18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

15. mál, siglingalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er lagt fyrir hið háa Alþ. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 31. ágúst 1968. Efni I. er eingöngu það að veita kröfum sjóðveðrétt, sem skipstjóri stofnar til vegna kaupa á nauðsynjum skips, eða viðgerðarþjónustu, til að tryggja áframhald veiðiferðar á fiskimiðum í 300 sjómílna fjarlægð frá Íslandi eða meira. Eins og hv. d. er kunnugt, stundaði íslenzki fiskveiðiflotinn veiðar á fjarlægum slóðum í fyrra, og þá voru fluttar til hans ýmsar nauðsynjar, olíur og vistir, með síldarflutningaskipum. Á tímabili horfði svo illa með veiðina, að það var talið nauðsynlegt, til þess að hægt væri að halda áfram þessari þjónustu við flotann, að veita kostnaðinum þann forgangsrétt, sem felst í sjóveðrétti. Sjútvn. d. hefur athugað þetta frv., en það er komið til þessarar hv. d. frá Ed. N. er sammála því, sem fram kemur í nál. sjútvn. Ed., að það sé almennt varhugavert að fjölga þeim kröfum, sem sjóveðrétt eiga í skipum. Það er af þeirri ástæðu, að það gefur auga leið, að eftir því sem sjóveðréttarkröfum er fjölgað, þá eru að sjálfsögðu aðrar veðkröfur þeim mun minna virði, og ef mikið af sjóveðréttarkröfum hvílir á skipi, getur útgerðarmanni þess reynzt erfitt að fá nauðsynleg lán til rekstrarins. En eins og þarna stóð á samkv. því, sem ég áður sagði, var þetta talin nauðsyn, og það er enginn ágreiningur um það innan sjútvn. þessarar d., að staðfesta beri brbl., sem voru út gefin af þessu tilefni. Er n. sammála um að leggja það til. Hins vegar gerir n. þá brtt. við frv., að þessi réttindi verði ekki lögfest fyrir fullt og allt, heldur tímabundin, þannig að þessi ákvæði gildi fyrir árin 1968 og 1969, og leggur sjútvn. til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu.

Sömuleiðis hefur sjútvn. tekið upp aðra breytingu við 216. gr. siglingal., eins og gerð er grein fyrir í nál. á þskj. 356, en þar er eingöngu um að ræða smáleiðréttingu. Það hefur komið í ljós við athugun, að þegar siglingal. voru samin og staðfest af Alþ. 1963, hefur slæðzt villa inn í 1. tölul. 216. gr. l. Þar hafa slæðzt inn orðin „kostnaður við affermingu“ í staðinn fyrir „kostnaður við hafnsögu.“ Ég gekk úr skugga um það í samráði við dr. juris Þórð Eyjólfsson, sem á sínum tíma samdi frv. til siglingalaganna, að þarna hefði skeð óhapp og þessi villa slæðzt inn, og er þessi brtt., sem n. flytur, flutt til leiðréttingar á þessu í samráði við dr. Þórð Eyjólfsson.

Ég leyfi mér svo að mæla með því, herra forseti, fyrir hönd sjútvn. d., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. flytur á þskj. 356. Frv. er komið til þessarar hv. d. frá Ed., og ef það hlýtur afgreiðslu eins og sjútvn. leggur til, þarf það að fara aftur fyrir hv. Ed.