27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér virðist þetta frv. setja Alþ. í dálítinn sérstæðan formlegan vanda. Í því felst staðfesting á samkomulagi, sem gert var 17. janúar í vetur milli hæstv. ríkisstj., Vinnuveitendasambandsins og stjórnar Alþýðusambands Íslands. Þessir þrír aðilar eru bundnir af því samkomulagi, sem þeir gerðu. Ef við alþm. vildum gera breytingu á þessu frv. og þar með breyta framkvæmd þessa samkomulags, þá mundu aðilar samkomulagsins að sjálfsögðu ekki vera bundnir af því lengur. Ég fæ ekki séð, að eins og þetta mál ber að, sé þess nokkur kostur fyrir alþm. að bera fram brtt., hversu skynsamlegar, sem þær eru, og hversu mikla áherzlu, sem menn kynnu að leggja á þær efnislega, vegna þess að breytingar á þessu frv. mundu raska sjálfum grundvellinum, því samkomulagi, sem ég var að tala um áðan. Og þetta eru í sjálfu sér ákaflega slæm vinnubrögð. Með þessu er í rauninni aðeins verið að gera Alþ. að afgreiðslustofnun. Það er oft talað um, að Alþ. sé afgreiðslustofnun og þegar málin ber þannig að, að í rauninni er ekki hægt að breyta þeim, þá er skörin farin að færast upp í bekkinn. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. hefði auðveldlega getað haft þann hátt á að leita lagaheimildar um þau atriði, sem löggjöf þurfti til. Þar á ég við heimild til lántöku, sem felst í 5. gr. frv. og í annan stað atriði, sem að er vikið í 6. gr. frv. En þessi sérstaki málatilbúnaður veldur því, að það er í sjálfu sér næsta tilgangslítið að fjalla um einstök efnisatriði í einstökum greinum frv., en engu að síður hafði ég hug á því að flytja hér nokkrar hugleiðingar, sem eru tengdar eðli málsins og aðdraganda þess.

Þetta samkomulag, sem gert var 17. janúar, var afleiðing af mjög alvarlegu ástandi, sem þróazt hafði í atvinnumálum. Atvinnuleysingjum hafði farið mjög ört fjölgandi og skömmu eftir að þetta samkomulag var gert, sýndu skýrslur, að þeir voru orðnir hátt á 6. þúsund talsins. Því var lýst yfir, þegar þetta samkomulag var gert, að tilgangur þess væri sá að uppræta atvinnuleysið, og það voru birtar um það mjög stórar fyrirsagnir í blöðum og frásagnir í öðrum fjölmiðlum, að þarna væri verið að gera hluti, sem mundu bæta úr þessu neyðarástandi á skömmum tíma. Við höfum haft af því nær tveggja mánaða reynslu, að þessi hefur ekki orðið raunin. Eins og hæstv. forsrh. greindi frá hér áðan, voru atvinnuleysingjar í gær 2100, eða ámóta margir og þeir voru um seinustu áramót. Og fækkun sú, sem orðið hefur frá janúarlokum, er ekki afleiðing af því samkomulagi, sem gert var 17. janúar, heldur afleiðing af hinu, að vertíðin hefur komizt af stað og gengið ákaflega vel.

Ég er ákaflega hræddur um það, að það kunni að eiga eftir að líða langur tími, án þess að þetta atvinnuleysi verði upprætt. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að eftir rúman mánuð kemur á vinnumarkaðinn stór hópur manna, nemendur úr öllum framhaldsskólum landsins, þúsundir manna. Og ef enn verður hópur atvinnuleysingja úr hinum venjulega verkamannahópi, þegar þessi hópur bætist við, hvernig halda menn þá, að ástandið verði? Það hefur verið framkvæmd könnun í skólunum og hún leiddi í ljós, að mikill meiri hl. nemenda hafði enga tryggingu fyrir vinnu í sumar, og um það bil þriðjungur þeirra gerði sér enga von um vinnu. Og í menntaskólunum er þannig ástatt, að nemendur lýsa yfir því — ég held, að það hafi verið um það bil þriðjungur þeirra — að þeir sjái ekki fram á, að þeir geti haldið námi sínu áfram, ef þeir fái ekki sumaratvinnu. Mér virðast því miður allar líkur á því, að atvinnuleysi það, sem hófst í fyrrahaust og náði hámarki í janúarlok, kunni að eiga eftir að móta allt þetta ár, ef ekki verður meira að gert en felst í þessu frv.

En var það þá í raun og veru tilgangur hæstv. ríkisstj. með samkomulaginu í janúar að uppræta atvinnuleysið án tafar? Ég held, að full ástæða sé til þess að bera þá spurningu upp við sig, og svara henni af fullu raunsæi. Atvinnuleysið, sem hófst í fyrrahaust, kom ekki á neinn óvæntan hátt. Það var einnig atvinnuleysi hér í fyrravetur, og það atvinnuleysi hafði verið séð fyrir. Atvinnuleysið í fyrravetur kom mjög til tals milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. í sambandi við verkfallið mikla, sem gert var í marz í fyrra. Því verkfalli lauk með því, að verkalýðssamtökin slökuðu mjög verulega á lágmarkskröfum sínum um fullar vísitölubætur, gegn því að hæstv. ríkisstj. hét ákveðnum aðgerðum til þess að uppræta atvinnuleysi og koma í veg fyrir atvinnuleysi á Íslandi. Það var birt yfirlýsing um þetta efni í mörgum liðum og gefin mjög fögur fyrirheit. Það var sett á laggirnar sérstök nefnd með aðild allra þeirra aðila, sem stóðu að samkomulaginu í janúar í vetur, og ráðh. var settur sem formaður þessarar nefndar. En hverjar urðu svo efndirnar? Efndirnar urðu engar. Þessi nefnd gerði ekki nokkurn skapaðan hlut og hún lognaðist út af eftir vissan tíma og síðan hefur enginn til hennar heyrt.

Það hefði verið hægt að gera þær ráðstafanir á síðasta ári, sem hefðu dugað til þess, að ekki kæmi til atvinnuleysis s.l. haust. En þær ráðstafanir voru ekki gerðar. Og hæstv. ríkisstj. fékkst ekki einu sinni til þess að gefa þau loforð, sem fólust í samkomulaginu 17. janúar, fyrr en atvinnuleysið var orðið svo víðtækt, að það var orðið greinilegt pólitískt vandamál.

Það er ástæða til þess að hugleiða einnig, hvernig á þessu atvinnuleysi stendur. Hæstv. ríkisstj. segir, að ástæðan fyrir atvinnuleysinu sé sú, að síldarafli hafi minnkað og að verð á útflutningsafurðum okkar sé lægra en það var, þegar það náði hinu mikla hámarki 1966. Ef menn kunna að hugsa rökrétt, þá liggur það í hlutarins eðli, að þetta eru ekki ástæður fyrir atvinnuleysi. Ef síldarafli er minni en verið hefur áður, þá er það sannarlega ekki tilefni til þess að láta þúsundir manna ganga um atvinnulausa. Þvert á móti ætti slíkt ástand að leiða til þess, að reynt væri að efla atvinnu á öðrum sviðum. Slíkt hið sama er um það að segja, er verð á útflutningsafurðum okkar lækkar; við verðum að reyna að vinna það upp með meiri vinnusemi. Þetta kunna að virðast ósköp einföld og barnaleg sannindi, en þetta eru sannindi. Menn eiga ekki að loka sig inni í einhverjum hagfræðilegum kenningum. Ef þjóð verður fyrir ytri áföllum, ber henni að vinna það upp með aukinni vinnusemi.

Ástæðurnar fyrir atvinnuleysinu eru allt aðrar. Ástæðurnar eru þær, að hér hafa ekki verið tiltæk næg atvinnutæki handa vinnandi mönnum í landinu. Ýmist hefur þessi atvinnutæki skort eða atvinnutækin hafa ekki verið í notkun. Við vitum ósköp vel, hvernig þeir atburðir hafa þróazt á ýmsum sviðum. Ég þarf ekki enn einu sinni að rifja upp staðreyndirnar um togaraflotann eða um bátaflotann eða um samdráttinn í öllum tegundum iðnaðar. Það er þessi samdráttur, sem hefur leitt til þess, að þetta víðtæka atvinnuleysi varð hér í vetur, og þessi samdráttur er afleiðing af stefnu hæstv. ríkisstj. Þetta er ekkert óviðráðanlegt ástand. Þetta er afleiðing af pólitík, afleiðing af stjórnarstefnu.

Þegar viðreisnarstjórnin tók við, tók hún upp eitt grundvallarnýmæli í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hún hafnaði algerlega allri félagslegri forystu í efnahagsmálum og atvinnumálum og ætlaðist til þess, að markaðslögmál ættu að stjórna þróun þeirra mála á Íslandi. Þar með braut hún í bága við margra áratuga þróun hér á landi. Það hefur verið stefna allra íslenzkra flokka, að vegna þess, hve hið íslenzka þjóðfélag er fámennt og hve fjármagn hér er lítið, komumst við ekki hjá því að hafa félagslega forystu á miklu fleiri sviðum en aðrar og stærri þjóðir, alveg án tillits til þess, hvaða þjóðskipulag menn aðhyllast. Á þennan hátt hafa ýmsir helztu þættir atvinnumála okkar verið byggðir upp á undanförnum áratugum, og allir flokkar hafa að því staðið. En nýmæli viðreisnarstjórnarinnar var það, að þannig mátti ekki á málum halda. Í stað hinnar félagslegu forystu ríkisins áttu að koma hin sjálfvirku markaðslögmál. Með þessu ímyndaði hæstv. ríkisstj. sér, að hún væri að festa í sessi á Íslandi það kapítalíska hagkerfi, sem hún trúir á. En hún gætti ekki að því, að þessi stjórnaraðferð í efnahagsmálum getur með engu móti átt við um þjóðfélag eins og það íslenzka. Hún hlaut að leiða til ófarnaðar og hún leiddi til ófarnaðar. Hún hefði leitt til ófarnaðar miklu fyrr, ef við hefðum ekki notið alveg óvenjulegra happa af völdum náttúrunnar.

Það er mikil tízka hjá stjórnarvöldum um þessar mundir að vitna til ársins 1966, eins og það sé eitthvert meðalár á Íslandi. Þegar talað er um árið í ár sem neyðarár og erfiðleikaár, þá er það alltaf borið saman við árið 1966. En árið 1966 var svo óvenjulegt happaár, að það ár urðu útflutningstekjur Íslendinga tvöfalt meiri en þær eru í meðalári, tvöfalt meiri. Árið í fyrra, sem talið er mikið erfiðleikaár á þessum forsendum, er raunar mjög nálægt meðalári. Gjaldeyristekjurnar og þjóðartekjurnar eru svipaðar og þær voru 1962 og 1963, þegar var fullt atvinnuöryggi á Íslandi og þegar afkoma launamanna var mun betri en hún er núna.

Ef menn ætla að gera ráðstafanir til þess að vinna bug á atvinnuleysi, verða þeir að átta sig á þessari staðreynd, að þetta eru orsakir atvinnuleysisins, að röng stefna hefur leitt til þess, að okkur skortir framleiðslutæki á sumum sviðum og að framleiðslutæki á öðrum sviðum eru ekki hagnýtt. Og ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað snúast við þessum vanda, bar henni að horfast í augu við þá staðreynd, að hún yrði að breyta stefnu sinni. En því miður hefur hæstv. ríkisstj. ekki haft djörfung til þess að viðurkenna þessa óhjákvæmilegu staðreynd. Stefna hennar hefur í staðinn verið sú að reyna að viðhalda gjaldþrota efnahagskerfi með því að leggja sívaxandi byrðar á launamenn í landinu. Þetta hefur m.a. verið gert með tveimur gengislækkunum á einu ári, og þessum gengislækkunum er ætlað að stuðla að mjög verulegri tilfærslu á fjármunum í þjóðfélaginu frá launamönnum og til atvinnurekenda. Og öll stefna hæstv. ríkisstj. miðast við það, að fjármunatilfærslan nái fram að ganga. Einnig þetta verða menn að muna, að hæstv. ríkisstj. telur sig standa og falla með því, að þessi fjármunatilfærsla nái fram að ganga. Og hvernig hefur hæstv. ríkisstj. staðið að þessu verkefni í vetur? Ég held, að það sé ekkert álitamál, að hæstv. ríkisstj. hefur hagnýtt þetta atvinnuleysi til þess að reyna að gera verkalýðshreyfingunni sem erfiðast fyrir að hrinda af sér þessum byrðum. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. að minni hyggju tvímælalaust gert vitandi vits. Hún hefði auðveldlega getað komið í veg fyrir þetta atvinnuleysi, eins og ég sagði áðan, með réttum aðgerðum á síðasta ári, og hún hefði getað unnið bug á því miklu fyrr. Hún hefði getað gert það þegar í lok síðasta árs, og hún hefði getað gert þær ráðstafanir í janúar, sem hefðu breytt þessum aðstæðum á tiltölulega fáum vikum í stað þess að setja upp kerfi, sem er svo seinvirkt, að það verkar ekki fyrr en eftir marga mánuði.

Ég er ekki að segja, að hæstv. ríkisstj. standi þannig að málum af einhverri mannvonzku, eins og stundum er sagt. Þetta stafar af því, að hæstv. ráðh. hljóta að ímynda sér það í góðri trú, að þeir séu að framkvæma rétta stefnu, og þá beita þeir þeim ráðum, sem þeim eru tiltæk. En ég held, að það sé fyrir löngu orðið tímabært, að þessir ráðh. átti sig á því, að þessi stefna er röng og það er ekki hægt að halda henni áfram lengur, ef við viljum ekki leiða yfir þjóðfélagið mjög alvarlegar hættur og mun alvarlegri hættur en við höfum séð framan í allt til þessa. Raunar er mér það næsta mikil ráðgáta, hvers vegna Sjálfstfl. hefur ríghaldið í þessa hagfræðikreddu nú í heilan áratug. Sjálfstfl. er enginn nýliði í íslenzkum stjórnmálum. Hann hefur orðið að takast á við mörg vandamál, og hann hefur löngum áður þorað að brjóta í bága við hagfræðikreddur af þessu tagi. Sjálfstfl. stóð að því í upphafi heimskreppunnar að taka hér upp margs konar haftastefnu, m.a. þá þjóðnýtingu á gjaldeyri, sem enn þá tíðkast á Íslandi, og einokunarstarfsemi í sambandi við útflutningsverzlun. Eftir síðasta stríð stóð Sjálfstfl. að rammasta haftakerfi, sem verið hefur á Íslandi, kerfi, sem hv. þm. ólafur Björnsson hefur lýst fyrir okkur mjög skemmtilega í mörgum ræðum og á vonandi eftir að gera margsinnis enn. En Sjálfstfl. hefur einnig gert meira. Sjálfstfl. hefur staðið að þeirri einu tilraun til áætlunarbúskapar, sem gerð hefur verið á Íslandi. Það er dálítið skemmtilegt að rifja það upp núna, hvert var verkefni Nýbyggingarráðs, sem sett var á laggirnar 1944 með aðild Sjálfstfl. Um það efni sagði svo í lögum, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skipar fjögurra manna n., er nefnist Nýbyggingarráð. Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu 5 ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki, samgöngutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, svo og hvernig bezt verði fyrir komið innflutningi fáanlegra tækja og efnis á næstu árum með það fyrir augum að hagnýta sem bezt vinnuafl þjóðarinnar og auðlindir landsins. Þá skal Nýbyggingarráð gera áætlanir um, hvar tæki skuli staðsett og till. um byggingar og aðrar framkvæmdir í því sambandi. Nýbyggingarráð hlutast til um, að slík tæki verði keypt utanlands eða gerð innanlands svo fljótt sem auðið er og hefur milligöngu fyrir þá aðila, sem þau vilja kaupa og þess óska.“

Hér var í fyrsta skipti á Íslandi tekin upp áætlunarstefna, sem er alger andstæða haftastefnu, þótt hæstv. forsrh. virtist ekki gera sér það ljóst í almennum umr., sem urðu hér einu sinni í vetur. Áætlunarstefna felur í sér jákvætt frumkvæði hins opinbera um að ráðast í athafnir, sem ekki verður ráðizt í að öðrum kosti. Og það var þetta, sem gerðist um þriggja ára skeið, eftir að nýsköpunarstjórnin var mynduð. Á þeim stutta tíma var endurnýjaður togarafloti landsmanna, bátaflotinn, millilandaskipin og fjölmargt annað, sem ég hirði ekki um að telja upp. En þessar áætlunarframkvæmdir gerbreyttu íslenzku þjóðfélagi. Þær urðu undirstaða þeirrar þróunar, sem síðan tók við og leiddi okkur til þess að verða ein mesta velmegunarþjóð í heimi í nokkur ár. Þetta var árangur af áætlunarstefnu, og Sjálfstfl. sjálfur tók þátt í þeirri áætlunarstefnu. Ég man vel eftir því, að Sjálfstfl. og forystumenn hans og Morgunblaðið hældu sér af þessu ár eftir ár og þökkuðu Sjálfstfl. einmitt þessa forystu. En núna um 10 ára skeið hef ég ekki heyrt minnzt á nýsköpunarstjórnina í Morgunblaðinu. Það er vegna þess, að grundvöllur þeirrar stjórnar er í algerri andstöðu við þá efnahagskreddu, sem nú er fylgt.

En ég held, að reynslan ætti að hafa fært okkur heim sanninn um það, að áætlunarvinnubrögð af þessu tagi eru okkur algerlega óhjákvæmileg, ef við ætlum að halda velli í samvinnu og samkeppni við önnur margfalt stærri og margfalt auðugri þjóðfélög. Ég vík að þessum atriðum vegna þess, að í því frv., sem hér liggur fyrir, felst vissulega undanhald hæstv. ríkisstj. fyrir því sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar, að nú verði að koma til félagsleg forysta til þess að tryggja fulla atvinnu í landinu. En þetta undanhald er fjarskalega lítið. Ríkisstj. hefur af pólitískum ástæðum, vegna þess, að hún dirfist ekki annað, látið örlítið undan, en hún hefur aðeins á sér yfirskin guðrækninnar, en afneitar hennar krafti.

Upphæð sú, sem þarna er til afnota, er svo lág, að hún getur engan veginn leyst nema örlítið brot af þeim vandamálum, sem nú blasa við. Og kerfið sjálft, sem þarna er byggt upp, minnir miklu fremur á haftastefnu en áætlunarstefnu. Sú nefnd, sem þarna er sett upp, er úthlutunarnefnd. Hún á fyrst og fremst að taka við umsóknum, gera upp á milli manna og skammta. Frumkvæði hefur hún ekki nema þá að afar takmörkuðu leyti. Þetta er haftapólitík. Þetta er ekki áætlunarstefna.

Ég hef vikið að þessu atriði oft áður hér í umr., vegna þess að ég held, að þetta skipti sköpum um alla framtíðarþróun hins íslenzka þjóðfélags. Ef við eigum að hefja þá iðnvæðingu, sem mest er rætt um, þá getum við ekki gert það án áætlunarbúskapar. Það er algert sjálfsmorð að hafa þann hátt á, sem hæstv. forsrh. lýsti í sjónvarpsviðtali á dögunum, að ganga fyrst í EFTA og gera sér síðan vonir um, að á eftir muni eitthvað opnast fyrir okkur, án þess að hafa hugmynd um, hvað það yrði. Ef við ætlum að vera menn til þess að hefja iðnþróun á Íslandi og keppa við aðra, þá verðum við að leggja saman krafta okkar og leggja á ráðin sameiginlega og hagnýta alla þá þekkingu, sem okkar beztu sérfræðingar ráða yfir. Og við eigum að vera menn til þess að skipuleggja allt atvinnulíf okkar. Við verðum að muna eftir því, að þjóðarbúskapur okkar er svo fjarskalega lítill, að hann jafngildir aðeins meðalfyrirtæki hjá stórþjóð. Við getum ekki leyft okkur þennan glundroða, sem verið hefur einkenni viðreisnartímabilsins og að vísu allt of mikið einkenni á allri sögu okkar. Við getum ekki haldið þessu áfram, því að ef við gerum það, verðum við örugglega undir og þá bíður okkar það eitt hlutskipti að eftirláta erlendum auðfélögum það, sem þau kunna að sækjast eftir hér, ódýra orku og kannske eitthvað annað, en hvað verður um okkur sjálfa og okkar eigin forystu? Ég held, að þetta sé atriði, sem þeir flokkar, sem alltaf hafa beitt sér fyrir áætlunarbúskap, verkalýðsflokkarnir báðir, ættu að fara að hugleiða af fullri alvöru og af fullu raunsæi.

Það voru verkalýðsflokkarnir báðir, sem stuðluðu að því, að áætlunarbúskapur var hagnýttur í nýsköpunarstjórninni. Verkalýðsflokkarnir báðir komu inn í stefnuyfirlýsingu vinstri stjórnarinnar ákvæðum um áætlunarbúskap, sem ekki var staðið við, vegna þess að Framsfl. hafði þá allt aðra afstöðu til áætlunarbúskapar en núna kemur fram. Það er gott, að hann hefur breytt um skoðun, en svona var þetta þá. En á sama hátt held ég, að verkalýðsflokkarnir báðir þurfi að beita áhrifum sínum nú og ekki láta neina fordóma standa þar í veginum til þess að knýja á um áætlunargerð. Þær raddir hafa raunar mjög heyrzt frá Alþýðuflokksmönnum að undanförnu. Núna nýlega birtist t.d. í Alþýðublaðinu mjög skýr grein eftir formann Sambands ungra jafnaðarmanna, Örlyg Geirsson, og henni lauk á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Skipan atvinnumálanefndar ríkisins, þar sem ríkisvald, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur vinna saman að útrýmingu atvinnuleysis, er spor í rétta átt, en lítið spor. Uppbygging nýrra atvinnuvega jafnframt því, sem hinir gömlu eru treystir, er þjóðinni lífsnauðsyn, því að ef ekki verður tryggður efnahagslegur grundvöllur lýðveldisins, er sjálfstæði þjóðarinnar í hættu. Það verður því að vera hlutverk Alþfl. í ríkisstj. nú að knýja fram nýja stefnu í stjórn efnahagsmála. Takist það ekki, verður flokkurinn að endurskoða afstöðu sína til setu í ríkisstj.

Ég hygg, að allverulegur hluti Alþfl. taki undir þessa afstöðu. Og ég held, að atvinnurekendur innan Sjálfstfl. ættu að fara að hugleiða þessi mál á nýjan leik eftir þá reynslu, sem nú er komin. Áætlunarbúskapur felur ekki í sér neina þjóðnýtingu. Hann felur aðeins í sér bætt skipulag og þeir íslenzkir atvinnurekendur, sem nú óttast, að þeir verði undir í samkeppni við erlenda aðila, eiga að vera menn til þess að taka hér upp þær hagstjórnaraðferðir, sem hafa gefizt öðrum þjóðum bezt, hvernig svo sem þjóðskipulagið hefur verið þar. Ef þessir aðilar, flokkar verkalýðshreyfingarinnar og þeir atvinnurekendur, sem bera ábyrgð á hinum þjóðlegu atvinnuvegum, leggja sameiginlega áherzlu á þessa nauðsyn, mun eitthvað undan láta.