27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka þm., sem hér hafa talað, fyrir þeirra að flestu leyti fögru orð og góðu hugsanir og eindreginn samvinnuvilja, sem ekki sízt lýsti sér í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég vonast til þess, að það eigi eftir að koma fram í fleiru, hversu hann vill efla samhug og góðvild meðal landsmanna eftir þeim orðum, sem hann nú viðhafði. Fagna ber hverjum þeim sauð, sem kemur heim til föðurhúsa.

Varðandi fsp., þá vil ég svara síðustu fsp. umsvifalaust, og það er hægt að svara henni algerlega neitandi. Það mun ekki koma til greina, að atvinnumálanefnd ríkisins stuðli að því, að sútunarverksmiðja verði flutt frá Akranesi eitthvað annað. Þvert á móti hefur verið um það rætt, að æskilegt væri að efla sútunarverksmiðju á Akranesi, svo að hér skýtur mjög skökku við í þeim hugleiðingum, sem hv. þm. lét uppi.

Varðandi fsp. hv. 3. þm. Vesturl. er það svo, að atvinnumál skólafólks hljóta auðvitað mjög að vera tengd almennu atvinnuástandi í landinu. Að því er öfluglega unnið af hálfu ríkisstj. að efla atvinnulífið, og vissulega standa vonir til þess, að það geti eflzt svo, að þetta vandamál verði mun minna heldur en ýmsir nú óttast. Við verðum hins vegar í því sambandi að gera okkur grein fyrir því, að meðan öll okkar afkoma er komin undir sjávarafla, — ég segi öll okkar afkoma, það eru auðvitað ýkjur, — en meðan hún er komin undir sjávarafla í svo verulegum mæli, sem raun ber vitni og meira en 90% útflutningsins kemur af sjávarafla, þá verðum við að hafa í huga hið fornkveðna, að svipull er sjávarafli. Þess vegna er ákaflega erfitt að gera sér fyrirfram grein fyrir þróun í efnahagsmálum Íslendinga, nærri því frá mánuði til mánaðar, hvað þá frá misseri til misseris, og enn þá síður á milli ára, jafnvel þó að langt árabil kunni að leiða til viss jafnaðar. En sveiflurnar eru svo miklar, að það er ákaflega erfitt að sjá fyrir þróun, sem framundan er. Þetta vitum við allir. Ef þróun verður slík, að sérstakra ráðstafana verði þörf, þá verður auðvitað að skoða það, þegar þar að kemur, hvers eðlis þær þurfa að verða og hvaða geta sé til þess að fullnægja þeirri þörf, sem þannig kynni að blasa við. En vitanlega er það okkur öllum ljóst, að æskilegt er, að sem flestir skólanemar á Íslandi geti haft atvinnu. Ég tel, að það sé eitt aðalsmark á íslenzku þjóðfélagi, að ungt fólk í skólum hefur ætíð gengið að venjulegum störfum, kannske upp á síðkastið minna en oft áður, en sá háttur má ekki niður falla. En eins og ég segi, getan í þessu efni hlýtur að verulegu leyti að skapast af hinni almennu atvinnuþróun í landinu.

Varðandi annað atriðið, sem hv. þm. spurði um, hvað liði lánum til iðnaðarins og hvort gerðar hefðu verið ráðstafanir til að hraða þeirri starfsemi, þá gat ég þess í mínum inngangsorðum, að á þessu hlýtur að verða nokkur hægagangur. En ég tel nauðsyn að hraða því, eftir því sem efni málsins frekar stendur til, og mun beita mínum áhrifum í þá átt.

Um þá fsp. hv. þm., hvort Seðlabanki Íslands hefði getað látið það lánsfé af hendi, sem nú á að ráðstafa, þá er því miður svo, að geta til þess var ekki fyrir hendi. Hér komum við inn á það, sem mestu máli skiptir um ágreining á milli ríkisstj. og hennar stuðningsmanna og hv. stjórnarandstæðinga, og það er um áhrif efnahagsþróunarinnar á fjármagnsgetu og atvinnu í landinu. Í mínum augum er það alveg augljóst, og þarf engra skýringa við, heldur einungis sagt frá staðreynd, að þegar þjóðfélag verður fyrir jafnmiklum tekjumissi eins og íslenzka þjóðfélagið nú að undanförnu, hlýtur það að lýsa sér m.a. í því, að peningar til ráðstöfunar verða miklu minni heldur en áður var, og um leið og þeir atvinnuvegir bregðast, sem menn hafa haft höfuðatvinnu af, er mjög hætt við, að atvinnuleysi hljóti að blossa upp. Því að það er auðvitað misskilningur, að íslenzka þjóðfélagið geti haft efni á því að hafa margföld atvinnutæki, þannig að hægt sé að grípa til annarrar höfuðatvinnu, ef sjálfur aðalatvinnuvegurinn bregzt, eins og ætla má af sumum orðum, sem hér hafa fallið. Seðlabankinn hefur auðvitað orðið fyrir miklum áföllum vegna þeirra áfalla, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir, og þess vegna var ekki hægt að ætla honum að standa undir þeirri fjármagnsöflun, sem hér var þörf á. Enda hefur það verið ljóst í öllum þeim viðræðum, sem átt hafa sér stað milli þeirra þriggja aðila, sem standa að samkomulaginu, að menn gerðu ráð fyrir því, að erlends fjármagns yrði að leita, þó að menn hafi auðvitað kannske mismunandi skoðanir á því með hvaða kjörum hið erlenda fjármagn ætti svo að lána innanlands. Það er allt annað mál.

Þá spurði hv. þm. að því, hvaða hlutverk Efnahagsmálastofnunin hafi, hvort hún eigi ekki að hafa til skýrslur um efnahag þjóðarinnar hverju sinni. Ég held, að öllum okkur, sem höfum fylgzt með gangi mála hér að undanförnu, sé ljóst, að mjög ólíkt er nú við að fást miðað við það, sem áður var. Þá voru sáralitlar skýrslur til og þær skýrslur, sem safna varð í skyndi, voru ákaflega ófullnægjandi. Nú er búið að safna mjög greinargóðum gögnum um fjölmarga þætti okkar efnahagsmála, skýrslum, sem hægt er að grípa til hvenær sem er. Þessu má ekki rugla saman við það, að einmitt vegna breytileika í þjóðfélagi okkar og efnahag vegna þess, hversu við eigum mikið undir veðri og vindi, sjó og afla. sem alveg er óvíst, að fáist, þá er ákaflega örðugt að hafa skýrslur um allt þetta til hverju sinni.

Það er t.d. alveg ótvírætt, að það var ekki hægt fyrr heldur en að áliðnu s.l. sumri að gera sér grein fyrir efnahagsþróun ársins 1968. Þar komu þrjú höfuðatriði til, sem öll höfðu úrslitaþýðingu. Verðlagsþróunin í útlöndum, sem menn sáu ekki fyrir, heldur urðu að reyna markaðsgetu, ef svo má segja, og reyndist markaðurinn fyrir eina tegund okkar framleiðslu, skreiðina, lokast að verulegu leyti. Þetta var ófyrirsjáanlegt. Aflamagnið og þá einkum á síldveiðunum gat enginn maður séð fyrir. Þessi þrjú úrslitaatriði gátu ekki eðli málsins samkv. verið vituð fyrr heldur en á s.l. hausti og þá auðvitað enn mjög á getgátum byggð. Og ég vil lýsa því yfir, að því fer svo fjarri, að Efnahagsstofnunin sé ásökunarverð fyrir seinlæti, að ég tel það nánast þrekvirki — ég tel það þrekvirki, hversu miklum gögnum hún gat safnað á tiltölulega stuttum tíma á s.l. hausti. Það var einungis mögulegt vegna þeirrar miklu skýrslugerðar, sem fyrir var og vegna þess, að þarna er afburðamönnum á að skipa, starfshæfum, fjölfróðum og vinnusömum, þannig að ég þekki ekki aðra, sem þeim taki fram í þessum efnum, að öllum öðrum ólöstuðum. Það má ekki rugla skýrslugjöf og álitsgerðum þessara manna saman við það, þó að menn séu óánægðir með stefnu stjórnarinnar. Það er allt annað mál. Það er pólitískt ágreiningsefni, sem hlýtur ætíð að verða í frjálsu þjóðfélagi. En við eigum ekki vegna ágreinings um stefnu að kasta steinum að þeim mönnum, sem vinna frábært starf og allir, sem vilja kynnast, hljóta að meta fyrir það, hversu mikið gagn þeir hafa gert og hversu auðveldara þeir gera að átta sig nú á málum, heldur en áður fyrri var. Það getur svo vel verið, að við, sem kallaðir erum í bili til forystu, séum öðrum óhæfari eða höfum ranga skoðun á málum. Það er allt annars eðlis. Ég vil loks geta þess, að Jónas Haralz, sem er skipaður forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, leitaði lausnar í bili eða um sinn, til þess að sinna öðrum störfum, frá forstöðu Efnahagsstofnunarinnar. Það var ekki vegna þess, að við vantreystum honum þar, eins og kom fram hér í umr. um daginn, því fer fjarri, heldur vegna þess, að hann taldi sig þurfa að ljúka öðrum störfum, sem hann hafði að sér tekið. En tók jafnframt að sér, sem ég taldi mjög mikilsvert, að verða ráðunautur eða framkvstj. atvinnumálanefndar ríkisins. Og ég held, að enginn, sem þar hefur starfað, geti borið brigður á, að hann hafi einnig þar unnið ágætt starf.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Það er af ýmsum orsökum, sem menn hér hafa lýst því yfir, að þeir séu ýmist samþykkir frv. eða því ekki andvígir. Við getum sagt, að allar leiðir liggi til Rómar. Úr því að menn komast að réttri niðurstöðu, þá er ekki að sakast um það, þó að forsendurnar séu ólíkar. Ég skal heldur ekki nú fara að taka upp almennar umr. um ágreining í efnahagsmálum. Það er eðlilegt, að okkur hafi ekki komið saman, úr því að sjónarmiðin eru jafn gersamlega ólík, eins og þau birtast hér enn í dag. Hv. stjórnarandstæðingar vilja enn halda því fram, að sá mikli hnekkir, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir af margræddum ástæðum, skipti í raun og veru sáralitlu máli og þyrfti ekki að vera tilfinnanlegur, ef réttri stefnu hefði verið fylgt, svo sem þeir kalla. Ég tel aftur á móti, að það sé nánast sagt undursamlegt, hversu vel íslenzka þjóðfélagið hefur þó staðið af sér þá gerbreytingu, sem á hefur orðið, að frá því, að það hafði hraðastan framgang til bættra lífskjara, sem nokkur þjóð hefur notið, að verða fyrir því áfalli á skömmum tíma, að útflutningsframleiðsla hennar fellur hér um bil um helming. Þetta sýnir styrkleika þess þjóðfélags, sem við búum í, og auðvitað er ekki eingöngu því að þakka, að rétt hefur verið stefnt hin síðustu ár, heldur íslenzku þjóðinni í heild, þeim þroska, sem hún hefur, og því starfi, sem þær kynslóðir, sem hér hafa búið á undan okkur, hafa unnið. En um leið og við játum, að hér hafa orðið mjög snögg umskipti, þá er það einnig rétt, að þau eru samt ekki meiri en svo, að við höfum enn sambærilegar tekjur miðað við það, sem var á árabilinu 1961–1963. Ef menn yndu sams konar lífskjörum og þá voru, og þau voru þá miðað við það, sem við áður þekktum, mjög góð, þá væri allur okkar vandi leystur. Allt þetta hefur verið margtekið fram áður, og liggur ljóst fyrir. Ég vil ekki halda því fram, að hv. andstæðingar mínir tali þarna gegn betri vitund. Þeim missýnist einfaldlega, að mínu mati. En meðan þeir halda slíkum firrum fram, geta þeir ekki vænzt þess, að menn fari í þá augljósu villu, sem mundi vera að fylgja þeirra ráðum um stefnubreytingu.