03.03.1969
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

11. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þessari fsp. með örfáum orðum. Þetta var einmitt fyrsta spurning mín til hinna byggingarfróðu manna, sem kvaddir voru til, þegar hitalögnin sprakk á s.l. sumri, þessi spurning: Er hægt að tryggja eins og í mannlegum mætti stendur, er hægt að tryggja, að til slíks komi ekki aftur með tafarlausum viðgerðum á húsnæðinu, eða er ástæða til þess að flytja myndirnar burtu? Ég fékk alveg einróma og óyggjandi svar af hálfu þeirra þriggja sérfræðinga, sem um þetta fjölluðu, að sú viðgerð, sem þá þegar í stað var efnt til, væri alger trygging fyrir því, að annað eins og þetta gæti ekki gerzt aftur, þannig að ég er núna fullvissaður um það og trúi því, hef enga ástæðu til þess að rengja skoðun hinna byggingarfróðu manna á því, að listaverkin séu nú ekki í neinni hættu. Að öðrum kosti mundi þau auðvitað ekki vera látin vera þarna kyrrt. Það er búið að verja til viðgerðarinnar eitthvað nær Í millj., og það sem ég sagði, að mundi kosta um 5 millj., er það að gera húsið eins tryggt eða eins gott og það getur verið án þess beinlínis að rífa það og byggja það að nýju. Dýrasti hluturinn í þessu öllu saman eða langdýrustu kostnaðarliðirnir eru þeir að skipta algerlega um glugga og setja tvöfalt gler í allt húsið. Það er einfalt gler í því, það tíðkaðist ekki tvöfalt gler á þeim tíma, þegar húsið var byggt, en þetta er dýrasti einstaki kostnaðarliðurinn. Og jafnframt er gert ráð fyrir alveg sérstöku hitastillikerfi og rakamælikerfi, sem líka er mjög dýrt, en hvorugt þetta snertir að neinu leyti þá hættu, sem listaverkin óneitanlega voru í þá daga, sem sprengingin varð í vatnsleiðslukerfinu. En það get ég fullvissað, að — þjóðminjavörður bjó í húsinu, sá nýi þjóðminjavörður býr þar ekki lengur — ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að um sérstaka húsvarðarstöðu verði þar að ræða.

Sem sagt, ég get fullvissað hv. þm. um það, að í þessu efni hefur þegar verið gert það, sem framkvæmanlegt hefur þótt að ráði sérfróðra manna, og yfirlýsingar þeirra liggja fyrir um, að enginn munur, sem í þessu húsi er núna, megi teljast eða þurfi að teljast í nokkurri hættu.