12.12.1968
Neðri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

4. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir hennar afgreiðslu á þessu máli. Í sambandi við þær till., sem n. hefur flutt og gerð hefur verið grein fyrir, get ég lýst því yfir, að ég get fellt mig við allar þær till. og tel þær til bóta, eftir því sem ég fæ bezt séð, á frv. frá því, sem áður var.

Ég get vel skilið, að n. hafi þurft að hafa nokkuð langan tíma til þess að ljúka afgreiðslu málsins, þó að ég hafi lagt á það áherzlu í upphafi þingsins, að málið næði nú fljótt fram að ganga, þar sem það hafi verið lagt fyrir síðasta þing og þá ekki hlotið afgreiðslu úr n., en ég tel nú, að allar horfur séu á því, að þetta mál geti fengið sína afgreiðslu á þessu þingi og tel það mjög mikilvægt. Ég vil t.d. benda á eitt atriði, sem ég vék að við framsögu málsins, að það er næsta mikilvægt að fá þá heimild, sem er í þessu frv., til þess að setja eina heilbrigðisreglugerð, sem ráðh. getur sett með ráði landlæknis, og hún gildi fyrir öll sveitarfélög landsins. Þá hefur mér alveg sérstaklega verið í huga, sem ég skal viðurkenna, að mér hefur verið nokkurt áhyggjuefni á mörgum undanförnum árum, og má kannske ásaka mig fyrir að hafa ekki hafizt frekar handa um, en það eru ákvæði tiltekinna reglugerða, og í þessu tilfelli mundi það verða heilbrigðisreglugerða, um hollustuhætti og hreinlæti í sambandi við sumarbústaði hér á landi og þó sérstaklega sumarbústaðalendur. Þetta hefur færzt mjög í vöxt á síðari árum, að sumarbústaðir hafa verið byggðir víðs vegar í sveitum landsins og sums staðar í svo kölluðum sumarbústaðalendum, þar sem myndast smáþorp sumarbústaðafólks og byggt er á vegum ýmissa samtaka. Hjá ýmsum er þetta sennilega til mestu prýði eftir því, sem ég bezt veit. Annars staðar hafa risið upp sumarbústaðalendur mjög óskipulega, og ég óttast, að ýmsu sé mjög ábótavant í þessum efnum, eins og t.d. vatnsveitum, vatnsbólum, salernum og frárennsli. Það hafa mörg samtök verið að festa kaup á jafnvel heilum jörðum uppi í sveit til þess að koma upp stórum sumarbústaðalendum. Þá er afar nauðsynlegt, að frá öndverðu verði gengið frá skipulagi slíkra hluta samkv. fyrirfram ákveðnum reglum og þar með heilbrigðisreglugerðum, sem lúta að svo mikilvægum þáttum.

Ég skal svo ekki orðlengja um málið, en endurtek þakkir mínar til n. fyrir hennar afgreiðslu á málinu.