28.03.1969
Neðri deild: 72. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. síðasta ræðumanns skal ég geta þess, að það var eftir till. fulltrúa Alþýðusambands Íslands, og að ég hygg einnig vinnuveitenda, a.m.k. þeirra fyrrgreindu, sem ákveðið var að hafa atvinnumálanefnd eina í báðum kjördæmum norðanlands. Ástæðan fyrir þeirri afstöðu er sú, að mínu viti, að í nokkur ár hefur starfað atvinnumálanefnd fyrir allt Norðurland og menn eftir atvikum verið ánægðir með hennar starf. Og það var á grundvelli þeirrar reynslu, sem þannig var fengin, sem þessi ósk var fram borin og á hana var fallizt. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara ræðu hv. þm.