10.03.1969
Efri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

11. mál, Listasafn Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við þeim fsp., sem ég beindi til hans. Þar kemur fram, að enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um lóð eða húsnæði undir Listasafn, og taldi hæstv. ráðh., að það stafaði af því, að enn væri allmikil óvissa ríkjandi um það, hvaða meginstefna yrði uppi í sambandi við byggingarmálin, hvort heldur stefnt yrði að því að byggja eitt stórhýsi ellegar þá að byggja á annan hátt, smærri og fleiri byggingar. Ég vil aðeins í tilefni af þessum upplýsingum leggja á það áherzlu, að ég tel það orðið mjög brýnt, að umræður um þessi mál geti nú farið fram og það megi á skömmum tíma leiða þær til lykta á þann veg, að ljóst geti orðið, hver stefna ætti að verða uppi í þessum efnum, til þess að hægt verði innan allt of langs tíma að taka ákvarðanir um byggingarmál Listasafnsins. Það getur vitanlega haft veruleg áhrif á Alþ., á fjárveitingavaldið, hvor stefnan verður ofan á, hvort heldur verður talið nauðsynlegt að byggja í einu lagi stórhýsi, sem e.t.v. kostar upphæðir eins og 100 eða 150 millj. kr., svo að nefnd sé einhver tala kannske út í bláinn, en einhver mjög há tala, ellegar hitt, hvort hægt yrði að ná verulegum áfanga í þessum byggingarmálum Listasafnsins með e.t.v. 20–30 millj. kr. fjárveitingu á tiltölulega mjög fáum árum. Þetta getur skipt höfuðmáli, og allra hluta vegna virðist orðið brýnt, að ákvarðanir verði teknar um meginstefnu í byggingarmálum Listasafns ríkisins.