10.03.1969
Efri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

11. mál, Listasafn Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki fjölyrða um það frv., sem hér er til umr. Það kemur væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég hef þá tækifæri til þess að fjalla um það þar. En þar sem hæstv. menntmrh. er hér staddur í d., vildi ég leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að æskja nokkurra upplýsinga í sambandi við málefni Listasafns Íslands. Vissulega þóttu mönnum það ill tíðindi, þegar frá því var skýrt nýlega, að Þjóðminjasafnshúsið, þar sem hinir mestu dýrgripir í eigu þjóðarinnar, fornminjarnar og ýmis eldri og mörg hinna yngri listaverka þjóðarinnar, málverk og höggmyndir, eru geymd — þegar fregnir bárust um það, að þetta hús hafi reynzt mjög gallað og jafnvel stórgallað. En upplýsingar komu fram um það eftir meðferð þessa máls í hv. Nd. Það er því ánægjulegt, að hæstv. menntmrh. upplýsir nú, að væntanlega hefur verið gert heldur mikið úr göllum þessa húss, þó að hinu sé sízt að neita, að þar virðast veruleg mistök hafa átt sér stað í sambandi við bygginguna, og verður vafalaust töluverðum örðugleikum bundið að ráða þar fulla bót á. Hins vegar treysti ég því, að þeir, sem þarna eiga um að fjalla, muni gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem þarna hafa komið í ljós, á þann veg, að þeim þjóðardýrgripum, sem geymdir eru í Þjóðminjasafnshúsinu verði sem minnst hætta búin. En þetta ástand Þjóðminjasafnshússins minnir okkur vissulega á það, hversu brýnt er orðið, að Listasafn Íslands fái eigið hús til umráða. Það kunna nú ýmsir að segja, að ekki ári þannig nú, að það sé sérstaklega bjart framundan í byggingarmálum hjá ríki eða ríkisstofnunum, en þó er það nú svo, að hér er um svo stórt mál og brýnt að ræða, að full ástæða er til að kanna alla möguleika í sambandi við það að leysa úr vanda þessa safns. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert og mjög virðingarvert að fá nú fyrirheit um það, að bætt verði a.m.k. til bráðabirgða úr geymslurými safnsins, þannig að þær mörgu myndir, sem safnið þarf að hafa í geymslu, liggi væntanlega ekki undir skemmdum, eins og verið hefur í því húsnæði, þar sem þessar myndir hafa verið geymdar. En í sambandi við þetta mál vildi ég mega æskja upplýsinga frá hæstv. menntmrh. um eftirtalin atriði:

1. Hve mikið fé er nú í byggingarsjóði Listasafnsins? Það kann að vera, að þetta hafi komið fram í sambandi við umr. um þetta frv. í hv. Nd., en ég minnist þess þó ekki, og mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. getur upplýst þetta. Það er orðið alllangt síðan farið var að leggja fé til þessa byggingarsjóðs. Það hefur að vísu verið lítið mörg árin, en nokkurt fé mun þó vera til í þessum byggingarsjóði, þó að hins vegar ég efist mjög um, að það, sem til hans hefur verið lagt undanfarin ár, hafi gert betur heldur en hamla gegn verðbólgunni, hafi það þá gert það.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkur ákvörðun hafi verið tekin um lóð eða réttara sagt um landsvæði til handa Listasafni Íslands, þar sem framtíðarbyggingar þess koma væntanlega til með að rísa og þar sem þá jafnframt þarf að hugsa fyrir svæði, allmiklu landsvæði, vegna höggmynda og annarra verka, sem fremur kunna að eiga heima úti heldur en inni. Og enn vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort nokkur könnun hafi farið fram á því, nokkrar athuganir hafi verið gerðar hin síðari ár eða nýlega í sambandi við það, á hvern hátt hentugast væri talið nú að leysa húsnæðismál Listasafns Íslands. Ég veit, að fyrir allmörgum árum voru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort nauðsynlegt væri að byggja í því sambandi stórhýsi í einum áfanga ellegar hitt, sem mér sýndist mjög koma til greina, að hægt væri að leysa þessi húsnæðismál, byggingarmál Listasafnsins, í áföngum með því að haga byggingunni þannig, að ekki væri byggt eitt stórhýsi, heldur kannske mörg smærri hús, sem væri þá auðveldara að byggja í áföngum og hægt væri þá fyrr að hefjast handa á einhverjum áfanganum. Ég tel æskilegt, að þetta mál yrði kannað sem fyrst, ef ekki liggja fyrir tiltölulega nýlegar athuganir á því, á hvern hátt kunnáttumenn telja eðlilegast að standa að byggingarmálum safns eins og Listasafn Íslands er.