05.12.1968
Efri deild: 22. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

51. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. óbreytt og samhljóða. Flutningur frv. er þáttur í þeirri viðleitni að setja nýja löggjöf um öll íslenzku söfnin, en löggjöfin um Þjóðskjalasafn er frá árinu 1915, mjög stutt og í raun og veru ófullkomin löggjöf, en reglugerð frá árinu eftir er nokkru fullkomnari, nokkru orðfleiri, og hefur safninu í raun og veru verið stjórnað á grundvelli hennar allar götur síðan. Efni frv. er einfalt. Þar er rakið, hvert skuli vera hlutverk Þjóðskjalasafnsins og svo sett hliðstæð ákvæði um stjórn safnsins og skipun bókavarða og eru í l. eða frv., sem fyrir liggja um hin ríkissöfnin. Þá er enn fremur ákvæði um það, að starfrækja skuli viðgerðarstofu skjala og handrita og starfi hún jafnframt fyrir Landsbókasafn og Handritastofnun, en þessari stofnun var komið á fót fyrir nokkrum árum, án þess að nokkur lagaákvæði væru um það sett. Eru hér í fyrsta skipti sett lagaákvæði um viðgerðarstofuna, sem veitt hefur verið fé til á fjárlögum.

Þótt lagasetning og reglugerðarákvæði um þessa stofnun hafi verið jafnfyrirferðarlítil og einföld og raun ber vitni, þá merkir það að sjálfsögðu ekki það, að ekki hafi átt sér stað veruleg þróun á undanförnum árum í málefnum Þjóðskjalasafnsins. Er þar fyrst og fremst að geta þeirra nýjunga, að húsakynni Þjóðskjalasafnsins voru endurbætt stórlega og aðstaða öll fyrir skömmu á þann hátt, að þar var komið fyrir nýjum stálskápum á rennibrautum, það mun hafa verið 1964, á tveimur hæðum af þeim fimm, sem safnið hefur til umráða í vesturenda Safnahússins við Hverfisgötu. Var þetta ekki aðeins stórkostleg endurbót á vörzlu skjalanna, sem þar eru geymd, heldur verulegur sparnaður vegna betri nýtingar á geymslurými safnsins. — Ég gat áðan um handritaviðgerðarstofuna, sem safnið ræki og þjónaði einnig Landsbókasafni og Háskólabókasafni. Aukinn starfsmannafjöldi í Þjóðskjalasafni og bætt húsnæðisaðstaða hefur gert það kleift að hefja þar ýmis nýmæli, svo sem t.d. að afrita gömul manntöl skjalasafnsins á vél til afnota fyrir gesti þess í stað frumritanna, sem fyrir löngu voru farin að láta verulega á sjá og lágu raunar undir skemmdum af völdum ofnotkunar. Eru nú til í því tæki afrit af manntölunum 1870, 1880, 1890, 1920 og 1930, og verið er að afrita manntalið fyrir 1860. Fyrir 4 árum var í svipuðum tilgangi byrjað að ljósrita gamlar kirkjubækur skjalasafnsins, sem allt of lengi hafa sætt beinni ofnotkun, og er unnið rækilega að ljósritun þessara mikilvægu skjala.

Þetta vona ég að dugi, herra forseti, til skýringar á því einfalda máli, sem hér er um að ræða. Ég óska þess, að að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.