28.03.1969
Efri deild: 67. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil nú byrja þessa stuttu ræðu á því að lýsa því yfir fyrir hönd okkar framsóknarmanna, sem eigum sæti í þessari hv. d., að við munum vera því fylgjandi, að þetta frv. nái fram að ganga. Eins og hæstv. fjmrh. gat um í sinni framsöguræðu, var í gær haldinn sameiginlegur fundur fjhn. beggja d. og frv. þar skoðað, og hygg ég, að það muni ekki standa á okkur a.m.k. að stuðla að því, að þetta frv. megi verða að l., áður en páskahlé alþm. hefst. En mig langar til þess að fara um efni frv. aðeins örfáum orðum hér við 1. umr., áður en því verður vísað til n. Enda þótt afstaðan sé skýr, eru örfá atriði, sem mig langar til að koma á framfæri, áður en málið fær afgreiðslu hér.

Frv. er, eins og hæstv. ráðh. gat um, í tvennu lagi, ef svo má segja. 2. gr. frv. fjallar um það, að ríkissjóður taki lán í þýzkum mörkum til þess að kosta smíði fiskileitarskips eða hafrannsóknaskips, eins og það mun heita, og er hér um að ræða formbreytingu frá því, sem Alþ. hefur þegar samþ., þar sem í fyrra, að mig minnir, var samþ. hér heimild fyrir ríkisstj. til að veita ábyrgð fyrir slíkri lántöku. Nú hefur það eftir upplýsingum, eins og segir í aths. þessa frv., komið í ljós, að hentugra þykir, að ríkissjóður verði sjálfur lántaki. Er það vitanlega einungis formbreyting en ekki efnis og ekkert við það að athuga, ekki sízt þar sem upplýst er, að þessi breyting hefur orðið til þess, að betri lánskjör fást heldur en ella munu hafa verið í boði. En á smíði þessa hafrannsóknaskips er auðvitað hin mesta nauðsyn, eins og Alþ. hefur margsinnis áréttað, og er gleðilegt til þess að vita, að nú skuli vera kominn skriður á byggingu þess.

1. gr. frv. er svo hins vegar um það, að ríkisstj. taki lán og endurláni Framkvæmdasjóði eða ábyrgist lán fyrir þann sjóð að upphæð 300 millj. kr. eða jafngildi þess í erlendri mynt. Þessi frvgr. leiðir vitanlega hugann að því, að sífellt er nú verið að auka erlendar lántökur og auka skuldabyrði ríkissjóðs gagnvart útlöndum. Og ég tek mjög eindregið undir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að slíkar lántökur eru því aðeins réttlætanlegar, að þessu fjármagni sé varið. í gjaldeyrisaflandi framkvæmdir eða a.m.k. gjaldeyrissparandi framkvæmdir. Nú er ekki tekið fram í þessu frv., til hvaða framkvæmda þessu fjármagni skuli varið, en samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gaf, virðist mér, að flestar ef ekki allar þær framkvæmdir, sem hann nefndi, uppfylli téð skilyrði og eigi þannig rétt á því samkv. þessu mati, sem ég legg á það, að til þeirra sé aflað fjármagns, og fyrst það reynist ekki vera hægt innanlands, verði að taka það erlendis. Þannig hygg ég, að sé hagað um stækkun Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju og viðbyggingu við Laxárvirkjun. Þessar verksmiðjur allar spara okkur kaup á framleiðsluvörum sínum erlendis frá. Iðnaðardeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga á Akureyri hefur í vaxandi mæli aflað erlendra markaða fyrir framleiðsluvörur sínar, og hygg ég, að þau lán, sem hún tekur í þessu skyni og með þessum hætti, muni fyllilega standa undir sér gjaldeyrislega skoðað. Og þá þarf væntanlega ekki að ræða um það, hver nauðsyn okkur er á því að efla innlendar skipasmíðar, og hversu stórlega það getur dregið úr gjaldeyriseyðslu þjóðarinnar, að við verðum sem mest okkur sjálfum nægir í því tilliti. Og það síðasta, sem hæstv. ráðh. nefndi, að breyta stuttum erlendum lánum í lengri lán, er vitanlega dæmi eða atriði, sem gengur út og inn í þessu sambandi.

En það er vissulega alvarlegt mál, hve greiðslubyrðin í erlendri mynt er orðin gífurlega há. Það kom fram hér í umr. á Alþ. um daginn, þegar hæstv. fjmrh. svaraði fsp. um það, hverju þessar erlendu skuldir næmu, að greiðslubyrðin, greiðsla vaxta og afborgana, er nú orðin miklu hærri hundraðshluti af tekjum þjóðarinnar heldur en nokkru sinni fyrr og hátt í það tvöföld við það, sem hún var árið 1958, þegar stjórnarbyltingin varð og þegar ein helzta röksemd þeirrar byltingar eða breytingar, ef hæstv. ráðh. vill heldur kalla það svo, var þó talin, að um þyrfti að skipta. Svo að hafi ástandið verið alvarlegt 1958 og ástæða til stjórnarbreytinga þá, hversu rík er ekki ástæðan þá orðin nú, ef þetta væri eina matið, sem leggja bæri á slíka hluti? Og þá var talið, að greiðslubyrði okkar erlendis væri með því allra hæsta, sem gerðist hjá nokkurri þjóð, og hygg ég þá, að við hljótum mjög að vera farnir að nálgast heimsmetið nú.

Til þess að halda hér uppi eðlilegu atvinnulífi þarf aukið fjármagn. Um það eru nú allir sammála, og æskilegast væri, að til þess væri hægt að nota innlent fjármagn. Ég hef nokkrum sinnum lagt það til hér á hv. Alþ., að viðskiptabönkum landsins yrði gert kleift að taka aukinn þátt í uppbyggingu atvinnulífsins með því t.d. að hætta að binda aukningu sparifjárins, eins og gert hefur verið nú um 8 ára skeið. Og að Seðlabankinn kæmi meira til móts við atvinnuvegina heldur en hann hefur treyst sér til að gera undanfarin ár, t.d. í formi afurðalána. Um þessi mál liggja nú fyrir frá mér og fleiri þm. þáltill., sem ganga í þá átt annars vegar að hækka afurðalánin upp í það, sem þau voru, áður en þau voru lækkuð í tíð núv. hæstv. ríkisstj., eða upp í 67% af skilaverðinu, og svo hins vegar, að sparifjárbindingunni verði aflétt. Í þeirri till. hef ég þó ekki gengið lengra en svo, að hætt verði að binda nýja aukningu, en ekki krafizt þess, að fjármagninu verði skilað til baka.

Nú sé ég það, að sjálfstæðismenn úr verzlunarmannastétt hafa haldið hér ráðstefnu og komið inn á fjármagnsskort atvinnufyrirtækjanna. Og þeir ganga miklu lengra heldur en ég hef treyst mér til, því að þeir krefjast þess, að bankarnir fái ráðstöfunarrétt á öllu því bundna fé, sem af þeim hefur verið tekið. Vitanlega væri það æskilegt, að það væri hægt, en ég hef gert mér það ljóst, að nokkrum erfiðleikum væri bundið að skila aftur öllu því, sem ráðstafað hefur verið, og heppilegra mundi vera að taka skrefið í áföngum og t.d. byrja á því að afnema þá bindingu, sem nú er. Um þessar till. báðar veit ég ekkert eða afdrif þeirra, þeim hefur verið vísað til n. Þar bíða þær, en ég leyfi mér að vænta þess með hliðsjón af þeim vaxandi skilningi, sem aukin fjármagnsþörf atvinnufyrirtækjanna á að mæta í stjórnarherbúðunum nú upp á síðkastið, að þær hljóti jákvæða afgreiðslu eða a.m.k. verði framkvæmdar efnislega.

Það er vitað mál, að kaupgeta fólks má ekki fara niður úr vissu marki til þess, að eðlilegt athafnarlíf og viðskiptalíf geti haldið áfram hér á landi. En heyrzt hefur, að of mikil kaupgeta hafi óheillavænleg áhrif á bæði gjaldeyriseyðslu og fjárfestingu, og leiði til óheppilegra aðgerða. Það má vera rétt kenning, ef ekkert er að gert. En ég bendi á það, að hér fyrr í dag á fundi þessarar hv. d. var til meðferðar frv. um atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun. Þessu frv. hefur nú verið vísað til ríkisstj., og í því er að finna það svar, sem við framsóknarmenn hér í þessari hv. d. og við allir, sem á þingi sitjum, höfum við þessari spurningu og því, hvernig beri að snúast við þeim vanda. Ég fagna því, að í umr. um þetta mál, sem fóru fram hér t.d. í gær og í því nál., sem hv. meiri hl. gaf út um það, þá er nú í fyrsta skipti viðurkennt, svo að ég hafi tekið eftir, skýlausum orðum, að sterkari stjórnar á fjárfestingarmálum og á atvinnumálum sé þörf. Hins vegar treysta hv. meirihlutamenn sér ekki enn til þess að viðurkenna það, að nokkra stjórn þurfi að hafa á meðferð gjaldeyrismála. Vonandi líður ekki langt þangað til þeir einnig átta sig á því, að slíkri stjórn þarf uppi að halda.

Mér er það ljóst, að nokkrum erfiðleikum er bundið fyrir hæstv. ríkisstj. að gera Alþ. nú nákvæma grein fyrir því, til hvers þær 300 millj. kr. skuli notaðar, sem skv. 1. gr. frv. er ráðgert að taka að láni erlendis. Ég finn ekkert að þessu, og hæstv. ráðh. kom til móts við óskir okkar með því að upplýsa svona í stórum dráttum það, sem helzt kæmi til greina. Óneitanlega væri það æskilegra fyrir Alþ. að vita það nákvæmlega hverju sinni, hvaða lántökuheimildir það er að samþykkja, en á það má fallast, að hér sé ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem verið hefur, því að það er rétt, sem fram hefur komið, að í lögum um Framkvæmdabankann var heimild til þess að taka lán og Alþ. hafði ekki neitt sérstakt um það að segja hverju sinni.

Þessar almennu hugleiðingar mínar um lánsstöðuna og hættuna á því að sökkva sér lengra í skuldafenið erlendis ber ekki að taka sem andstöðu við þetta frv. Eins og ég hef hér gert grein fyrir, tel ég, að þau mál, sem úrlausn eiga að fá samkv. ákvæðum þess, séu þess eðlis, að það sé réttlætanlegt að taka til þeirra erlend lán, og sú afstaða mótast af því, að þessar framkvæmdir muni skila þeim gjaldeyri, sem til þeirra gangi.