17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

3. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft mál þetta til meðferðar og rætt um það á nokkrum fundum. N. sendi frv. til umsagnar þriggja aðila: Tryggingastofnunar ríkisins, Læknafélags Íslands og Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Frá Tryggingastofnun ríkisins hefur ekkert svar borizt. Læknafélag Íslands mælir eindregið með samþykkt frv., telur að það feli í sér veigamikið framfaraspor, sem greiði fyrir því að unnt verði að skipuleggja læknisþjónustu dreifbýlisins á hentugan hátt í framtíðinni. Jafnframt bendir Læknafélagið á, að nauðsynlegt sé að endurskoða læknaskipunarlögin með stuttu millibili, vegna hinnar öru þróunar þeirra mála, sem þau fjalla um.

Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga kveðst mæla með samþykkt frv. í öllum aðalatriðum í trausti þess, að við framkvæmd laganna í framtíðinni verði tekið tillit til álits sambandsins, sbr. 1. gr. frv., en sambandið mun, ef á reynir, byggja á umsögn viðkomandi sveitarstjórna, segir í svari þess, og leyfi ég mér sem talsmaður nefndarinnar að leggja áherzlu á þetta atriði.

Sú eina efnislega aths., sem stjórn sambandsins hefur gert við frv., er sú, sem hér hefur verið tekin upp sem brtt., og n. er öll sammála um. Á hinn bóginn hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, en mæla með samþykkt frv. í heild. Og ég sé, að einni slíkri brtt. hefur einmitt verið útbýtt nú í dag.

Núgildandi læknaskipunarlög voru samþ. á Alþingi 6. maí 1965, svo að ekki er þeim hár aldur að meini, þrátt fyrir hina öru þróun, sem Læknafélagið getur að vísu. En löggjöf þessi, þótt nýleg sé, hefur ekki megnað að ráða bót á læknisþjónustu úti um land og færa hana í viðunandi horf. Frv. þetta er ný tilraun af hendi heilbrmrh. og heilbrigðisyfirvalda til jákvæðra aðgerða í þessu vandamáli. Það greiðir fyrir stofnun hinna svo kölluðu læknamiðstöðva, sem svo mjög hafa borið á góma í umræðum um þessi mál undanfarið og taldar eru allra meina bót af sumum. Með frv. er prentuð sem fskj. reglugerð um læknamiðstöðvar héraðslækna. Verði frv. þetta að lögum, svo sem allar líkur benda til, má segja, að löggjafinn hafi gert allt, sem í hans valdi stendur um sinn, til að bæta úr því neyðarástandi, sem ríkt hefur undanfarið víða um land á þessu sviði. Læknaskipunarlögin svo breytt ættu að geta orðið góð uppistaða eða beinagrind í þessu máli fyrst um sinn. En þá beinagrind verður að gæða holdi og blóði í framkvæmd, ef hún á að verða annað en dauður bókstafur. Það eru læknarnir sjálfir að mínum dómi, og þeir einir, með aðstoð góðra manna, sem innt geta það hlutverk af hendi. Við sjáum hvað setur og vonum hið bezta.