28.03.1969
Efri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir málið. Þó að við séum ósammála um annað, þá erum við sammála um, að það sé rétt að samþykkja þetta frv., og það er það, sem mestu máli skiptir.

Varðandi aths. hv. 11. þm. Reykv. vil ég segja um fyrirgreiðslu Seðlabankans um húsnæðislánin, þá var það mat fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og einkum þeirra, sem gjörþekktu til starfa húsnæðismálastjórnar, að einmitt þessi fyrirgreiðsla mundi koma að mestu gagni, hvað snerti atvinnuaukningu. Við fórum að ráðum þeirra aðila um þetta. Það er enginn vafi á því, að þetta hefur komið að mjög miklu gagni og kemur að mjög miklu gagni. Það losar einnig um og gerir áframhaldandi starfsemi auðveldari en áður, jafnvel þó að um fullgerðar íbúðir sé í einstökum tilfellum að ræða. En okkur var tjáð, að yfirleitt væru þarna íbúðir, sem væru komnar á það stig, að það mundi hjálpa mest til vinnu yfir vetrarmánuðina.

Varðandi lánin til iðnaðarins skal ég ekki blanda mér í deilur í borgarstjórn Reykjavíkur (Gripið fram í.) eða yfirlýsingar, ég hef ekki heyrt þær fyrr og skal ekkert um þær segja. Það er vonandi gott samkomulag þar. Ég vil einungis taka undir það, að ég held, að þetta hafi gengið of seint, þessi úthlutun. Ég er ekki að ásaka neinn í því efni, það eru, eins og hv. þm. sagði, flóknar reglur og fjárskortur á alla vegu og það er þörf á fénu. Það eru erfiðleikar á því að afla þess. Það þarf eðli málsins samkv. verulegrar athugunar við. Ég mun gera mitt til þess að ýta á eftir í þessum málum. Ef það kemur á daginn, að þetta fyrirkomulag nær ekki sínum tilgangi, þá verður að breyta því. En ég vil vona, að í meginatriðum heppnist það, og sá var tilgangurinn, þegar menn féllust á að hafa þennan hátt á.

Varðandi ummæli hv. 3. þm. Norðurl. v. höfum við nú rætt um sum þeirra atriða áður. Ég vil einungis ítreka það, sem ég hygg, að ég hafi þá sagt varðandi 1. liðinn, að það fyrirkomulag að hafa eina atvinnumálanefnd á Norðurlandi var samkv. till. a.m.k. fulltrúa Alþýðusambandsins. Fulltrúar vinnuveitenda hafa einnig fallizt á þetta. Skýringin, sem á þessu var gefin, var sú, að þar hafi undanfarin ár starfað atvinnumálanefnd, hennar störf hafi tekizt vel, og við skildum það svo, að það væri allsherjarsamkomulag um að hafa þennan hátt á.

Varðandi það, að atvinnumálanefnd ríkisins væri eftirlitslaus, þá má segja það um ýmsar sjóðsstjórnir, að þær hafa úrslitaákvörðunarvald í málum og það er ekkert æðra stjórnvald, sem fylgist með þeirra venjulegu aðgerðum, annað en þá Alþ., eins og Alþ. hefur fullkomið vald til þess og skyldu að fylgjast með því, að hér sé skaplega að farið. Hv. þm. gat þess raunar, sem ég er sammála, að það er mikil trygging og aðhald, að nefndin á að vera sammála, ekki einungis um styrkveitingar, heldur einnig um lánskjör, sem mundu geta leitt til þess óbeint a.m.k. í mörgum tilfellum, að lán yrðu ekki veitt, nema allir væru um það sammála. Það ætti þó ekki við, ef menn væru búnir að koma sér saman um almenn lánskjör, rétt er að hafa það í huga. Hv. þm. talar um, að þetta verði nokkuð einstætt ákvæði. Ég hygg þó, að það sé nokkuð gamalt. Er það ekki svo varðandi Ríkisábyrgðasjóðinn, að þar má ekki gefa eftir, nema allir séu sammála? (Gripið fram í.) Já, nema fjvn., en er það ekki hún öll, jú, þannig að þar þurfa allir að vera sammála til þess að um eftirgjöf sé að ræða. Nú hefur þannig atvikazt, að menn af öllum pólitískum flokkum eiga sæti í þessari atvinnumálanefnd ríkisins og þess vegna er þar öllum gefinn kostur á að stöðva mál, ef þeir vilja. Ég vil hins vegar segja, að hingað til hefur samstarfið þarna verið ágætt. Menn hafa litið málefnalega, að ég hygg, á allar umsóknir, og aldrei reynt á það, að neinn þyrfti að segja nei, vegna þess að verið væri að toga fram mál, sem öðrum litist ekki á.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. leggur kannske einna mesta áherzlu á, að það sé óviðeigandi, að ráðh. séu í þessari n. Nú er ég hv. þm. í meginatriðum sammála um þetta. Ég tel ekki heppilegt, að ráðh. séu í of mörgum nefndum, ef svo má segja, og hef sjálfur vikið mér undan slíkum störfum á seinni árum. Þetta hefur hins vegar lengi tíðkazt. Það á við um núv. ráðh., eins og það hefur tíðkazt áratugum saman. Þó ekki frá upphafi innlendrar stjórnar, því að í fyrstu reyndu menn að komast hjá því, en síðan hefur þetta lengi tíðkazt. En ég lít öðruvísi á þessa nefnd heldur en venjulega nefnd, sem skipuð er. Ég tel þarna um að ræða samningsaðila ríkisvalds, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, þannig að í raun og veru sé það eðlilegt, að þeir, sem úrslitaráð hafa hjá hverjum um sig — eftir því, sem atvik standa til, að þau geti verið hjá einhverjum einstökum mönnum, — þeir komi þarna saman og reyni að leysa málin, ekki með valdboði eða meiri hl. atkvgr., heldur með samningum sín á milli. Samningar komast ekki á, nema allir séu samþykkir, og ég tel, að það sé einmitt um að ræða þarna, að verið sé að reyna að semja um mjög mikilsverð mál.

Nú er það svo, að þó að höfuðverkefni hafi fram að þessu verið úthlutun þessa fjár, þá er auðvitað ætlunin sú, að menn þarna reyni að leysa og koma í veg fyrir það atvinnuleysi, sem nú er, og koma í veg fyrir frambúðaratvinnuleysi. Og það verður auðvitað ekki gert, nema þeir þrír höfuðaðilar, sem hér koma saman í nefnd, leggi ráð sín saman og komist að samkomulagi. Það var ekki til þess að taka þátt í úthlutun þessara 300 millj. út af fyrir sig, sem við töldum skynsamlegt, að ráðh. færi í þetta, heldur vegna þess, að við töldum verkefni nefndarinnar vera varðandi bæði nútímann og framtíðina töluvert viðameira, þó að þetta sé þýðingarmikið, svo að einnig verði að gæta þess að fara rétt að í þessu. Við töldum, að hér sé fyrst og fremst verið að leita eftir sameiginlegum ráðum til þess að bægja þeim vágesti frá, sem við öll erum sammála um, að atvinnuleysið sé. Ég held þess vegna, að það sé misskilningur hjá hv. þm. að blanda sinni skoðun, sem ég að vissu marki tek undir, — en einungis að vissu marki — að það sé ekki heppilegt, að ráðh. séu í allt of mörgum nefndum, saman við það, hvernig að hefur verið farið í þessari nefnd og sumum öðrum, sem svipað verkefni hafa.

Ég skal ekki fara að blanda mér í deilur hv. þm. og hv. 12. þm. Reykv. En auðvitað gerir hv. 3. þm. Norðurl. v. sér fyllilega grein fyrir því, að hér er um töluvert aðra skömmtun að ræða heldur en átti sér stað uppi á Skólavörðustíg í gamla daga og hv. 12. þm. Reykv. hefur frá skýrt. Sú skömmtun, sem hér er um að ræða, hlýtur auðvitað alltaf að vera því fylgjandi, ef menn eru að veita lán. Það koma auðvitað alltaf fleiri lánbeiðnir til allra lánastofnana, hvort sem það er lítill sparisjóður eða stór banki, heldur en hægt er að veita. Og þá verða þeir, sem þar eru settir yfir, að velja og hafna. Það er eðli málsins samkv. og allt annað heldur en deila um það, hvort það eigi að hafa þá stjórn á fjárfestingarmálum og innflutningsmálum, sem hv. þm. nú svo nefna, og við köllum öðru nafni, en ég skal ekki fara að þræta um hér.

Það gleður mig mjög, að hv. þm. vill fara að óskum ungra sjálfstæðismanna, og ég vildi óska, að hann vildi gera það í sem allra flestum málum. Það er enginn vafi á því, að út af fyrir sig væri það æskilegt að geta dregið fjármálastofnanir landsins út úr hinni pólitísku togstreitu. En eins og ég hef sagt annars staðar, það tjáir ekki að setja lambið til þess að gæta úlfsins. Ég er hræddur um, að það verði allt of ójafn leikur. Það verður þá að vera allsherjarsamkomulag um að hafa þann hátt á. Nú segist hv. þm. vilja taka upp þennan sið. Það er harla gott. Ég skal ekki fara að rifja upp söguna í þeim efnum, en við verðum að játa, að þá þarf gerbreytingu á stjórn og meðferð bankamála, þeirri sem verið hefur við lýði, frá því að bankar komust hér fyrst á, getum við sagt, a.m.k. alla tíð frá stofnun Landsbankans, svo að ekki sé talað um frá því að Íslandsbanki kom og þær hatrömmu deilur hófust, sem stóðu yfir bæði um Íslandsbanka og Landsbankann og voru oft megindeiluefni í íslenzkum stjórnmálum allt fram á þennan dag. Hér þarf margt að breytast, áður en þessi breyting verður á komin. Það skal auðvitað setja sér góð markmið. Við, sem einhverja reynslu þykjumst hafa, teljum aftur, að stundum miði sorglega seint. Ég skal fúslega taka undir, að hér sé umbóta þörf. En þá er líka rétt að gera sér þess grein, að annars staðar, þar sem bankar eru ekki eins háðir ríkisvaldinu eins og hér, þar er fyrst og fremst um einkastofnanir að ræða. Hér hefur ríkið til skamms tíma þurft að útvega fjármagn til þessara stofnana, og það hlýtur ætíð að vera nokkuð umdeilanlegt, hvort eðlilegt sé, að ríkið sleppi áhrifum á þær stofnanir, sem það útvegar fjármagnið til. Ég er hræddur um, að ef menn segja það eitt, að menn vilji losna við pólitísk áhrif á bankana, og ef þeir eiga að halda áfram að vera í ríkisins eigu, þá á ég mjög erfitt með að sjá, að það takist. Hins vegar ef hv. þm. vill taka undir þá till. ungra sjálfstæðismanna að gera ríkisbankana alla að einkabönkum, þá hygg ég, að málið leysist af sjálfu sér.