03.03.1969
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

11. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. menntmn. fyrir að hafa vakið einróma og með skilmerkilegum hætti athygli Alþ. og þjóðarinnar á miklu vandamáli. Það, sem hér er um að ræða, getur með engu móti skoðazt gagnrýni á mig, og ég mun því ekki snúast til neinnar varnar og tek alveg undir orð síðasta ræðumanns um það efni, að alþm. ættu að sjálfsögðu að geta rætt mikil vandamál, eins og hér er um að ræða, án þess að á það þurfi að koma stjórnmáladeilusvipur. En sú staðreynd, sem ríkisstj. hefur verið ljós síðan í sumar og Alþ. var raunar gerð nokkur grein fyrir í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og hefur enn verið vakin myndarleg athygli á núna, sú staðreynd er sú, að komið hefur í ljós, að hið glæsilega Þjóðminjasafnshús, sem Alþ. ákvað að reisa í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944, hefur því miður reynzt stórgölluð bygging. Byggingargallar hennar eru svo miklir, að í raun og veru verður að teljast hæpið, hvort þetta hús sé til frambúðar nothæft sem safnahús yfir höfuð að tala. Þetta á ekki aðeins við um þá hæðina, sem myndlistarsafnið er í, heldur einnig hinar hæðirnar, þar sem fornmenjar þjóðarinnar eru geymdar.

Þetta hús var byggt á stríðsárunum, eins og allir vita, á þeim árum, þegar ekki var einatt vandað nógu vel til verka, sérstaklega ekki á byggingarsviði, og þeir ágallar, sem rannsóknir í sumar leiddu í ljós, að væru á húsinu, eru þess eðlis, að ekki var við því að búast, að þeir kæmu í ljós fyrr en að verulegum tíma liðnum. Þegar það óhapp gerðist, sem vikið hefur verið að, bæði af frsm. og seinni ræðumanni, að skyndileg bilun varð á vatnshitakerfi og vatnskerfi hússins, þá var þegar í stað látin fara fram af sérfræðingum vandlega athugun á húsinu öllu, sem því miður leiðir í ljós þessa staðreynd, sem ég nú lýsi, að ég dreg það mjög í efa, að þessi bygging megi til frambúðar á næstu áratugum, hvað þá öldum, verða aðalsafnbygging Íslendinga. Það mun kosta um 5 millj. kr. að gera við húsið með þeim hætti, að fullkomlega öruggt sé, að svo miklu leyti sem við húsið verður yfir höfuð að tala gert. Alþ. brást mjög myndarlega við beiðni menntmrn. um fjárveitingar til þess að framkvæma þær viðgerðir, sem talið var tæknilega unnt að framkvæma strax í sumar og síðan nú á þessu ári, og hefur um það bil 1 millj. þegar verið varið til þess arna, og þeim fjárveitingum vona ég fastlega að verði haldið áfram, þannig að húsinu verði á næstunni komið í það horf, sem því yfir höfuð að tala verður komið.

Um mál Listasafnsins er það annars að segja, að mér og safnráði hefur verið það ljóst, að brýnasta verkefnið á því sviði er að útvega safninu geymslur fyrir þau málverk, sem ekki eru sýnd hverju sinni, og aðstöðu til pökkunar og skoðunar á málverkunum. Ég held, að óhætt sé að segja, að safnráðið sé mér sammála um, að lausn á þessu máli má ekki draga og nauðsynlegt sé að útvega safninu góða geymslu annars staðar í bænum og þess konar húsnæði, að einnig verði þar aðstaða til pökkunar og skoðunar á myndum. Það er nú þessa dagana verið að leita að slíku húsnæði annars staðar í bænum eða fara fram á því skoðun, og er verið að gera kostnaðaráætlanir um, hvað það mundi kosta að hagnýta það húsnæði, sem völ muni vera á í þessu skyni, og má búast við, að ákvarðanir um þetta efni verði teknar innan örfárra vikna. Ástæða þess, að ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess, hvar væntanlegt Listasafn skuli standa, er sú, að sá staður, sem — að vísu eru listamenn ekki á einu máli um það, hvar óska ætti eftir stað. Það mál hefur lengi verið rætt og skoðanir nokkuð skiptar um það. Mikið hefur verið rætt um Öskjuhlíðina í því sambandi, en það svæði, sem þar hefur einkum verið talið koma til greina, er ekki enn að fullu skipulagt, svo að endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar í þessu efni. Ég hef einnig litið þannig á, að meðan ekki væri meira fé fyrir hendi til þess að hefja byggingarframkvæmdir en nú er, 5–6 millj. kr., komi dráttur á ákvörðun um það, hvar ætla skuli væntanlegu Listasafni endanlega stað, ekki að sök og betra sé að hugsa það mál vandlegar og betur, nota tímann til þess þangað til nægilega mikið fé er fyrir hendi, til þess að unnt sé að hefja framkvæmdir. En í þessu sambandi vildi ég á það minna, að því fer víðs fjarri, að ekki sé hitt og þetta að gerast í myndlistarmálum höfuðborgarinnar og Íslendinga yfir höfuð að tala um þessar mundir. Á Miklatúni er að rísa stórhýsi, sem er ætlað að verða sýningarsalur fyrir myndir. Að nokkrum hluta reisir Reykjavíkurborg þetta stórhýsi ein á sinn kostnað og hefur af því veg og vanda, en sumpart er um að ræða samvinnu milli Reykjavíkurborgar, myndlistarmanna og ríkisstj. um byggingu á sýningarsal, sem bæta mun úr mjög brýnni þörf, þegar það hús kemst upp, svo að sem betur fer er hægt að segja, að á sviði myndlistarinnar sé talsvert að gerast í höfuðborginni og þá með Íslendingum yfir höfuð að tala. En að öðru leyti vildi ég endurtaka þakkir mínar til n. fyrir áhuga hennar á því mikla vandamáli, sem hér er um að ræða, og fyrir áhuga hennar á málefnum Listasafnsins, og ég mun áreiðanlega reyna að hagnýta mér stuðning þeirra ágætu manna, sem í menntmn. eru, næst þegar málefni Listasafnsins ber á góma við afgreiðslu fjárlaga.