21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

10. mál, Handritastofnun Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og fram kemur í stuttri grg. með þessu frv., er hér um að ræða sáralitlar breytingar frá núgildandi l. frá 1962 um Handritastofnun Íslands. Í 1. gr. núgildandi l. segir, að komið skuli á fót Handritastofnun Íslands. Eins og við vitum, hefur Handritastofnunin þegar starfað í allmörg ár, og samkv. því er 1. gr. núgildandi l. frá 1962 felld niður, en heiti stofnunarinnar fellt inn í 2. gr. l. frá 1962, og hún, svo breytt, er þá 1. gr. þessa frv.

Þá hefur verið fellt niður ákvæði í 4. gr. núgildandi l. um það, hvar Handritastofnunin skuli vera til húsa, og loks er lögð til sú breyting, að í stað þess, að í 6. gr. núgildandi laga segir, að forstöðumanni til aðstoðar séu tveir menn, sem hafi fullt og fast starf við stofnunina, skuli kveðið svo á, að til aðstoðar honum séu sérfræðingar, sem hafi fullt og fast starf við stofnunina, eftir því sem fé er veitt til í fjárl. Þetta ákvæði er í 2. mgr. 4. gr. frv. og ákvarðast þá samkv. því fjöldi aðstoðarmanna eða sérfræðinga af fjárveitingum á hverjum tíma.

Heimspekideild Háskólans hafði óskað eftir því að fá að tjá sig um frv. og barst menntmn. umsögn hennar og enn fremur erindi forstöðumanns Handritastofnunarinnar, þar sem gefið er yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar, þ. á m. öflun gagna og útgáfustarfsemi þau ár, sem stofnunin hefur starfað. Eftir að hafa athugað þessi erindi varð niðurstaðan sú í n., að hún leggur til, eins og fram kemur í nál. á þskj. nr. 471, að frv. verði samþykkt óbreytt.