17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

3. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir góða afgreiðslu þessa máls. Út af brtt. á þskj. 189 vil ég segja það, að 3. liður þeirrar brtt. er ósköp eðlilegur og er alveg rétt, að það er skynsamlegra að fella niður þetta orðalag „í þéttbýliskjarna.“ Um 1. liðinn og 2., sem leiðir af honum, vil ég segja það, að ég get ekki fallizt á þá brtt. Ég hef engan áhuga fyrir læknaskipun á Íslandi með læknislausum læknishéruðum. En ég veit vel, að þeim, sem flytja þessa brtt., gengur ekki annað en gott til. Hins vegar fannst mér af málflutningi hv. frsm. fyrir þessum brtt., að það væri töluvert mikið byggt á misskilningi, sem hann sagði. En ég tel hins vegar alveg ástæðulaust að hefja um þetta deilur nú. Ég hefði mjög vel getað sætt mig við meiri íhlutun heiman úr héruðum en 1. mgr. 1. gr. gerir ráð fyrir, um það, hvort breyting verði af hálfu ráðh. gerð á læknaskipuninni. Og ég held, með hliðsjón af því, hvernig aðstæður eru nú, að það væri farsælast að fresta frekari umr. um málið og hafa til frekari athugunar þær ábendingar, sem fram hafa komið frá flm. brtt. á þskj. 189, í þinghléinu og náttúrlega þegar þingið kemur saman aftur. Ég hef þá trú, að við ættum að geta komizt að samkomulagi í þessu máli. Það er, eins og ég sagði við 1. umr. málsins, svo fjarri því, að fyrir mér vaki að vilja draga aukið vald til ráðh. í þessu efni, en það eitt vakir fyrir mér, að okkur lánist sameiginlega að koma á betri skipan þessara mála. Með hliðsjón af því, sem ég nú hef sagt, held ég, að það væri farsælast, og vildi leggja til, að umr. um málið yrði frestað.