09.12.1968
Neðri deild: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

99. mál, breyting á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur hafi þetta mál til athugunar. Með l. frá 1964 var Iðnlánasjóði heimilað að gefa út sérstakan flokk vaxtabréfa í þeim tilgangi að breyta lausaskuldum iðnaðarins í föst lán. Var þá miðað við þær lausaskuldir, sem safnazt höfðu fyrir árslok 1962. Þetta tímatakmark var síðan lengt til ársloka 1963 með sérstakri breytingu á l., en nú hefur Iðnlánasjóður óskað eftir því að fá þessi tímatakmörk afnumin, og miðar frv. það, sem hér liggur fyrir, að því. Heimildin frá 1964 hefur þegar orðið iðnaðinum að nokkru liði. Á sínum tíma voru gefin út vaxtabréf, um 60 millj. kr., sem nú munu öll vera seld, og hefur Iðnlánasjóður nú óskað eftir því við iðnmrh. að fá heimild til að gefa út sérstakan flokk vaxtabréfa allt að því 40 millj. kr. í sama tilgangi.

Mönnum blandast varla hugur um það, að iðnaðurinn hefur vaxandi hlutverki að gegna í íslenzkum þjóðarbúskap. Hin öra fólksfjölgun á vinnumarkaðinum verður fyrst og fremst að byggja afkomu sína á aukningu og eflingu iðnaðarins. Hann hefur tekið miklum tæknilegum framförum á undanförnum árum og er nú þjóðhagslega sterkari en nokkru sinni fyrr.

Gengisfellingin bætir væntanlega samkeppnisaðstöðu hans og má vænta mikillar aukningar á iðnaðarframleiðslu og aukinnar atvinnu, ef lánsfjárskortur ekki hamlar þróuninni. Þótt margt hafi verið gert til þess að efla lánastöðu iðnaðarins á undanförnum árum, verður enn að vinna að endurbótum á því sviði, eftir því sem frekast er unnt. Eftir áföllin á sviði sjávarútvegs verður að hefja sókn í iðnaði til atvinnuaukningar og bættra lífskjara. Eins og nú standa sakir, er sennilega ekkert vænlegra til atvinnuaukningar en öflun lánsfjár til iðnaðarframleiðslu.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er spor í rétta átt. Iðnn. leggur samhljóða til, að frv. verði samþ. Einn nm. var að vísu fjarverandi afgreiðslu málsins. Lagt er til, að frv. verði samþ. og því vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.