eftirkomendurna. Á núgildandi gengi nema skuldirnar við útlönd 131/2 milljarð, hvorki meira né minna. Ríkislántökur munu nú komnar á 4. milljarð kr. Viðskiptahallinn við útlönd er geigvænlegur og stærri hluti af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á næstu árum mun fara beint í afborganir og vexti af lánum en nokkru sinni fyrr. Þannig hefur þessi ríkisstj. í mesta góðærinu einnig lifað í veizlu, sem næstu ríkisstj. og næstu kynslóðum er ætlað að greiða.

Og nú kemur stóra gengisfellingin, sú fjórða, og ætli hæstv. ríkisstj. hyggist ekki taka meira af erlendum lánum til að fleyta sér áfram enn um sinn, ef lánstraustið er þá ekki allt þrotið. En er hæstv. ríkisstj. virkilega svo blind í trú sinni, að hún haldi, að hún muni hafa nokkurn stuðning þjóðarinnar til að gera þær ráðstafanir nú, sem hún hyggst gera, og þjóðin hefur fengið dýrkeypta reynslu af, hvaða áhrif hafa? Eða er hennar viðhorf það eitt að sitja meðan sætt er í ráðherrastólunum, hvernig sem allt veltur? Enn heldur ríkisstj. því fram, að það, sem hér sé við að etja, séu aðeins tímabundnir erfiðleikar vegna alveg óvenjulegra áfalla þjóðarbúsins, vegna verri aflabragða og lækkandi verðlags á útflutningsvörum. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur sýnt fram á það hér í umr., að hér er um falsrök að ræða, þótt enginn neiti því að vísu, að minni afli og lægra verð en á árinu 1966, er var algert metár, hefur auðvitað aukið á vandann og gerir erfiðleikana torleystari. En hitt er ljóst, að viðskiptaárferðið er þó ekki Íakara en það hefur verið að meðaltali nokkur undanfarandi ár og má teljast með nokkuð eðlilegum hætti, þegar á allt er litið. En hinu verður ekki komizt fram hjá, að einnig í þessu tilliti er hægt að færa fyrir því sterk rök, að afli, nýting aflans og verðlag hans væri mun hagstæðara þjóðinni nú, ef fylgt hefði verið hér skynsamlegri stjórnarstefnu undanfarin ár, stjórnarstefnu, sem hefði fyrst og fremst beinzt að því að efla atvinnulíf og framleiðslu og framleiðni fyrirtækjanna. En ömurlegar eru þær rústir á þessu sviði, sem stjórnarstefnan hefur skilið eftir sig, og nægir þar að nefna togaraútgerðina í landinu, rekstur frystihúsanna og hráefnisöflunina til þeirra og allt það skipulagsleysi og glundroða, sem ríkjandi er í þeim málum. En þótt ríkisstj. haldi því enn fram, að ekkert sé að stefnu hennar, hér sé aðeins um að ræða utanaðkomandi, óviðráðanlega erfiðleika, held ég nú samt, að jafnvel hún sé farin að efast sjálf. Það mun hún hins vegar aldrei viðurkenna, og það er m. a. fullreynt, tel ég, í þeim samningaviðræðum, sem áttu sér stað milli fulltrúa stjórnmálaflokkanna. Það er ljóst, að ríkisstj. ætlar að berja höfðinu við steininn áfram og hafa það eitt markmið að streitast við að sitja og halda áfram út í ófæruna, hvað sem tautar.

Það er sagt, að oft ratist kjöftugum satt orð á munn, og ég tók eftir því, er sjónvarpið hafði viðtöl við stjórnmálaleiðtogana hér á hv. Alþ., er till. hæstv. ríkisstj. um aðildarumsókn að Fríverzlunarbandalagi Evrópu var til fyrri umr. í Sþ.,hæstv. viðskmrh. sagði í sínu spjalli í sjónvarpinu, að þeir efnahagsörðugleikar, sem við væri að etja í íslenzku efnahagslífi, væru langtímavandamál, eins og hann orðaði það, og EFTA ætti aðeins að vera einn þátturinn í að leysa það langtímavandamál. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi notað þetta orð, langtímavandamál í efnahagsmálum, einum þrisvar sinnum í þessu sjónvarpsviðtali. Ég tók eftir þessu, vegna þess að mér fannst, að þarna væri ráðh. í rauninni að segja það, sem raunverulega væri farið að búa innra með honum, en hann hafði þó sagt þetta óvart vegna ákafans í að fá að hefja samninga við útlendingana sem fyrst. Það, sem ráðh. í rauninni sagði með þessu, var það, að hér væri ekki við tímabundna erfiðleika að etja vegna aflabrests og verðfalls, heldur væri viðreisnarstefnan orðin langtímavandamál í íslenzku efnahagslífi. Og það er rétt. Viðreisnin og afleiðingar hennar eru orðnar að langtíma efnahagsvandamáli og því lengur dregst það, að það vandamál verði leyst með viðunandi hætti, sem hæstv. núv. ríkisstj. situr lengur að völdum. Því ber henni að segja af sér, rjúfa þing og leyfa þjóðinni að kveða upp sinn dóm, því að það þarf nýja stefnu, ný vinnubrögð og nýja menn, ef von á að vera til þess, að íslenzk þjóð geti rifið sig upp úr þeim heimatilbúnu erfiðleikum og ráðleysi, sem er einkenni þess öngþveitis, sem nú ríkir í málefnum þjóðarinnar.