22.10.1968
Neðri deild: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

3. mál, læknaskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera fjölorður um ástandið úti á landsbyggðinni að því er varðar læknisþjónustu. Ég hef nú á þessum fundi heyrt um það, hvernig ástandið er á Austfjörðum, og hér var að ljúka máli sínu hv. 1. þm. Vestf., sem gaf nokkurt yfirlit yfir það, hvernig ástandið væri um læknisþjónustuna í Vestfjarðakjördæmi, þar sem ég er búsettur. Við þetta hef ég litlu að bæta. Þetta eru sannar og réttorðar lýsingar á ástandinu, sem skapazt hefur, og það er ekki ofmælt, að síðan gildandi lög voru sett um læknaskipan, hefur ástandið ekki batnað. Það hefur sýnilega til stórra muna versnað. Og ég hygg, að landlæknir hafi aldrei horfzt í augu við aðra eins lítt yfirstíganlega, ef ekki alveg óyfirstíganlega erfiðleika við að ráða fram úr þessum málum, eins og hann horfist nú í augu við undir komandi vetur. Og það er þó vissulega sérstaklega á veturna, sem það verður mjög alvarlegt, þegar varla er til læknis að leita nema langar vegalengdir og erfiða fjallvegi, en þannig er ástandið nú, að örfáir læknar gegna læknisþjónustu í heilum landshlutum, eins og t.d. á Vestfjörðum og Austfjörðum. Um þetta mál hef ég nýlega rætt við landlækni og veit, að hann gerir sér ljóst, að þetta ástand er algerlega óviðunandi.

Það, sem ég ætlaði að víkja að sérstaklega, er einkum þetta, sem í frv., sem hér er til umr., virðast tengdar miklar vonir við, að hægt sé að bæta úr þessum málum með svo kölluðum læknamiðstöðvum. Sú leið var opnuð, þegar núgildandi löggjöf um læknaskipun var sett, að heimilt væri að koma á fót læknamiðstöðvum, og af því er þegar fengin nokkur reynsla. Ég er því dálítið hissa á því, að enn skuli vera frá hendi heilbrigðismálastjórnarinnar uppi þær skoðanir, að þetta mál verði leyst með þeim hætti. Mér finnst reynslan ekki benda til þess. Þetta hefur verið reynt á nokkrum stöðum og reynslan er ekki jákvæð, að því er ég bezt veit.

Hv. 4. þm. Austf. lýsti því hér rétt áðan, að Neskaupstaður hefði í raun og veru haft öll skilyrði til læknamiðstöðvar og aðstaðan öll slík sem þessi löggjöf áskilur læknamiðstöðvum. En samt er þar skortur lækna. Þangað fást ekki læknar. Það er svo, að á Vestfjörðum hefur þetta verið reynt líka, og reynslan er á sömu lund. Þetta hefur ekki leyst vandann. Bíldudalslæknishérað hefur verið læknislaust um langa hríð, en héraðslæknir Bíldudalslæknishéraðs hefur setið á Patreksfirði ásamt héraðslækni Patreksfjarðarhéraðs, og þeir hafa þar haft sjúkrahúsaðstöðu, og þeir hafa þar haft samstarf og átt að þjóna báðum þessum læknishéruðum og sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Ég hef ekki heyrt læknana þar, sem ég hef haft persónulegt samband við, kvarta undan launakjörunum, enda væru það hin mestu firn, ef þeir kvörtuðu undan þeim, því að ég hef haft aðstöðu til að kanna það, að hvor þeirra um sig hefur haft nokkuð yfir 100 þús. kr. tekjur á mánuði, þ.e.a.s. eitthvað á aðra millj. kr. á ári í laun, og auk þess íbúð með húsgögnum, gólfteppum og gardínum og öllu þeim að kostnaðarlausu. En samt hefur læknamiðstöðvarfyrirkomulagið ekki haldið læknum betur en svo, að annar þeirra lækna, sem þarna hófu störf við þessi skilyrði, hefur þegar sagt upp og er farinn fyrir nokkrum vikum, og nú er ástandið þannig, að einn maður á að þjóna öllu Patreksfjarðarhéraði og öllu Bíldudalshéraði og sjúkrahúsinu á Patreksfirði, sem vitanlega er algerlega ofraun einum manni og mun flæma hann í burt, áður en langir tímar líða, þrátt fyrir hin gífurlegu laun, sem hann hefur. Ég er því sammála þeim mönnum, sem hafa upplýst, að það muni ekki fyrst og fremst vera launamál læknanna úti á landsbyggðinni, sem gera það að verkum, að þeir fást ekki til þess að starfa þar eða svo dræmt, að til vandræða horfir.

Það er auðvitað sjálfsagt að líta á það, að læknamiðstöðvafyrirkomulagið veitir læknunum sjálfum sjálfsagt betri starfsaðstöðu, og það er mikilsvert. Það mun vafalaust vera meira öryggi fyrir þá að starfa í nánu samstarfi tveir eða fleiri saman, og þeir geta vafalaust veitt betri þjónustu við slíka aðstöðu, einkanlega ef þeir hafa sæmilega sjúkrahúsaðstöðu einnig. Þetta virðist vera fyrir hendi þarna, sem ég nú er að ræða um. En það ber þó vissulega líka að líta á málið frá sjónarmiði hinna sjúku, og þá er að horfa á það, hvort þessi breytta starfstilhögun í þessum tveimur læknishéruðum hefur veitt betri læknisþjónustu. Það er óefað, að í Patreksfjarðarkauptúni sjálfu hefur breytingin orðið til bóta. Ég geri ekki mikinn mun á því, að því er snertir Patreksfjarðarlæknishérað utan kauptúnsins. En hitt er hægt að fullyrða, að íbúar Bíldudalslæknishéraðs mundu allir sem einn maður, hygg ég, ljúka upp einum munni um það, að við þetta fyrirkomulag hafa þeir fengið lakari læknisþjónustu, sérstaklega að vetrinum. Það hefur sem sé komið í ljós, að það eru ekki samgönguskilyrði í þessu héraði til þess að hafa læknamiðstöð á Patreksfirði, ef læknaþjónustan á að vera jafngóð í Bíldudalslæknishéraði t.d. Þarna er yfir tvo fjallvegi að fara frá Patreksfirði, fjallveginn Litladal og fjallveginn Hálfdán, og það er nú mjög kvartað undan því af læknunum, að það sé erfitt að sinna þessu læknishéraði einmitt vegna þessara erfiðleika að vetrinum. Kostnaðarsamt er það líka fyrir ríkið, því að það hefur kostað ærið fé að halda fjallvegum þessum bílfærum að vetrinum. Sú var reynslan a.m.k. s.l. vetur. Og stundum varð að gera tvívegis gangskör að því að moka þessa tvo fjallvegi, í fyrsta lagi til þess að læknirinn kæmist og í annan stað til þess að komizt yrði til þess að sækja lyfin á eftir til lyfjabúðarinnar á Patreksfirði. Og um kostnaðinn við þetta hjá fólkinu í Bíldudalslæknishéraði þarf ég ekki að fjölyrða. Sá kostnaður er næstum óbærilegur í mörgum tilfellum. Í upphafi, þegar stofnað var til þessarar læknamiðstöðvar á Patreksfirði, var ætlunin, að læknir kæmi til Bíldudals og hefði afgreiðsluaðstöðu í læknisbústaðnum þar, sem nú er mannlaus, og væri þar til viðtals við sjúklingana þrisvar í viku, og við það sættu Bílddælingar og íbúar Bíldudalslæknishéraðs sig nokkurn veginn, þótt þeir teldu það mikla afturför frá því að hafa átt daglegan aðgang að lækni búsettum þar á staðnum. En smátt og smátt hefur það farið svo, að úr þessari þjónustu hefur dregið, og næst var ákveðið, að læknirinn væri aðeins tvisvar í viku til viðtals í læknisbústaðnum á Bíldudal, annar hvor læknanna frá Patreksfirði, og s.l. sumar var ákveðið, að læknir frá Patreksfirði væri aðeins einu sinni í viku til viðtals við sjúklinga á Bíldudal í læknisbústaðnum þar. Þannig hefur dregið úr þessari læknisþjónustu í Bíldudalslæknishéraði smám saman, og ríkir um þetta gífurlega mikil óánægja. Slík læknisþjónusta er gamla Bíldudalslæknishéraðinu með öllu óviðunandi.

Nú verð ég að játa það, að þegar læknirinn er einn á Patreksfirði, þá er enginn möguleiki fyrir hann að gera sér ferð á Bíldudal oftar en einu sinni í viku, ef hann þá getur annað því, og að vetrinum á ég eftir að sjá, hvernig meira að segja tekst að halda uppi þeirri þjónustu reglubundið.

Það er erfiðara að framkvæma það heldur en segja það, að við skulum skipta landi okkar í stór læknishéruð með læknamiðstöðvum. Það eru víða og þar á meðal á þessum stað, sem við nú ræðum um, ekki til þess skilyrði að framkvæma það.

Þá skal ég enn fremur víkja að einni alvarlegri hlið á þessu máli, sem þarna hefur komið til framkvæmda og fengizt reynsla á, og það er kostnaðarhliðin. Þar er þá sögu að segja, að þar er komið í alger fjárhagsleg þrot. Og sendir hafa verið menn, ekki einu sinni, heldur tvisvar á fund landlæknis til þess að gera honum grein fyrir þeirri hlið málsins, auk fulltrúa frá heilbrmrn. Patrekshreppur og Suðurfjarðahreppur og þau önnur sveitarfélög, sem í þessum tveimur læknishéruðum eru, hafa þegar orðið að taka á sig slíkar fjárhagslegar byrðar í sambandi við þetta fyrirkomulag læknaþjónustunnar, að þau rísa ekki lengur undir, og sjúkrasamlögin öll á þessu svæði eru orðin raunverulega gjaldþrota. Þessi mál hafa verið túlkuð hér við heilbrigðismálastjórnina, og þeim sagður sannleikurinn um þetta, og að vonum lízt þeim ekki á þetta. En úrræði hafa engin fengizt í því efni fremur en öðrum hliðum þessa máls.

Ég held því, að það sé of mikil bjartsýni, sem kemur fram í þessu frv., að hægt sé að skipa þessum málum með því að koma upp læknamiðstöðvum, því miður, og þar byggi ég m.a. á þeirri reynslu, sem ég hef af þessu fyrirkomulagi um nú tveggja til þriggja ára skeið í Patreksfjarðar- og Bíldudalslæknishéruðum. Þar er í fyrsta lagi niðurstaðan þessi, að þrátt fyrir mjög góð laun haldast læknarnir þarna ekki. Það hefur í annan stað komið í ljós, að það er erfitt að halda uppi jafngóðri læknisþjónustu um héraðið allt eins og áður var gert með héraðslækni á Bíldudal og Patreksfirði, og vantar mikið á, að hún sé yfir allt héraðið jafngóð og áður var. Og í þriðja lagi virðast vera litlir möguleikar til þess fjárhagslega að halda uppi þessu fyrirkomulagi, ef reynslan verður hin sama og í þessu læknishéraði að því er kostnaðarhliðina snertir. Ég held, að það verði að grípa til einhverra annarra ráða til þess að tryggja dreifbýlinu læknisþjónustu. Og þar er kannske fárra, máske engra góðra kosta völ.

En tilraun var þó gerð til þess að taka sárasta broddinn af í þessu efni, þegar landlæknir fyrrverandi setti þá kvöð á kandídata frá Landsspítalanum, læknakandídata, að þeir yrðu, áður en þeir fengju sín sérfræðiréttindi, að þjóna úti í héraði um 6 mánaða skeið. Það má segja, að þetta hafi verið mikil kvöð á hina ungu lækna eftir langt nám. En það var nú samt svo, að stundum varð þetta til þess að byggja upp og rétta dálítið við þeirra fjárhag. Og ég er á því, að það hefði komið betur út fyrir þá fjárhagslega, ef kvöðin hefði ekki verið bundin við 1/2 ár, heldur heilt ár, því að búferlaflutningar t.d. fyrir fjölskyldumenn tvisvar sinnum á sama árinu eru kostnaðarsamir. Og þó að það þyki sjálfsagt gagnstætt því að stefna í frjálsræðisátt, er ég þeirrar skoðunar, að heldur en héruðin í heilum landshlutum standi læknislaus, verði að grípa til einhverra þeirra ráða, t.d. þeirra að setja svipaða kvöð og þetta á læknakandídatana, og þeir þjóni í læknishéraði í eitt ár, áður en þeir geta fengið viðurkenningu sem sérfræðingar í lækningum á Íslandi.

Sú hugmynd hefur og komið fram, m.a. frá mönnum í heilbrigðismálastjórninni, að þetta væri e.t.v. hægt að gera lítið eitt aðgengilegra fyrir hina ungu lækna með því að setja upp sérfræðikennslu í héraðslæknisstörfum við Háskólann, og að þeir, sem færu út í héruðin, öðluðust við það sérfræðiviðurkenningu sem héraðslæknar. Ég skal ekki leggja dóm á þessa hugmynd, en í fljótu bragði virðist mér sem leikmanni þetta vera viðleitni frá heilbrigðismálastjórnarinnar hendi til þess að koma til móts við lækna í sambandi við þá kvöð, sem e.t.v. yrði á þá lögð um þjónustu í læknishéruðunum. Ég held líka, og það hef ég heyrt margan lækni af eldri kynslóðinni segja, að slík dvöl, þó að hún væri skyldubundin, sé verðmætur og dýrmætur skóli fyrir ungan lækni, náin viðkynning við fólk úti í dreifbýlinu og margvísleg þjónusta, margvísleg tilvik, þar sem þeir verða að standa ábyrgir gagnvart vandasömum sjúkdómstilfellum og leysa vandann, hvað sem tautar og raular, það sé þeim góður framhaldsskóli. Gömlu læknarnir hika ekki við að halda því fram, að úti í héruðunum hafi þeir numið margt, sem þeir ekki áttu kost á að nema á skólabekkjum Háskólans.

Það er a.m.k. augljóst mál, að ástandið er orðið svo alvarlegt, að því er snertir læknaskortinn úti í héruðum landsins, einkanlega þegar vetur fer í hönd, eins og nú, að það verður að grípa til einhverra þeirra ráða, sem tryggja fólkinu nokkurn veginn viðunandi öryggi í þessum málum. Ég veit, að hæstv. heilbrmrh. er í miklum vanda staddur, og hann skortir vafalaust ekki vilja til þess að ráða þarna bót á. En vandinn er svo brýnn og aðkallandi, að hjá því verður ekki komizt að reyna að grípa til einhverra úrræða, sem tryggi fólkinu viðunandi læknisþjónustu. Ég efa það ekki, að þó að ástandinu í þessum efnum hafi sérstaklega verið lýst dökkum litum á Austfjörðum og Vestfjörðum, þá er víða hina sömu sögu að segja um þetta. Ég treysti því, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, leiti ráða hjá öllum þeim, sem þarna geta góð ráð lagt til, leiti til gamalla lækna, heilbrigðismálastjórnarinnar og heyri raddir fólksins sjálfs í héruðunum, sem nú eru verst stödd í þessum efnum, því að ný lagasetning verður að byggjast á einhverjum vonum um það, að ráðin verði bót á því ástandi, sem nú ríkir og að flestra, ef ekki allra dómi er óviðunandi.