05.12.1968
Neðri deild: 23. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

99. mál, breyting á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til l. um breyt. á l. nr. 36 frá 1964 um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, er ákaflega einfalt, en það er þess eðlis, að þegar lög fyrst voru sett um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, nr. 36 1964, var miðað við það, að stofnað hefði verið til lausaskuldanna fyrir árslok 1962, ef hægt ætti að vera að hagnýta sér ákvæði laganna. Þessu var svo aftur breytt með l. 1965, sem þá fólst eingöngu í því að flytja markið fram, þannig að til skuldanna mátti vera stofnað fyrir árslok 1963. Á þessum grundvelli var svo sett árið 1965 reglugerð um vaxtabréfalán Iðnlánasjóðs í þessum tilgangi, sem gefin var út 10. maí 1965. Og meginefni þeirrar reglugerðar var um það, hvernig þessi vaxtabréf skyldu vera útbúin, lánstíma, vaxtakjör og annað slíkt og ýmis nánari ákvæði, eins og um þær upplýsingar, sem viðkomandi aðili, sem sótti um þessa breytingu á lausaskuldum í föst lán, þyrfti að láta í té um eignir sínar, um veðbókarvottorð, vátryggingarskírteini, rekstrar- og efnahagsreikninga og aðrar slíkar upplýsingar, einnig um matsnefnd til þess að meta eignir og annað slíkt, en um samningu þessarar reglugerðar, sem var allítarleg, vegna þess að lögin voru fyrst og fremst rammalög, hafði verið haft samráð við Seðlabankann og viðskiptabankana.

Samkv. þessum heimildum í lögum og reglugerð var svo Iðnlánasjóði heimilað að gefa út 1. lánaflokk í þessum tilgangi, sem nam 60 millj. og 50 þús. kr. Þessum lánaflokki er nú að mestu leyti lokið, en ýmis iðnfyrirtæki hafa óskað eftir því við Iðnlánasjóðinn, að hann breytti ýmsum lausaskuldum þeirra nú í föst lán, og er talið af hálfu sjóðstjórnar, að það geti verið til verulegs hagræðis í sambandi við lánamál iðnaðarins nú. Þess vegna var það, að stjórn Iðnlánasjóðs óskaði eftir því við rn. með bréfi dags. 16. nóvember s.l., að sjóðnum heimilaðist að gefa út nýjan flokk vaxtabréfa að fjárhæð 40 millj. kr. Viðræður hafa farið fram milli rn. og fulltrúa Iðnlánasjóðs og Seðlabankans um útgáfu þessara nýju bréfa, vaxtabréfa, og það er talið, að útgáfa þeirra geti haldið áfram að hvíla á reglugerðinni frá 10. maí 1965, nema að því leyti sem tímamörkin, sem ég vék að áðan, eru fyrir hendi, þá þyrfti að vera búið að stofna til skuldanna fyrir árslok 1963, en lausaskuldum, sem eftir þann tíma eru til komnar, væri þá ekki hægt að breyta í föst lán með þeim hætti, sem hér er um að ræða. Þetta mundi setja allt of mikla hindrun varðandi framgang málsins þannig að það er lagt til með þessu frv., að þessi tímamörk séu numin úr lögunum og ef þetta frv. nær fram að ganga, er það bara á mati Iðnlánasjóðs, hvaða lausaskuldum hann telur sér fært að breyta með þessum hætti í föst lán og óháð því, hvenær til þeirra hefur verið stofnað. Þetta er efni frv.

Ég vil svo í sambandi við þetta aðeins leyfa mér að gefa þær upplýsingar fram yfir það, sem ég sagði áðan, að við þá athugun, sem fram hefur farið um útgáfu þessara bréfa, gæti komið til álita að hafa tímalengd lánanna styttri heldur en áður og talið, að það gæti auðveldað sölu þeirra nú. Það er hægt að ákvarða á grundvelli reglugerðarinnar, sem ég vitnaði til áður, og mun verða ákveðið um það af hálfu rn. í samráði við stjórn Iðnlánasjóðs og stjórn Seðlabankans, sem haft hefur verið samráð við um þetta mál eins og við útgáfu fyrri bréfa. Ég hef getið þess, að fyrri lánaflokkurinn er að mestu leyti alveg seldur, 60 millj. kr. Það er enginn vafi á því, að það hefur orðið iðnaðinum til verulegs hagræðis. Það var svo um síðustu áramót, að þá voru nokkur vanskil á greiðslum á þessum lánum vegna þeirra erfiðleika, sem iðnaðurinn átti við að búa fjárhagslega eins og ýmsar aðrar atvinnugreinar, og munu þær hafa numið að upphæð um 6 millj. kr., og varð Iðnlánasjóður að leggja fram þá upphæð af ráðstöfunarfé sínu, en þetta er nú að mestu leyti alveg greitt, þessar vanskilaskuldir, svo að það mun bara aðeins vera eitt lán af þessum 6 millj. kr. lánum í vanskilum enn að upphæð 200 þús. kr. Nú eru á þessum tíma, og verður eitthvað líkt á um þessi áramót, í vanskilum 41 lán, sem að upphæð eru 8 millj. 350 þús. kr., og það eru því allar líkur á, að Iðnlánasjóður verði um áramót að leggja fram þessa upphæð af ráðstöfunarfé sínu, en skuldir þessar munu svo, eins og gerzt hefur í ár, innheimtast langt fram á næsta ár.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., en ég vildi mega beina þeim tilmælum til hv. iðnn., að hún reyndi að haga afgreiðslu málsins þannig, að það gæti komið sem fyrst aftur til meðferðar hér í deildinni, og mundi ég sérstaklega leggja áherzlu á, ef hún gæti lokið athugun málsins þannig, að við gætum tekið málið hér fyrir til 2. umr. á mánudag og reynt að ljúka afgreiðslu þess e.t.v. þá eða næsta dag hér í hv. deild, þannig að málið geti gengið til Ed. og afgreiðzt sem fyrst, því að á þessu veltur töluvert nú, að iðnaðurinn geti fengið þessa löggjöf sem fyrst afgreidda, því að það mundi verða einn þátturinn í því að létta undir með iðnaðinum núna og ýta undir örari starfrækslu hans heldur en ella væri.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.