27.03.1969
Neðri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um heimild til þess að taka erlend lán. Af þeim er nú orðið æðimikið fyrir eins og kunnugt er, en samt sem áður vil ég ekki mæla gegn því, að þessi heimild verði samþ. Ég geri það í því trausti, að þess verði vandlega gætt, að þetta lánsfé verði eingöngu notað til fyrirtækja, sem afla gjaldeyris, sem svarar fullkomlega því, sem þarf til þess að standa undir lánunum, eða þá til þess að framkvæma verk, sem spara gjaldeyri að sama skapi, þannig að öruggt sé með öllu, að lántakan íþyngi ekki þjóðarbúinu, þegar fram í sækir.

Svo er nú orðið áhlaðið erlendum skuldbindingum, að það veldur miklum ótta og kvíða varðandi framtíðina og er það sannast að segja ekki að ófyrirsynju, þó að við vonum öll, að úr því rætist, og það takist að standa undir þeim böggum, sem hnýttir hafa verið.

Það er að heyra á ýmsu því, sem kemur fram um þessar mundir, að stjórnvöldum landsins finnst í raun og veru ekkert vera hægt að gera lengur í landinu, sem máli skipti, nema með erlendu lánsfé. Okkur vanti peninga til alls. Það þurfi að sækja þá alla til útlanda, fá féð erlendis frá. Það er allur sá blær á þeim umr., sem fara fram, bæði í blöðum af hendi stjórnarinnar og eins hér á hv. Alþ., og allur sá blær á úrlausnum hennar í atvinnuleysisvandamálunum, ef úrlausnir skyldi kalla, að það sé ekki hægt að vinna bug á atvinnuleysinu vegna peningaleysis. Það sé sem sagt um það tvennt að velja að þola atvinnuleysið eða taka erlend lán. Það sé aðeins um þetta tvennt að velja.

Þetta vil ég ekki viðurkenna. Ég vil ekki viðurkenna það sjónarmið, að það séu til innlendir peningar til þess að greiða atvinnuleysisstyrki, til þess að borga mönnum fyrir að gera ekki neitt, en á hinn bóginn séu ekki til peningar til þess að borga kaup fyrir arðbær störf. Og ég segi í bróðerni við alla, sem hér eiga hlut að máli, að þennan hugsunarhátt verður að endurskoða. Þetta gengur ekki. Það verður hreinlega að endurskoða þennan hugsunarhátt og líta á þessi mál öll frá nýjum sjónarhóli, því að þessi hugsunarháttur spólar menn látlaust lengra og lengra niður í kelduna.

Ég hef sagt það við annað tækifæri og ég vil segja það enn, að það, sem er höfuðatriðið í þessu, er, að við gerum okkur grein fyrir því, að þjóðin verður að fá tækifæri til þess að vinna sig út úr þeim vanda, sem í er komið, en ekki að menn loki sig inni með því að temja sér þann hugsunarhátt, að ekki sé hægt að notfæra sér íslenzkt vinnuafl til arðbærra verkefna vegna peningaleysis. Það væri eitthvað meira en lítið bogið við þetta allt saman, ef þessu væri í raun þannig varið. En ég veit vel, hvaða hugsunarháttur liggur hér á bak við, sem sé sá, sem innprentaður er á æðstu stöðum. Það má ekki láta meira peningamagn í umferð vegna þess, að það þyngir á gjaldeyrisverzluninni. En hvernig skyldi það verka á gjaldeyrisverzlunina við útlönd og gjaldeyrisjöfnuðinn, að fólk dragi fram lífið þúsundum saman á atvinnuleysisstyrkjum, sem það fær enga arðgæfa vinnu að láta í þjóðarbúið fyrir? Vilja menn ekki reyna að reikna það dæmi? Og ég segi enn, höfum við frekar peninga til þess að borga mönnum atvinnuleysisstyrki en að setja verk í gang til þess að menn geti unnið fyrir sér?

En við skulum gera okkur alveg ljóst, að eins og við erum sett nú, er ekki hægt að fara eftir þessum hugsunarhætti, sem ég er að boða, nema með því að taka upp alveg nýja stjórnarstefnu. Það verður að taka upp nýja stefnu í lánamálum. Það verður að taka upp nýja stefnu í atvinnumálum, og það verður að taka upp nýja stefnu í fjárfestingarmálum, m.a. vegna þess að það er ekki hægt að reka þá lánapólitík, sem þarf að reka, nema með því að setja á bak við hana fjárfestingarstjórn og gjaldeyrisstjórn. Ef núv. hæstv. ríkisstj. heldur áfram að berja höfðinu við steininn og vill ekki hlusta á, að þetta þurfi að gera, þá bíður okkar áfram svipaður ferill og undanfarin ár, að íslenzkir atvinnuvegir hafa verið lamaðir með þessum stjórnaraðferðum í sjálfu góðærinu og ef eitthvað bjátar á, kemur bullandi atvinnuleysi, sem enginn ræður við nema breyta um stefnu. Út úr þessu er óhugsandi að komast nema með algerum nýjum hugsunarhætti og eftir nýjum leiðum.

Það er talað mikið um það hér, að okkar vandi stafi allur af því, að afli hafi minnkað og verð fallið. Ég held, að það sé óhugsandi að koma nýrri og betri skipan á þessi mál, á meðan menn berja höfðinu við steininn og halda þessu fram, þeir, sem eiga að taka ákvarðanir og ráða stefnunni: Vegna þess að það er staðreynd, að við höfum lifað 10 mestu góðærisár, þegar meðaltöl eru tekin, sem íslenzka þjóðin hefur nokkurn tíma átt við að búa. Þetta er staðreynd. Og það er staðreynd, að þegar lakast hefur gengið á þessu tímabili, hafa verzlunarkjörin verið betri en nálega nokkru sinni fyrr. Meira að segja eftir það verðfall, sem kom á afurðirnar eftir kúfinn, voru verzlunarkjörin eins góð eins og við getum búizt við að hafa þau bezt að meðaltali. Og það hefur ekki brugðizt alveg nema ein síldarvertíð. En hér fyrir nokkrum árum, meðan ólík stjórnarstefna var framkvæmd, sem að sjálfsögðu mátti margt að finna, höfðum við hér hvert síldarleysisárið eftir annað og var þó nálega ekkert atvinnuleysi samanborið við það, sem nú er. Og kaupmáttur tímakaups var meiri fyrir 10 árum en hann er nú. Halda menn, að þetta sé bara allt saman tilviljun? Þetta er hreinlega vegna þess, að á þessum árum var fylgt öðru vísi stjórnarstefnu, sem betur hentaði við íslenzka staðhætti.

Þessi feiknalegi vandi, sem við búum nú við, er að langmestu leyti heimatilbúinn og vegna þess, að hér hefur verið reynt að framkvæma úrelta stjórnarstefnu, sem annars staðar er hætt að nota. En sú stefna, sem hér hefur verið framkvæmd, hefur verið fólgin í því, eins og við vitum, fyrst og fremst að draga inn lánsfé, láta ekki vera of mikið af peningum í umferð. Það voru minnkuð afurðalánin, það var minnkað, sem Seðlabankinn lagði inn í þjóðarbúið fyrir atvinnuvegina til að starfa með. Það var farið að draga sparifjáreignina inn í Seðlabankann og draga þannig peningana úr umferð, þrengja að, og þetta átti að vera til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og átti alveg vélrænt að hafa í för með sér, að allt yrði í lagi um ófyrirsjáanlega framtíð og raunar alla framtíð.

Það hefur verið sagt og varað við því öll þessi ár, að einmitt þessi nýja lánapólitík verkaði eins og eitur á íslenzkt atvinnulíf. Á sjálfum góðu árunum fengu atvinnuvegirnir ekki notið sín fyrir skorti á rekstrarfé. Þegar bent var á, að það þyrfti að bæta úr í þessum efnum og breyta til um lánastefnuna, þá var alltaf svarað: Það eru ekki peningar til.

En þessi lánastefna hefur lamað atvinnuvegina. Þetta duldist dálítið fyrir mönnum meðan síldarmoksturinn var sem allra mestur og meðan verðið á útflutningsvörunum var hærra en nokkru sinni hafði áður þekkzt, en undir eins og ástandið fór að verða líkara því, sem menn eiga venjulega við að búa, kom það í ljós, hvernig búið var að leika íslenzkt atvinnulíf og við það búum við núna.

Jafnframt því að draga úr lánsfé var dregið úr kaupgetunni og átti að halda jafnvæginu með því, og látlaust mokað nýjum álögum á atvinnulífið og þar með enn minnkað umráðafé atvinnuveganna. Jafnframt var fylgt algerri stjórnleysisstefnu í atvinnu- og fjárfestingarmálum. Afleiðingin af öllu þessu varð sú, að mikið af því mikla fjármagni, sem hér barst að á þessum árum, fór í alls konar framkvæmdir, sem hefðu mátt bíða eða missa sig. Jafnvel var í þeim mörgum fólgin æðimikil sóun, en það, sem mestu máli skipti, lenti aftur fyrir, og það var talað með háðsyrðum um þær till., sem komu fram um að raða verkefnunum eftir nauðsyn þeirra í þjóðarbúinu. Allar slíkar aðvaranir og till. um breytta stefnu í þessu efni voru hafðar að háði og spotti og sagt, að þetta mundi allt koma af sjálfu sér.

Hvað liggur svo fyrir? Hversu hagkvæm hefur fjárfestingin orðið á þessum árum? Hún hefur vægast sagt orðið ákaflega óhagkvæm eins og sést á því, að hér er komið stórfellt atvinnuleysi undir eins og dró úr síldarmokinu. Þess vegna er lífsnauðsyn, að það verði breytt um stefnu. Við getum ekki haldið áfram að taka endalaust erlend lán. Það getum við ekki. Við verðum að taka hér upp nýja stefnu í atvinnumálum, sem er byggð á forystu ríkisvaldsins og samstarfi ríkisvaldsins við atvinnugreinarnar og launþegasamtökin í landinu, breyta lánastefnunni og miða hana við þarfir atvinnulífsins og miða lánastefnuna einnig við útrýmingu atvinnuleysisins. Í stað stjórnleysisstefnunnar í atvinnu- og fjárfestingarmálum verður að koma þessi forysta, sem m.a. verður að vera byggð á því að taka fyrir hverja grein atvinnulífsins um sig og gera sér grein fyrir því, hvað þarf að gera til þess að hún njóti sín sem bezt og beita síðan ríkisvaldi, bankavaldi og einstaklingsframtaki og félagsframtaki í samvinnu til þess að koma því í framkvæmd. Ég nefni bara 2–3 dæmi. Ég nefni t.d. þau feiknaverkefni, sem fram undan eru til þess að endurbæta okkar frystiiðnað og gera honum mögulegt að afgreiða allan þann fisk í neytendaumbúðum, sem lífsnauðsynlegt er, að héðan komi á markaðinn. Ég nefni allsherjarendurskoðun á meðferð á fiski um borð í veiðiskipunum, sem þarf að fara fram, og sameiginleg átök allra aðila til þess að koma þar nýjum aðferðum á framfæri. Þetta gæti haft í för með sér gífurlega aukningu þjóðarteknanna, eins og færustu menn hafa sýnt fram á. Ég nefni fulla nýtingu iðnaðarfyrirtækjanna, sem standa mörg hver hálfnýtt, en mokað er inn í landið erlendum iðnaðarvarningi, sem hægt væri að framleiða í þessum fyrirtækjum. Og þannig væri nálega endalaust hægt að telja þau verkefni, sem krefjast úrlausnar og þyrfti að taka á samkv. þessari nýju stefnu.

Ég held því hiklaust fram, að bankakerfið íslenzka gæti hjálpað stórkostlega til í þessu efni, ef tekin væri upp lánastefna eitthvað svipuð þeirri, sem rekin var áður en breytt var um. Í þann tíð lét Seðlabankinn inn í peningakerfið sem svaraði 67% af andvirði framleiðsluvaranna, útflutningsframleiðsluvaranna, í stað þess, að nú lætur hann aðeins 55%, og á þessum árum höfðu viðskiptabankarnir allt sitt sparifé í lánum til almennings og atvinnuveganna. En á síðari árum hefur Seðlabankinn verið látinn draga veltufé úr umferð í staðinn fyrir að leggja til veltufé inn í kerfið. Það er nánast eins og barnaleikur, þegar fullábyrgir menn eru að ræða þessi málefni með upphrópunum, eins og t.d. þeim, að peningar séu ekki til og öðru því um líku, því að allir, sem hafa komið nokkuð nálægt þessum málum, vita, að það er algert matsatriði, hversu mikið seðlabankarnir í hverju landi skuli leggja til af fjármagni. Það er metið hverju sinni, hversu mikið fjármagn er skynsamlegt að leggja til, og það er hægt að leggja algerlega að áhættulausu mun meira lánsfjármagn til inn í veltuna, ef höfð er örugg stjórn á fjárfestingunni og gjaldeyrismálunum. Og þarna liggur kjarnapunkturinn í öllum þessum málum. Ef menn ekki vilja hafa neina stjórn á fjárfestingar- og gjaldeyrismálunum umfram það, sem verið hefur, gjalda menn fyrir það með samdráttarstefnu, sem þýðir, eins og nú er komið á daginn, verulegt atvinnuleysi.

Ég segi ykkur alveg satt, að hvernig sem reynt verður að velta þessum málum fyrir sér, mun það koma á daginn, að það er ekki hægt að komast sómasamlega inn á nýtt spor í þessum málum nema með því að taka upp þessa stefnu, sem ég hef bent hér á þráfaldlega á undanförnum árum og leyfi mér enn einu sinni að leggja áherzlu á, í tilefni af því, að þessi tvö frv. eru komin fram hér í dag frá stjórninni. Bæði þessi frv. fjalla í raun og veru um aukningu framkvæmda til þess að hjálpa til að vinna gegn atvinnuleysinu. En þau eru bæði byggð á því, að það verði ekki gert nema með því að taka lán erlendis.

Ég beiti mér alls ekki á móti því, að þessi frv. verði samþ., því að ég tel, að það þurfi nokkurt erlent lánsfé að koma til. En ég held hinu fram, að þessi frv. nái skammt, þau séu eins og dropi í hafið samanborið við þær ráðstafanir, sem þarf að gera til þess að rífa okkur út úr vandanum, og til þess að full atvinna verði í landinu.

Ég segi enn, það eru takmörk fyrir því, hvað við getum tekið mikið af erlendum lánum, og þess vegna verður að koma fjármagn til viðbótar, og það verður að koma með nýrri lánastefnu, en það er ekki hægt að taka upp þessa nýju lánastefnu, nema henni fylgi alveg ný stefna í atvinnumálum, til þess að stuðla að því, að fé, sem látið er í umferð, sé skynsamlega varið og þá fyrst og fremst þannig, að það komi aftur sem fyrst í fullum verðmætum.

Ég viðurkenni alls ekki þann hugsunarhátt, sem komið hefur fram fyrr og síðar og m.a. í þeim málum, sem hér eru lögð fram í dag, að við höfum ekki ráð á því að greiða mönnum kaupgjald fyrir að vinna arðgæf störf, en höfum fremur ráð á hinu að greiða mönnum atvinnuleysisstyrki, sem þeir fá ekki tækifæri til að vinna fyrir. Ég mótmæli slíkum hugsunarhætti, og ég bið menn að endurskoða þetta allt og líta á frá algerlega nýjum sjónarhóli, áður en það er orðið of seint, og bið menn að halda ekki dauðahaldi í úreltar kennisetningar, því að það er engum manni skömm að því að endurskoða framkomu sína og breyta um, ef hann kemst að þeirri niðurstöðu, að annað sé hyggilegra en það, sem hann hefur áður gert.