13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

131. mál, yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir landgrunninu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hér er um að ræða mjög mikilvægt þjóðréttarlegt hagsmunamál fyrir okkur, og því þykir mér rétt þegar við 1. umr. að lýsa yfir því, að þingflokkur Alþb. er fylgjandi þessu sjálfsagða máli. Hins vegar eru vafalaust ýmis atriði, sem vert er að íhuga nánar í nefnd. Það geta komið upp nokkur álitamál, þegar þjóð helgar sér landgrunnið sjálft, en ekki hafið yfir því. Til að mynda sú spurning, hvernig á að meta yfirborð hafsbotnsins. Í 2. gr. er sagt, að ákvæði frv. nái til allra jarðefna, sem finnast kunna í íslenzka landgrunninu, lífrænna og ólífrænna, en í grg. er sagt, að botnföst sjávardýr og þau, sem aðeins hreyfast í föstu sambandi við botninn, mundu heyra undir ákvæði frv.

Nú er það alkunna, að það eru notuð ýmis veiðarfæri, sem velta fram og aftur á hafsbotni og skafa botninn, og þá kemur upp það álitamál, hvort ekki sé rétt að hafa í l. ákvæði um, að yfirráðaréttur Íslendinga nái til yfirborðsins á þann hátt, að við getum, að okkar eigin mati, lagt bann við slíkum botnsköfuveiðum á þessu svæði. Þarna er um að ræða mörk, sem vandi er tengdur og sjálfsagt, að þetta atriði verði athugað.

Ég vil lýsa ánægju með það, að þarna eru mörk landgrunnsins mótuð á þann hátt, sem gert er. Lengi vel var talað hér um 200 m dýpi sem eðlileg mörk fyrir landgrunninu, en menn hafa mjög verið að fjarlægjast það sjónarmið. Og sé landgrunnið umhverfis Ísland athugað frá landfræðilegu og jarðmyndunarlegu sjónarmiði, eru mörkin raunar á 400–500 m dýpi.

Ég tel, að það sé ákaflega mikilvægt, að við tryggjum okkur þann rétt, sem víðastur kann að verða í þessu sambandi. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt líka í sambandi við hina fornu stefnu okkar, að við teljum, að það sé þjóðarréttur okkar, að við eigum einnig að hafa lögsögu yfir fiskimiðunum yfir landgrunninu. Sú stefna var mörkuð með landgrunnslögunum 1948, og sú stefna er enn ríkjandi, enda þótt við höfum ekki haft bolmagn til þess enn þá að framkvæma hana nema að nokkru leyti. Hins vegar fyndist mér eðlilegt, að frv. eins og þetta héldist í hendur við eitthvert áframhald á sókn okkar í landhelgismálunum sjálfum. Um þau mál hefur verið verulegur ágreiningur eins og við vitum og skiptar skoðanir á því, hvort tilteknar ákvarðanir á því sviði hafi auðveldað okkur áframhaldið eða ekki. Ég skal ekki fara að rifja upp þau deilumál, en það er enn sem fyrr yfirlýst stefna allra flokka, að okkur beri að stefna að því að ná yfirráðum yfir fiskimiðunum yfir öllu landgrunninu. Ég held, að það sé orðið tímabært, að reynt sé að móta einhverja sóknarstefnu einnig á því sviði, gera einhverja áætlun um það, hvernig við getum náð því marki í fyrirsjáanlegri framtíð. Mér fyndist mjög eðlilegt, að það mál væri íhugað í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir.