27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég reyndi í ræðu minni hér áðan að gera málefnalega grein fyrir því, hvers vegna ég hefði ekki trú á því, að þetta frv. eða samningur sá, sem gerður var 17. janúar, leysti þau vandamál, sem honum var ætlað að leysa og sem heitið var, að hann mundi leysa. Hæstv. forsrh. hefur sagt, að hann kjósi að taka ekki þátt í neinum almennum umr. um þessi grundvallaratriði, og það er að sjálfsögðu hans mál, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þeim sjónarmiðum neitt sérstaklega eftir.

Það var raunar aðeins eitt sjónarmið, sem hæstv. forsrh. orðaði í tilefni af ræðu minni, að það væri ekki hægt að ætlast til þess, að hægt væri að halda uppi margföldu atvinnukerfi í landinu, svo að hægt væri að grípa til eins, ef annað brygðist. Ég held, að vandamálið hafi ekki verið þetta. Tökum dæmi af togaraflota okkar. Afkoma togaranna var býsna góð á síðasta ári í samanburði við mörg ár þar á undan. Ef við hefðum á síðari árum haft togaraflota eins og við höfðum hann mestan, hefðu gjaldeyristekjur okkar orðið um það bil einn milljarður umfram það, sem þær urðu á síðasta ári. Þetta hefði haft feiknalega mikil áhrif, bæði á afkomu almennings og atvinnu í landinu og afkomu þjóðarbúsins. Ein aðalmeinsemdin í viðreisninni var einmitt þessi, að menn afræktu allt nema það, sem gaf skyndigróða í það og það skiptið. Og það er af þessu, sem atvinnuleysið stafar fyrst og fremst. Við getum alltaf átt von á verðsveiflum og aflasveiflum. En við verðum að haga stjórninni á þjóðarbúinu þannig, að við verðum fyrir sem minnstum áföllum af slíku. Þetta er verkefni ríkisstj. hverju sinni, og það ber að dæma ríkisstj. eftir því, hvernig þetta tekst.

En af því að ég hef hæstv. forsrh. hérna og af því að hann var að minnast á það, að fjármagn skorti í þjóðfélaginu til þess að standa undir nauðsynlegum verkefnum til þess að tryggja fulla atvinnu, þá langar mig til þess að bera upp við hann svolitla spurningu:

Í þessu þjóðfélagi hefur verið mjög mikill fjármagnsstraumur á undanförnum árum, miklu meiri fjármagnsstraumur en nokkurn tíma áður. Og þetta fjármagn hefur ekki gufað upp. Það er til í þjóðfélaginu. Og mikið af þessu fjármagni hefur ávaxtazt við gengislækkanirnar sérstaklega. Mig langar til þess að minna hæstv. forsrh. á orð, sem hann mælti hér í þessum stól 12. desember 1966 um þetta atriði. Hæstv. forsrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks vil ég gefa þá afdráttarlausu yfirlýsingu, að núv. ríkisstj. kemur ekki til hugar að fella gengið. Það er að vísu rétt, að þannig getur staðið á í þjóðfélagi, að það sé nauðsynlegt að fella gengi, eins og dæmin sýna, bæði hér og annars staðar. Og það væri auðvitað alveg fásinna, ef ég ætlaði að segja, að aldrei kæmi til mála að fella gengi á Íslandi. Slíkt mun ég ekki segja, einfaldlega af því, að ég ræð því ekki, og það mundi enginn maður trúa mér. Hitt segi ég, og við það skal ég standa, að ég skal aldrei verða með gengislækkun framar, nema því aðeins, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni sjálfir, fái að borga sinn brúsa fyllilega.“

Nú er mér spurn, hvað meinti hæstv. forsrh. með þessum orðum? Og mér er enn spurn, hvaða ráðstafanir hefur hæstv. forsrh. gert til þess að standa við þessi orð?