03.03.1969
Neðri deild: 58. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

135. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. fór þess á leit við Alþ., að það hraðaði meðferð þessa máls eftir megni. Mér finnst, að hæstv. ráðh. hefði mátt beina slíkum tilmælum til sjálfs sín fyrir alllöngu. Hér er um að ræða hliðarráðstöfun, sem átti að verða samferða gengislækkun þeirri, sem var framkvæmd í nóvembermán. s.l., og auðvitað hefði hæstv. ráðh. verið í lófa lagið að leggja þetta mál fyrir þing, áður en það var sent heim í jólaleyfi, og þá hefði vafalaust ekki staðið á því, að það hefði fengið skjóta afgreiðslu í báðum d. Alþ. Þetta var hins vegar ekki gert, og af því hefur hlotizt margvíslegt óhagræði, t.d. þeir furðulegu atburðir nú í ársbyrjun, að nýjum þegnum var fagnað í heiminn með reikningum á fæðingardeildum hér í borginni. En það hefur einnig hlotizt af þessu annað og mjög alvarlegt óhagræði. Kauplagsnefnd og Hagstofa hafa skýrt svo frá, að þau hafi ekki getað reiknað út vísitölu miðað við verðlag 1. febr. s.l. vegna þess, að ekki hafi verið formlega frá því gengið, hver þau gjöld ættu að verða, sem felast í þessu frv. Vinnubrögð af þessu tagi eru auðvitað ósæmileg með öllu. Jafnvel þótt hæstv. ráðh. kæmi því ekki í verk að leggja þetta frv. fyrir á s.l. ári. þá var honum í lófa lagið að gera það þegar er þing kom saman að loknu jólaleyfi, þá hefði það vafalaust getað fengið skjóta afgreiðslu hér í báðum d. Það hefur hins vegar staðið ótrúlega lengi við í Ed., og sú grunsemd læðist a.m.k. að mér, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á því. að málið yrði afgr. það tímanlega, að vitað væri formlega, hver vísitalan væri 1. marz. Afleiðingin af því, að ekki er kunnugt um formlegan útreikning vísitölunnar, er m.a. sú. að málatilbúnaður verkalýðsfélaga og opinberra starfsmanna verður örðugri í þeirri miklu deilu, sem nú stendur yfir um greiðslu vísitölubóta á laun, og það væri satt að segja í samræmi við ýmsar aðrar aðgerðir hæstv. ríkisstj., að hún hefði vitandi vits viljað láta þetta atriði vera óljóst á þessum tímamótum.

Að því er sjálft málið snertir, þá hefur því verið lýst í stjórnarblöðunum og einkanlega í Alþýðublaðinu sem nýju dæmi um það, hversu mjög hæstv. ríkisstj. og einkanlega Alþfl. beri fyrir brjósti hagsmuni aldraðs fólks og annarra viðskiptavina almannatrygginga. En mér finnst þetta frv. vera til marks um allt annað. Þarna er gert ráð fyrir 17% hækkun á ellilífeyri og örorkubótum. og er það reiknað út í samræmi við áætlaða hækkun á meðalvísitölu, en eins og ég hef bent á áður hér í hv. þd., þá hefur verðlagsþróunin verið slík, að einmitt ýmsar nauðþurftarvörur, sem ellilaunafólk notar alveg sérstaklega, hafa hækkað mun meir heldur en meðalhækkun á vísitölunni nemur. Hvers konar matvæli, mjólkurvara, fiskur, kjötmeti, hafa hækkað miklu meira en nemur meðalhækkun á vísitölunni. Þess vegna eru þessar hækkanir, sem verið er að framkvæma á bótum almannatrygginga, ekki meiri en svo, að þær ná aldrei verðlagshækkunum. Þarna er um raunverulega skerðingu að ræða, enda hefur raunin orðið sú á þessum síðasta áratug, að almannatryggingar hafa verið að dragast aftur úr almennri efnahagslegri þróun í þjóðfélaginu. Þetta veit hver maður, og þetta sést t.d. ákaflega vel, þegar bornar eru saman þær bætur, sem hér eru greiddar, og bæturnar í nágrannalöndum okkar. T.d. eru fjölskyldubætur í Danmörku nú 855 danskar kr. með hverju barni, en það eru um 10000 ísl. kr. Hér eiga þessar fjölskyldubætur að verða 4356 kr. eftir hækkunina. Hér er sem sé um að ræða bætur, sem eru meira en helmingi lægri en bæturnar í Danmörku. Hið sama kemur í ljós, þegar athugaður er ellilífeyrir. Ellilífeyrir einstaklings er í Danmörku 601 dönsk kr. á mán., eða u.þ.b. 7000 íslenzkar. En hér verður ellilífeyrir einstaklings 3585 kr. eftir hækkunina, þarna er enn helmingsmunur. Ellilífeyrir hjóna í Danmörku er 905 kr. á mánuði, og þar við bætast 118 kr. á mánuði, ef hjónin hafa ekki neinar aðrar tekjur, og verður þá ellilífeyrir hjóna í Danmörku 1.023 danskar kr. á mán. eða u.þ.b. 12000 ísl. kr. Hér verður ellilífeyrir hjóna 6455 kr. eftir að búið verður að samþykkja þetta frv. Mér finnst það vera ákaflega fróðleg staðreynd, að ellilífeyrir hjóna í Danmörku er nú hærri upphæð en almennar verkamannatekjur á Íslandi, talsvert hærri upphæð en þær tekjur, sem nú er deilt um, hvort eigi að hafa fullar verðbætur. Mér finnst þetta vera staðreynd, sem allir hv. alþm. þurfa að hugleiða mjög og ekki sízt stuðningsmenn núv. ríkisstj.

En það er fleira, sem kemur í ljós í sambandi við þær breyt.. sem nú er verið að gera á almannatryggingalögum. Það er ekki aðeins verið að hækka bætur. það er einnig verið að hækka gjöld. Almannatryggingasjóðsgjald hækkar nú um 16.3%. Gjald hjóna hækkar úr 4.730 í 5.500 kr. Sjúkrasamlagsgjöld, sem eru hliðstæð að sínu leyti, hækka um hvorki meira né minna en 36.7%. Gjald hjóna hækkar úr 3.600 kr. í 4.920 kr. Aukin útgjöld hjóna af þessum sökum eru 2.090 kr. á ári. Þegar hækkunin á fjölskyldubótum er borin saman við þetta, þá kemur út ákaflega einkennilegur útreikningur. Hjón með eitt barn á framfæri fá hækkun, sem nemur 396 kr., en þau verða sjálf að auka útgjöld sín um rúmar 2000 kr., eins og ég sagði áðan. Sé haldið áfram að bera saman með vaxandi barnafjölda, þá kemur alltaf út halli fyrir fjölskylduna, þangað til börnin eru orðin 6. Þetta er enn eitt dæmi um það. hvernig verið er að rýra almannatryggingarnar í verki. Enda þótt hér séu við og við alltaf flutt frv. um hækkanir, þá er efnahagsþróunin slík í þjóðfélaginu, að gildi almannatrygginga hefur sífellt verið að skerðast og heldur áfram að skerðast einnig með þessu frv.