25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

3. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á læknaskipunarlögum var eitt af fyrstu málum þingsins eða 3. mál þess, en afgreiðsla þess hefur nú dregizt eins og ljóst er. Á hitt er að líta, eins og fram hefur komið, að n. hafði þegar lokið að afgreiða málið fyrir sitt leyti í desember, en þá var nokkur ágreiningur um málið og komu fram brtt. eins og skýrt hefur verið frá. Lagði ég þá til, að við létum málið bíða og ég mundi beita mér fyrir því að reyna að ná samstöðu um málið. Mér þykir nú vænt um að geta þakkað heilbr.- og félmn. fyrir ágæt störf hennar í því að ná sáttum í þessu máli og einnig hv. þm. og þá fyrst og fremst hv. 1. þm. Vestf., sem var 1. flm. brtt. og öðrum þeim þm., sem voru meðflm. hans að brtt., sem nú eru teknar aftur; og eins 1. brtt. n., þar sem í þeim brtt., sem heilbr.- og félmn. flytur nú á þskj. 392, eru sameinuð sjónarmið allra aðila.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Vestf., að við leysum ekki allan vanda með því að koma upp læknamiðstöðvum, ekki vanda læknaskortsins í dreifbýlinu, en það hefur þó verið svo, að á undanförnum árum hefur í sívaxandi mæli verið bent á það sem þá leið, sem kannske gæti orkað einna mestu í því að ná þarna góðum árangri. Heimild um læknamiðstöðvar var í 4. gr. læknaskipunarlaganna frá 1965, óljós að vísu, enda hafði hún ekkert verið notuð. Og þegar rn. fór svo að athuga nánar og fram höfðu komið till. lækna, hjúkrunarfólks og annarra um, að það væri þess vert að reyna að koma upp þessum læknamiðstöðvum, fór að athuga málið nánar, þá þótti nauðsyn að breyta lögunum og einnig að setja nánari ákvæði í reglugerð um læknamiðstöðvar á grundvelli þeirra till., sem fluttar voru á öndverðu þingi.

Með þeim brtt., sem hér eru lagðar til á þskj. 392, held ég eða hef ég skilið það svo, að fullt samkomulag sé innan þingsins, og ég hygg einnig, að þessu muni verða fagnað af áhugamönnum á þessu sviði, af bæði læknum og hjúkrunarfólki. En læknasamtökin hafa látið sig þetta mál miklu skipta, ræddu það á tveimur heilbrigðismálaráðstefnum í fyrra og hittiðfyrra og sérstaklega á s.l. hausti, þegar læknamiðstöðvamálin voru sérstaklega á dagskrá þá og rædd bæði frá sjónarmiði dreifbýlisins og einnig þéttbýlisins. Mér er að vísu ljóst, að það er töluverður vandi á höndum að koma þessum læknamiðstöðvum upp. Ef þetta frv. verður nú með þessari breytingu að lögum, þá þarf að semja upp reglugerðaruppkast, sem fylgdi upphaflega frv. um læknamiðstöðvar, en við höfum betri aðstöðu til þess nú á grundvelli þeirra viðræðna og umr., sem fram hafa farið um þessi mál. Síðan kemur auðvitað til kasta fjárveitingavaldsins, hversu mikið fé er aflögu hverju sinni til þess að koma þessum miðstöðvum á og hvar eigi að byrja og í hvaða tímaröð að reisa þær, en það hefur komið fram, eins og hv. þm. er kunnugt um, áhugi úr ýmsum hlutum landsins fyrir því að koma þar upp læknamiðstöðvum, og á það við jafnt um þéttbýli og dreifbýli.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins nota tækifærið til þess að láta í ljósi þakklæti mitt til n.

og þm., sem unnið hafa að mjög farsælli lausn málsins, sem byggist á samkomulagi og ágreiningslausri niðurstöðu á þskj. 392.