28.03.1969
Efri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. það, sem útbýtt hefur verið, ber með sér, leggur fjhn. einróma til, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa hér langa framsögu, en get þó ekki látið hjá líða í tilefni af ræðu hv. 11. þm. Reykv. við 1. umr. málsins, þar sem hann fór með nokkrar tölur, að bæta þar nokkru við til áréttingar. Má ekki skoða það þannig, að ég sé að fara hér í stjórnmáladeilur. Slíkt ætti ekki við, bæði vegna þess, að málinu þarf að hraða, og auk þess mæli ég hér fyrir sameiginlegu nál. En hann minntist á það, að menn hefðu haft miklar áhyggjur árið 1958 út af greiðslubyrðinni, sem þá hefði aðeins numið 7–8%, en hún hefði numið 15% á s.l. ári. Nú vefengi ég það ekki, að rétt hafi verið með þessar tölur farið hjá hv. þm., en því má bæta við, að þá var reiknað út, að óbreyttum aðstæðum, að þessi 7–8% yrðu eftir 2–3 ár komin upp í 11% eða meira. Það varð, og árið 1961 mun greiðslubyrðin hafa numið 11% eða meira, og ég man, að á Alþ. fyrri hluta ársins 1961 höfðu menn áhyggjur af því og var um það rætt, að greiðslubyrðin kynni þá að fara upp í 15–20%, en það varð ekki vegna góðrar síldveiði seinni hluta ársins. En því má við þetta bæta, að þessi 11%, sem talið var 1958, að greiðslubyrðin mundi nema 1961, voru miðuð við það árferði, sem þá var, sem var sæmilega gott. En hefði þjóðarbúskapurinn þá orðið fyrir þeim áföllum, sem nú hafa orðið, að útflutningstekjurnar minnkuðu um helming, þá er auðvitað sýnt, að greiðslubyrðin hefði farið yfir 20%. Einnig var það nú ekki alveg rétt, að við hefðum heimsmet í þessu sambandi. Það mun hafa verið talað um það 1958, að Íslendingar væru þá önnur hæsta þjóðin af Evrópuþjóðum, fyrir utan Júgóslava, að mig minnir. En förum við út fyrir Evrópu, veit ég, að fyrir nokkrum árum var greiðslubyrði sumra þróunarlandanna, eins og t.a.m. Indónesíu, 30% eða þar yfir. Nú eru þessi 15% miðuð við þann öldudal, sem atvinnulífið vonandi hefur verið í á árinu 1968. En ef útflutningstekjur aukast frá því, sem þá var, sem við vonum, þá kemur greiðslubyrðin til með að lækka af sjálfu sér. Og með tilliti til þess mikla vaxtar, sem orðið hefur á þjóðarauðnum síðan 1958, þá hygg ég, að það sé ekki þyngri byrði, þó að greiðslubyrðin nemi 15% nú, heldur en 11% voru þá. Þessar staðreyndir taldi ég rétt, að kæmu fram, en annars tek ég undir það bæði með hv. 11. þm. Reykv., svo og hæstv. fjmrh., að greiðslubyrði okkar er orðin það há, að allrar varúðar ber að gæta í sambandi við erlendar lántökur, þó að við í fjhn. höfum nú orðið sammála um að mæla með þessari lántökuheimild.