28.10.1968
Neðri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

11. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir tveim breytingum á gildandi lögum um Listasafn Íslands, og er hvorug stórvægileg. Fyrri breytingin er sú, að breytt er því ákvæði gildandi laga, að skipa skuli safnvörð og annað nauðsynlegt starfslið fyrir fé, sem veitt er til þess í fjárl. Þetta gæti skilizt þannig, að við safnið megi aðeins starfa einn safnvörður. Þessu er breytt í það horf, að skipa skuli safnverði og annað nauðsynlegt starfslið, þegar fé sé veitt til þess í fjárl.

Hin breytingin, nokkru mikilvægari, er sú, að breytt er gildandi reglum um kjör varamanna í safnráð. Uppi hefur verið deila um það, hvernig varamenn skuli kjörnir. Hingað til hefur samkv. úrskurði menntmrn. verið fylgt þeirri reglu að kjósa varamennina sérstaklega, þ.e. aðalmenn og varamenn hvora í sínu lagi. Þetta veldur því, að sá meiri hluti, sem stendur að baki kjöri aðalmannanna, fær líka alla varamennina kjörna, ef þeir halda saman, eins og þeir hafa gert. Með þessa skipun hefur verið nokkur óánægja meðal myndlistarmanna, sem á kjörskrá eru, og hefur minni hluti myndlistarmanna óskað eftir því, að sú skipan verði tekin upp, að þeir verði varamenn, sem næstflest atkv. fá á eftir aðalmönnum, og er gert ráð fyrir þeirri skipan í frv. Safnráð hefur fyrir sitt leyti fallizt á það einróma, að þessi breyting verði gerð, og vona ég, að mér sé óhætt að segja, að meðal myndlistarmanna almennt sé þetta talin stefna í friðarátt, a.m.k. hafa engin andmæli borizt gegn þessari fyrirhuguðu breytingu.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.