14.11.1968
Neðri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

7. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það verður að sjálfsögðu hver hv. þm. að marka sér sína skoðun til þessa máls eins og hans sannfæring segir honum, og hef ég ekkert við það að athuga, þó að ég hins vegar vænti þess að meginþorri hv. þdm. geti fallizt á að samþykkja frv. Ég skal ekki orðlengja um það, en aðeins taka það fram, til þess að það valdi ekki misskilningi, að hér er að sjálfsögðu ekki verið að heimila stofnun neins nýs happdrættis. Það er reginmisskilningur. Happdrætti Háskólans er þarna veittur réttur til þess að fjölga hlutamiðum, ef svo má segja, eða stofna nýjan flokk við sitt happdrætti, en það er ekki verið að tala um neitt nýtt happdrætti. Hvort sala viðbótarhlutamiða í Happdrætti Háskólans hefur þau áhrif, að menn kaupi eitthvað minna af happdrættismiðum í öðrum happdrættum, það verður fólk að sjálfsögðu að gera upp við sig og það hefur engin áhrif, hvorki á einn né annan veg, þetta frv. Það auðvitað verður ekki nein skylda fyrir einn né neinn að kaupa þessa miða fremur en hann vill. Vilji menn styðja Happdrætti Háskólans, gefst þeim kostur á að gera það með þessum hætti. Vilji þeir fremur styðja önnur lögleyfð happdrætti í landinu, þá ræður að sjálfsögðu hver þjóðfélagsborgari því. Ég vil ekki gera lítið úr hlutverki annarra happdrætta síður en svo, en ég held, að það sé alveg ljóst mál, að hér er um að ræða mjög mikilvæga kvöð, sem Happdrætti Háskólans á að standa undir, og það hefur mikið um það verið rætt hér innan hins háa Alþ. og víðar, að það væri brýn nauðsyn að efla starfsemi Háskólans. Húsakostur hans er orðinn mjög þröngur, og ég sé því ekki betur en það sé eðlilegt að reyna að kanna það, hvort almenningur í landinu vill þá taka þátt í þeim tilkostnaði með því að leggja til þess fé með þessum hætti, sem hér er gert ráð fyrir.