27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru fá atriði úr ræðu hæstv. forsrh., sem ég vildi gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég víkja að því, sem hann sagði um atvinnu fyrir skólafólk. Það er mín skoðun, að með aðgerðum í atvinnumálunum á s.l. hausti hefði að mestu leyti mátt komast fyrir það atvinnuleysi, sem nú hefur átt sér stað. Ef fer eins um skólafólkið, að það verði beðið eftir aðgerðum þess vegna, þangað til í vor, þá hygg ég eftir reynslunni nú, að þá verði sumarið langt liðið, þegar þær aðgerðir koma til framkvæmda. Ég vil því leggja á það mikla áherzlu við hæstv. forsrh., að þetta mál verði sérstaklega tekið til athugunar, því að ég hef ekki trú á því, að hjá verulegu atvinnuleysi skólafólks verði komizt, ef ekki verða gerðar sérstakar athuganir þar um. Hið sama er að segja um iðnaðarmálin, að atvinnuleysi í iðnaði fer vaxandi og það heldur áfram að fara vaxandi, ef seinagangur verður svo á þeirra málum eins og nú hefur verið. Það hefur verið reynt að halda úti iðnaði á ýmsum stöðum og gefin von um að geta aukið þar eitthvað við, en þetta hefur verið byggt á því, að það kæmi til sú aðstoð, sem reiknað hefur verið með frá atvinnunefnd ríkisins. Ef hún brestur, mun samdráttur í iðnaði halda áfram. Og það er mjög alvarlegt mál. Í mörgum byggðarlögum hefur það afgerandi þýðingu fyrir atvinnureksturinn.

Ég skal ekki fara að deila við hæstv. forsrh. um getu Seðlabankans. Hinu held ég fram, að það sé stefna og eigi að vera stefna Seðlabankans, að í kringumstæðum eins og þessum eigi hann að auka rekstrarfé og fé til veltu til þess að auka atvinnulífið í þjóðfélaginu. Eins og það er hugsað, að á tímum, þegar fjármagnið og eftirspurn eftir vinnuafli er meira heldur en þörf er fyrir, eigi að draga inn til Seðlabankans fé frá viðskiptabönkunum, eins á að auka þetta fé út í viðskiptalífið, þegar þannig stendur á, eins og nú á sér stað.

Út af Efnahagsstofnuninni vil ég segja það, að fsp. mín var ekki beint af því, að ég álíti, að í Efnahagsstofnuninni sé ekki margt af nýtum mönnum. Þeir fáu menn, sem ég þekki þar, ég efast ekki um, að þeir séu nýtir til starfa og ég geri ráð fyrir, að það sé svo með hina. Hins vegar hef ég litið svo á, að húsbóndavaldið yfir þessari stofnun væri hjá hæstv. ríkisstj. Og við höfum oft heyrt það hér á hv. Alþ. frá hendi hæstv. ríkisstj., að betur væri að þessum málum búið nú og betur séð um alla skýrslugerð heldur en áður hefur verið. Mér finnst engan þurfa að undra það, þótt það sé betur að þeim málum unnið, þegar heil stofnun hefur verið sett upp til þess að leysa þessi verkefni og við hliðina á þessari stofnun er Seðlabankinn, sem einnig vinnur að skýrslugerð og athugun í efnahags- og atvinnumálum. Ég held því fram, að það sé hæstv. ríkisstj. að kenna, að Efnahagsstofnunin skyldi ekki vera betur undir það búin að leggja fram gögn um ástand í atvinnumálum og efnahagsmálum á s.l. sumri heldur en reyndist vera í sambandi við viðræður, sem fóru fram á milli stjórnmálaflokkanna. Ég álít, að það sama hafi gerzt nú og það, sem á hafi skort, sé það, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki lagt fyrir þessa stofnun að vinna að þessum málum eins og skylt hefði verið. Ég skal ekki fara frekar út í umr. almennt um efnahags- og atvinnumálin og stjórnarstefnuna. Það hef ég oft gert áður. En ég vil bara undirstrika það, sem ég gerði áðan, að ég hef byggt þessa skoðun mína á fullkomnum rökum um það, að það væri stjórnarstefnunni að kenna, hvernig ástandið væri í atvinnumálunum, þó að þessi tvö síðari ár hafi ekki reynzt hinum jafngóð. Og ég vitnaði til þess áðan, að það sýndi, hvernig stjórnarstefnan væri, að í mestu góðærum, sem yfir þetta land hafa gengið, á árunum 1964, 1965 og 1966, hefði orðið að styrkja höfuðatvinnuvegina með ríkisstyrkjum, eins og þá var gert. Og ég vil vitna enn á ný til orða hæstv. núv. forsrh., Bjarna Benediktssonar, þegar hann sagði um slíka stefnu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það kann ekki góðri lukku að stýra, að sjávarútvegurinn, sem framleiðir nær alla útflutningsvöru þjóðarinnar, fær ekki staðizt nema með ríkisstyrkjum.“

Þess vegna endurtek ég það, að það sýnir, að stjórnarstefnan er röng stefna, að þessi höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar skyldi ekki fá staðizt í mestu góðærunum, sem yfir þessa þjóð hafa gengið, nema með ríkisstyrkjum.