04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

4. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar þetta frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem er allmikill lagabálkur. Það er e.t.v. ástæða til að drepa með örfáum orðum á þær breytingar frá núgildandi l., sem þetta frv. hefur inni að halda, bezt að stikla þar mjög á stóru.

Þá er þar fyrst að nefna, að samkv. frv. er lagt til, að heilbrigðisnefndir skuli vera í öllum sveitarfélögum á landinu. Samkv. núgildandi lögum er það hins vegar aðeins skylda fyrir kaupstaði eða kauptún með 500 íbúa eða fleiri að hafa heilbrigðisnefndir, og í núgildandi lögum er beinlínis bannað, að sveitarfélög sameinist um heilbrigðisnefndir. Í frv. er hins vegar lagt til, að sveitarfélögum sé heimilt að sameinast um heilbrigðisnefndir, og skal ég koma nokkuð nánar að því atriði síðar, en á því hafa orðið nokkrar breytingar í hv. Nd.

Þá eru í öðru lagi breytingar lagðar til með frv. á skipun heilbrigðisnefndanna. Eins og nú er, eru lögreglustjóri og héraðslæknir sjálfkjörnir í heilbrigðisnefnd, og hins vegar er með frv. lagt til, að heilbrigðisnefndir séu kosnar algerlega af sveitarstjórn. Héraðslæknar skulu samkv. því vera faglegir ráðunautar heilbrigðisnefndar, en lögreglustjórar eiga ekki heldur, eins og ég áður sagði, samkv. frv. setu í heilbrigðisnefnd, og það má segja, að það sé eðlileg breyting, vegna þess að það kemur oft til kasta lögreglustjóra að meta og framkvæma ákvarðanir heilbrigðisnefnda.

Þá er 6. gr. frv. nýmæli. Þar er héraðsdýralæknum gefinn kostur á að sitja heilbrigðisnefndarfundi, ef svo ber undir. Þá kem ég að 7. gr. frv., sem er um skyldu sveitarfélaga til þess að ráða hjá sér heilbrigðisfulltrúa. Í núgildandi lögum er það skylt, að kaupstaðir ráði hjá sér heilbrigðisfulltrúa, en þeirri skyldu er alls ekki alls staðar fullnægt. Eftir frv. á hverjum kaupstað með 10 þús. íbúum eða fleiri að vera skylt að ráða heilbrigðisfulltrúa, sem sé sérmenntaður í heilbrigðiseftirliti, og séu kaupstaðir mannfleiri en áður segir, skal fjölga heilbrigðisfulltrúum þannig, að til jafnaðar komi 15–16 þús. íbúar á hvern heilbrigðisfulltrúa.

Þá er í frv. einnig lagt til, að í hverjum kaupstað með færri en l0 þús. íbúa og í hverju kauptúni eða kauptúnshreppi, þar sem búa 800 manns eða fleiri, eigi að ráða heilbrigðisfulltrúa, en sérmenntunar til starfsins er ekki krafizt á þessum stöðum. Sveitarstjórnir ákveða þá daglegan eða vikulegan vinnutíma heilbrigðisfulltrúa, því að vitanlega mun í fjöldamörgum tilfellum engin þörf vera fyrir mann í fullu starfi til þessa starfs.

Þá er sveitarfélögum heimilað að sameinast um heilbrigðisfulltrúa, en nánar tiltekið þó, hvert er hámark þess íbúafjölda, sem koma megi á hvern fulltrúa. Þá er nýmæli í l. að finna í 8. gr., þar sem lagt er til, að ríkið starfræki stofnun, sem heiti Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Það á að hafa yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti í landinu undir stjórn landlæknis. Í greininni eru nánari ákvæði um, hvaða kröfur skuli gerðar til menntunar forstöðumanns Heilbrigðiseftirlitsins, og að hann skuli hafa sér til aðstoðar tvo heilbrigðisráðunauta, og í því sambandi er rétt að geta þess, að eins og fram kemur í grg. með frv. er jafnframt ráð fyrir því gert, að niður verði lögð störf tveggja manna, þ.e.a.s. mjólkureftirlitsmanns og eftirlitsmanns með veitinga og gististöðum, en þetta eftirlit falli undir Heilbrigðiseftirlit ríkisins.

Þá er í 9. gr. ákvæði um það, að ráðh. skuli með ráði landlæknis setja heilbrigðisreglugerð, sem gildi fyrir öll sveitarfélög landsins eftir því, sem við getur átt. og eftir sem áður er þó einstökum sveitarfélögum heimilt að setja sér heilbrigðissamþykktir, sem að sjálfsögðu mega þó ekki ganga í bága við heilbrigðisreglugerð þá, sem fyrir allt landið gildir, nema að því leyti sem hún kann að veita heimildir til að víkja frá ákvæðum.

Þá er loks þess að geta. að í frv. eru svo ákvæði um það, hver úrskurða skuli, ef ágreiningur rís upp, en í núgildandi lög vantar tilfinnanlega ákvæði um, hvernig fara skuli að í slíkum tilvikum.

Ég hef nú með örfáum orðum rakið þær breytingar frá núgildandi lögum, sem í frv. felast, en í hv. Nd. tók frv. nokkrum breytingum, og heilbr.- og félmn. þessarar hv. þd. kynnti sér þær breytingar og einnig umsagnir. sem borizt höfðu til heilbr.- og félmn. hv. Nd., en sá hins vegar ekki ástæðu til þess að vísa frv. til umsagnar annarra aðila en þeirra, sem höfðu fengið tækifæri til að tjá sig við heilbr.- og félmn. hv. Nd. Ég skal aðeins nefna hér tvær umsagnir af þeim, sem bárust til Nd. Það er þá fyrst umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem mælir með samþykkt frv. athugasemdalaust. Hins vegar kom frá Læknafélaginu ítarleg umsögn og ábendingar um breytingar ú frv.. og það er rétt að láta það fylgja með, að Læknafélagið telur frv. hið merkasta eða eins og orðrétt segir í umsögninni, með leyfi hæstv. forseta: „Það felur í sér merkt nýmæli og tímabæra samræmingu margra þátta heilbrigðiseftirlitsins.“

Af ábendingum þeim, sem frá Læknafélaginu komu. hefur heilbr.- og félmn. hv. Nd. tekið nokkrar til greina og flutt um þær brtt. við frv. Ég skal hér aðeins nefna tvær eða þrjár af þeim breytingum. Það er þá í fyrsta lagi í sambandi við heimild sveitarfélaga til að sameinast um heilbrigðisnefndir og eftirlit. Í frv. eins og það var lagt fram í hv. Nd. segir, að heimilt skuli vera að sameina umdæmi heilbrigðisnefnda eða m.ö.o. með leyfi ráðh. er sveitarfélögum innan sama læknishéraðs öðrum en kaupstöðum og kauptúnshreppum heimilt að sameina umdæmi heilbrigðisnefnda, þannig að það nái yfir tvo eða fleiri hreppa.

Á frv. var gerð sú breyting í hv. Nd., að heimildin var víkkuð þannig, að kaupstaðir og kauptúnshreppar voru ekki þarna undanskildir, heldur er heimildin til samninga almenn án tillits til þess, hvort um er að ræða kaupstaði eða kauptúnshreppa eða önnur sveitarfélög.

Þá var ein sú ábending frá Læknafélaginu, að Reykjavíkursvæðið allt verði sett undir eitt og sama heilbrigðiseftirlit. Af þessu tilefni var frv. og þessi ábending send til umsagnar sveitarfélaga hér í nágrenninu, svo og til Reykjavíkurborgar, en umsagnir þeirra aðila voru ekki jákvæðar utan umsögn frá Seltjarnarneshreppi, og í umsögnum sveitarfélaganna hér í nágrenninu kemur það fram, að þau telji eðlilegri þá stefnu, að þessi smærri sveitarfélög, þar sem þéttbýli að vísu er allmikið, sameinist þá um heilbrigðiseftirlit, en hins vegar hefur Reykjavíkurborg það mikla sérstöðu, að það var ekki talið eðlilegt að sameining þessarn nágrannasveitarfélaga og höfuðborgarinnar mundi verða heppileg.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv., en eins og fram kemur í nál. á þskj. 303, hefur n. rætt frv. og leggur til, að það verði samþykkt, en einstakir nm. áskildu sér þú rétt til að flytja brtt. við það eða fylgja brtt., sem kynnu fram að koma. Hv. 1. þm. Vesturl. var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt í n.