03.03.1969
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

11. mál, Listasafn Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langaði með örfáum órðum að taka undir hina skýru og skilmerkilegu ræðu, sem hv. frsm. menntmn. flutti hér áðan, en hann rakti enn frekar það ófremdarástand, sem gerð er grein fyrir í nál. menntmn. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að hér er að gerast atburður, sem er allt of sjaldgæfur í störfum Alþ. Það er mjög algengt á þingi, að þegar borin er fram gagnrýni á einhvern þátt þjóðfélagsins, þá er hann afgreiddur með því, að þar sé einvörðungu um að ræða pólitíska árás. Ráðh. sá, sem hlut á að máli, snýst til pólitískrar varnar, og síðan skipta alþm. sér eftir því, sem þeir skipast í flokka. En með þessu einróma nál. er annar háttur á hafður. Hér er það einróma álit menntmn., sem skipuð er fulltrúum frá öllum flokkum, að bera fram mjög alvarlega gagnrýni á ástand mjög mikilvægrar ríkisstofnunar, Listasafns Íslands. Mér finnst, að alþm. mættu viðhafa slík vinnubrögð oftar, þegar tilefni gefast til, og auðvitað er um slík tilefni að ræða á mörgum sviðum. Það er gert allt of mikið af því að afgreiða slík mál einvörðungu á pólitískum forsendum. En þegar atburður eins og þessi gerist, að n. er sammála um gagnrýni sem þessa, verður einnig að ætlast til þess, að gagnrýnin leiði til athafna. Mér finnst, að Alþ. beri að fylgja slíkum niðurstöðum eftir með því að gefa hæstv. menntmrh. allan þann stuðning, sem nauðsynlegur er til þess að kippa þessum málum í lag. Og þess vegna vildi ég beina þeim fsp. til hæstv. ráðh., hvort ekki megi vænta einhvers frumkvæðis á þessu sviði frá honum. Það er í sjálfu sér ótrúleg staðreynd, að enn skuli ekki vera búið að ákveða lóð undir Listasafn Íslands. Það hefur verið rætt um það í tvo til þrjá áratugi, að það hljóti að vera verkefni Íslendinga að byggja listasafn, en samt er ekki búið að koma því í verk enn þá að ákveða lóð, sem er auðvitað algert frumatriði, því að án þess er ekkert hægt að gera. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort þess megi ekki vænta, að ráðizt verði í það mjög fljótlega að finna hentuga lóð fyrir Listasafnið. Þegar lóðin er fundin. virðist mér, að auðvelt eigi að vera að hefjast handa um framkvæmdir. Á sínum tíma var ákveðið að stofna byggingarsjóð Listasafnsins, og í hann er komin upphæð, sem mig minnir, að nálgist nú 5 millj. kr. Auk þess á Listasafnið aðrar eignir, sem því hafa verið gefnar, og þessir fjármunir eru það miklir, að mér virðist, að auðvelt ætti að vera að hefja byrjunarframkvæmdir, þegar búið er að ákveða, hvernig safninu verður háttað. Mér skilst, að það sé afstaða forráðamanna Listasafnsins, að hægt sé að byggja þetta safn í áföngum, það sé ekki hugsað sem ein samfelld höll, heldur jafnvel fleiri byggingar, og stjórn Listasafnsins hefur rætt um, að t.d. væri hægt að hefjast handa um það að byggja sýningarsal og geymslur. En þetta þolir enga bið, og ég vil vænta þess, að þegar hæstv. ráðh. veit um einróma hug Alþ., noti hann þann stuðning til þess að hrinda málinu í framkvæmd.