28.03.1969
Efri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Afstöðu okkar framsóknarmanna til þessa frv., sem hér er til umr., hefur nú þegar verið lýst, og ég hef engu við það að bæta. En það eru aðeins tvö atriði í skýrslu hæstv. forsrh., sem mig langar til þess að gera örlítið að umtalsefni með örfáum orðum án þess þó að vilja tefja fyrir afgreiðslu þessa máts umfram það, sem hæfilegt má teljast.

Ein af þeim framleiðslugreinum, sem viðurkennt er af öllum nú, að njóta þurfi aukinnar fyrirgreiðslu vegna gengisfellinganna, er iðnaðurinn. Og það hefur verið lögð mikil áherzla á það hér á hv. Alþ. og þá ekkert síður af hæstv. ráðh., að þessi atvinnugrein þyrfti að hafa nokkurn forgang. En ég verð að segja, að mörgum finnst, og ég er í þeirra hópi, að þessi endurreisn hafi gengið ákaflega seint, og það hygg ég, að við verðum allir að viðurkenna. Fyrir rúmum mánuði, ég hygg, að það hafi verið um miðjan febrúar, ritaði Seðlabankinn viðskiptabönkunum bréf, þar sem frá því er skýrt, að ákveðið hafi verið að útvega iðnaðinum um það bil 100–150 millj. kr. af nýju lánsfé gegn jafnháu framlagi frá viðkomandi viðskiptabanka. En fyrirkomulag þessara lána átti, eins og kunnugt er, að vera þannig, að lánin væru tekin á ábyrgð viðkomandi viðskiptabanka. Þeir ættu að standa Seðlabankanum skil á endurgreiðslunni, lánin átti aðeins að veita í mesta lagi til tveggja ára, og ef lántakandi gat ekki endurgreitt lánin á þeim tíma, átti viðkomandi viðskiptabanki að taka þau að sér. Þetta vita auðvitað allir, sem hér eru viðstaddir. Og það voru fleiri og mjög ströng, vil ég segja, skilyrði, sem Seðlabankinn setti til þess, að til slíkra lánveitinga gæti komið.

Þegar atvinnumál Reykjavíkur voru rædd síðast í hv. borgarstjórn Reykjavíkur, ég hygg, að það hafi verið 19. febrúar s.l., lýsti formaður atvinnumálanefndar Reykjavíkur þessari fyrirgreiðslu Seðlabankans þannig, að hún væru ófullnægjandi og það þyrfti að taka hana til endurskoðunar. Nú langar mig til þess að beina þeirri fsp. hér til þeirra, sem svarað geta, hvort nokkur endurskoðun á þessum lagareglum hafi farið fram, því að ég tel víst, að formaður atvinnumálanefndar Reykjavíkur hafi sótt á með það, eins og hann lét í skína og raunar lofaði á áðurnefndum borgarstjórnarfundi. En mér er ekki kunnugt um, að þessum reglum hafi verið breytt. Það má þó vera, að það hafi verið gert, án þess að ég viti.

Þá væri enn fremur mjög fróðlegt að fá það upplýst, annaðhvort hér eða við síðara tækifæri, hversu mikið af lánum sé búið að afgreiða eftir þessari leið. Ég hygg, að það sé næsta lítið og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa aðeins verið afgreidd tvö slík lán, um það bil 2 millj. kr. Þetta verður sjálfsagt leiðrétt, ef ég fer með rangt mál, en þetta er ákaflega lítil fyrirgreiðsla og seinvirk, og ég hygg, að ég sé ekki einn um þá skoðun, að þessu þurfi endilega að breyta. Þá verð ég að segja það, að ég tel fremur litlar líkur á því, að víðskiptabankarnir, eins fjárvana og þeir eru og hafa verið, verði færir um að leggja fram á móti þeim lánum, sem úr Seðlabankanum eiga að koma, því að ég hygg, að það sé staðreynd, að flestir viðskiptabankanna hafi verið þannig staddir við Seðlabankann um s.l. áramót, að þeir hafi skuldað þar, meira að segja umfram umsamin lán. Og ef ekkert verður gert til þess að auka aðstöðu eða möguleika viðskiptabankanna til þess að koma til móts við þessa reglu, sem út af fyrir sig er ekkert fráleit, ef fjármagn væri til, þá hygg ég, að þeir muni eiga mjög erfitt með að standa þarna í stykkinu. Einn af þeim möguleikum, sem til greina koma til þess að auðvelda viðskiptabönkunum þessa byrði, er að létta á sparifjárbindingunni. Það hefur verið um það talað og vel í það tekið hér á hv. Alþ., en mér er ekki kunnugt um, að það hafi enn þá verið gert. Ef það er svo, eins og ég óttast, að í fyrsta lagi séu lánareglur Seðlabankans það stirðar í vöfum, að mjög lítið af nýjum lánum fáist eftir þeim leiðum, og því til viðbótar, að viðskiptabankarnir telji sig vanbúna undir það að leggja fram fé á móti, þá sé þessi fyrirgreiðsla til iðnaðarins ekki nægilega fullkomin og þá eigi við lýsing formanns atvinnumálanefndar Reykjavíkur um hana, sem ég áðan greindi. Vera má, að þessu hafi verið kippt í liðinn, en mér er ekki kunnugt um það, og það væri æskilegt að fá það upplýst, ef svo er.

Þá minntist hæstv. forsrh. á þá. fyrirgreiðslu, sem húsnæðismálastjórn hefur verið veitt af Seðlabankanum til þess að létta undir með byggingariðnaðinum. Það er alveg rétt, að húsnæðismálastjórn hefur fengið úr Seðlabanka, að ég hygg, 120 millj. kr. En ég hef áður lýst þeirri skoðun hér á hv. Alþ. og skal endurtaka það í örstuttu máli, að ég tel, að eins og þessum lánveitingum húsnæðismálastjórnar á þessu fé hefur verið varið, verði það til sáralítillar atvinnuaukningar hér í borginni, eða öðrum stöðum, þar sem því verður úthlutað. Og það er vegna þess, að húsnæðismálastjórn hefur ákveðið, að þessi fjárhæð skuli ganga til þess að greiða út seinni hluta húsnæðismálastjórnarlána. En þau lán eru venjulega, þegar svona langur dráttur er, veitt út á fullgerðar íbúðir og skapa þar af leiðandi ekki neina aukna atvinnu í byggingariðnaðinum. Ég er ekki að halda því fram, að ekki sé rétt, að þetta fólk, sem er búið að bíða eftir lánunum, búið að taka út á þau bráðabirgðalán, bæði hjá bönkum, eftir því sem hægt er, hjá iðnaðarmönnum, sem við íbúðirnar hafa unnið, hjá vinum og vandamönnum og hvar sem hægt er að komast yfir þau, eigi að fá þetta fjármagn til þess að standa í skilum. Það er auðvitað sjálfsagt. En engu að síður er það staðreynd, að ég hygg, að til mikillar atvinnuaukningar af þessum sökum komi ekki, því miður. Og þetta minnir á það, að húsnæðismálastjórn og Byggingarsjóður eru ákaflega fjárvana, því að ástandið mun vera þannig nú, að þeir, sem lögðu inn vottorð um fokheldar íbúðir á tímabilinu frá 15. marz 1967 — fyrir tveimur árum- og til 15. marz 1968, hafa ekkert fengið annað en loforðin. En þeir, sem hafa lagt inn vottorð síðan 15. marz 1968, eða núna í rúmt ár, á þeirra umsóknir er ekki farið að líta. Og ég minni á það hér, leyfi mér það, að þrátt fyrir þá fyrirgreiðslu, sem ég skal ekki vanmeta, sem Byggingarsjóður hefur fengið hjá Seðlabanka, þá sýnist hér vera mjög brýnt verkefni að auka fjármagn til húsnæðismálanna, ekki sízt þar sem þessu útláni Seðlabankans nú fylgir sú kvöð, að það skuli greiðast upp af lánveitingum Byggingarsjóðs á þessu ári. Og ég hygg, að það fjármagn, sem Byggingarsjóð vantar nú, sé um 600 millj. kr., svo að hér er sannarlega mikið verkefni fyrir höndum.

Ég skal ekki, herra forseti, vera að tefja hér tímann. Mig langaði til þess að minna á þessi atriði í framhaldi af því, sem hér kom fram í framsöguræðu. Einnig í þessu frv. er um erlenda lántöku að ræða. Um það get ég vísað til þess, sem ég sagði við umr. um annað mál hér fyrr í dag um lántökur vegna Framkvæmdasjóðs o.fl. Hv. 12. þm. Reykv. hafði nokkrar aths. fram að færa við þær tölur, sem ég nefndi hér og þau ummæli, sem ég lét falla um greiðslubyrðina. Hann viðurkenndi það nú og tók undir það, sem ég hafði hér sagt og fleiri, að hún væri það há, að vissulega væri þörf á því að gæta allrar varúðar í nýjum lántökum og tók undir þá stefnu, sem hér var lýst, að þær framkvæmdir, sem fjár væri aflað til með þeim hætti, þyrftu helzt að geta staðið undir þeim lántökum. Um þetta erum við sammála. Hann benti mér á það, að hér væri ekki, þrátt fyrir háa greiðslubyrði, um neitt heimsmet að ræða, sagði svona frá því, að t.d. Indónesía væri með helmingi hærri greiðslubyrði. Það er okkur öllum vissulega mikil huggun, og ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta.