28.03.1969
Neðri deild: 72. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. þessarar deildar hefur haft þetta frv. til athugunar. Efni þess er tvíþætt, annars vegar er um að ræða heimild til handa ríkisstj. til að taka lán vegna byggingar hafrannsóknaskips og hins vegar heimild til handa ríkisstj. til að taka lán og endurlána Fiskveiðasjóði Íslands allt að 300 millj. kr. eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt.

Á fjárlögum fyrir þetta ár var ríkisstj. veitt heimild til þess að ábyrgjast allt að 185 millj. kr. lán vegna byggingar hafrannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar. Við samninga um þetta lán kom hins vegar í ljós, að hagstæðara mundi vera, að ríkissjóður sjálfur yrði lántakandi fyrir hönd Hafrannsóknastofnunarinnar og liggur nú fyrir, að hér geti orðið um að ræða lán til 12 ára með 51/2% vöxtum, sem telja verður hagstætt.

Hin lánsheimildin, sem frv. felur í sér, er eins og fyrr er sagt, heimild til handa ríkisstj. til að taka lán og endurlána það Framkvæmdasjóði Íslands, allt að 300 millj. kr. Í lögum um Framkvæmdasjóð er ekki að finna neinar sérstakar lántöku- eða ábyrgðarheimildir til handa ríkisstj. nema að ábyrgjast þau lán, sem þessi stofnun yfirtók af Framkvæmdabanka Íslands. Er ríkisstj. því nauðsyn á þeirri heimild, sem frv. felur í sér, eigi sjóðurinn að gegna hlutverki sínu sem skyldi. Hæstv. fjmrh. gerði í gær í framsögu um málið grein fyrir ráðstöfun á fé sjóðsins og sé ég því ekki ástæðu til að fara nánar út í það. Eins og ég sagði í upphafi, hefur fjhn. athugað frv., og leggur hún til, að það verði samþ. Einn nm., hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, var fjarverandi, er málið var afgr. í n., og tveir nm. hafa skrifað undir nál. fyrirvara.