10.03.1969
Efri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

139. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er einfalt í sniðum og er þess efnis, að veitt verði heimild til þess, að kennarar, sem starfa við einkaskóla, geti orðið aðilar að Lífeyrissjóði barnakennara. Það þótti brýna nauðsyn bera til að hafa þessa heimild mjög þrönga til þess að opna ekki óeðlilega gátt fyrir menn til þess að komast inn í lífeyrissjóðinn, og það þótti því eðlilegast að binda heimildina við það, að þetta væru stofnanir, sem féllu inn í fræðslukerfi ríkisins, og það væri staðfest af menntmrn., að viðkomandi skólar uppfylltu þessa kröfu. Eins og sakir standa er aðeins einn skóli, sem hér er um að ræða. Það er Landakotsskólinn í Reykjavík, sem hefur starfað um langan aldur, og forráðamenn skólans eiga við mikla erfiðleika að stríða vegna þess, að kennararnir fá ekki aðild að lífeyrissjóði. Þessi skóli hefur létt af barnaskólum hér í Reykjavík og sinnt mikilvægu hlutverki, og þykir þess vegna rétt og eðlilegt að ganga til móts við skólann að þessu leyti, svo að það kann að vera auðvitað, að fleiri skólar komi til, þó að það sé ekki líklegt að sinni, að svo verði miðað við þá framkvæmd, sem er á þessum málum í sambandi við fræðsluskyldustigið. En ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum, frv. er mjög einfalt í sniðum og auðskilið, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.