03.03.1969
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

11. mál, Listasafn Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vona sannarlega, að það reynist spámannleg orð, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, þegar hann fullvissaði okkur um, að engin hætta væri á því, að nokkur listaverk í safninu mundu skemmast eftir þá viðgerð, sem nú er verið að framkvæma. En ég óttast, að ástand hússins sé það alvarlegt, að menn megi ekki verða allt of undrandi, þótt eitthvað slíkt komi í ljós. Þarna er um meira að ræða heldur en leka og slíkt. Það vantar algerlega útbúnað, sem hvarvetna er hafður í fullkomnum listasöfnum til þess að tryggja t.d., að rakastig og hitastig haldist nokkurn veginn stöðugt. En ef slíkan útbúnað vantar, skemmast listaverk smátt og smátt. Af því er reynsla hvarvetna.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs aftur, er sú, að mér urðu það býsna mikil vonbrigði, að hæstv. ráðh. fékkst ekki til þess að segja neitt ákveðið um byggingu nýs Listasafns. Hann hafði um það mjög eindregin fyrirheit, að tryggðar yrðu geymslur handa listaverkum safnsins, og það er vissulega nauðsynlegt eins og nú er komið. Hins vegar er af því reynsla hér á Íslandi, að þegar ráðizt er í bráðabirgðaaðgerðir eins og slík geymsla er, leiðir það oft til þess, að raunveruleg lausn dregst á langinn. Ég óttast það mjög, að ef lagt er í mikinn kostnað við að koma upp nothæfum geymslum, kunni það að leiða til þess, að endanleg bygging Listasafns muni dragast enn lengur en annars hefði orðið. En það var eitt atriðið í einróma nál. menntmn. að leggja áherzlu á að leysa húsnæðisvandræði safnsins og veita því þá aðstöðu, sem íslenzkri myndlist sæmir. Það er sem sé einróma skoðun n., að það verði sem fyrst að ráðast í að hefja byggingu Listasafns, sem okkur sé sæmandi.

Hæstv. ráðh. taldi, að dráttur á því að ákveða lóð hefði ekki orðið til baga vegna þess, að ekki hefði verið nægilegt fjármagn. Þetta held ég, að sé algerlega rangt. Ef lóð hefði verið ákveðin, hefði sú staðreynd auðvitað ýtt undir áhuga manna á því að ráðast í safnbyggingu. Auðvitað kemur alltaf upp ágreiningur, þegar ákveðnar eru lóðir undir slíkar byggingar. Hjá því verður ekki komizt, en slíkan ágreining verður að útkljá, en bíða ekki endalaust vegna þess, að menn séu ekki á einu máli um alla hluti.

Ég vil minna á það, að hv. menntmn. hefur einu sinni áður í vetur vakið athygli á mjög mikilvægu menningarmáli. Í nál., sem hér var flutt fyrr í vetur, sagði hv. menntmn., með leyfi hæstv. forseta:

„Að rík nauðsyn sé að taka sem fyrst ákvörðun um framtíð Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Gera þarf sem fyrst áætlun um byggingu bókasafnshúss, er rúmi hin vísindalegu bókasöfn Íslendinga, og stefna að því, að hún verði reist í sambandi við ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar.“

Hæstv. menntmrh. lýsti fullu fylgi sínu við þessa hugmynd. En ég vakti athygli á því þá, að ef mönnum væri alvara, yrði að taka um þetta ákvörðun á þessu þingi. Verði það ekki gert, er það borin von, að nokkur áfangi slíks bókasafnshúss verði kominn upp 1974. Því miður sé ég engin merki þess og hef ekki haft neinar fregnir af því, að ætlunin sé, að Alþ. taki þessa ákvörðun á þessu þingi. Og ég óttast það satt að segja eftir hin dauflegu ummæli hæstv. menntmrh. áðan, að einnig hörmungarástandið hjá Listasafni ríkisins og almenn viðurkenning á því ástandi leiði aðeins til einhverra bráðabirgðaaðgerða eins og geymslu, en ýti ekki undir endanlega framkvæmd. Ég vil leggja á það sérstaka áherzlu, að nú verðum við að taka ákvarðanir um byggingu, og hæstv. menntmrh. hefur alveg sérstaklega góða aðstöðu til þess að biðja Alþ. aðstoðar eftir þessa afgreiðslu í menntmn.